Kunna bloggarar ekki íslensku?

Púkinn tók sig til í morgun og las allnokkur blogg af handahófi - blogg frá fólki sem hann hafði aldrei heimsótt áður.  Það sem sló Púkann var hver algengt það var að bloggin væru illa skrifuð og morandi í málvillum af ýmsum gerðum.

Nú er Púkinn ekki að ræða um einfaldar innsláttarvillur - þær geta komið fyrir hjá öllum og Púkinn finnur reglulega slíkar villur í eigin skrifum.  Það getur líka verið að höfundurinn sé haldinn lesblindu og geri villur eins og að víxla stöfum. Slíkt er afsakanlegt.  Það sem um er að ræða hér eru villur þar sem orð eru skrifuð í samræmi við óskýran framburð, eða villur sem Púkinn hélt að enginn gerði eftir 10 ára aldur.

Púkinn safnaði saman nokkrum dæmum um þessar villur:

aðalega, afþreyging, byðja, bæjinn, dáldið, eikkað, einhvað, einhverntímann, einhvernveginn, einhvert, einkunina, eiturlif, engan, enþá, fáranlega, fjarðlægja, fyritæki, fæturnar, góðann, gríðalega, haldiði, hlítur, hvorukynsorð, hyggðist, hæðsti, kerjum, kvíður, leikskólan, meiraðseigja, næginlega, orusta, ransókn, samþykt, sistkyni, sífelt, sjálfann, stiðja, systkyni, snylld, soldið, stæðstu, Svíðþjóð, svoldið, umræðuni, vitiði, væntalega, örvinlun.

Púkinn skilur þetta varla, en hann hefur nokkrar tilgátur.

  1. Stafsetningarkennslu hefur hrakað.
  2. Ungt fólk les minna í dag en fyrir nokkrum áratugum og máltilfinning þess er lakari en hún var.
  3. Sumir eru einfaldlega lélegir í stafsetningu, en fyrir tíma bloggins var sá hópur ekki að tjá sig á almannafæri á sama hátt - jafnvel lesendabréf þeirra voru leiðrétt fyrir birtingu.

Vandamálið er það að það gildir einu hversu merkilegt það er sem höfundurinn hefur fram að færa - séu skrifin morandi í villum virkar það illa á aðra lesendur - meðvitað eða ómeðvitað dregur það úr áliti þeirra á höfundinum og því sem viðkomandi hefur fram að færa.


Xenu-dagurinn er í dag

xenuÍ dag er rétti dagurinn til að klæða sig í geimverubúning og detta ærlega í það.

Það er að minnsta kosti skoðun þeirra sem halda upp á Xenu daginn á hverju ári á þeim laugardegi sem er næstur 13. mars, fæðingardegi Ron L. Hubbard, stofnanda Vísindakirkjunnar - þessa furðulega söfnuðar sem John Travolta og Tom Cruise tilheyra.

Vísindakirkjan hefur reyndar lítið að gera með vísindi - en því meira með vísindaskáldsögur.  Þeir sem ganga í söfnuðinn fá reyndar ekki að heyra um Xenu strax.  Fyrst þurfa þeir að fara í gegnum langt ferli sem tekur einhver ár og borga milljónir fyrir kennsluna sem verður dýrari með hverju skrefinu.

Þegar safnaðarmeðlimir hafa borgað allmargar milljónir og náð svokölluðu OT-3 stigi, þá fá þeir að heyra söguna um Xenu.

Sú saga er svona:

Einu sinni fyrir langa löngu (fyrir 73 milljónum ára til að vera nákvæmur) var einvaldur í geimnum sem nefndist Xenu.  Xenu stjórnaði öllum plánetunum í okkar hluta Vetrarbrautarinnar, þar á meðal jörðinni, nema hvað hún hét Teegeeack á þeim tíma.

Xenu átti við vandamál að stríða.  Það var offjölgun á öllum plánetunum hans, eða um 178 milljarðar á hverri plánetu.  Xenu vildi leysa offjölgunarvandamálið og hann var með áætlun.

Xenu tók sér einræðisvald og með aðstoð geðlækna lét hann kalla eftir milljörðum lífvera til að skoða skattaframtöl þeirra, en í staðinn var þeim gefin lömunarsprauta.

Síðan var þeim raðað í geimskip sem litu alveg eins út og DC-8 flugvélar, nema þær höfðu eldflaugahreyfla.

Þessum geimskipum var síðan flogið til jarðarinnar, þar sem einstaklingunum var staflað í kringum eldfjöll.  Þegar því var lokið var vetnissprengjum komið fyrir í eldfjöllunum, þær sprengdar samtímis og allir voru drepnir.

Sagan endar ekki hér. Þar sem þessar lífverur höfðu sálir (þetana), þurfti að plata sálirnar til að koma ekki aftur.  Þeim var því safnað saman með rafgildrum og þeim pakkað í kassa sem var farið með í kvikmyndahús, þar sem sálirnar voru látnar eyða mörgum dögum í að horfa á þrívíddarmyndir sem sögðu þeim að þær væru Guð, djöfullinn eða Jesús.

Þegar myndasýningunni lauk og sálirnar yfirgáfu kvikmyndahúsið hengu sálirnar saman, því þær höfðu séð sömu myndirnar og héldu að þær væru sama veran.  Þessir sálnaklasar tengdust síðan þeim líkömum sem enn voru til.

Hvað Xenu varðar, þá var hann að lokum tekinn til fanga og lokaður inn í fjalli þar sem honum er haldið í orkusviði sem er knúið af eilífðarrafhlöðu.

Svona endar sagan - þetta er ástæðan fyrir öllum vandamálum mannanna - við okkur hanga klasar af andlegum sníkjudýrum, sálir geimvera sem voru sprengdar í tætlur.

Er þetta heimskuleg saga?  Já, en þetta er ein af mikilvægustu trúarsetningum safnaðarins - stórisannleikurinn sem meðlimir fá loksins að vita eftir veruleg fjárútlát og margra ára meðferð, þar sem þeir eru tengdir við lygamæli langtímum saman og yfirheyrðir.

Sem sagt, góð ástæða fyrir okkur hin til að fara í geimverubúning og detta í það. 


Að vilja ekki kannast við (hálf)systkini sín

hafsteinPúkinn ætlar ekki að tala um Lúðvík Gizurarson, þar sem endanleg niðurstaða er ekki enn fallin í því máli.  Þess í stað ætlar Púkinn að minnast á annað svipað mál - faðerni Péturs Jens Thorsteinssonar, sem mun næsta örugglega hafa verið sonur Hannesar Hafstein.

Það mál var um margt svipað og sumir afkomendur Hannesar Hafstein þráuðust lengi við að viðurkenna skyldleikann - jafnvel árið 2004 þegar minnst var aldarafmælis heimastjórnarinnar og afkomendum Hannesar Hafstein boðið til veislu, þá náði það boð einungis til afkomenda hjónabandsbarnanna, þótt hin væru á alla vegu jafn miklir "afkomendur".

Utanhjónabandsbörn og framhjátökubörn hér á landi eru að sjálfsögðu jafngömul Íslandssögunni, en lengst af hefur þeim verið ýtt til hliðar á einn eða annan hátt.

Þegar Íslendingabók opnaði voru einhverjir sem uppgötvuðu þar hálfsystkini sín - sumir urðu reiðir en aðrir hissa.  Einhverjir héldu að um mistök væri að ræða, en komst síðan að því að foreldrar þeirra höfðu logið að þeim, jafnvel áratugum saman.

Dapurlegt, en þannig er þetta nú.


mbl.is Hæstiréttur staðfesti úrskurð um mannerfðafræðilega rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við karlmenn hrjótum ekki!

SnorEnder-homepage_picÞað er til fjöldi af tækjum og uppfinningum sem ætlað er að koma í veg fyrir hrotur. Þar á meðal má nefna þá leið að sauma eitthvað (svo sem tvinnakefli eða tennisbolta) á bakið á náttfötunum, til að koma í veg fyrir að viðkomandi leggist á bakið.  Svo eru líka til koddar sem eiga að halda munninum lokuðum eða nefklemmur sem þenja út nasirnar.  Jafnvel eru til tæki sem dæla lofti inn um nefið.

Öll þessi tæki eiga eitt sameiginlegt - þau valda notandanum óþægindum.

Ef einhverjum tækist að finna upp þægilegt tæki sem getur fyrirbyggt hrotur gæti sá orðið ríkur á því.

Hvað Púkann varðar, þá hrýtur hann að sjálfsögðu ekki - það er bara ímyndun í konunni hans.


mbl.is Hrotur maka kosta mikinn svefn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gervifótur ... fyrir pöndu

story.panda.apNiu Niu er þriggja ára panda í kínverskum dýragarði, sem missti hluta af öðrum framfæti í fyrra, en það veldur henni verulegum erfiðleikum í tilhugalífinu.

Yfirmenn dýragarðsins eru nú að leita að einhverjum sem geta útbúið gerfifót á hana.

Púkinn er að velta fyrir sér hvort markaðsdeild Össurar ætti ekki að stökkva til og bjóðast til að gefa pöndunni fót - pöndur eru þjóðardýr Kína og auglýsingin sem fyrirtækið fengi þar í landi ætti að vera meira virði en einn sérsmíðaður fótur. 

Sjá nánar hér


Má bjóða þér bjórvömb?

beer_belly_prod_shotÞað hefur aldrei þótt eftirsóknarvert að vera með bjórvömb og talið merki um óheilbrigt líferni og hreyfingarleysi.

Nú er hins vegar bandarískt fyrirtæki farið að bjóða upp á bjórvambir til sölu -  á 40 dollara auk flutningskostnaðar.  Þetta er belgur sem hangir framan á maga viðkomandi, auk sogrörs þannig að ,menn geti fengið sér bjórsopa þegar þá langar til.

Áhugasömum er hér með bent á beerbelly.com

Fyrirtækið markaðssetur einnig útgáfu fyrir konur, undir  nafninu WineRack og er reyndar sem stendur að leita að fyrirsætum - þær sem hafa áhuga eru beðnar að senda fyrirtækinu tölvupóst með upplýsingum um skálastærð.

Það er sama hvað hver segir - Púkann langar ekki í bjórvömb í jólagjöf.


"Road rage"

roadrageGeðvonska ökumanna fer vaxandi jafnhliða því að ökuleiðir lengjast og tafir aukast.

Áður fyrr var það nánast óþekkt að fólk sæti langtímum saman hálfstopp í bílalestum innan höfuðborgarsvæðisins, en því miður fer það nú vaxandi.

Þetta snertir Púkann ekki svo mikið þar sem hann fer nú venjulega fótgangandi til vinnu - hressilegur 30 mínútna göngutúr er góð byrjun á deginum, en þetta er hins vegar vel þekkt vandamál í öðrum löndum, þar sem umferðarteppur hafa þekkst áratugum saman og þar brýst þessi pirringur ökumanna stundum út sem "road rage", sem getur lýst  sér á ýmsa vegu, allt frá aftanákeyrslum af ásetningi, til þess að draga upp skammbyssu og skjóta á næstu bíla.

Púkinn vonar að ástandið fari ekki á þann veg hér á landi, en því miður sýnist honum þjóðfélagið stefna í þá átt. 


mbl.is Úrillir ökumenn á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Voting for dummies"

votingNú eru 20 ár síðan Púkinn taldi sig fyrst skilja kosningalöggjöfina.  Það var þá verið að hræra í kosningalögunum, færa einhverja þröskulda upp og niður og hnika til tölum þangað til allar voru sæmilega ánægðir.

Allir hverjir?  Jú - fyrst og fremst sitjandi þingmenn - það mátti nefnilega ekki breyta lögunum þannig að menn sem "áttu" sín þingsæti myndu detta út.

Púkinn kom ásamt öðrum að gerð forrits á þessum tíma sem reiknaði út hvernig lögin myndu virka, miðað við tilteknar atkvæðatölur.  Það var að vísu eitt vandamál við þá forritun - það hefði getað gerst að forritið lenti í endalausri lykkju og ekki væri hægt að úthluta öllum þingsætunum.  Lögin voru einfaldlega ekki rökrétt, en það er jú ein versta martröð forritara að þurfa að forrita órökrétta hluti.

"Flakkaranum" var síðan bætt við og ætti það að hafa leyst fyrrnefnt vandamál, en kosningalögin eru í dag þannig að Púkinn leyfir sér að efast um að þeir séu margir sem raunverulega skilji þau.

Æ, já - bókin sem myndin er af hér til hliðar er víst ekki til, en stundum finnst Púkanum hann þurfa á slíkri bók að halda.


island.is og ísland.is

stopÞegar ákveðið var að selja lén með séríslenskum stöfum árið 2004 var vitað að vandamál gætu komið upp vegna mögulegra árekstra.

Af þeim sökum var þeim sem áttu íslensk lén veittur forgangur í 6 mánuði til að skrá samsvarandi lén með séríslensku stöfunum. Sem dæmi má nefna olis.is og olís.is.

Væri þessi réttur ekki nýttur fyrir 1. jan. 2005 féll forgangurinn niður - svo einfalt er það. 

island.is var skráð í febrúar 2002 af forsætisráðuneytinu. Þeim stóð síðan til boða 2004 að eignast ísland.is, en af einhverjum ástæðum nýttu þeir sér ekki þann rétt.

Í mars 2005, þegar forgangur ráðuneytisins er fallinn niður, fær Netvistun skráð lénið xn--sland-ysa.is, einnig þekkt sem ísland.is.  Samkvæmt reglum ISNIC, sem voru hreinar og skýrar, var það þeirra réttur.

Það hefði verið betra ef forsætisráðuneytið hefði nýtt sér þann rétt sem það hafði 2004, en þar sem það var ekki gert, er ljóst að ráðuneytið verður að hætta að tala um ísland.is, eða semja við Netvistun um kaup á því léni.

Aðalfundur ISNIC er eftir viku - skyldi þetta verða til umræðu þar? 


mbl.is Netvistun á „Ísland“ en forsætisráðuneytið „Island“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnan rétt til hvers?

equalityÞegar spurt er hvort karlar og konur hafi jafnan rétt, þá vantar að mati Púkans eitt inn í þá spurningu ... jafnan rétt til hvers?

Er verið að spyrja um jafnan rétt til þess sem flestir telja sjálfsögð mannréttindi nú orðið?  Jafnan rétt til menntunar?  Jafnan rétt til heilbrigðisþ.jónustu?  Jafnan rétt til aðgangs að opinberun stofunum?  Nú orðið er erfitt að finna dæmi um mismunun á þessu sviði, miðað við það sem var áður.

Eða....

Er verið að tala um jafnan rétt til jafnra launa?

Púkinn er að sjálfsögðu fylgjandi því að jafn hæfum einstaklingum, með sömu menntun og reynslu séu greidd sömu laun fyrir sömu vinnu, óháð kyni, háralit eða skóstærð.  Þessi atriði skipta Púkann í sjálfu sér ekki máli. 

Fólki hættir hins vegar til að horfa á launamun karla og kvenna án þess að takl fullt tillit til hæfni, reynslu og menntunar. 

Vandamálið sem Púkinn á við að stríða er annað.  Þegar í fyrirtæki Púkans eru í boði störf sem krefjast lítillrar menntunar eða reynslu, sækir jafnt hlutfall karla og kvenna um. Þegar í boði eru tæknileg störf, sem krefjast menntunar og/eða reynslu er mikill meirihluta umsækjenda karlkyns.  Hvers vegna?

Sem stendur er Púkinn til dæmis að auglýsa eftir Linux kerfisstjóra.  Allir umsóknir  sem hafa borist um það starf eru frá karlmönnum.  Púkinn myndi gjarnan vilja ráð femíniskískan kvenkyns Linux kerfissstjóra - en þeir bara virðast ekki vera til.

Meðan karlar og konur sækjast eftir mismunandi störfum er hætt við að launamunur hverfi ekki. 


mbl.is 56% Íslendinga telja konur hafa jafnan rétt og karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband