Laser - barnaleikföng?

green2_1041587.jpgLaserbendar eru eins og vasahnífar.  Geta verið gagnlegir og skemmtilegir - jafnvel spennandi, en geta verið varasamir í höndum þeirra sem ekki kunna með þá að fara.

Fyrir síðustu aldamót voru flestir laserbendar aðeins með 1-5mw styrk og sendu frá sér rautt ljós.

Nú á síðustu árum hafa hinsvegar 532nm grænir laserbendar náð miklum vinsældum.  Þeir eru oft öflugri, jafnvel yfir 100mw en þar sem mannsaugað er einnig næmara fyrir grænu ljósi en rauðu, þá virðist græni geislinn mun bjartari en jafn öflugur rauður geisli.

Öflugir laserbendar geta valdið alvarlegum augnskemmdum sé þeim beint framan í fólk og af þeirri ástæðu einni ætti ekki að láta þessi tæki í hendur þeirra sem ekki kunna með þau að fara.

Að beina svona laserbendi að stjórnklefa flugvélar er alvarlegt ábyrgðaleysi og Púkinn veltir fyrir sér hvað foraldrar þessa unglings voru eiginlega að hugsa þegar þau leyfðu honum að leika sér með svona tæki - eða hvort foreldrarnir eru bara jafn gersneyddir ábyrgðartilfinningu og unglingurinn.

Svona hegðun kemur bara óorði á þessi tæki og veldur þeim vandræðum sem kunna að fara með þau.


mbl.is Lasermálið á Akureyri upplýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing (1) Hverja á að kjósa?

stjornlagathing-180.pngPúkinn er ekki ánægður með hvernig staðið er að kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings.  Jú, jú - margir þeirra eru með FaceBook síður þar sem þeir kynna sig og sín baráttumál - nú og svo er von á bæklingi með kynningum á næstu dögum, en staðreyndin er einfaldlega sú að hinn mikli fjöldi gerir mönnum erfitt fyrir að velja þá frambjóðendur sem hafa sömu áherslur og maður sjálfur.

Púkanum finnst að einhver hefði átt að gera eftirfarandi - setja upp vefsíðu þar sem fólk er spurt um afstöðu sína til t.d. 10 helstu álitamálanna sem beint varða stjórnarskrána, og afstaða fólks síðan borin saman við afstöðu frambjóðendanna.

Púkanum finnst skrýtið að enginn skuli hafa tekið sig til og komið saman slíkri síðu - þetta er nokkurra daga verk fyrir góðan forritara og frábært tækifæri t.d. fyrir einhvern sem vill koma sér og hæfileikum sínum á framfæri.

Þess þarf að vísu að gæta vandlega að slík síða sé hlutlaus varðandi fyrrnefnd ágreiningsmál - leiðandi eða misvísandi spurningar myndu skemma fyrir - slík síða væri ekki tekin alvarlega.

Sambærilegar síður hafa verið gerðar áður - t.d. fyrir Alþingiskosningar.

Mesta vinnan við svona síðu fælist í því að skrá afstöðu frambjóðendanna, en það er þó leysanlegt vandamál.

Enn eru rúmlega tvær vikur til stefnu - hvernig væri að einhver myndi bara drífa þetta af - já, og gera það almennilega - þetta kerfi sem er núna uppsett á dv.is er meingallað - Púkinn getur ekki tekið alvarlega kerfi sem segir að hann eigi að kjósa Jón Val Jensson.


mbl.is Tveir búnir að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðfundurinn í Hálsaskógi

halsaskogur.jpgPúkinn var á þjóðfundinum, en stundum fannst honum eins og hann væri í miðju barnaævintýri í Hálsaskógi, þar sem Bangsapabbi stóð og sagði ábúðarfullur "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".

Vandamálið var nefnilega það að helmingurinn af því sem kom fram var ekkert annað en innihaldslitlir frasar sem flestir geta verið sammála, en eiga lítið erindi í stjórnarskrána sem slíka -minntu frakar á innantóm kosningaloforð stjórnmálaflokka.

Þessar setningar sem fylgja fréttinni eru hins vegar aðeins úrtak þess sem kom fram - á fundinum voru yfir um 120 hópar og hver hópur skilaði af sér einni stuttri setningu af þessari gerð.

Þessar setningar voru reyndar ekki eini afrakstur fundarins - hver þátttakandi fékk t.d. 5 blöð í lokin, þar sem hann gat gert grein fyrir sínum hugmyndum.

Margar þeirra hugmynda voru líka innihaldslausir eða slagorðakenndir frasar, en það vakti hins vegar athygli Púkans hversu mikill stuðningur var við nokkur atriði sem varða beint tilteknar breytingar í stjórnarskrá, svo sem eftirfarandi:

  • Persónukjör, t.d. með blandað fyrirkomulag að ástralskri fyrirmynd, sem einnig leyfir listakjör, en líka að menn kjósi einstaklinga "af mörgum listum"
  • Landið gert að einu kjördæmi.
  • Aðskilnaður ríkis og kirkju - niðurfelling 62. gr stjórnarskrárinnar.
  • Aukin áhersla á þjóðaratkvæði.

Ef þetta nær fram að ganga þá er Púkinn nokkuð sáttur.

Sú hugmynd að fá valdameiri forseta kom hins vegar ekki fram á borði Púkans.


mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lestölvan mín....

sony-reader-prs-350-pocket-edition-silver-pink-colour.jpgEftir allmikla umhugsun fékk Púkinn sér lestölvu nýlega.

Sú sem varð fyrir valinu var frá Sony og nefnist PRS-350.

Þetta er virkilega þægilegur lítill gripur - passar i venjulegan skyrtuvasa og vegur aðeins 155 grömm.

Hún notar svokallaða e-ink tækni, sem þýðir að hún eyðir nánast engu rafmagni við að sýna mynd (heldur bara þegar flett er), og því þarf bara að stinga henni í samband við tölvu á 10 daga fresti eða svo, miðað við eðlilega notkun.

 Þetta er ódýr gripur, kostar um $180, en hefur ekki alla þá "fídusa" sem sumar stærri lestölvur hafa - er ekki með þráðlausa tengingu, heldur verður að hlaða rafbókunum niður á tölvu og setja þær inn þaðan.  Já, og skjárinn er bara svarthvítur og það er ekki hægt að bæta neinum forritum inn á hana - hún keppir ekki við iPad frá Apple.

Þetta er einfalt tæki fyrir þá sem vilja labba um með bókasafn í vasanum - þetta litla tæki geymir vandræðalaust yfir 1000 bækur.

Bókaúrvalið er að vísu svolítið takmarkað ennþá og sumir útgefendur og seljendur vilja ekki selja til Íslands - en það má t.d. byrja á að fara á  http://www.feedbooks.com/ og sækja án endurgjalds bækur sem njóta ekki lengur höfundarréttarverndar sökum aldurs - allar bækurnar um Sherlock Holmes, svo eitt dæmi sé tekið.  Nú, síðan bjóða margir útgefendur og höfundar upp á rafbækur á vefsíðum sínum - aðdáendur vísindaskáldsagna geta t.d. fengið yfir 100 ókeypis bækur á http://www.webscription.net/ auk þess sem aðrar bækur má kaupa þar á $3-$6 stykkið.

 


mbl.is Áfram 7,5% tollur á Kindle
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lögverndun ljósmyndara tímaskekkja?

Púkinn er þeirrar skoðunar að tækniframfarir hafi leitt til þess að sérstök lögverndun ljósmyndunar sé orðin tímaskekkja og hana ætti að afnema hið snarasta.

Þessi umræða snertir mig ekki persónulega - ég vinn ekki við ljósmyndun, hef aldrei selt mynd og á ekkert frekar von á því að ég muni nokkurn tíman gera það.   Ég er hins vegar virkur áhugaljósmyndari (og hafi einhver áhuga, þá er Flickr síðan mín hér: http://www.flickr.com/photos/29986499@N07/)

Ef maður horfir á hlutina í aðeins stærra samhengi, þá er vert að minna á að ástæður lögverndunar eru þrenns konar.

Í fyrsta lagi er um að ræða lögverndun starfa - þar sem einstaklingar mega einfaldlega ekki starfa í viðkomandi grein nema hafa tilskilin réttindi. Þetta á t.d. við um lækna og flugmenn. Það er hér sem almannaheillasjónarmiðin eiga við. Ómenntaðir fúskarar geta stofnað lífi og limum annarra í hættu, og þess vegna er þeim bannað að vinna þessi störf. Þetta á augljóslega ekki við um ljósmyndun.

Í öðru lagi er um að ræða lögverndun starfsheita, og fylgir því gjarnan forgangur til starfs og betri laun, en ekki bann við að aðrir starfi í greininni. Besta dæmið um þetta eru sennilega kennarar - þar sem kennarar og "leiðbeinendur" geta unnið sama starfið hlið við hlið, en sá menntaði fær hærri laun og á forgang að starfi - þ.e.a.s. ekki má ráða réttindalausan einstakling ef einstaklingur með réttindi sækir um. Þessi tegund lögverndunar er gjarnan studd af stéttarfélögum, enda hagsmunamál félagsmanna. Þetta snertir ekki ljósmyndun á neinn hátt.

Í þriðja lagi er helst um að ræða iðngreinar, þar sem gerð er krafa um menntun/reynslu þess sem ber ábyrgð á verkinu, fyrst og fremst til að vernda kaupandann gegn fúski og leyndum göllum í vörum. Húsasmíði og pípulagnir eru góð dæmi um þetta - menntun og reynsla er talin ákveðin trygging gegn því að menn skili af sér hornskökku eða hripleku verki. Það er líka oft litið svo á að kaupandinn hafi ekki þekkingu til að meta gæði vörunnar - geti ekki borið kennsl á leynda galla, og þess vegna verði að gera kröfur til þess sem beri ábyrgð á verkinu - aðalatriðið hér er að tryggja að hráefni, verkferlar og vinnubrögð séu í lagi.

Sumir hafa viljað setja ljósmyndun í þennan flokk og vissulega eru rök fyrir því. Það sem gerir ljósmyndunina hins vegar ólíka þessum dæmigerðu iðngreinum er listræni þátturinn - menn geta haft verkferilinn í góðu lagi, en samt skilað af sér arfaslöku verki af því að þeir hafa einfaldlega ekki auga fyrir myndefninu - og hvað leyndu gallana varðar, þá á það mun síður við en t.d. í pípulögnum.

Þess ber líka að gæta að með tækniframförum hafa verkferlarnir breyst - langstærstur hluti ljósmynda er tekinn á stafrænar myndavélar í dag - fáir ljósmyndarar sitja lengur í myrkrinu og fást við framköllun með hættulegum efnum - stærri og stærri hluti vinnslunnar er hins vegar á sviði grafískrar eftirvinnslu - nokkuð sem hvorki þarf próf né réttindi til að mega fást við.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að ljósmyndun eigi meira sameiginlegt með listgreinum og tölvuforritun - greinum þar sem hæfileikar og áhugi skipta meira máli en formleg próf.  Púkinn er einfaldlega þeirrar skoðunar að ljósmyndun sé ekki hreinræktuð igngrein og þess vegna sé einfaldlega rangt að meðhöndla hana sem slíka.

Það má í raun hver sem er taka ljósmyndir og selja þær - lögin banna hins vegar þeim sem ekki hafa réttindi að starfrækja ljósmyndastofu og selja þjónustu - selja myndir sem ekki enn hafa verið teknar, ef þannig má að orði komast.

Það eru síðan enn önnur rök að til að fá meistararéttindi þurfa nemendur að komast á samning - nokkuð sem er ekki auðvelt - það eru einfaldlega ekki margir meistarar sem eru tilbúnir til að þjálfa nema til þess eins að fá þá sem samkeppnisaðila.

Púkinn kemur ekki auga á nein góð rök fyrir áframhaldandi lögverndun ljósmyndunar.

 


mbl.is Sektuð fyrir að reka ljósmyndastofur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðareign auðlinda: Merkingarlaust kjaftæði

Það hljómar sjálfsagt vel í eyrum sumra að segja að auðlindir skuli vera sameign þjóðarinnar, en þegar betur er að gáð, er þetta merkingarlaust kjaftæði - innihaldslaus frasi sem á ekkert erindi í stjórnarskrána.

Ástæðan er einföld - eignarréttur er einskis virði ef ráðstöfunarréttur fylgir ekki, eða arðurinn af auðlindinni.

Í Sovétríkjunum gömlu var sagt að verksmiðjurnar væru eign verkamannanna sem unnu í þeim - aftur innihaldslaus orð - verkamennirnir höfðu engan möguleika á að stjórna verksmiðjunni eða ráðstafa framleiðslu hennar og nutu ekki arðsins af framleiðslunni.

Það sama á við um náttúruauðlindirnar - til hvers í ósöpunum að segja að þjóðin eigi tilteknar auðlindir, þegar rétturinn til að ákvarða hvort, hvernig og af hverjum auðlindin er nýtt er ekki í hennar höndum?  Já svo ekki sé minnst að að arðurinn af auðlindinni rennur ekki til meintra eigenda.

Nei, íslenska stjórnarskráin er ekki staður fyrir innihaldslaust kjaftæði - það er nógu slæmt að hafa það í sölum Alþingis.


mbl.is Skuldir fyrnist á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslaus sýndarmennska

Púkinn hefur lítið álit á væntanlegu stjórnlagaþingi - en enn minna álit á "þjóðfundi" þeim sem verður haldinn áður með þátttöku 1000 handahófsvalinna einstaklinga.

Skoðun Púkans er nefnilega sú að hér sé aðeins um að ræða tilgangslausa sýndarmennsku - eingöngu í þeim tilgangi að láta þjóðina halda að það sé verið að hlusta á hana.

Skoðum aðeins þennan væntanlega þjóðfund...opinber tilgangur hans er að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins, stjórnarskrá og breytingar á henni.

Hafi Púkinn skilið ferilinn rétt, þá felst þjóðfundurinn í því að fólk situr í umræðuhópum, þar sem á að lýsa eigin skoðunum - enn þess er ekki krafist að fólk undirbúi sig, eða hafi neina sérstaka þekkingu á stjórnarskránni.

(Púkinn hefur reyndar sínar efasemdir um að óundirbúið fólk með enga þekkingu á stjórnarskránni geti lagt mikið gáfulegt til málanna, en hvað um það).

Stóra málið er hins vegar að allar þær skoðanir sem koma fram þurfa að fara í gegnum fjórar "síur".

Sía #1

Við hvert borð er síðan umræðustjóri sem stjórnar umræðunum og "síar" niðurstöðurnar - tekur það sem hann metur sem niðurstöður hópsins og skilar því áfram.  Það hafa ekki verið birtar neinar upplýsingar um hvernig sú vinnsla fer fram, þannig að þátttakendur hafa enga tryggingu fyrir því að nokkuð af skoðunum þeirra skili sér áfram.

Sía #2

Niðurstöðum þjóðfundarins er skilað til stjórnlaganefndar, sem vinnur úr þeim og skilar þeim áfram.   Flestir í þessari nefnd eru með lögfræðimenntun, og allt er þetta hið ágætasta fólk sem er sjálfsagt treystandi til að semja tillögur að nýrri stjórnarskrá - en þessi hópur er ekki skyldugur til að taka eingöngu tillit til þess sem mun koma fram á þjóðfundinum.  Þau "sía" áfram þær niðurstöður þau fengu frá fundarstjórunum og þeim er síðan væntanlega frjálst að koma með hvaða viðbætur og tillögur til breytinga á stjórnarskránni sem þeim sýnist - algerlega óháð því sem þjóðfundurinn segir.

Sía #3

Niðurstöðum stjórnlaganefndar er síðan skilað til stjórnlagaþings, sem er ekki bundið af þeim tillögum á neinn hátt, en hefur það hlutverk að koma saman nýrri stjórnarskrá.

Sía #4

Stjórnlagaþing skilar síðan niðurstöðum til Alþingis, sem hefur fullt vald til að breyta því sem því sýnist - og það er sjálfsagt bara barnaskapur að búast við öðru en alþingismenn munu notfæra sér rétt sinn til að draga úr áhrifum allra þerra breytinga sem gætu komið þeim eða flokkum þeirra illa.

Svona í alvöru talað - til hvers að hafa öll þessi aukaskref og "síur"þegar á endanum geta alþingismenn bara gert það sem þeir vilja ?

Jú, eins og Púkinn sagði í upphafi - það á að láta þjóðina halda að hún hafi eitthvað að segja.


mbl.is Skiptar skoðanir um stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það á ekki að bjarga öllum

100000Púkanum sýnist sumir vera að bíða eftir því að stjórnvöld framkvæmi töfrabrögð - komi með "lausn" sem leysir vanda allra, svona eins og töframaður dregur kanínu upp úr hatti fyrir framan hóp fagnandi áhorfenda.

Það er hins vegar einn stór galli við þetta viðhorf - það er ekki hægt að "bjarga" öllum - og það sem meira er: Það á ekki að "bjarga" öllum.

Staðreyndin er sú að jafnvel þótt ekkert bankahrun hefði orðið og ef gengi krónunnar hefði haldist áfram í þeim óraunhæfu hæðum sem það var í kringum 2006, þá hefðu einhverjir farið í þrot.  Það eru alltaf einhver gjaldþrot, jafnvel í mestu "góðærum".

Það er alltaf fólk sem eyðir um efni fram, tekur lán langt umfram sína greiðslugetu eða sólundar sínu fé í einhverja vitleysu.  Það er ekki hlutverk þjóðfélagsins að sjá til þess að óráðsíumenn geti haldið áfram sínum lífskjörum.  Það verður að gera ákveða kröfu um að fólk taki ábyrgð á afleiðingum eigin mistaka.

Velferðarkerfið má sjá til þess að enginn svelti og allir hafi þak yfir höfuðið - en það er ekki réttlátt að "bjarga" fólki frá öllum afleiðingum eigin mistaka.

Vandamálið er hins vegar hvar á að draga línuna - hverjum á að "bjarga" - og hverjum ekki?

Það er ákveðin hópur sem er með nánast óviðráðanlegar skuldir - skuldar langt umfram eignir og greiðslugetu.  Jafnvel þessi heimskulega hugmynd Framsóknarmanna um flata niðurfellingu myndi ekki gagnast þessum hópi.  Sumum í þessum hópi er einfaldlega ekki hægt að "bjarga".

Það er hins vegar annar (og mun stærri hópur) sem er í vandræðum, en er hægt að aðstoða - og það á að miða áætlanir um aðstoð við þann hóp - fólkið sem á ennþá möguleika á að halda sínum húsum og er tilbúið til að gera sitt.


mbl.is Gylfi furðar sig á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Steingrímur

icesave.jpgPúkinn myndi ekki vilja vera í sporum Steingríms og þurfa að vinda ofan af IceSave klúðrinu - en í þessari umræðu má ekki gleyma því hverjir bera ábyrgð á þessu klúðri.

Sökudólgur 1: Landsbankinn og eigendur hans. Stofnun IceSave var drifin áfram af óafsakanlegri græðgi.

Sökudólgur 2: Fjármálaeftirlitið.  Þetta apparat brást gersamlega - menn hefðu átt að neyða Landsbankann til að reka IceSave í sjálfstæðu dótturfyrirtæki, (eins og Kaupþing gerði með Edge reikningana) til að takmarka mögulegt tjón Íslendinga.

Sökudólgur 3: Ríkisstjórn Geirs H. Haarde.  Viðbrögð ráðamanna þegar allt hrundi sköpuðu ákveðið vandamál.  Með því að ábyrgjast innistæður í útibúum á Íslandi, en ekki erlendis var tekin meðvituð ákvörðun um mismunun - og það er vandséð hvernig sú mismunun stenst lög.

Ef ríkisstjórnin hefði til dæmis sagt "Við ábyrgjumst aðeins innistæður að því marki sem tryggingasjóður er fær um", þá væri IceSave málið dautt - en að vísu hefði allt orðið vitlaust hér á íslandi ef allir sparifjáreigendur hefðu tapað ævisparnaði sínum.

Ef ríkisstjórnin hefði sagt "Við ábyrgjumst allar innistæður í íslenskum krónum, en ábyrgjumst aðeins innistæður í erlendri mynt að því marki sem innistæðutryggingasjóður er fær um", þá hefði ekki verið um að ræða sambærilega mismunun eftir þjóðerni - þeir hefðu tapað sem ættu gjaldeyrisreikninga í bönkum á Íslandi, en Bretar og Hollendingar hefðu ekki átt sterka kröfu.

Ef ríkisstjórnin hefði sagt "Við ábyrgjumst allar innistæður, en allar endurgreiðslur verða eingöngu í íslenskum krónum og dreifast á næstu 10 ár", þá væri vandamálið mun viðráðanlegra.

En...vegna þess hvernig ríkisstjórn Geirs H. Haarde stóð að þessu, þá sköpuðu þeir þessa sterku kröfu sem Bretar og Hollendingar eiga - Það má deila um útfærsluna á endurgreiðslunni, og vissulega hafnaði þjóðin þeirri útfærslu sem búið var að semja um, en krafan er sterk og hún er ekkert að hverfa á næstunni.

Aumingja Steingrímur - það er erfitt að þurfa að taka ábyrgð á mistökum annarra.


mbl.is Steingrímur: Íslendingar munu borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um gengislán og sanngirni

500krGengislánin eru mál málanna í dag og ljóst er að engin niðurstaða mun fást sem gerir alla ánægða.

Púkinn fór hins vegar að velta því fyrir sér hver væri sanngjörn niðurstaða í þessu máli - vitandi þó vel að dómstólar verða að dæma eftir því sem lagabókstafurinn segir, en ekki eftir því hvað meginhluta þjóðarinnar myndi finnast sanngjarnt.

Stóra vandamálið er að hér takast á nokkrar sanngirniskröfur.

Í fyrsta lagi má segja að það sé sanngjarnt að aðilar borgi til baka raunvirði þess sem þeir fengu lánað - og með eðlilegum vöxtum.   Ef svo væri ekki, þá væri enginn reiðubúinn til að lána fé.

Lánafyrirtækin gátu boðið lán með mjög lágum vöxtum af þeirri einu ástæðu að þeim stóð til boða fjármagn í erlendri mynt á enn lægri vöxtum - og til að tryggja sig urðu þau að gengisbinda lánin.  Ef lánin fengju að standa óverðtryggð í íslenskum krónum með lágum vöxtum, þá myndu margir, sérstaklega þeir sem tóku gengisbundin íbúðalán til langs tíma, einungis þurfa að borga til baka lítinn hluta þess sem þeir fengu lánað.  Það er ekki sanngjarnt.

Það sem brást hjá lánafyrirtækjunum var að gera lánasamningana þannig að þeir stæðust íslensk lög.  Þetta er í raun óskiljanlegt klúður, því það hefði verið svo einfalt að búa þannig um hnútana að lánin væru fyllilega lögleg.

Það eina sem fyrirtækin hefðu þurft að gera hefði verið að lána beint í erlendum gjaldmiðli - að lánin væru í jenum eða svissneskum frönkum, en með klausu um að afborganir væru í íslenskum krónum miðað við gengi Seðlabankans.  Slík lán hefðu væntanlega verið fyllilega lögleg og lántakendur hefðu þá setið áfram í þeirri stöðu sem þeir voru í fyrir nýfallinn dóm.

Þetta klúður er alfarið á ábyrgð fjármálafyrirtækjanna, en það er mikilvægt að hafa í huga að ólögleiki lánanna stafar í raun bara af tæknilegu atriði - klúðri í útfærslu lánasamninga.  Sumir bloggarar hafa láið falla stóryrði um skipulagða glæpastarfsemi, en eins og Robert A. Heinlein sagði:

Never attribute to malice that which can be adequately explained by stupidity.

Púkanum finnst líka sanngjarnt að fólk taki ábyrgð á afleiðingum gerða sinna - það var enginn neyddur til að taka gengisbundin lán - þetta ver kostur sem margir lántakendur völdu.  Það hefði átt að vera öllum ljóst 2006-2008 að gengi íslensku krónunnar var allt, allt of hátt og bara spurning um tíma hvenær það félli hressilega.

Að taka gengisbundin lán við þær aðstæður er ekkert annað en fjárhættuspil - fólk var að veðja á að gengisfallið yrði eftir að lánin hefðu verið greidd upp, eða að það yrði svo lítið að það myndi ekki vega upp vaxtamuninn.  Er sanngjarnt að fjárhættuspilarar geti fengið reglunum breytt eftir á, ef veðmálin ganga gegn þeim?

Á hinn bóginn er önnur sanngirniskrafa hér - það er líklegt að sumum lántakendum hafi ekki verið ljós sú áhætta sem fólst í því að taka gengistryggt lán, án þess að vera með tekjur í erlendum gjaldmiðli.  Það má líka vera að sumir lántakendur hafi ekki gert sér grein fyrir því að vegna vissra ákvarðana Alþingis og Seðlabankans var gengi krónunnar allt, allt of hátt - og aðeins spurning um tíma hvenær það félli og lánin snarhækkuðu í íslenskum krónum.

Nei, sumum lántakenda var þetta ef til vill ekki ljóst og héldu í einhverjum barnaskap að þetta væru hagstæð lán, en fjármálafyrirtækjunum átti að vera þetta ljóst - og hefði borið að vara lántakendur við hættunni.

Mörg fjármálafyrirtækjanna gerðu sér fulla grein fyrir að krónan var allt, allt of hátt skráð og tóku skipulega stöðu gegn henni - vissu sem var að hún myndi falla verulega.  Það má reyndar segja að sú stöðutaka hafi verið eðlileg, því þeim bar jú (eins og öðrum fyrirtækjum) að verja sína eigin hagsmuni - enn og aftur - fjármálafyrirtæki eru ekki góðgerðarstofnanir.

Það sem er hins vegar ekki eðlilegt er að á sama tíma og fjármálafyrirtækin veðjuðu sjálf á fall krónunnar, voru þau skipulega að ota gengistryggðum lánum að fólki - án þess að upplýsa viðskiptavinina um að 50-100% hækkun lánanna í íslenskum krónum væri fyrirsjáanleg.

Fjármálafyrirtækin fóru líka offari í veitingu lánanna.  Starfsmenn sem sáu um lánin fengu margir hverjir "árangurstengda" bónusa - því meira sem þeir gátu lánað út því meira fengu þeir í eigin vasa.  Þeim var alveg sama þó þeir lánuðu fólki allt of háar upphæðir, sem átti að vera ljóst að vafasamt væri að viðkomandi gæti greitt til baka.  Græðgi og eiginhagsmunaháttur varð siðferðinu yfirsterkari.

Það er sanngjarnt að fjármálafyrirtækin beri skaðann af þannig vinnubrögðum. 


mbl.is Dómur í gengislánamáli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband