Heimsendir eftir 22 daga!

judgementday.jpgÞeir sem kíktu í Fréttablaðið í dag tóku ef til vill eftir því að á síðu 27 er heilsíðuauglýsing um yfirvofandi dómsdag - 21. maí.

Það fyrsta sem Púkanum datt í hug var að þetta væri auglýsing fyrir einhverja bíómynd sem yrði frumsýnd þann dag, en í ljós kom að þessi auglýsing er á vegum einhverra sem er fúlasta alvara.

Púkinn hélt reyndar að svona þvættingur væri nánast einskorðaður til Bandaríkin, en einhvern veginn hefur þessi della náð að teygja sig hingaðtil Íslands.

Það er reyndar forvitnilegt að skoða þá sem helst standa á bakvið þetta, en vefsíðan þeirra er http://www.familyradio.com, þar sem meðal annars má finna teljara sem telur niður að dómsdegi...Púkinn getur ekki gert annað en velt fyrir sér hvað gerist með þann teljara 22 maí, en það er annað mál.

Svolítil leit á vefnum leiddi í ljós fjölda vefsíðna sem flytja þennan boðskap - að dómsdagur sé í nánd - til dæmis http://www.may-212011.com/ og http://judgementday2011.com/

Já, svo má ekki gleyma http://www.youtube.com/watch?v=yI5_xp_2f8w - reyndar svolítið undarlegt val á tónlist þar, en hvað um það.

 Rökstuðniingurinn fyrir þessum degi er nú frekar ræfilslegur -  annars vegar virðist boðskapurinn byggja á því að talsvert hafi veriðuð járðskjálfta, flóð og hvirfilvinda undanfarið - já, svo ekki sé nú minnst á tilvist "gay pride",sem margir af þessum "trúarnötturum"virðast telja örugghtmerki þess að heimsendir sé í nánd.

Hins vegar eru um að ræða "útreikninga" Harold Camping, sem líta svona út:

  • Ef "heilögu" tölurnar 5, 10 og 17 eru margfaldaðar saman er útkoman 850.
  • 850 í öðru veldi er 722.500
  • Þann 21. maí 2011 eru 722.500 dagar liðnir frá 1. apríl árið 33.
  • Þar af leiðandi er dómsdagur eftir 22 daga.
Æ já - svo eru líka (samkvæmt álíka "gáfulegum" útreikningum) liðin nákvæmlega 7000 ár frá syndaflóðinu.

 Púkanum finnst ótrúlegt hversu auðtrúa fólk er og hversu margir gleypa athugasemdalaust við svona þvættingi. Harold Camping er auðvitað ekki sáfyristi sem spáirdómsdegi - og mun væntanlega afsaka sig með "reikniskekkju" þegar 22. maí rennur upp og í ljós kemur að ekkert gerðist.

Það ætti nú ekki að verða neitt sérstakt vandamál fyrir hann - það eru margir söfnuðir eins og Sjöunda Dags Aðventistar og Vottar Jehóva sem hafa langasögu af spádómum sem hafa brugðist


Ekki annan innihaldslausan þjóðfund, takk!

Púkinn er þeirrar skoðunar að margt megi betur fara í stjórnarskránni og að Alþingi hafi brugðist hvað það varðar - flestar síðustu breytinga á stjórnarskránni varða eingöngu kosningakerfið og þær hafa verið gerðar með hagsmuni flokkakerfisins í huga, en ekki hagsmuni kjósenda.

Stjórnlagaráðið hefur sína galla - það var illa staðið að kosningum til stjórnlagaþings, ekki gert ráð fyrir þessum mikla fjölda frambjóðenda og framkvæmd kosninganna var ekki nægjanlega vönduð, eins og Hæstiréttur sagði.

Það eru hins vegar góðar líkur á því að stjórnlagaráðið skili frá sér einhverju sem verður til þess að endurbætur verði gerðar á stjórnarskránni - endurbætur sem ekki aðeins eru í þágu flokkanna - og það að koma hreyfingu á málið réttlætir tilvist stjórnlagaráðsins að mati Púkans.

Hins vegar verða tillögur stjórnlagaráðsins ekki bindandi á neinn hátt - Alþingi getur hunsað þær ef því svo sýnist - hvort sem þeir gera það með vísun til veiks umboðs eða ekki.

Það yrði hins vegar erfiðara fyrir Alþingi að hunsa tillögurnar, ef skýr stuðningur þjóðarinnar við þær lægi fyrir.

Púkinn er reyndar þeirrar skoðunar að ein breytinganna á stjórnarskránni ætti að vera sú að allar breytingar á stjórnarskrá yrði að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, en burtséð frá því, þá myndi það styrkja mjög tillögur stjórnlagaráðs ef tillögurnar væru bornar undir þjóðina áður en Alþingi fengi þær til samþykktar.

Ef fyrir lægi að yfirgnæfandi stuðningur væri við tilteknar tillögur, þá væri erfitt fyrir Alþingi að hunsa þær með vísun til "veiks umboðs" stjórnlagaráðsins.  

Púkinn efast hins vegar um að Alþingi muni samþykkja að vísa tillögunum til þjóðarinnar, þar sem slíkt myndi vinna gegn hagsmunum Alþingis og flokkakerfisins.  

Hugmyndin um að vísa tillögunum til þjóðfundar er hins vegar slæm - mjög slæm.  Púkinn var einn fulltrúanna á síðasta þjóðfundi og verður að viðurkenna að það var sú innihaldslausasta tímasóun sem hann hefur tekið þátt í - hrein og klár sýndarmennska sem þjónaði þeim tilgangi einum að telja fólki trú um að það væri hlustað á það.   Púkanum fannst hann eiginlega vera á fundi hjá dýrunum í Hálsaskógi, þegar rætt var um "grundvallargildi íslensks samfélags"..."öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".

Er einhver ástæða til að ætla að "þjóðfundur" um stjórnarskrárbreytingatillögur geti leitt til einhvers?  
mbl.is Tillagan fari fyrir þjóðfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðnýtingaráform Ögmundar

isnicPúkinn er að velta fyrir sér hvort áform Ögmundar um að þjóðnýta lénaúthlutun á Íslandi muni ekki leiða til málaferla á hendur ríkinu.

Isnic.is (Internet á íslandi) sér um þessa skráningu í dag og hafa eigendur þess fyrirtækis haft allnokkrar tekjur af þeirri starfsemi í gegnum tíðina.  Nú virðist sem ráðhærra ætli sér að þjóðnýta þá starfsemi og þá vakna spurningar um skaðabótaskyldu ríkisins.  Núverandi eigendur Isnic eru væntanlega ekki hrifnir af áformum um að þjóðnýta rekstur þeirra án þess að þeir fái skaða sinn bættan.

Þótt Púkinn hafi að vísu ekki séð frumvarpið í sinni endanlegu mynd, þá grunar hann að helsti tilgangur frumvarpsins sé að finna nýjan tekjustofn fyrir Póst- og Símamálastofnun, en verði ríkinu gert að greiða skaðabætur vegna þjóðnýtingarinnar virðist hér bara um enn eitt dæmið um tilgangslausa sóun á almannafé.

Það er engin þörf á þessu frumvarpi - núverandi kerfi virkar nefnilega bara ágætlega.


mbl.is Frumvarp um landslénið .is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæður þess að við verðum að borga Icesave

Það virðast vera einhverjir sem eru á þeirri skoðun að það sé eitthvað vafamál hvort Íslendingar séu skyldugir til að borga Icesave eða ekki.  Púkinn fær ekki séð að það sé nokkur spurning - við sitjum uppi með að þurfa að borga þetta - það er bara spurning um útfærsluna.

Þjóðin hafnaði á sínum tíma ákveðinni útfærslu á því hvernig Icesave væri borgað og nú í dag sjást jákvæðar afleiðingar þess - þau kjör sem nú standa til boða eru mun hagstæðari en þau fyrri.  Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla snerist hins vegar ekki um hvort yfirhöfuð skyldi borga Icesave eða ekki.

Meginástæða þess að við verðum að borga þetta virðist einföld.

Eftir bankahrunið bar ríkisstjórninni sennilega ekki skylda til að ábyrgjast bankainnistæður umfram það sem tryggingarsjóðurinn hafði bolmagn til.  Það var hins vegar tekin ákvörðun um að ábyrgjast innistæður í íslenskum útibúum bankanna að fullu.

Það er vandamálið.

Með því að ábyrgjast innistæður í útibúum á Íslandi en ekki erlendis, var ríkið að mismuna - nokkuð sem virðist stangast á við EES samninginn og við kæmumst sennilega ekki upp með fyrir dómstólum.

Ef ákvörðun hefði verið tekin um að ábyrgjast aðeins innistæður í íslenskum krónum, eða ábyrgjast aðeins innistæður að því marki sem tryggingasjóðurinn hafði bolmagn til, þá hefðum við sennilega losnað við Icesave vandamálið - en það var bara ekki gert og þess vegna sitjum við í súpunni.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á...segja 

  • ...bara ef Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn hefðu ekki klúðrað einkavæðingu bankanna.
  • ...bara ef fjármálaeftirlitið hefði ekki verið gersamlega óhæft.
  • ...bara ef Icesave hefði verið rekið í dótturfyrirtæki (eins og Kaupþing Edge), en ekki útibúi.
  • ...bara ef endurskoðendur bankanna hefðu sinnt skyldu sinn
Vandamálið er bara það að ekkert af þessu leysir okkur undan vandamálinu - við erum nokkuð örugglega skyldug til að borga þetta.

 

 

 

 


mbl.is Greiðslur hefjast í júlí 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafrænar kosningar næst, takk!

voteboxÞað að 10.000 atkvæði hafi verið ógild sýnir annað af tvennu - annað hvort eru Íslendingar fífl, sem eru ófær um að kjósa og ætti bara að svipta kosningarétti hið snarasta - eða framkvæmd kosninganna var eitt allsherjar klúður og slíkt má ekki endurtaka sig.

Hvor skýringin er sennilegri?

Púkinn vill enn og aftur ítreka þá skoðun sína að rafrænar kosningar séu mun hentugri en svona fyrirkomulag.  Vel hannað slíkt kerfi myndi fyrirbyggja ógild atkvæði - (nú nema að kjósandinn beinlínis velji hnappinn "Skila ógildu atkvæði"), auk þess sem útreikningar á niðurstöðum ættu að taka mun skemmri tíma - þær ættu að geta legið fyrir nokkrum mínútum eftir að kjörstöðum er lokað.

 


mbl.is Kosningarnar verði ræddar í allsherjarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dræm kjörsókn í tilgangslausum kosningum?

Kjörsóknin er kannski dræm vegna þess að margir eru á þeirri skoðun að stjórnlagaþingið sé einfaldlega tilgangslaust.

Það gildir nefnilega einu að hvaða niðurstöðu fulltrúar komast - Alþingi getur ákveðið að hunsa þær eða breyta að vild.

Heldur einhver í alvöru að jafnvel þótt stjórnlagaþing myndi leggja til róttækar breytingar eins og að gera landið að einu kjördæmi að alþingismenn myndu samþykkja slíkar breytingar?

 


mbl.is 21% höfðu kosið kl. 17
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem ég ætla að kjósa (og hvernig ég fann þá)

Það er ekki auðhlaupið að því að velja þá frambjóðendur sem hafa sömu áherslur og maður sjálfur, en Púkanum tókst þó að finna nokkur nöfn - og þótt áherslur Púkans séu hugsanlega aðrar en áherslur meirihlutans, þá gæti aðferðin gagnast mörgum.

Það sem Púkinn gerði var að notakosningakönnun DV, http://www.dv.is/stjornlagathing/konnun/ en á nokkuð sérstakan hátt.  Vandamálið við DV vefinn er nefnilega að ekki er hægt að stjórna vægi spurninga þannig að hætta er á að kerfið stingi upp á einhverjum sem maður er ósammála í öllum veigamestu málunum, bara af því að maður er sammála viðkomandi í "smámálum".

Það sem borgar sig að gera er að velja örfáar spurningar sem maður telur skipta mestu máli og svara þeim - en velja "vil ekki svara"  við allar hinar spurningarnar - þá er þeim sleppt í úrvinnslunni.  Síðan er hægt að skoða tillögurnar og henda út aðilum af ýmsum ástæðum - þeim sem eru sjálfum sér ósamkvæmir, hafa of sterk tengsl við einhverja aðila, eða virðast hreinlega ekki gera sér grein fyrir tilgangi stjórnarskrárinnar.

Eftir að Púkinn hafði á þennan hátt vinsað burt fjölda einstaklinga voru nokkur nöfn eftir.   Púkinn valdi síðan þá þrjá sem hann ætlar að setja í efstu sætin, en þeir eru:

2853 Þorkell Helgason

_orkellhelgasonsvipan.jpg

 Eitt mikilvægasta mál stjórnlagaþingsins að mati Púkans er að endurskoða kosningafyrirkomulagið - persónukjör og landið sem eitt kjördæmi, takk fyrir - Púkinn er þreyttur á kosningakerfi sem er beinlínis hannað til að sjá til þess að hér séu aðeins 4-5 flokkar.  Púkinn á heldur ekki samleið með neinum sérstökum flokki, en gæti hugsað sér að kjósa fólk úr flestum flokkum.  Púkinn er líka þreyttur á kjördæmapoti - vill þingmenn sem eru fulltrúar allra Íslendinga og hugsa um hagsmuni þjóðarinnar, en ekki bara "sinna" kjósenda.

Þorkell Helgason er sá frambjóðandi sem einna mesta þekkingu hefur á kosningakerfum og skoðanir hans og Púkans fara saman - ef Þorkell nær kjöri verður ekki komist hjá því að hlustað verði á það sem hann hefur að segja og þess vegna vill Púkinn kjósa hann.

Svipan: http://www.svipan.is/?p=13758

DV: http://www.dv.is/stjornlagathing/thorkell-helgason/konnun

 

 

9365 Ómar Ragnarsson

omar.jpgÞað þarf ekki að kynna Ómar og það vita allir hvaða gildi hann stendur fyrir.  Púkinn er svolítið viðrini í stjórnmálum og skilgreinir sig helst sem "hægri-grænan", en hann kaus Íslandshreyfingu Ómars og skammast sín ekki fyrir það.

Púkinn vill sjá auknar áherslu á réttindi borgaranna til betra lífs í stjórnarskránni - hvað varðar umhverfismál og almenn mannréttindi og Ómar er ótrauður baráttumaður á þeim sviðum.  Þess vegna vill Púkinn kjósa hann.

 

 

 

 

 

4096  Svanur Sigurbjörnsson

svanursig-svipan.jpg Púkinn er ekki mikill stuðningsmaður trúarstofnana og er algerlega andvígur forréttindum "þjóðkirkjunnar".  Svanur er einn margra frambjóðenda sem deila þeirri skoðun með Púkanum og þar sem hann hefur líka skynsamlegar skoðanir að öðru leyti vill Púkinn kjósa hann.

DV: http://www.dv.is/stjornlagathing/svanur-sigurbjornsson/konnun

Svipan:  http://www.svipan.is/?p=13692

 

 

 

 

 

 

Það var að sjálfsögðu fjöldi annarra sem lenti á lista Púkans: 

6340 Björn Einarsson, 8309 Áslaug Thorlacius, 4547 Eggert Ólafsson,  4921 Birna Þórðardóttir, 9948 Illugi Jökulsson, 7517 Arnaldur Gylfason, 5196, Þórhildur Þorleifsdóttir, 6208 Sigurður G. Tómasson svo nokkrir séu nefndir - þeirra númer munu verða á listanum - já og ætli Púkinn bæti ekki síðan við í lokin nokkrum fyrrverandi samstarfsmönnum og kunningjum sem eru í framboði.

Efstir á listanum verða samt þeir þrír sem Púkinn taldi upp að ofan.

Svo er bara að bíða og vona.


mbl.is Rúmlega 10 þúsund búin að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er "eðlileg" vanskilaprósenta?

bankrupcy.gifJafnvel á mestu uppgangs- og "góðæris"tímum eru alltaf einhverjir sem fara í þrot, annað hvort vegna óheppni eða rangra ákvarðana.

Í venjulegu árferði er ekkert verið að hugsa um að bjarga þessum hópi, en á þessum erfiðu tímum sem ríkja í þjóðfélaginu heyrast raddir um að það verði að bjarga öllum.

Að mati Púkans er þetta ekki aðeins rangt og óréttlátt, heldur líka hreinlega hættulegt.

Hluti þeirra sem stefna nú í gjaldþrot hefði sennilega endað þar líka þótt hrunið hefði ekki komið til - af hverju ætti að bjarga þeim núna, þegar ekki hefði verið lyft litla fingri til að bjarga fólki í nákvæmlega sömu stöðu á þeim árum þegar allt virtist leika í lyndi?

Aðrir stefna í gjaldþrot fyrst og fremst vegna eigin heimskulegu ákvarðana - fólk eyddi langt um efni fram, tók lán til að borga lán sem það tók til að fjármagna eyðsluna eða fjárfesti í sápukúlum eða öðru álíka gáfulegu. Af hverju ætti þjóðfélagið að bjarga þeim sem bera að öllu leyti ábyrgð á eigin vandræðum?

Svo eru auðvitað þeir sem stefna í gjaldþrot vegna ytri aðstæðna - fólk sem missti eignir sínar þegar bankar og sjóðir hrundu - fólk sem missti vinnuna og hefur jafnvel verið án atvinnu í langan tíma.  Púkinn styður þær aðgerðir sem hjálp þessum hópi - það er fyllilega réttlætanlegt að samfélagið aðstoði þá sem lenda í vandræðum vegna ytri aðstæðna.  Púkinn vill í raun líkja þessu við neyðaraðstoð vegna (efnahagslegra) náttúruhamfara.

Það verður að draga línuna einhvers staðar.   Það er hreinlega ekki hægt að bjaga öllum - það eru aðilar sem munu fara í gjaldþrot sama hvað gerist - spurningin er bara hversu hátt það hlutfall "á" að vera.  10.1% er of hátt....en hvert er "eðlilega" hlutfallið?


mbl.is Yfir 10% heimila í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkingarlaust bull um eignarhald auðlinda

Sumir frambjóðendur til stjórnlagaþings segja að setja eigi í stjórnarskrána klausu um að náttúruauðlindir skuli vera sameign þjóðarinnar.  Að mati Púkans eru þessir aðilar hreinir moðhausar, sem ekkert erindi eiga á þingið.

Þessi frasi "Náttúruauðlindir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar" hljómar svo sem ósköp fallega - svona eins og "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir", en þegar betur er að gáð, er þetta merkingarlaust kjaftæði - innihaldslaus klisja sem á ekkert erindi í stjórnarskrána.

Púkinn var einn þátttakenda á þjóðfundinum og þar heyrðist þessi frasi nokkuð oft, en þeir sem héldu þessu á lofti virtust almennt ekki hafa á hreinu hvað þetta þýddi.

Skoðum nokkur atriði.

  • Hvaða náttúruauðlindir er verið að tala um - allar, eða bara sumar?  Fólk nefnir gjarnan jarðvarma, orku fallvatna og fiskinn í sjónum, en hvað með aðrar náttúruauðlindir?  Í sumarbústaðalandinu mínu vex bláberjalyng - náttúruauðlind sem unnt er að nýta - á berjalyngið mitt að verða sameign þjóðarinnar? Hvað með menn sem hafa ræktað upp skóg, eða sleppt silungi í tjörn sem þeir eiga?  Ef aðeins tilteknar auðlindir eiga að verða "sameign þjóðarinnar", væri þá ekki nær að tilgreina þær sérstaklega heldur en að tala um allar auðlindir almennt?
  • Hvað með auðlindir sem í dag eru sannanlega í einkaeign.  Ef ég ætti t.d. land með jarðvarma sem ég nýtti til að hita upp gróðurhús - ætti þá að taka mína eign af mér og þjóðnýta hana? Hvaða bætur fengi ég? Er fólk að tala fyrir allsherjar Sovét-Íslands þjóðnýtingu allra auðlinda? Ekki gleyma því að 72. grein stjórnarskrárinnar segir "Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir." 
  • Hvað þýðir að eitthvað sé "sameign þjóðarinnar"?  Getur þjóðin sem slík átt eitthvað?  Eiga menn við að íslenska ríkið sé eigandi auðlindanna, eða eiga menn við eitthvað annað - og þá hvað?  Óskýrir slagorðakenndir frasar eiga að mati Púkans ekkert erindi í stjórnarskrána - hún á að vera skýr og ekki rúm fyrir hártoganir og túlkanir sem breytast eftir því hvernig pólitískir vindar blása. 
  • Skiptir eignarréttur á auðlindum einhverju máli?  Púkinn vill bera þetta saman við það sem gilti í gömlu Sovétríkjunum, þegar sagt var að verkamennirnir ættu verksmiðjurnar sem þeir unnu í.  Þeir höfðu að vísu engan möguleika á að ráðstafa þeirri "eign" og nutu ekki arðsins af henni, en þeir "áttu" verksmiðjuna.  Það skiptir nefnilega engu máli hver "á" auðlindina - það skiptir bara máli hver nýtir hana og hver fær arðinn af nýtingunni.

Málið er einfalt - jafnvel þótt í stjórnarskránni væri merkingarlaus klisjukenndur frasi um sameign þjóðarinnar á auðlindunum, þá væri það eftir sem áður hið opinbera sem réði því hverjir nýttu auðlindina og hvert arðurinn af nýtingunni rynni.  Svo dæmi væri tekið, þá myndi svona frasi ekki breyta neinu um kvótakerfi eða möguleika fyrirtækja eins og Geysir Green Energy til að nýta auðlindir hér.  Þjóðin má svosem "eiga" auðlindina, en stjórnvöld ákvarða sem fyrr hver nýtir hana.

Þessi frasi "Náttúruauðlindir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar" myndi nákvæmlega engu breyta.  


mbl.is Eignarhald auðlinda mikilvægasta málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Púkinn vill rafbíl

tesla-model-s-electric-car-photo-ss002.jpgPúkann langar í rafbíl - en ekki svona smábíl eins og borgarstjórinn er á.

 Nei, draumarafbíll Púkans er Tesla-S rafbíllinn - bíll sem lítur út eins og "alvöru" bíll, kemst 480 km á fullri hleðslu og þótt þetta sé ekki ódýrasti bíllinn á svæðinu, þá er rekstrarkostnaðurinn aðeins brot af því sem það kostar að reka bensínbíl.

Já,og svo er reyndar að koma tími til að endurnýja 14 ára gamla Saab bílinn sem Púkinn keyrir venjulega.

Púkinn stökk nefnilega ekki til og endurnýjaði þann bíl á "góðærisárunum", heldur ákvað bara að halda áfram að keyra um á gamla bílnum meðan hann væri vandræðalaus - og það hefur hann verið ár eftir ár eftir ár.

En nú fer bráðum að koma tími á endurnýjun og Púkann langar mikið í svona Tesla bíl um leið og þeir fara í almenna sölu 2012.


mbl.is Kvartar yfir rafbílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband