Skoffín og skuggabaldur?

skoffin_postur.jpgPúkinn veltir fyrir sér hvort einhverjar af þeim þjóðsögum sem eru til um skoffín og skuggabaldra mætti rekja til þess að hingað hafi fyrr á öldum slæðst einn og einn minkur með skipi.

Skoffín og skuggabaldrar áttu að vera grimm dýr, afkvæmi refa og katta - þótt slíkt sé erfðafræðilega útilokað, þá er það spurning hvort lýsingin gæti ekki komið heim við minkinn - grimmur ferfætlingur sem augljóslega var hvorki köttur né refur.


mbl.is Minkur með Norrænu til Færeyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru atvinnuleysisbætur of háar?

10kronurEf munurinn á atvinnuleysisbótum og lágum launum er það lítill að það borgar sig frekar að vera atvinnulaus en að fá sér vinnu, þá er ljóst að eitthvað er ekki í lagi - vinnuletjandi kerfi mun valda öllum skaða til lengdar.

Gallinn er bara sá að það er engin einföld lausn til á vandamálinu.

Að lækka atvinnuleysisbætur myndi tæplega ganga upp - fyrir utan að enginn stjórnmálamaður myndi leggja það til, því slík tillaga jafngilti sennilega pólitísku sjálfsmorði.

Að hækka lágmarkslaunin er heldur ekki lausn - slík hækkun myndi leiða til verri afkomu þeirra fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á láglaunastörfum - þau yrðu þá annað hvort að draga saman seglin (sem myndi senda fleira fólk á atvinnuleysisskrá), eða hækka verð á vörum og þjónustu, sem myndi á endanum leiða til verð- og launahækkanabylgju í gegnum allt þjóðfélagið...en þeir sem væru á atvinnuleysisbótum myndu sitja eftir, í sömu stöðu og ef bætur þeirra hefðu verið lækkaðar.

Púkinn er þeirrar skoðunar að kerfið í heild þurfi endurskoðunar við og í þeirri endurskoðun séu tvö lykilatriði.

Í fyrsta lagi verði að gera meiri kröfur til að fólk sé í virkri atvinnuleit - ef fólk hafnar vinnutilboðum, skerðist atvinnuleysisbætur þeirra sjálfkrafa - þetta myndi ekki hafa áhrif á þá sem eru atvinnulausir vegna þess að engin störf við þeirra hæfi eru í boði á þeirra svæði, en þetta myndi skerða bætur til þeirra sem kjósa að vinna ekki.

Í öðru lagi verður að efla endurmenntun, og gera virka þáttöku í (endurgjaldslausum) endurmenntunarnámskeiðum og slíku að skilyrði fyrir fullum bótum - slíkt myndi líka gera fleirum mögulgt að sækjast eftir betur launuðum störfum.

Við verðum að hafa kerfi sem er vinnuhvetjandi, ekki vinnuletjandi.


mbl.is Þiggja bætur frekar en láglaunastörfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostirnir við Google+

google.jpgPúkinn er frekar hrifinn af Google+, því það leysir á snyrtilegan hátt nokkur helstu vandamál Facebook.

Google+ býður notandanum upp á að skilgreina á mjög þægilegan hátt hópa (hringi) notenda sem þú deilir efni með - eða sem deila efni með þér.  

Ólíkt Facebook, þá er þetta ekki samhverft - þ.e.a.s. Þú getur deilt efni til einhverra án þess að sjá nokkuð af því sem þeir deila - svona svipað Twitter að þessu leyti.

Þegar efni er deilt þá má velja á hvaða hring(i) því er dreift -  en þeir sem taka við efninu hafa líka sína hringi og geta mun auðveldar stýrt því hvað þeir sjá.

Maður situr þess vegna ekki uppi með "vini" sem maður þekkir varla og deila aldrei neinu sem maður hefur áhuga á - það má bara setja þannig fólk í sérstakan hring sem maður skoðar aldrei - eða halda þeim bara utan allra hringja.


mbl.is Segir Google+ ekki hafa neina notendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meingallaður mannréttindakafli

skjaldarmerki.jpgPúkinn hefur frá upphafi haft mikinn áhuga á yfirstandandi endurskoðun á stjórnarskránni og þykir því dapurt hve illa tókst til með einn ákveðinn kafla - mannréttindakaflann sem hefur margvíslega galla, sérstaklega í sumum af þeim nýju greinum sem hefur verið bætt við. 

Þar sem þessi fullyrðing þarfnast nánari rökstuðnings fylgja hér á eftir umræddar greinar ásamt athugasemdum.

Sérhver manneskja hefur meðfæddan rétt til lífs.

Þessi grein gæti valdið vandamálum í framtíðinni, til dæmis varðandi einstaklinga sem haldið er á lífi með tækjabúnaði á sjúkrahúsum, þegar heilastarfsemi er hætt og engin von um bata.  Er það þá stórnarskrárbrot að "slökkva á" viðkomandi?  Hvaða réttindi veitir þessi grein - breytir hún einhverju fyrir einhverja, eða finnst mönnum hún bara hljóma fallega?

Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

Hvað þýðir þessi grein í raun?  Jú jú,  hún hljómar voðalega fallega, svona eins og "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir", en hvaða merkingu hefur þetta í raun?  Þessi grein er ámóta innihaldslaus og stefnuyfirlýsing dæmigerðs stjórnmálaflokks.  

Skoðum til dæmis einstakling sem flestir geta verið sammála um að lifi ekki með reisn - heimilislausan róna eða dópista sem betlar eða stelur sér til framfæris.  Samkvæmt stjórnarskránni á hann "rétt á að lifa með reisn" - en í hverju felst sá réttur - hverju er hann bættari með þessa grein í stjórnarskránni?  Skoðum annað dæmi - fanga sem dæmdur hefur verið fyrir alvarleg brot og er í einangrun í fangelsi.  Er það að "lifa með reisn"?  Ef ekki, er þá verið að brjóta á einhverjum stjórnarskrárvörðum réttindum viðkomandi?

Hvaða tilgangi þjónar þessi grein eiginlega?  Púkinn fær einfaldlega ekki séð að nokkuð gagn sé að henni.

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Það eru margir gallar við þessa grein.  Sá fyrsti er málfarið - "Öll erum við.."  er í ósamræmi við allar aðrar greinar stjórnarskrárinnar - til að gæta samræmis þyrfti orðalagið að vera "Allir eru...".

Síðan er þessi grein einfaldlega röng - við erum ekki öll jöfn fyrir lögum - það má t.d. vísa í 49. grein stjórnarskrárinnar um friðhelgi alþingismanna, eða 84. grein um friðhelgi forseta - með því að segja að allir séu jafnir fyrir lögum er stjórnarskráin því í vissri mótsögn við sjálfa sig.

Stærsti galli greinarinnar er hins vegar sá að ekki er ljóst hvaða "mannréttindi" um er að ræða.  Svona grein býður heim endalausu þrasi í framtíðinni um hvort tiltekin mismunun feli í sér brot á mannréttindum eða ekki.

Að auki er það einfaldlega þannig að flestir telja ákveðna mismunun eðlilega, jafnvel þótt hún sé vegna einhverra þeirra þátta sem sérstaklega eru taldir upp að ofan - sem dæmi má nefna aldursbundin réttindi, eins og að mega taka bílpróf eða kaupa áfengi - það er ekki öll mismunun mannréttindabrot.

Síðan er enn ein spurning hvaða aðrir þættir teljast sambærilegir við þá sem taldir eru upp.   Má til dæmis mismuna fólki vegna háralitar, blóðflokks, menntunar, starfsreynslu eða getu að öðru leyti?

Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.

Púkanum finnst þetta skrýtin grein að mörgu leyti.  Tilvísunin í "netið" viðrist ef til vill eðlileg í dag, en myndi okkur ekki þykja frekar hlálegt ef í núverandi stjórnarskrá væri klausa um að ekki mætti skerða aðgang landsmanna að ritsímanum (sem var jú nýleg og merkileg tækni fyrir 100 árum síðan) - hver veit hvað verður komið í stað netsins eftir önnur 100 ár - viljum við hafa klausu í stjórnarskránni sem vísar í tiltekna tækni sem gæti orðið úrelt löngu á undan stjórnarskránni?

Sáðn er það spurning um "skerðingu" aðgangs. Í dag er aðgangur skertur á margan hátt.  Fyrirtæki, stofnanir og skólar skerða aðgang að klámefni og ólöglegu eða vafasömu efni á margan hátt - sumir foreldrar skerða aðgang barna sinna með tímatakmörkunum eða á aðra vegu - er slík skerðing stjórnarskrárbrot? Ef svo er, þá er þessi grein verri en gagnslaus.

Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

Þetta er frekar gagnslaus grein, því ljóst er að öll lög sem sett væru myndu fela í sér margvíslegar takmarkanir á "frelsi vísinda, fræða og lista" - það má ekki framkvæma hvað sem er í nafni vísinda - vísindin geta aldrei orðið (og eiga ekki að vera) fullkomlega frjáls og ábyrgðarlaus - og sama gildir um listina.  Hvaða tilgangi þjónar þá þessi grein?  Væri einhver akaði að því að fella hana burt?


mbl.is Stjórnarskrárfrumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsæriskenning um fasteignamarkaðinn

Púkinn heyrði nýlega kenningu sem átti að útskýra hvers vegna fasteignaverð hefur ekki fallið meira en það hefur gert. 

Ástæðan, sagði nafnlausi heimildarmaðurinn, er sú að bankarnir eru á skipulagðan hátt að halda fasteignaverðinu uppi þangað til allir sem geta hafa samþykkt 110%-leiðina - þá, en ekki fyrr, má leyfa verðinu að falla.

Þangað til það hefur gerst sitja bankarnir á þeim fasteignum sem þeir eiga - ef þær færu á markaðinn myndi fasteignaverð lækka almennt.  Að auki stunda bankarnir fasteignaviðskipti milli fyrirtækja sem þeir stjórna - en á hærra verði en teljast má eðlilegt.

Er eitthvað til í þessu?   Púkinn er ekki viss - en víst er að bankarnir sitja uppi með mikið af fasteignum og fasteignatryggðum lánum ... verðfall myndi koma þeim illa.

 


mbl.is Enn líf í fasteignamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki lengur bara fyrir læknadætur...

cervarix.jpgPúkinn fagnar því að þessar bóluseningar séu nú að verða almennar.  Þetta bóluefni hefur að vísu verið í boði hérlendis í nokkur ár og allmargir foreldrar (þar á meðal Púkinn og frú Púki) hafa sent dætur sínar í bólusetningu um 12 ára aldurinn.

Púkanum var hins vegar sagt að flestar þærr stúlkur sem hafa fengið þetta bóluefni undanvarin ár hafi verið læknadætur - sem er í sjálfu sér ekki skrýtið - það má gera ráð fyrir því að foreldrar þeirra séu almennt meðvitaðri um hættuna af HPV og ávinninginn af bólusetningunni.

Þessar bólusetningar hafa hins vegar verið dýrar, en nú verður hins vegar breyting á fyrirkomulaginu og foreldrar þurfa ekki lengur að greiða kostnaðinn úr eigin vasa- þetta verður fyrir alla - ekki bara suma.

Gott mál.


mbl.is „Stúlkur hefja kynlíf 13 ára“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég myndi líka þiggja að fá 210 krónur fyrir hverja evru

euro_1001505.jpgSeðlabankinn borgar þessum aðilum 210 krónur fyrir hverja evru, meðan útflutningsfyrirtækjum er skylt að selja allar þær evrur sem þau afla á allt öðrum og miklu verri kjörum.  Ég myndi alveg þiggja að geta selt mínar evrur á þessu gengi - en nei - það stendur ekki til boða.

Markaðurinn segir hins vegar að krónan okkar sé ekki meira virði en þetta - en gjaldeyrishöftin eru notuð til að halda uppi hinu falska, opinbera gengi.


mbl.is Borgaði 210 krónur fyrir evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóbak, khat og önnur fíkniefni

380px-rational_scale_to_assess_the_harm_of_drugs_mean_physical_harm_and_mean_dependence_svg.pngÞað er næsta víst að ef á vesturlöndum væri ekki hefð fyrir neyslu tóbaks og það væri fyrst að berast hingað núna, þá væri það umsvifalaust flokkað sem hættulegt fíkniefni og við sæjum sennilega í blöðunum fréttir um að tóbakssmyglarar hefðu verið gripnir og þeirra biði fangelsi fyrir fíkniefnasmygl, en á sama tíma væri allt í góðu gengi hjá ÁKVR, Áfengis og Khat verslun ríkisins.

Það er nefnilega þannig að vegna sögulegs slyss er tóbak þolað í okkar þjóðfélagi, en önnur fíkniefni (sem jafnvel eru minna skaðleg eða minna vanabindandi) eru bönnuð.

Púkinn er alls ekki að leggja til að sala á þeim efnum verði leyfð, heldur að minna á að að það eru í raun engar áðstæður aðrar en hefð fyrir því að leyfa tóbak yfirhöfuð.

Púkans vegna mætti gjarnan banna tóbak alfarið, en veita samt skráðum tóbaksfíklum einhvern aðlögunartím.  Hugmyndin um að selja tóbak í apótekum höfðar hins vegar ekki til Púkans - svona vara á ekki heima þar.


mbl.is „Heimskulegt frumvarp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um málfarið á mbl.is

Það liggur við að Púkinn fái verki við að lesa sumar fréttir á mbl.is.  Skoðum til dæmis eftirfarandi texta:

Gengi bréf Nokia hrynur

Gengi hlutabréfa finnska farsímaframleiðandans lækkuðu um 18% í kauphöllinni í Helsinki í gær eftir að félagið tilkynnti, að rekstarmarkmið, sem sett voru fyrir þetta ár, myndu ekki nást.

Það þarf sérstaka hæfileika til að gera jafn margar villur í þetta stuttum texta - villur í beygingum orða og í kommusetningu - eru svona textar samdir af grunnskólanemendum sem féllu í íslensku eða eru bara engar kröfur gerðar til starfsmanna mbl.is um vandvirkni?

Þetta er auðvitað ekki einsdæmi, en virðist heldur hafa farið vaxandi á undanförnum árum - og nú er kominn sérstakur hópur fyrir áhugafólk um illa skrifaðar fréttir.


mbl.is Gengi bréfa Nokia hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaupptaka eða merkingarlaust bull?

Púkinn er ákaflega ósáttur við þá hugmynd að setja í stjórnarskrána klausu um að "náttúruauðlindir Íslands eigi að vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar".  

Ástæðan er einfaldlega sú að þetta er ekkert annað en klisja sem hljómar fallega, en er í rauninni merkingarlaus.

Púkinn vill því ítreka það sem hann hefur sagt áður:

  • Hvaða náttúruauðlindir er verið að tala um - allar, eða bara sumar?  Fólk nefnir gjarnan jarðvarma, orku fallvatna og fiskinn í sjónum, en hvað með aðrar náttúruauðlindir?  Hvað með vatnsból, malarnámur, æðarvarp, rekavið, laxveiði í ám, eggjatekju og önnur hlunnindi? Í sumarbústaðarlandinu mínu vex bláberjalyng - náttúruauðlind sem unnt er að nýta - á berjalyngið mitt að verða sameign þjóðarinnar? Hvað með menn sem hafa ræktað upp skóg, eða sleppt silungi í tjörn sem þeir eiga?  Ef aðeins tilteknar auðlindir eiga að verða "sameign þjóðarinnar", væri þá ekki nær að tilgreina þær sérstaklega heldur en að tala um allar auðlindir almennt?  Ef allar auðlindir eigna að verða sameign þjóðarinnar þá er hins vegar um að ræða stórfellda eignaupptöku.
  • Hvað með auðlindir sem í dag eru sannanlega í einkaeign.  Ef ég ætti t.d. land með jarðvarma sem ég nýtti til að hita upp gróðurhús - ætti þá að taka mína eign af mér og þjóðnýta hana? Hvaða bætur fengi ég? Er fólk að tala fyrir allsherjar Sovét-Íslands þjóðnýtingu allra auðlinda? Ekki gleyma því að 72. grein stjórnarskrárinnar segir "Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir." 
  • Hvað þýðir að eitthvað sé "sameign þjóðarinnar"?  Getur þjóðin sem slík átt eitthvað?  Eiga menn við að íslenska ríkið sé eigandi auðlindanna, eða eiga menn við eitthvað annað - og þá hvað? "Einkaeign" og "Ríkiseign" eru vel skilgreind hugtök, en "Sameign þjóðarinnar" er það ekki - hvað þýðir þessi frasi eiginlega?

Heldur einhver í alvöru að svona frasi myndi koma í veg fyrir að auðlindir séu nýttar af erlendum aðilum?  Ef ríkið hefur tekið yfir auðlindina, þá getur það leigt hana hverjum sem er.  Það skiptir nefnilega engu máli hver "á" auðlindina - heldur hver nýtir hana og hirðir arðinn af henni.  Jafnvel þótt svona ákvæði væri inni í stjórnarskránni gætu stjórnvöld eftir sem áður ákveðið að veita fyrirtækjum í erlendri eigu rétt til að nýta auðlindina.  Púkinn vill bera þetta saman við það sem gilti í gömlu Sovétríkjunum, þegar sagt var að verkamennirnir ættu verksmiðjurnar sem þeir unnu í.  Þeir höfðu að vísu engan möguleika á að ráðstafa þeirri "eign" og nutu ekki arðsins af henni, en þeir "áttu" verksmiðjuna.

Heldur einhver í alvöru að svona frasi myndi breyta einhverju um kvótakerfið?  Ég minni að fyrsta grein í núverandi fiskveiðistjórnarlögum hefst á orðunum "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar."  Allir vita hvernig sú sameign þjóðarinnar virkar í raun.  Er einhver ásæða til að ætla að svona klausa í stjórnarskrána myndi virka eitthvað öðruvísi?


mbl.is Ævarandi eign þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband