Hugleiðingar um forgangsröðun Samfylkingarinnar

samfylkingin.pngPúkanum finnst það dapurlegt að sumir ráðamanna þjóðarinnar skuli telja ESB umsóknina mikilvægasta málið í íslensku þjóðlífi. 

Púkanum finnst það jafnvel enn dapurlegra að stór hluti þjóðarinnar skuli hafa kosið svona ráðamenn yfir sig, en, eins og Lao Tzu sagði - "Sérhver þjóð fær þá ráðamenn sem hún á skilið".

Þetta ætti samt ekki að koma neinum á óvart - hér um árið þegar allt var að fara í kaldakol virtist Ingibjörg Sólrún jú telja mikilvægast að koma íslandi inn í Öryggisráðið - skítt með allt annað.

Já - það er eitthvað skrýtið við forgangsröðun Samfylkingarinnar.


mbl.is „Heilladagur fyrir Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kemur í staðinn fyrir gengistrygginguna?

euro_1001505.jpgMargir virðast trúa því að gengistryggðu lánunum verði breytt þannig að gengistryggingin verði bara felld niður og eftir standi óverðtryggð lán með 2-3% vöxtum, sem verðbólgan muni éta upp.

Púkinn telur þetta tæplega raunhæfar væntingar.

Lögfræðingar lánafyrirtækjanna munu væntanlega vísa til þess að heimilt er að breyta samningum eftirá séu þeir augljóslega ósanngjarnir og einföld niðurfelling gengisbindingarinnar væri augljóslega ósanngjörn fyrir lánveitandann, þar sem lántakandinn myndi ekki einu sinni endurgreiða raunverðmæti lánsins.

Það er hins vegar ekki alveg svo einfalt að lánafyrirtækin geti einhliða breytt skilmálunum en Alþingi getur hins vegar sett lög um hvað skuli koma í stað gengisbindingarinnar.

Alþingi er hins vegar milli steins og sleggju.  Verði lánunum t.d. breytt í óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, eða verðtryggð lán (miðað við íslenska vísitölu),  með föstum vöxtum ofaná, munu margir lántakendur uppgötva að staða þeirra batnar í raun lítið (og háð því hvenær lánið var tekið og til hversu langs tíma, gætu jafnvel einhverjir tapað á breytingunni). Stjórnvöld myndu verða sökuð um að ganga erinda fjármálafyrirtækjanna og mörg málaferli gætu farið af stað.

Geri Alþingi ekkert mun mikil óvissa verða ríkjandi mánuðum saman og stjórnvöld sökuð um að sinna ekki skyldu sinni.

Láti Alþingi hins vegar lánin standa óverðtryggð með lágum vöxtum munu þýsku bankarnir og aðrir þeir sem lánuðu fjármögnunarfyrirtækjunum væntanlega höfða skaðabótamál.  Það mun einnig koma upp óánægja hjá þeim sem gerðu sér grein fyrir áhættunni við að taka gengisbundin lán, en héldu sig við venjuleg verðtryggð lán í íslenskum krónum.

Fólkið sem sýndi varkárni og forðaðist þá fáránlegu áhættu sem fólst í því að taka gengisbundin lán yrði allt í einu í mun verri stöðu en þeir sem tóku áhættuna - þessi hópur myndi væntanlega krefjast leiðréttinga á sínum málum.

Púkinn spáir því langvinnum málarekstri og að þegar upp verður staðið verði það aðallega lögfræðingarnir sem muni græða á þessu öllu saman.


mbl.is Sleppa ekki frá skuldunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Púkinn var aðeins að velta fyrir sér þessu nýsköpunarstuðningsfrumvarpi og sýnist það meingallað.

Það er rætt um að að þessi fyrirtæki fái endurgreiddan skatt sem svarar til 15% af rannsóknar- og þróunarkostnaði á bilinu 20-50Mkr.

Það eru tveir stórir gallar á þessu.  Í fyrsta lagi eru mörg þeirra nýsköpunarfyrirtæki sem helst þurfa á stuðningi að halda ekki farin að skila hagnaði og greiða því ekki tekjuskatt.  Þá verður ekki um neina endurgreiðslu af greiddum skatti að ræða.

Hinn gallinn er sá hve upphæðirnar eru lágar.  Sé fyrirtæki með a.m.k 50.000.000 í rannsóknar- og þróunarkostnað, þá fær fyrirtækið endurgreiddar heilar 7.500.000 krónur, sem eru rúmlega ein þokkaleg árslaun, með launatengdum kostnaði og tilheyrandi.

Á móti kemur sá kostnaður sem fyrirtækið þarf að leggja í vegna skriffinnsku og utanumhalds, en ekki er alveg ljóst hversu umfangsmikið það verður.

Niðurstaðan er semsagt sú að fyrirtæki sem eru búin að hasla sér völl og farin að skila sæmilegum hagnaði fá endurgreiddan hluta af launakostnaði eins starfsmanns, en aðrir fá ekki neitt.

Vá...

Eða er Púkinn að misskilja eitthvað?

 

 

 

 


mbl.is Sprotafrumvarp væntanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kröftug inngrip Seðlabanka"

Frasinn "Kröftug inngrip Seðlabanka" hljómar vel - það er eitthvað sterklegt og traust við þann frasa.

Þetta hljómar mun betur en að segja "Seðlabankinn sólundaði í dag X milljörðum af erlendum gjaldeyri í örvæntingarfullri tilraun til að halda uppi fölsku gengi krónunnar."

Já, það er gott að hafa ímyndina í lagi.


mbl.is Komið í veg fyrir fall krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslaust "persónukjör"

voteboxPúkinn er þeirrar skoðunar að frumvarpið um persónukjör standi í raun ekki undir nafni.  Fólk er nefnilega eftir sem áður neytt til að kjósa lista, ekki persónur, þótt vissulega séu möguleikar til að hafa áhrif á hvaða einstaklingar séu kosnir innan listans.

Þeir möguleikar voru hins vegar líka til staðar áður -  kjósendur gátu beitt útstrikunum og endurröðun, þannig að Púkinn fær ekki séð að þetta frumvarp hafi neina grundvallarbreytingu í för með sér.

 Nei, það sem Púkinn vill er raunverulegt persónukjör þar sem kjósendur eru ekki bundnir af listum, heldur geta kosið þá sem þeir treysta best - óháð því hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra.

Það væri raunverulegt persónukjör - ekki þessi tilgangslausi málamyndaóskapnaður sem verið er að bjóða fólki upp á núna.


mbl.is Persónukjör forgangsmál á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga til lausnar á vanda (sumra) heimila

Það eru engar töfralausnir til.  Það er hins vegar hægt að koma með lausnir sem myndu leysa úr vanda margra, án þess að kosta of mikið, eða bitna á öðrum þegnum þjóðfélagsins.

Púkinn vill leyfa sér að koma með eftirfarandi tillögu:

  • Sumir gerðu þau mistök að festa kaup á nýrri fasteign áður en þeir voru búnir að selja þá gömlu og sitja nú upp með tvær eignir eftir að fasteignamarkaðurinn fraus.  Vanda þeirra má að hluta leysa með fasteignafélagi í eigu lífeyrissjóða eða hins opinbera sem myndi kaupa aðra eignina á raunhæfu verði með það í huga að leigja hana út eða selja hana eftir nokkur ár þegar fasteignamarkaðurinn tekur við sér.  Til að hindra misnotkun yrða að takmarka þetta úrræði við íbúðarhúsnæði í eigu fjölskyldna - ekki skúffueignarhaldfélaga.
  • Ef fjölskylda á aðeins eina fasteign og afborganir af áhvílandi lánum eru orðnar henni um megn má útfæra þetta þannig að fasteignin renni til fasteignafélags, en áhvílandi skuldir umfram verðmæti fasteignarinnar verði felldar niður.  Fólk fengi síðan rétt til að búa áfram í húsnæðinu gegn greiðslu sanngjarnrar leigu.
Þetta eru raunhæfar leiðir - ólíkt hugmyndum um 20% niðurfellingu skulda eða annað í þeim dúr.
mbl.is Er lausnin fólgin í fasteignafélögum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstefna...en bara hluta götunnar

Púkanum fannst þetta einstefnumál í Frakklandi svolítið skondið með tilliti til þess sem var að gerast við þá götu sem fyrirtæki Púkans stendur við.

Í gær var nefnilega miðhluti götunnar gerður að einstefnugötu.   Norður- og suðurendi götunnar er áfram tvístefnugata, en á kafla í miðjunni var gatan gerð einstefnugata (þannig að þeir sem villast inn í götuna að sunnan verða að gjöra svo vel að taka U-beygju á miðri götu)

Það sem Púkanum finnst hinsvegar furðulegra er að þetta var gert án þess að láta íbúa götunnar vita, án þess að hafa samráð við þá og án þess að gefa þeim kost á að andmæla.

Þessi breyting hefur að sjálfsögðu óþægindi í för með sér, og verður andmælt, en það er augljóslega ekki bara í París sem borgaryfirvöld taka upp á undarlegum hlutum varðandi einstefnu.


mbl.is Einstefna í báðar áttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílalán í erlendri mynt - heimska eða vítavert athæfi?

Sparsemi og þolinmæði virðast sjaldgæfir eiginleikar meðal Íslendinga.  Þeir þóttu skrýtnir árið 2007 sem vildu spara sér fyrir bíl, staðgreiða hann, aka á honum skuldlausum frá fyrsta degi - og láta hann endast í 10 ár eða meir.

Nei, stór hluti þjóðarinnar vildi það nýjasta og það besta...og vildi það strax.  Bíl núna...borga seinna.

Fólki var boðið upp á "hagstæð" gengisbundin lán til að fjármagna bílakaupin, en fáir hlustuðu á þá sem vöruðu við og sögðu slík lán vera hreina heimsku, nema fyrir þá sem hefðu tekjur í erlendum gjaldeyri.

Margir tóku þessi lán á þeim tíma þegar ljóst var að krónan var allt, allt of hátt skráð.  Það var engin spurning um hvort gengi krónunnar myndi falla hressilega - spurningin var bara hvenær hún félli og hversu mikið.

Sumir þeirra sem tóku þessi lán gerðu sér grein fyrir gengisáhættunni, en litu svo á að jafnvel þótt gengið félli um 15%, þá væru þeir samt betur staddir en ef þeir hefðu tekið lán í íslenskum krónum á miklu hærri vöxtum.  Aðrir virðast hreinlega ekki hafa gert sér grein fyrir hættunni, eða ekki trúað því að krónan gæti fallið um 30-40-50%.

Það er hins vegar sennilegt að margir aðilar innan bankakerfisins hafi gert sér grein fyrir hættunni - sérstaklega seinni hluta ársins 2007 og síðar, þegar ljóst var hvert stefndi. Samt héldu bankarnir og fjármögnunarfyrirtækin áfram að bjóða þessi lán.

Púkinn er þeirrar skoðunar að í mörgum tilvikum þá hafi þessir aðilar verið að nýta sér vanþekkingu fólks á áhættunni -  og héldu áfram að bjóða upp á lán án þess að vara við því að líkurnar væru að aukast á því að greiðslubyrðin af láninu gætu snaraukist.

Það er hins vegar ekki bara við bankana að sakast.  Hluti ábyrgðarinnar liggur líka hjá öllum þeim sem tóku þessi lán, í stað þess að láta gamla bílinn duga aðeins lengur og spara fyrir nýjum bíl á meðan.


mbl.is Allt að 12 milljón króna bílalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað standa íslensk börn sig illa!

Púkinn er ekki hissa á því að námsárangur íslenskra barna sé slakur og þá sérstaklega í í náttúruvísindum og stærðfræði.

Það er jafnvel þannig að Púkinn furðar sig á því hvað árangurinn er góður, þrátt fyrir þær aðstæður sem hér ríkja.

Púkinn á dóttur sem nú er að hefja nám í 9. bekk grunnskóla. Púkinn hefur undanfarin ár skoðað það námsefni sem notað er og verður nú að viðurkenna að hann er ekki sáttur við það.

Skoðum fyrst náttúruvísindanámið, sem virðist fela í sér páfagaukalærdóm á atriðum úr líffræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði, án áherslu á að nemendur raunverulega skilji samhengi hlutanna.  Námsbækurnar í náttúrufræði eru reyndar ekki alslæmar (þrátt fyrir nokkrar staðreyndavillur) og gera ráð fyrir því að nemendur framkvæmi ýmsar einfaldar tilraunir.

Slíkar tilraunir ættu að öllu jöfnu að auka áhuga nemendanna á námsefninu - ef þær væru framkvæmdar, en það er vandamálið.   Á síðasta námsári var t.d. öllum tilraunum í efnafræði sleppt, því skólinn taldi sig ekki hafa efni á því... "Efnin eru uppurin og engir peningar til að kaupa meira".

Ástandið í náttúruvísindum er samt til fyrirmyndar miðað við það sem boðið er upp á í stærðfræði.  Þar virðist markmiðið að drepa fyrst niður allan stærðfræðiáhuga nemenda með svokallaðri "uppgötvanastærðfræði" -sem byggir á því að leyfa nemendum að "þróa sínar eigin aðferðir", í stað þess að læra leiðir sem vitað er að virka...og skítt með það þó að nemendur "þrói aðferðir" sem leiða þau fyrr eða síðar í algerar blindgötur.  Síðan tekur hefðbundnara námsefni við - efni sem er meingallað á marga vegu, en getur þó gengið - svo framarlega sem kennararnir séu starfi sínu vaxnir.  Það er síðan allt önnur spurning hvort fólk með brennandi áhuga og þekkingu á stærðfræði fer nokkuð út í kennslu - Púkanum þykir sennilegra að sá hópur leiti í betur launuð störf.

Það er nefnilega vandamál að kennarar njóta ekki virðingar hér á Íslandi - þetta er illa launað starf og litlar kröfur gerðar til þeirra sem leggja það fyrir sig - það eru að vísu margir frábærir kennarar hér á landi, en inn á milli eru skussar með takmarkaða þekkingu og áhuga á því efni sem þeir kenna ... og það er engin leið til að losna við þá úr stéttinni.

Púkinn hefur áður sagt að hann vill stórbæta kjör kennara, en um leið gera auknar kröfur til þeirra. 

Staðan núna er nefnilega sú að eigi grunnskólanemendur að ná góðum árangri í greinum eins og náttúrufræði og stærðfræði verða þeir annað hvort að tileinka sér námsefnið utan skólans, eða eiga foreldra sem geta kennt efnið svo vel sé - skólinn virðist ekki fær um að gera það.

Púkinn vill nú samt bæta því við í lokin að lélegt námsefni og misgóðir kennarar eru ekki eina ástæðan fyrir lélegum námsárangri - það sem mætti setja efst á listann er almennt agaleysi í skólum landsins, en það er efni í aðra blogggrein.


mbl.is Ísland undir meðaltali OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn stórskaðar Ísland

En hvað það væri nú gaman ef formaður Sjálfstæðisflokksins myndi viðurkenna ábyrgð flokksins á því hvernig staða Íslands er í dag...

...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa (ásamt Framsóknarflokkinum) klúðrað einkavæðingu bankanna gersamlega.

...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa ekki lögleitt regluverk sem hélt aftur af fjárglæframönnunum,á þeim tíma þegar flokkurinn var leiðandi í stjórn landsins.

...viðurkenna að flokkurinn brást gersamlega (ásamt Samfylkingunni) á þeim tímapunkti þegar allt hrundi.

 Já, það væri gaman ef menn gætu viðurkennt hvar stór hluti ábyrgðarinnar liggur.


mbl.is Stórskaðar hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband