Fetaostur bannaður á Íslandi

feta.jpgÞað má vera að einhverjum þyki broslegt að framleiðendum ákveðinna vörutegunda skuli vera bannað að nefna vörurnar sínu venjulega nafni, þar sem þær eru ekki framleiddar á "réttum" stað.

Þeir sem styðja inngöngu Íslands í ESB verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að sambærilegar reglur myndu gilda á Íslandi.  Við megum t.d. eiga von á því að í því "aðlögunarferli" sem núverandi stjórnvöld eru að þröngva upp á þjóðina, þá verði þessar reglur innleiddar á Íslandi og þá verði t.d. framleiðendum á íslenskum "feta" osti gert að breyta um nafn á sínum vörum - til að mega kallast "feta" verður osturinn jú að vera framleiddur í Grikklandi úr kinda/geitamjólk.

Það er kannski best að byrja bara strax að prenta umbúðamiða fyrir "Dala hvítost", eða hvað?


mbl.is „Kampavín" bannað í Ástralíu að kröfu ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfseyðingarhvöt kirkjunnar

atheist-ghost-buster.thumbnailÞað er ekkert leyndarmál að Púkinn er þeirrar skoðunar að skipulögð trúarbrögð séu ein versta uppfinning mannkynsisns frá upphafi - svikamyllur sem ekkert erindi eigi til þjóðfélagsins í dag.

Púkinn myndi gjarnan vilja sjá kirkjuna hverfa, eða a.m.k. að stórlega yrði dregið úr áhrifum hennar, en það er athyglivert að þessa dagana þarf Púkinn (og aðrir trúleysingjar) ekkert að hafa fyrir þessu - kirkjan er önnum kafin við að eyðileggja ímynd sína, án nokkurra afskipta trúleysingjanna, sem halla sér bara aftur á bak og horfa á innbyrðis deilur, argaþras, siðferðisbresti, yfirhylmingar og önnur vandræðamál kirkjunnar manna.

 


mbl.is Fleiri segja sig úr þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein ástæða til að skrá sig úr þjóðkirkjunni

Það kemur nú ekki á óvart að Geir Waage telji sig yfir landslög hafinn - að prestum beri ekki að hlýða barnaverndarlögum, þar sem þeir heyri jú undir "æðra" yfirvald.

Það kemur heldur ekki á óvart að séra Geir og sumir aðrir prestar telji ekkert athugavert við að þeir og kirkjan séu á sama tíma áskrifendur af peningum almennings.

Sem betur fer eru margir Íslendingar að átta sig á því að þeir eiga enga samleið með þjóðkirkjunni - þeir tímar eru liðnir að litið sé upp til presta sem einhverra siðferðislegra fyrirmynda - þeir eru bara eins og allir aðrir, sumir ágætir, en aðrir örgustu perrar.

Aðrir hafa áttað sig á því að grundvöllur kristninnar, Biblían, er enginn algildur sannleikur, heldur samansafn af sögum, sumum, upplognum og öðrum ýktum sem safnað var saman í þeim tilgangi að réttlæta vald presta yfir fáfróðum almúganum.

Síðan er enn aðrir sem er farið að ofbjóða fordómar sumra (en sem betur fer alls ekki allra) presta í garð samkynhneigðra.

Hér má finna eyðublöð fyrir þá sem vilja skrá sig úr þjóðkirkjunni: http://www.fasteignaskra.is/pages/1017

Þeir sem vilja halda áfram að borga núverandi apparat mega að sjálfsögðu gera það áfram, en Púkinn vonar að sem flestir sendi kirkjunni skilaboð sem tekið verður eftir.

 


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?

atheist-bus_1217553c.jpgÞað er dapurlegt að enn í dag skuli vera til fólk sem trúir því að náttúruhamfarir séu refsingar frá hendi einhverra æðri máttarvalda.

Þetta var skiljanlegt fyrr á öldum, áður en menn skildu hegðun náttúrunnar jafn vel og þeir gerðu í dag, en jafnvel fyrir 1000 árum síðan voru þeir til sem höfðu rænu á að segja eins og Snorri goði gerði á sínum tíma.

Nei, Púkinn vorkennir bara svona fólki og þeim sem fylgja þeim í blindni.

 

 


mbl.is Gosið endurspeglaði reiði Guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupmáttur orðinn "eðlilegur" ?

Púkinn vill leyfa sér að halda fram þeirri (óvinsælu) skoðun að kaupmáttur Íslendinga sé nú loksins orðinn eðlilegur.

peningarÞað er vissulega staðreynd að kaupmáttur hefur minnkað hjá flestum, miðað við það sem var á "góðæristímabilinu", en þess ber líka að gæta að þar áður hafði hafði hann vaxið óeðlilega hratt.

Að hluta til er þetta afleiðing hinnar arfavitlausu efnahagsstefnu sem hér var rekin á árum áður.  Fölsku hágengi krónunnar var það að þakka að innfluttar vörur virtust ódýrar og stór hluti þjóðarinnar fór á eyðslufyllerí - keypti sér stóra pallbíla, risaflatskjái og aðra misgagnlega hluti. Öllum stóð á sama þótt útflutningsfyrirtækjunum blæddi út - það virtist hafa gleymst að á endanum er ekki hægt að eyða og eyða nema eitthvað komi í kassann á móti.

Önnur ástæða var ofurþenslan í þjóðfélaginu - stórhuga athafnamenn og aðrir sem gátu slegið lán óðu af stað í misgáfulegar framkvæmdir - mikil eftirspurn var eftir starfsfólki og þótt hingað væru fluttir margir flugvélafarmar af erlendu láglaunafólki dugði það ekki til...eftirspurn eftir vinnuafli varð þess valdandi að tekjur hækkuðu - verkefnin virtust óþrjótandi en enginn virtist hugleiða hvort þau væru í raun hagkvæm.

Fjármagn streymdi til Íslands og allt virtist í besta lagi, uns spilaborgin hrundi og krónan féll.

Enginn fékk lengur lán til óhagkvæmra framkvæmda og fyrirtæki fóru á hausinn umvörpum þegar eftirspurnin eftir vörum þeirra og þjónustu dróst saman.  Mörg þeirra fyrirtækja sem eftir standa hafa dregið skorið niður yfirvinnu og bónusa - þegar ekki er lengur brjáluð samkeppni um starfsfólk þurfa þau ekki að yfirbjóða hvert annað í launakjörum. 

Lækkun heildarlauna, ásamt hækkandi verðlagi leiðir að sjálfsögðu til rýrnunar á kaupmætti - en sú rýrnun er ekki meiri en svo að kaupmáttur núna samsvarar því sem hefði verið ef "góðærisbólan" hefði aldrei komið. 


mbl.is Segja kaupmátt lágmarkslauna hafa hækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atgervisflóttinn frá FME.

Ein ástæða þess að FME sinnti ekki skyldu sinni var skortur á hæfu fólki.  Einhverjir starfsmenn fluttu sig yfir til bankanna, enda ekki skrýtið þar sem þeir gátu þannig tvöfaldað laun sín.

Lág laun hjá EME (og engar bónusgreiðslur eins og bankarnir buðu) gerðu það að verkum að FME var einfaldlega ekki samkeppnishæft um starfsfólk.

Stofnunin var undirmönnuð á þeim tíma sem verkefnum hennar fjölgaði stöðugt vegna aukinna umsvifa í íslenska fjármálakerfinu og stofnunin hafði hvorki mannafla né getu til að sinna skyldu sinni.

Enginn tími var aflögu til að fara ofan í saumarnar á hlutum eins og gjaldeyrislánunum - aðeins var sinnt mest aðkallandi kærumálum og öðru slíku.

Þetta var ein af mörgum ástæðum þess að svo fór sem fór.


mbl.is FME skoðaði aldrei gengislánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni vill styrkja fjórflokkaveldið

voteboxSvo Bjarni vill fjölga kjördæmum og fækka þingmönnum í hverju - jæja, það kemur engum á óvart, enda myndi slík breyting fyrst og fremst þjóna hagsmunum gömlu stóru flokkanna.

Átæða þessa er einföld.  Eftir því sem þingmönnunum fækkar þarf hærra atkvæðahlutfall til að ná kjördæmakjörnum mönnum inn á þing.

Ef öll kjördæmin væru t.d. með 4-5 þingmenn, væri næsta vonlaust fyrir framboð sem væri t.d. með 10% fylgi í öllum kjördæmum að koma manni á þing. 

Slíkt framboð myndi hvergi ná inn kjördæmakjörnum manni og ætti því ekki rétt á neinum uppbótarþingmönnum heldur - jafnvel þótt mörgum myndi finnast framboðið eiga tilkall til 10% þingsæta - 6 þingmanna eða svo.

Ákvæðinu um að framboð fái ekki uppbótarþingmenn nema þau nái kjördæmakjörnum manni er einmitt beint gegnt smáframboðum með 2-10% fylgi á landsvísu - ætlað að fyrirbyggja að þau komi að mönnum og ógni fjórflokkaveldinu.

Nei - Bjarni er fulltrúi fjórflokkaveldisins - raunverulegt réttlæti fælist í því að fara í hina áttina - gera landið að einu kjördæmi.

 


mbl.is Segir koma til greina að skipta kjördæmum upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ætti að rannsaka íslensku þjóðina.

moron_certificate_small1.jpgÞað er gott mál að rannsaka hvernig þessi uppákoma með gengisbundnu lánin gat eiginlega átt sér stað, en Púkanum finnst eiginlega meiri þörf á að rannsaka hvers vegna Íslendingar eru svo mikil fífl að kjósa yfir sig aftur og aftur gersamlega óhæfa ráðamenn.

Það má nefna Valgerði Sverrisdóttur sem dæmi - hún var ráðherra og ein þeirra rúmlega 30 þingmanna sem samþykktu á sínum tíma þau lög sem dómur Hæstaréttar byggði á.

Það hefði mátt halda að einhverja þessara þingmanna hefði mátt gruna að lánin stæðust ekki þau lög sem þeir samþykktu - en lét einhver þingmannanna þá skoðun í ljós? 

Núna stígur Valgerður fram og segir að þetta hafi alltaf verið vitað - núna getur hún talað þegar afglöp hennar í starfi eru fyrnd og hún getur róleg tekið við þeim eftirlaunum sem henni eru greidd fyrir vel unnin störf....eða þannig.

Samt er sökin ekki að öllu leyti hennar - það voru jú íslenskir kjósendur sem kusu þá þingmenn sem settu þau lög sem á endanum rústuðu efnahagslífi þjóðarinnar.  Það voru íslenskir kjósendur sem kusu þá þingmenn sem einkavinavæddu bankana, innleiddu athugasemdalaust evrópskar reglugerðir, lögðu Þjóðhagsstofnun niður, breyttu lögum um Seðlabankann, þannig að hann hálfneyddist til að hækka stöðugt vexti með alvarlegum afleiðingum, opnuðu á "hagkvæmari" íbúðalán og hömpuðu útrásarvíkingunum.

Það voru líka íslenskir kjósendur sem kusu þá stjórn sem nú situr - stjórnina sem átti að bjarga landinu úr þeim brunarústum sem fyrri stjórnir báru ábyrgð á, en hefur því miður valdið vonbrigðum, nánast frá fyrsta degi.

Eru íslenskir kjósendur upp til hópa fífl?


mbl.is Vill rannsókn á gengislánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um gengistryggðu lánin og ábyrgð bankanna.

bank_robbery_for_dummies.jpgPúkinn hefur áður gagnrýnt þá sem tóku gengistryggð lán en nú er kominn tími til að horfa á hina hliðina - ábyrgð banka og fjármögnunarfyrirtækja á þeirri stöðu sem komin er upp.

Það er sennilegt að mörgum lántakendum hafi ekki verið ljós sú áhætta sem fólst í því að taka gengistryggt lán, án þess að vera með tekjur í erlendum gjaldmiðli.  Það má líka vera að sumir lántakendur hafi ekki gert sér grein fyrir því að vegna vissra ákvarðana Alþingis og Seðlabankans var gengi krónunnar allt, allt of hátt - og aðeins spurning um tíma hvenær það félli og lánin snarhækkuðu í íslenskum krónum.

Nei, sumum lántakenda var þetta ef til vill ekki ljóst og héldu í einhverjum barnaskap að þetta væru hagstæð lán, en fjármálafyrirtækjunum átti að vera þetta ljóst - og hefði borið að vara lántakendur við hættunni.

Mörg fjármálafyrirtækjanna gerðu sér fulla grein fyrir að krónan var allt, allt of hátt skráð og tóku skipulega stöðu gegn henni - vissu sem var að hún myndi falla verulega.  Það má reyndar segja að sú stöðutaka hafi verið eðlileg, því þeim bar jú (eins og öðrum fyrirtækjum) að verja sína eigin hagsmuni - enn og aftur - fjármálafyrirtæki eru ekki góðgerðarstofnanir.

Það sem er hins vegar ekki eðlilegt er að á sama tíma og fjármálafyrirtækin veðjuðu sjálf á fall krónunnar, voru þau skipulega að ota gengistryggðum lánum að fólki - án þess að upplýsa viðskiptavinina um að 50-100% hækkun lánanna í íslenskum krónum væri fyrirsjáanleg.

Í sumum löndum er fólk rekið úr starfi eða fangelsað fyrir minni sakir.

Það má líka horfa á þetta frá annarri hlið, sem byggir á eftirfarandi þumalputtareglu:

Til lengri tíma litið er allt lánsfé jafn dýrt, sama í hvaða gjaldmiðli það er.


Þessi regla þarfnast nánari útskýringa.  Ef í boði er t.d. lán í gjaldmiðli X á 2% vöxtum og gjaldmiðli Y á 10% vöxtum, þá mætti halda að lán í gjaldmiðli X væri hagkvæmara.  Svo er þó ekki.  Til lengri tíma litið mun gengi gjaldmiðlanna breytast þannig að ekki skiptir máli hvort lánið er tekið.  Annars væri hægt að búa til verðmæti "úr engu",  með því að taka lán í gjaldmiðli X, lána þann pening í gjaldmiðli Y, greiða að lokum upp lánið í gjaldmiðli X og hirða mismuninn.

Þetta gengur ekki upp til lengri tíma litið - en til skemmri tíma séð er þetta mögulegt, ef lántakandinn nær að greiða upp lánið áður en gengið breytist...en það er happdrætti.

Fjármálafyrirtækin brugðust gersamlega í að gera viðskiptavinum sínum grein fyrir áhættunni og því að vegna yfirvofandi gengisfalls krónunnar væri í raun ósennilegt að lágvaxta gengistryggðu lánin væru nokkuð betri en íslensku lánin, svona til lengri tíma litið.

Annað sem brást var að gera lánasamningana þannig að þeir stæðust íslensk lög.  Þetta er í raun óskiljanlegt klúður, því það hefði verið svo einfalt að búa þannig um hnútana að lánin væru fyllilega lögleg.

Það eina sem fyrirtækin hefðu þurft að gera hefði verið að lána beint í erlendum gjaldmiðli - að lánin væru í jenum eða svissneskum frönkum, en með klausu um að afborganir væru í íslenskum krónum miðað við gengi Seðlabankans.  Slík lán hefðu verið fyllilega lögleg og lántakendur hefðu þá setið áfram í þeirri stöðu sem þeir voru í fyrir nýfallinn dóm.

Þetta klúður er alfarið á ábyrgð fjármálafyrirtækjanna, en það er mikilvægt að hafa í huga að ólögleiki lánanna stafar í raun bara af tæknilegu atriði - klúðri í útfærslu lánasamninga.  Sumir bloggarar hafa láið falla stóryrði um skipulagða glæpastarfsemi, en eins og Robert A. Heinlein sagði:

Never attribute to malice that which can be adequately explained by stupidity.


Þriðja atriðið sem má saka fjármálafyrirtækin um er að hafa farið offari í veitingu lánanna.  Starfsmenn sem sáu um lánin fengu margir hverjir "árangurstengda" bónusa - því meira sem þeir gátu lánað út því meira fengu þeir í eigin vasa.  Þeim var alveg sama þó þeir lánuðu fólki allt of háar upphæðir, sem átti að vera ljóst að vafasamt væri að viðkomandi gæti greitt til baka.  Græðgi og eiginhagsmunaháttur varð siðferðinu yfirsterkari.

Sumir hafa gagnrýnt þessi lán eftirá á þeirri forsendu að þau hafi verið ósanngjörn og að fjármögnunarfyrirtækin hafi grætt gífurlega á þeim við fall krónunnar, en það er misskilningur - Þessi fyrirtæki gátu boðið þessi lán einvörðungu vegna þess að þau fengu sambærileg lán í erlendum gjaldmiðlum á enn lægri vöxtum - hagnaður þeirra fólst í vaxtamuninum.

Jú, lánin hækkuðu við fall krónunnar, en skuldir þeirra uxu að sama skapi, þannig að gengisfall krónunnar breytti í raun engu fyrir þau. 


mbl.is Almenningur fengi reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga allir að borga sínar skuldir (eða bara sumir)?

peningarPúkanum finnst merkilegt að sumum þeirra sem höfðu hæst um að íslenskir útrásarvíkingar og óreiðumenn ættu að borga sínar skuldir finnist eðlilegt að aðeins hluti þjóðarinnar borgi sín fasteigna- og bílalán til baka.

Púkinn er um margt ósammála Merði Árnasyni (sem og öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar), en verður þó að viðurkenna að í þetta sinn hefur hann rétt fyrir sér - það er ekki réttlátt að ákveðinn hluti þjóðarinnar fái einfaldlega að sleppa við að borga sínar skuldir.

Gengistryggð bílalán eru ekki stóra vandamálið hér - það setur þjóðfélagið ekki á hliðina þótt þeir sem tóku þau lán fái þau afskrifuð að hluta, með því að gengisbindingin verði felld niður og ekkert komi í staðinn.

Stóra vandamálið eru gengistryggðu núsnæðislánin, sem eru mun stærri, til mun lengri tíma og veitt af bönkunum.  Væru þessi lán látin breytast í óverðtryggð lán með 2-3% vöxtum, myndu þau brenna upp á lánstímanum, enda engar líkur til að verðbólgan á Íslandi haldist lægri en vaxtaprósentan.

Þetta gæti haft í för með sér verulega veikingu bankanna, sem myndi á endanum bitna á öllum, í formi hærri vaxta og hærri skatta.  Það er ekki réttlæti í því að þeir sem voru varkárir og forðuðust gengistryggðu lánin þegar ljóst var að fall krónunnar væri fyrirsjáanlegt verði að taka á sig auknar byrðar vegna þeirra sem tóku áhættu.

Púkinn vill gjarnan sjá réttlæti, en það verður að vera réttlæti fyrir alla - ekki bara suma.

Þess vegna er  eðlilegt að gera eins og Mörður leggur til - að gengistryggðum ánum verði breytt í vísitölutryggð lán með lágum vöxtum.  Þá sitja allir skuldarar við sama borð, óháð því hvort þeir tóku gengisbundin lán eða ekki.  Síðan má grípa til almennra aðgerða eins og að færa niður höfuðstól allra lánanna eða annað í þeim dúr.

Það er síðan allt annað mál hvernig á að taka á málum þeirra sem hafa þegar orðið gjaldþrota, eða lent í vandræðum vegna þess að þeir hafa ekki getað staðið í skilum með gengistryggðu lánin.

(Púkinn vill taka fram að lokum að hann á ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta - er hvorki með gengistryggð lán eða vísitölubundin).

 


mbl.is Vill verðtryggingu á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband