Hundar, hundar - hundaskítur

dog_poo_250Það fer ekki á milli mála að hundum hefur fjölgað til muna í Reykjavík.  Það er nokkurn veginn sama hvar maður er - alls staðar mætir maður hundaeigendum á gangi að viðra hundana sína - nú eða þá hundum sem eru að viðra eigendurna.

Því miður er það þú svo að svörtum sauðum í hópi hundaeigenda hefur fjölgað umtalsvert og ein af afleiðingum þess er að hundaskítur liggur í görðum og á gangstéttum út um allan bæ.

Púkinn hefur séð hundaeigendur sem hleypa hundunum sínum lausum út á morgnana til að gera sín stykki í görðum nágrannanna.  Púkinn veit jafnvel um mann sem kemur reglulega að Kjarvalsstöðum í lok vinnudags og sleppir hundunum sínum lausum á Miklatúni - þegar Púkinn benti viðkomandi á að í fyrsta lagi mættu hundar ekki vera lausir þar og í öðru lagi væri ætlast til að hann þrifi upp eftir þá, fékk Púkinn bara skæting til baka - umræddur hundaeigandi virtist telja það sinn rétt að láta hundana sína skíta á almannafæri.

Hvað er að svona fólki?

Ef fólk getur ekki haft hundana sína í ól, nema á afgirtum svæðum þar sem þeir mega hlaupa frjálsir og haft plastpoka í vasanum til að þrífa upp eftir dýrin, þá á viðkomandi ekki skilið að fá að eiga hund.


Ísland - hreinasta svifryk í heimi

smog-in-hong-kongJæja, svo Hong-Kong búar sem búa við umtalsverða loftmengun lifa nú lengur en Íslendingar.

Þetta er að sjálfsögðu enn eitt áfallið fyrir vesalings þjóðarsálina - ekki nóg með það að við eigum bara 17. besta vatn í heimi, heldur getum við ekki lengur haldið því fram að eiga tærasta loftið - Ætli sá heiður falli ekki Grænlendingum í skaut núna.

Það var orðið nokkuð ljóst að loftið hér í Reykjavík var orðið slæmt í vetur þegar sást til fólks með öndunargrímur á götum úti, en þetta er einmitt svið þar sem Hong Kong búar hafa mikla reynslu.

Kannski stefnan sé bara að leyfa menguninni að aukast, þangað til það eina sem við getum montað okkur af sé að vera með hreinasta svifryk í heimi.

Nei takk, segi ég bara.


mbl.is Íbúar Hong Kong þeir lífseigustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu kaupa tunglið?

lunarmapÞað er stundum hreint ótrúlegt hversu hugmyndaríkir menn geta verið þegar að því kemur að hafa peninga af öðrum á vafasaman hátt.

Dennis Hope, fyrrverandi búktalari og skósölumaður er einn af þeim hem hefur gengið vel í viðskiptum sínum, sem eru á svolítið á gráu svæði, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Árið 1980 gerði hann tilkall til tunglsins, og síðar til margra annarra hnatta í sólkerfinu.  Hann hefur síðan "selt" viðskiptavinum landsskika (eða "tunglsskika") á $19.95 í nafni Lunar Embassy fyrirtækis síns.

Bull?  Að sjálfsögðu, enda er enginn lagalegur grundvöllur fyrir tilkalli hans til tunglsins.  Tölur um viðskiptavini eru reyndar á reiki, en salan náði a.m.k. einni milljón dollara í fyrra.

Aðrir álíka hugmyndaríkir einstaklingar selja stjörnurnar, eða réttara sagt, þiggja pening fyrir að þykjast hafa skírt viðkomandi stjörnu í höfuðið á viðkomandi.

Í báðum þessum tilvikum fær fólk síðan fallegt útprentað skjal sem fer vel uppi á vegg, en gefur engan raunverulegan rétt, þótt margir viðskiptavinanna haldi það.


Lottó og fátækt

lottoÞað er sjálfsagt að óska vinningshafa dagsins til hamingu, en hins vegar á Púkinn svolítið erfitt með að skilja þá sem taka þátt í Lottóinu, eða happdrættum yfirleitt.

Sér í lagi er þetta illskiljanlegt þegar um er að ræða fólk sem telur sig búa við kröpp kjör og tekur þátt í von um að bæta eigin hag, en ekki til að styðja aðstandendur happdrættisins.

Það er staðreynd að í heildina, til lengri tíma litið tapar fólk á því að taka þátt í happdrættum - meðaljóninn fær færri krónur til baka en hann leggur í þetta.  Það er að vísu alltaf von um "stóra vinninginn", en líkurnar eru á móti því - að meðaltali tapar fólk fleiri krónum en það fær til baka.

Nei, fólk sem er að kvarta undan því að hafa of fáar krónur á milli handanna ætti að byrja á að skera niður óþarfa eins og happdrætti og reykingar - þá fyrst er hægt að taka mark á kvörtununum þeirra.


mbl.is Einn fékk fimmfaldan lottópott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maurakökur

cookiesPúkinn hefur alltaf verið hrifin af óvenjulegum mat og hefur fyrir vikið prófað ýmsa skrýtna hluti víða um heiminn.  Þessi mynd hér sýnir þó einn rétt sem Púkinn hefur aldrei komist í tæri við.

Yanomami ættbálkurinn í frimskógum Venezuela notar maura til matargerðar á ýmsa vegu, en af einhverjum ástæðum hefur það hráefni ekki náð miklum vinsældum.

Á matarsýningu sem var haldin fyrir nokkrum dögum voru hins vegar kynntar maurasmákökur, væntanlega til að sameina hefðbundna matargerð og þetta sérstaka hráefni.

Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt - ristaðir, sykraðir maurar þekkjast í Suður-Afríku og eru jafnvel borðaðir eins og poppkorn í kvikmyndahúsum.  Engisprettur og ýmsar bjöllur er einnig unnt að matreiða á marga vegu.

Vandamálið er bara það að hér á Íslandi eru flest skordýr svo lítil að erfitt væri að búa til áhugaverða rétti úr þeim.

Nammi...namm. 


Vorið að koma...eða þannig

snowdropFyrir nokkrum dögum hélt Púkinn að vorið væri að koma.  Vetrargosarnir og krókusarnir voru byrjaðir að blómstra og þrestirnir voru syngjandi í trjánum.

Púkinn mætti út í garð til að tína saman rusl og gerði ráðstafanir til að fá menn til að klippa limgerðin.

En skjótt skipast verður í lofti - og nú er jörð orðin alhvít aftur.

Hvenær ætlar Púkanum að lærast að taka mark á veðurspánum - þótt þær séu nú ekki fullkomnar eru þær oftar réttar en ekki - og eitthvað hafði nú verið minnst á kólnandi veður um helgina, það verður að viðurkennast.

Púkanum finnst að þessu leyti þægilegt að vera ekki veðurfræðingur - hann þarf aldrei í sínu starfi að brjóta niður væntingar annarra.

Humm..humm... ætli ekki sé best að setjast bara upp í sófa með bók og bíða svo eftir að veðrið skáni og vorið komi fyrir alvöru.


Gott nafn - eða ekki?

votebox"Íslandsflokkurinn" - er það gott nafn eða ekki?  Púkinn er ekki alveg viss.  Annars vegar lýsir það nokkuð vel því  sem framboðið vill standa fyrir - framtíð landsins sem heild, en ekki bara hagsmuni einhvers tiltekins þröngs hóp, eins og til dæmis "Kristilegi frlokkurinn" eða "Þjóðernissinnaflokkurinn".

Á hinn bóginn er þetta nafn nokkuð ... stórt.  Púkanum fannst á sínum tíma ákaflega ósmekklegt af Árna Johnsen að keyra um á bíl með skráningarnúmerinu "'ISLAND", og að vissu leyti á það sama við hér.

Þrátt fyrir góðan vilja er það ljóst að þessi flokkur mun aldrei ná meirihlutafylgi, þannig að hann mun aldrei geta talað fyrir allt Ísland - hann mun laða til sín óákveðna og fólk sem vill breytingar - fólk sem er orðið þreytt á núverandi ástandi, en telur sig samt ekki eiga samleið með neinum þeirra flokka sem þegar eiga fulltrúa á þingi.

Hvert endanlegt fylgi verður þegar talið verður upp úr kjörkössunum ræðst af mörgu - hvað önnur framboð gera til að halda í sitt fólk, hvort eitthvað verður af framboði aldraðra, hverjir verða á framboðslistunum, hverjar áherslur flokksins verða í öðrum málum - það er ekki nóg að segjast bara vilja höfða til blágræna fylgisins og treysta á óánægjufylgið en síðast en ekki síst því hvort frambjóðendur slysast til að koma með einhverjar heimskulegar yfirlýsingar sem fæla fólk í burtu á síðustu stundu.

Púkinn er ekki að segja að hann hafi neina tillögu um betra nafn - hann átti allt eins von á að sjá eitthvað eins og "Framtíðarflokkurinn", en við sjáum til hvort þetta skýrist ekki á næstu dögum. 


mbl.is Íslandsflokkurinn vinnuheiti á áformuðu þingframboði Margrétar Sverrisdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaklámsnetlöggan

censored_computerÞar sem allir eðlilegir einstaklingar hafa viðbjóð á barnaklámi virkar það oft vel að veifa barnaklámsflagginu til að auka eftirlit með tölvunotendum eða takmarka réttindi þeirra á einhvern hátt.  Það er erfitt fyrir menn að vera á móti aðgerðum af þessari tegund án þess að verða úthrópaðir sem perravinir.

Málið er hins vegar ekki svo einfalt.

Púkinn hefur áður skrifað um tengt efni - samanber þessa grein

Nú ætlar Púkinn hins vegar að fullyrða að tilraunir til að stöðva dreifingu óþverrans á þann hátt sem dönsk stjórnvöld eru að ræða um eru einfaldlega ekki vænlegar til árangurs. 

Netfyrirtæki geta vissulega lokað á aðgang að einstökum vefsíðum, en í þessum tilvikum myndu síðurnar bara færast annað, eða jafnvel vera komið fyrir á tölvum einstaklinga án þeirra vitundar.

Það eru þekkt dæmi um það að brotist hafi verið inn á tölvur og þær notaðar til að hýsa þjóna til dreifingar á margvíslegu kolólöglegu efni.  Í einhverjum tilvikum hafa eigendur tölvanna síðan lent í verulegum vandræðum fyrir vikið.

Ef stjórnvöld ætlast hins vegar til að netfyrirtækin horfi ekki á uppruna efnisins, heldur ritskoði það hreinlega, er málið enn fáránlegra.  Burtséð frá því að mögulega er þetta efni sent dulkóðað á milli manna, er í hæsta máta vafasamt að notendur sætti sig við almenna ritskoðun, til að unnt sé að leita að svona efni.

Eitt enn sem menn hafa verið að horfa á er að skylda netfyrirtækin til að geyma öll gögn um samskipti langt aftur í tímann.  Hugsunin er þá að ef einhver perri er gripinn, þá séu hans samskipti skoðuð til að athuga uppruna efnisins og síðan væntanlega gerð húsleit hjá öllum öðrum sem hafa fengið efni frá sömu stöðum. Það eru hins vegar ýmis tækni- og siðferðisleg rök gegn þessu.

Eða, eins og Púkinn sagði áður - þetta er ekki alveg svona einfalt.


mbl.is Barnaklám af Netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð bloggelítunnar

Undir fyrirsögninni "Umræðan", sem áður hét "Valin blogg", birtast greinar eftir valda menn og konur.  Í þessum hóp eru landsþekktir einstaklingar og fólk sem fellur í hóp virkra bloggara sem hafa eitthvað málefnalegt fram að færa. Úr þessum flokki eru þau blogg síðan valin sem birtast á forsíðu mbl.is, en það beinir umferð til þeirra, sem aftur heldur við vinsældum elítunnar.  Samkvæmt lauslegri könnun sem Púkinn gerði, þá "á" þessi hópur stærsta hluta topp-50 listans og virðist lítið breytast frá viku til viku.

Púkanum varð í dag hugsað til þess að hve miklu leyti þessi lokaði hópur getur meðvitað, eða ómeðvitað stýrt bloggumræðunni.

Skoðum eitt dæmi.  Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir er einn fulltrúi bloggelítunnar - þetta er ekki meint neikvætt, því þótt Púkinn sé vissulega ósammála mörgu sem kemur frá henni (og Samfylkingunni almennt) er Bryndís þekkt manneskja, virkur bloggari og skrif hennar málefnaleg, þannig að hún á fyllilega skilið að vera í þessum hóp.  Sem stendur er Bryndís í 36. sæti á topp-50 listanum.

Bryndís bendir í dag á bloggsíðu Kristna Þjóðarflokksins, sem henni finnst furðuleg og er ljóst að hún mun væntanlega ekki verða sammála því sem þar mun koma fram í framtíðinni.  Með því að birta hlekk yfir á síðuna gerir Bryndís fólk forvitið (já, Púkann líka) og margir heimsækja síðuna fyrir vikið og hefur hún nú fengið hátt í 200 heimsóknir í dag.

Síðan fékk þannig verulega athygli sem hún hefði annars aldrei fengið.  Vond auglýsing er betri en engin auglýsing, ekki satt?  Var það þetta sem Bryndís vildi - vekja athygli á aðilum sem hún virðist verulega ósammála?

Bloggelítan er að hluta eins og forystusauðir, sem leiða umræðuna, en verða að gæta sín að villast ekki í þokunni og falla fyrir björg.

(Það að Púkinn er sammála Bryndísi um Kristilega Þjóðarflokkinn er síðan allt annað mál og Púkinn er reyndar farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af því að hafa tvisvar á jafn mörgum vikum verið sammála Samfylkingarmanneskju - hitt málið varðaði strætisvagnafargjöld)


Forritun fyrir stráka!

geneticprogrammingPúkinn styður að sjálfsögðu allt sem getur aukið áhuga námsmanna á forritun.  Það sem Púkanum finnst hins vegar merkilegt er hvers vegna svo virðist sem keppni eins og þessi höfði fyrst og fremst til strákanna.  Nú veit Púkinn reyndar ekki hvort staðan hefur breyst í ár, en þegar keppnin var haldin 2005 hétu keppendur Kvennaskólans Einar, Einar Óli og Hinrik, svo eitt dæmi sé tekið.

Séu myndir frá síðustu keppni skoðaðar, þá er karlpeningurinn allsráðandi.  Hvað veldur?

Þátttaka í svona keppni er gott veganesti fyrir starfsferil á hugbúnaðarsviðinu og góður árangur er vel þess virði að nefna hann á starfsferilslýsingunni þegar að því kemur að sækja um "alvöru" störf.

En, það eru að meirihluta strákar sem gera það.  Púkinn hefur sagt áður að hann myndi gjarnan vilja ráða fleiri kvenkyns forritara og kerfisstjóra, en þær þær virðast bara ekki vera til.

Hvar eru femínistarnir og jafnréttissinnarnir núna?


mbl.is Forritað af kappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband