Bloggaragræðgi

Púkinn er svolítill fýlupúki í dag.  Það sem pirrar hann er sú árátta sumra bloggara að troða greinum sínum í flokka þar sem þær eiga alls ekki heima.

Það eru ákveðnir flokkar sem Púkinn forðast - má þar á meðal nefna "Enski boltinn", "Íþróttir" og "Ljóð".  Hins vegar eru aðrir flokkar þar sem hann les nánast hverja grein - "Tölvur og tækni" og "Vísindi og fræði" eru þar á meðal.

Sumir bloggarar hafa hins vegar þann leiða ósið að troða greinunum sínum í fjölda flokka þar sem þær eiga alls ekki heima - ef menn skoða til dæmis flokk eins og "Matur og drykkur" má sjá þar fjölda greina sem snúast ekki á neinn hátt um mat og drykk.

Afleiðingin af þessu er sá að erfiðara og seinlegra er að finna þær greinar sem raunverulega tilheyra þeim flokkum sem þær eru settar í.

Ástæða þessarar hegðunar er væntanlega hrein bloggarargræðgi - fólk vill að sem flestir lesi greinarnar þeirra, en kærir sig kollótt um þau áhrif sem þetta hefur á bloggið sem heild.

Hver er lausnin - ætti að setja takmörk við t.d. 3-4 aukaflokka?  Eru einhverjar greinar þess eðlis að þær eigi heima í 10 eða fleiri flokkum? 


Hnefatafl

hnefataflPúkinn er mikill áhugamaður um spil af ýmsum gerðum og á sennilega eitt stærsta safn borðspila hérlendis. 

Eitt er það spil sem hefur lengi heillað Púkann en það er hnefataflið sem var spilað hér á landi uns skáklistin barst hingað.

Reglurnar um hnefataflið eru að vísu ekki algerlega ljósar, en þó hefur mönnum tekist að komat að nokkuð sennilegri niðurstöðu um þær. 

Lykilatriðið hvað það varðar var lýsing í dagbók grasafræðingsins Carl von Línné frá ferð hans til Lapplands árið 1732, en þar rakst hann á tvo gamla menn sem voru að spila tablut. Einnig fannst handrit frá Wales, skrifað 1587 sem lýsti spilinu tawl-bwrdd.  Með samanburði þessara tveggja heimilda og tilraunum, hafa menn fengið spil sem er vel spilahæft.

Púkinn mælir með hnefatafli fyrir alla spilaáhugamenn.


Microsoft "öryggi" ?

story.billgates.apPúkinn getur ekki annað en glott þegar hann rifjar upp orð Bill Gates um að öryggismál skyldu verða sett í forgang hjá Microsoft.

Síðan sú yfirlýsing var gefin út hefur hver öryggisuppfærslan rekið aðra og virðist svo sem þetta blessaða stýrikerfi sé götóttara en nokkur svissneskur ostur.

Nýjasta stýrikerfi Microsoft, Vista hefur verið lýst sem "öruggara" en XP, en allir sem hafa fylgst með afrekaskrá Microsoft á þessu sviði leggja takmarkaðan trúnað á þær yfirlýsingar, þannig að það kæmi Púkanum ekki á óvart að sjá sambærilegan fjölda öryggisuppfærslna fyrir það í framtíðinni.

Staðreyndin er sú að það eru fjölmennir hópar sem vinna sleitulaust við að semja hugbúnað til að brjótast inn í tölvur saklausra notenda.  Þeir nota fjölmargar aðferðir og þótt sumar þeirra megi fyrirbyggja með því að setja inn öryggisuppfærslur eins og þær sem hér um ræðir, þá er samt alltaf eftir mannlegi þátturinn, sem er veikasti hlekkurinn.

Púkinn vill því minna á eftirfarandi leiðir til að auka öryggi tölvunotenda:

  • Linux og Macintosh notendur eru öruggari en Windows notendur - ekki endilega af því að stýrikerfin séu öruggari heldur af því að árásunum er fyrst og fremst beint að Windows.
  • Öruggara er að nota Firefox en Microsoft Internet Explorer, a.m.k. ef menn eru að nota XP eða eldri stýrikerfi.  Þetta gæti hafa breyst með Vista.
  • Aldrei opna viðhengi í tölvupósti nema þú vitir nákvæmlega hvað þau innihalda.  Þetta á líka við ef tölvupósturinn virðist koma frá einhverjum sem þú þekkir - því póstfang sendanda gæti verið falsað.
  • Settu up "Popup-blocker"
  • Settu upp veiruvörn.
  • Settu upp eldvegg. 
  • Settu upp hugbúnað til að leita að "Adware" og öðrum óæskilegum hugbúnaði.


mbl.is Microsoft gefur út uppfærslu við 20 öryggisgöllum á Windows
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stytting menntaskólanáms

"..stefnt að því að þeir nemendur sem það geta og vilja geti lokið námi á 2-3 árum..." Þetta er í sjálfu sér gott og blessað, en bara ekkert nýtt.

Þeir nemendur sem það vilja og geta hafa átt þess kost í fjölda ára að ljúka námi á styttri tíma en aðrir.  Þegar Púkinn var sjálfur í menntaskóla fyrir aldarfjórðungi síðan var í boði möguleiki að ljúka menntaskólanámi á 5 önnum, eða tveimur og hálfu ári.  Púkinn nýtti sér einmitt þann möguleika og væntanlega einhverjir fleiri.  Að auki hafa allmargir nemendur lokið námi á þremur árum í þeim menntaskólum sem bjóða upp á áfangakerfi.hradbraut

Nú síðustu árun hefur Menntaskólinn Hraðbraut boðið upp á stúdentsnám á tveimur árum fyrir þá sem það  "geta og vilja".  Það geta ekki allir lokið námi á þessum hraða, en Púkinn er eindregið hlyntur auknum sveigjanleika í þessum málum.

Púkinn veltir því hins vegar fyrir sér hvort ætlunin sé að þvinga þá menntaskóla sem hafa boðið upp á "hefðbundið" bekkjarkerfi til að taka upp áfangakerfi í einni eða annarri mynd, enda er mun auðveldara að auka sveigjanleikann í áfangakerfi.

Það er einnig mjög jákvætt að horfið skuli hafa verið frá þeirri hugmynd að stytta allt menntaskólanám samtímis um eitt ár, því það hefði geta leitt til meiri fjölda nýstúdenta en háskólarnir réðu við.

 


mbl.is Segir hættu sem steðjaði að framhaldsskólum liðna hjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leðurólar og sveittir, naktir karlmenn

lupercaliaBlóma, konfekt- og hjálpartækjasalar fagna væntanlega auknum vinsældum Valentínusardagsins á Íslandi.

Púkinn er nú sjálfur frekar hlyntur hinum íslensku konu- og bóndadögum, en í tilefni Valentínusardagsins finnst Púkanum viðeigandi að rifja upp uppruna hans.

Í Róm var til forna haldinn hátíðlegur hin svonefnda Lupercalia hátíð 15. febrúar, en tilgangur hennar var að bægja frá illum öndum og tryggja frjósemi.

Þessi hátíð fólst í því að tveimur geithöfrum og hundi var slátrað, og blóði þeirra síðan smurt á unga karlmenn.  Síðan voru ólar skornar úr skinni geitanna og karlmennirnir hlupu naktir um götur borgarinnar, sveiflandi ólunum.

Konur og stúlkur stilltu sér upp meðfram hlaupaleiðinni og reyndu að verða fyrir höggum ólanna, en það átti að tryggja frjósemi.

Púkinn ætlar ekkert að fullyrða um hvort það að vera slegnar með skinnólum af blóðugum, nöktum og sveittum karlmönnum hefur örvandi áhrif á konur, en svo mikið er víst að hátíðin lifði allt til ársisns 494 í Róm.

Árið 496 var Valentínusardagurinn tekinn upp þann 14. febrúar og leðurólunum var skipt út fyrir blóm og konfekt - að minnsta kosti í flestum tilvikum.

Púkinn lætur öðrum eftir að meta það hvort sveittu, nöktu karlmennirnir hafi horfið líka. 


Ritskoðun á Netinu

censorship3Það er ljóst að þeir Norðmenn sem standa á bak við þetta eru hreinlega fáfróðir um eðli Netsins.  Jafnvel þótt þessar hugmyndir kæmust í framkvæmd,  þá væru þær dæmdar til að mistakast.

Ástæður þess eru margvíslegar, en benda má á að þrátt fyrir að kínversk stjórnvöld hafi reynt á marga vegu að takmarka aðgang þegna sinna að "óæskilegu" efni á Netinu þá hafa menn þar fundið fjólmargar leiðir fram hjá þeim hindrunum.

Það má fá forrit sem ætluð eru til að takmarka aðgang notenda að vafasömu efni, en staðreyndin er hins vegar sú að þau virka bara ekki sem skyldi.   Annað hvort er auðvelt að komast fram hjá þeim, eða þau forrit loka á svo mikið magn efnis að ástæðulausu að notin af netsambandinu minnka verulega.

Ritskoðun er dæmd til að mistakast, og gildir þá einu hvort um er að ræða hefðbundna ritskoðun í löndum eins og Sádi-Arabíu, þar sem myndir af krossum og greinar um Ísraelsríki eru klipptar út úr þeim tölublöðum af Newsweek sem berast til landsins, nú eða þá þessar hugmyndir um ritskoðun á netinu.

Meðan eftirspurn er eftir "óæskilegu" efni munu menn finna leiðir til að nálgast það. 


mbl.is Nefnd um tölvuglæpi vill ritskoða alla netumferð í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vitræn" hönnun

bush_intelligent_designPúkinn lenti einu sinni í rökræðum við aðila sem trúði á "vitræna hönnun", en sá endurtók öll þessi venjulegu "rök" eins og "hálft auga er gagnslaust, þannig að það getur ekki hafa þróast í skrefum, svo það hlýtur að hafa verið hannað."

Að ræðunni lokinni kinkaði Púkinn kolli og samþykkti að þetta væri augljóst - það færi ekki á milli mála að við jarðarbúar værum afrakstur geimvera sem hefðu verið að gera tilraunir með að breyta DNA okkar síðustu ármilljónirnar.

Viðkomandi brá svolítið við þetta svar og reyndi að malda í móinn - reyndi að sýna fram á hönnunin væri að sjálfsöðu verk "Guðs", en ekki einhverra geimvera með brenglað skopskyn.

Það vildi hins vegar svo til að púkinn hafði nýverið lesið þvættingbók sem nefnist "The 12th planet" eftir Zecharia Stichin, þar sem sú "kenning" er rökstudd að Homa Sapiens sé qfrakstur erfðabreytinga af hendi geimvera (að svo miklu marki sem hægt er að rökstyðja þvílíkt bull), þannig að Púkinn dengdi nú fram allri þeirri vitleysu og þakkaði vitsmunahönnuðartrúboðanum fyrir öll þau viðbótarrök sem hann hafði fært fram fyrir geimverukenningunni.

Við þessu átti hann ekkert svar og gafst loksins upp.

Æ, já - hver sú kenning um hönnun sem endar í tilurð George W. Bush getur nú reyndar varla talist mjög "vitræn", eða hvað? 


mbl.is Þróunarkenningin aftur kennd í grunnskólum í Kansas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Ekki svo) góðir kennarar?

TeachingGrunnskólakennarar njóta ákveðinna forréttinda umfram margar aðrar stéttir. Það virðist skipta ósköp litlu máli hversu góðir þeir eru í raun í starfi sínu.  Frami þeirra og launahækkanir virðist fyrst og fremst ráðast af starfsaldri og ýmsu öðru, en ekki því sem Púkanum finnst í rauninni mestu máli skipta - hversu góðir kennarar þeir eru.

Tveir kennarar geta haft sömu menntun, og sömu starfsreynslu, en annar getur kveikt áhuga hvers árgangsins eftir annan á viðfangsefninu, meðan hinum tekst að drepa niður allan námsáhuga nemendanna.  Samt myndu þessir tveir kennarar hafa sömu laun að öllu óbreyttu.

Púkinn var svo heppinn að hafa nokkra góða kennara á sínum námsárum, en inn á milli voru aðrir sem voru þannig að Púkinn hugsar enn í dag til "kennslu" þeirra með hryllingi.

Í dag á Púkinn lítinn púkaunga sem stundar grunnskólanám og svo virðist sem staðan sé lítið breytt.

Púkinn vill gott menntakerfi og er tilbúinn að greiða sinn skerf til samfélagsins til að stuðla að því, en launahækkanir yfir línuna til kennara er að mati Púkans ekki rétta leiðin til að bæta kerfið.  

Almennir grunnskólakennarar virðast hins vegar hafa næsta lítinn áhuga á því að skoða kerfi sem umbunar þeim kennurum sem standa sig best.

Er eina lausnin að starfrækja einkaskóla sem geta gert auknar kröfur til frammistöðu kennara? 


Hrafnaþing í Reykjavík

Raven_1781Framsóknarmenn halda þing á Kanaríeyjum en á meðan virðist sem hrafnar hafi ákveðið að halda þing hér í Reykjavík, en Púkinn hefur orðið óvenjulega mikið var við hrafna hér í bænum undanfarið.

Ástæða þessa hrafnaþings er væntanlega sú að hrafnarnir eru að ráða ráðum sínum og mynda sameiginlega afstöðu til komandi kosninga, enda eru þær mikið hagsmunamál fyrir hrafna eins og aðra íbúa landsins.

En hvað myndu hrafnarnir kjósa sjálfir ef þeir hefðu kosningarétt?

Hrafnar myndu ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn, svo mikið er víst, þar sem sá flokkur hefur fálkann í merki sínu.

Frjálslyndi flokkurinn höfðar sennilega ekki heldur til þeirra, þar sem hrafnar gera ekki upp á milli fólks eftir uppruna - þessir vængjalausu tvífætlingar líta allir eins út, hvort eð er.

Samfylkingin stefnir að inngöngu í ESB og auknum innflutningi landbúnaðarafurða.  Hröfnunum hugnast það ekki, því þeir vilja hafa veislukrásirnar sínar hlaupandi upp um íslenskar heiðar, en ekki í fjarlægum löndum.

Þá eru eftir vinstri-grænir, en hröfnunum stendur nokkurn veginn á sama um áherslur þeirra - skilja ekkert í andstöðu þeirra við að selja eitthvað gamalt mannahreiður fyrior 600 milljónir.

Nei, niðurstaðan er augljós.  Hrafnarnir eru fiðraðir framsóknarmenn. 


Fólk er fífl

Púkinn komst fyrir löngu að því að fólk væri fífl, þannig að hann er bara feginn að vera lítið blátt kríli sem enginn tekur alvarlega.

Áður en menn hlaupa upp og gagnrýna hindúa (sem segjast reyndar fyrst og fremst vera að berjast gegn vestrænum menningaráhrifum, en ekki trúaráhrifum). ættu menn kannski að líta sér nær.

Eru Vesturlandabúar eitthvað skárri þegar að því kemur að berjast gegn framandi menningaráhrifum?

Það sem er hinsvegar nýtt í þessu ákveðna tilviki er að lýsa baráttuaðferðunum fyrirfram - það er einfalt og blátt áfram að berja fólk í klessu, en venjulega þegja menn um þær fyrirætlanir sínar þangað til á hólminn er komið.

Púkanum finnst það alltaf dapurlegt þegar fólk er ekki tilbúið að umbera hegðun annarra, þegar sú hegðun veldur engum skaða, en, eins og Púkinn hefur sagt bæði hér og hér...

Fólk er fífl


mbl.is Harðlínu hindúar hóta pörum barsmíðum á Valentínusardaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband