Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Fórnarlömb tölvuglæpa
Það eru ekki bara þeir sem láta glepjast af upplognum lottóvinningstilkynningum og slíku sem er hægt að kalla fórnarlömb tölvuglæpa, heldur er einnig um annan hóp að ræða.
Það eru þeir sem eiga tölvurnar sem eru notaðar til að dreifa óþverranum um Netið. Þeir sem standa á bak við dreifingu efnisins nota sjaldnast sínar eigin tölvur - ef þeir gerðu það væri auðvelt að loka á þá.
Nei, í staðinn eru notaðar tölvur fólks sem hefur óafvitandi sett svonefndar "bakdyr" inn á tölvurnar sínar - forrit sem leyfa hvaða utanaðkomandi aðila sem er að yfirtaka tölvuna og nota hana til hvers sem er.
Eigandi tölvunnar þarf ekki einu sinni að verða var við athæfið, en getur lent í margvíslegum vandræðum, svo sem:
- Þjófnaður á heimabanka- eða kreditkortaupplýsingum.
- Lokun á nettengingu vegna ruslpóstdreifingar.
- Tölvan notuð sem geymslustaður fyrir ólöglegt efni - allt frá stolinni tónlist til barnakláms.
- Erfiðleikar í notkun tölvunnar - annar hugbúnaður virkar ekki sem skyldi.
Það er hins vegar þannig að margir verða ekki varir við að verið sé að misnota tölvur þeirra á þennan hátt. því miður.
Innrásir tölvuþrjóta jukust í fyrra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 24.3.2007 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. mars 2007
Tækniþróunarsjóður - og svo hvað ?
Íslenskir stjórnmálamenn eru enn við sama heygarðshornið - halda að öll vandamál sé hægt að leysa með því að moka í þau peningum.
Nú er Púkinn ekki að segja að það sé slæmt að styrkja Tækniþróunarsjóð, en leysir það raunverulega vandamálið? Staðreyndin er sú að ekki gengur eins vel að breyta hugvitinu í framleiðsluvörur hér á landi eins og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Og hvers vegna skylkdi það nú vera? Jú, það skyldi þó aldrei vera vegna þess að aðstæður fyrir hátæknifyrirtæki eru einfaldlega mun lakari hér á landi en erlendis.
Það er margt sem spilar þar inn, en Púkinn ætlar sem stendur bara að nefna nokkur atriði:
- Fjandsamlegt skattaumhverfi fyrir einyrkja sem vilja stofna fyrirtæki sem byggir á hugviti.
- Alger skortur á fjárfestum sem hafa áhuga á fjárfestingum í fyrirtækjum af millistærð.
- Öryggisleysi í gagnaflutningsmálum
- Enginn stuðningur við R&Þ í gegnum skattakerfið.
- Verulegur skortur á hæfu fólki.
- Ósanngjörn samkeppni opinberra aðila.
- Ofurkrónan, sem er að murka lífið úr útfluningsfyrirtækjunum.
Staðreyndin er einfaldlega sú að meðan umhverfið er þannig að fyrirtækin eru að flytja starfsemina að stærri og stærri hluta úr landi, þá skiptir það einfaldlega ekki máli hvort einhverjum milljónahundruðum meira eða minna er hent í Tækniþróunarsjóð - það mun ekki breyta neinu til lengri tíma litið.
Stefnt að tvöföldun framlaga til Tækniþróunarsjóðs til ársins 2012 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 15. mars 2007
Bruðl dagsins - lausn á hækkandi sjávarmáli
Í gær ræddi púkinn um vandamál vegna hækkandi sjávarborðs. Í dag kynnir Púkinn hins vegar lausn á því máli.
Eða...ja, ef til vill frekar lausn á því vandamáli hvernig á að komast leiðar sinnar þegar allt er komið á kaf.
Fyrirtæki í Hollandi hefur hafið framleiðslu á einkakafbátum, sem eru fáanlegir í eins eða tveggja sæta útgáfum.
Kafbátarnir eru rafdrifnir og geta verið nokkrar klukkustundir í kafi. Púkanum tókst hins vegar ekki að finna verðið á kafbátunum, en gerir ráð fyrir því að hér gildi almenna reglan um svona lúxusvarning:
"Ef þú þarft að spyrja um verðið, þá er þetta ekki fyrir þig"
Reyndar verður Púkinn að viðurkenna að það gæti sjálfsagt verið gaman að ferðast um Þingvallavatn í einum svona.
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Tölvuleikir fyrir fullorðna
Verður fólk einhvern tímann of gamalt til að leika sér, eða breytast leikirnir bara eftir því sem fólk eldist?
Tölvuleikir eru óneitanlega vinsælir meðal margra barna og unglinga og þær niðurstöður að stór hluti fullorðinna spili tölvuleiki koma Púkanum ekki á óvart, síður en svo.
Vinnustaður Púkans er hugbúnaðarfyrirtæki og margir vina hans og kunningja eru menntaðir á því sviði, þannig að sá úrtakshópur er tæplega marktækur, en hlutfall tölvuleikjaspilara þar er mun hærra en 37%. Púkinn sjálfur hefur spilað tölvuleiki af einhverjum tegundum síðustu 30 árin, og á ekki von á að það breytist á næstunni.
Tölvuleikir ekki lengur bara fyrir börn og unglinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Bruðl dagsins - það er gaman í baði
Eins og Púkinn sagði frá í gær, mun hann reglulega benda íslenskum bruðlurum og öðrum áhugasömum á margvíslegan skemmtilegan óþarfa.
Óþarfi dagsins er baðker með innbyggðu sjónvarpi, útvarpi, DVD spilara og stafrænum hitamæli.
Ýmsar útgáfur eru í boði en sú sem myndin hér er af er frá Kóreu og myndi kosta um hálfa millján komin hingað til lands.
Sé þetta ekki nægjanlega flott, má benda á bandarískt fyrirtæki sem nefnist CalSpa, en þeir framleiða nuddpotta með innbyggðu heimabíói. Aðeins þarf að ýta á einn takka og þá rís upp 42" flatskjár ásamt fullkomnu hljómflutningskerfi.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. mars 2007
Skyndi-skyndibitar
Sumum finnst hraðinn stöðugt fara vaxandi í þjóðfélaginu - of mikið sé um það að fólk sé að flýta sér að hlutum sem það ætti njóta þess að gera rólega.
Púkinn rakst nýlega á gott dæmi um þetta - bakaraofn sem framleiðendurnir segja að geti eldað matinn 15 sinnum hraðar en hefðbundinn ofn.
Þetta nýja tækniundur nefnist TurboChef Speedcook og byggir á öflugum blástursofni sem beinir heitum loftstraumi bæði ofan og neðan að réttinum. Þar að auki er örbylgjutæknin notuð til að hita réttinn innanfrá á sama tíma.
Verðið er rúm hálf milljón, en nánari upplýsingar má fá hér.
Púkinn er nú ekki alveg sannfærður um að hann myndi vilja svona skyndi-skyndi-skyndibita.
Laugardagur, 10. mars 2007
Barnaklámsnetlöggan
Þar sem allir eðlilegir einstaklingar hafa viðbjóð á barnaklámi virkar það oft vel að veifa barnaklámsflagginu til að auka eftirlit með tölvunotendum eða takmarka réttindi þeirra á einhvern hátt. Það er erfitt fyrir menn að vera á móti aðgerðum af þessari tegund án þess að verða úthrópaðir sem perravinir.
Málið er hins vegar ekki svo einfalt.
Púkinn hefur áður skrifað um tengt efni - samanber þessa grein.
Nú ætlar Púkinn hins vegar að fullyrða að tilraunir til að stöðva dreifingu óþverrans á þann hátt sem dönsk stjórnvöld eru að ræða um eru einfaldlega ekki vænlegar til árangurs.
Netfyrirtæki geta vissulega lokað á aðgang að einstökum vefsíðum, en í þessum tilvikum myndu síðurnar bara færast annað, eða jafnvel vera komið fyrir á tölvum einstaklinga án þeirra vitundar.
Það eru þekkt dæmi um það að brotist hafi verið inn á tölvur og þær notaðar til að hýsa þjóna til dreifingar á margvíslegu kolólöglegu efni. Í einhverjum tilvikum hafa eigendur tölvanna síðan lent í verulegum vandræðum fyrir vikið.
Ef stjórnvöld ætlast hins vegar til að netfyrirtækin horfi ekki á uppruna efnisins, heldur ritskoði það hreinlega, er málið enn fáránlegra. Burtséð frá því að mögulega er þetta efni sent dulkóðað á milli manna, er í hæsta máta vafasamt að notendur sætti sig við almenna ritskoðun, til að unnt sé að leita að svona efni.
Eitt enn sem menn hafa verið að horfa á er að skylda netfyrirtækin til að geyma öll gögn um samskipti langt aftur í tímann. Hugsunin er þá að ef einhver perri er gripinn, þá séu hans samskipti skoðuð til að athuga uppruna efnisins og síðan væntanlega gerð húsleit hjá öllum öðrum sem hafa fengið efni frá sömu stöðum. Það eru hins vegar ýmis tækni- og siðferðisleg rök gegn þessu.
Eða, eins og Púkinn sagði áður - þetta er ekki alveg svona einfalt.
Barnaklám af Netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. mars 2007
Forritun fyrir stráka!
Púkinn styður að sjálfsögðu allt sem getur aukið áhuga námsmanna á forritun. Það sem Púkanum finnst hins vegar merkilegt er hvers vegna svo virðist sem keppni eins og þessi höfði fyrst og fremst til strákanna. Nú veit Púkinn reyndar ekki hvort staðan hefur breyst í ár, en þegar keppnin var haldin 2005 hétu keppendur Kvennaskólans Einar, Einar Óli og Hinrik, svo eitt dæmi sé tekið.
Séu myndir frá síðustu keppni skoðaðar, þá er karlpeningurinn allsráðandi. Hvað veldur?
Þátttaka í svona keppni er gott veganesti fyrir starfsferil á hugbúnaðarsviðinu og góður árangur er vel þess virði að nefna hann á starfsferilslýsingunni þegar að því kemur að sækja um "alvöru" störf.
En, það eru að meirihluta strákar sem gera það. Púkinn hefur sagt áður að hann myndi gjarnan vilja ráða fleiri kvenkyns forritara og kerfisstjóra, en þær þær virðast bara ekki vera til.
Hvar eru femínistarnir og jafnréttissinnarnir núna?
Forritað af kappi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 9. mars 2007
Gervifótur ... fyrir pöndu
Niu Niu er þriggja ára panda í kínverskum dýragarði, sem missti hluta af öðrum framfæti í fyrra, en það veldur henni verulegum erfiðleikum í tilhugalífinu.
Yfirmenn dýragarðsins eru nú að leita að einhverjum sem geta útbúið gerfifót á hana.
Púkinn er að velta fyrir sér hvort markaðsdeild Össurar ætti ekki að stökkva til og bjóðast til að gefa pöndunni fót - pöndur eru þjóðardýr Kína og auglýsingin sem fyrirtækið fengi þar í landi ætti að vera meira virði en einn sérsmíðaður fótur.
Sjá nánar hér.
Fimmtudagur, 8. mars 2007
island.is og ísland.is
Þegar ákveðið var að selja lén með séríslenskum stöfum árið 2004 var vitað að vandamál gætu komið upp vegna mögulegra árekstra.
Af þeim sökum var þeim sem áttu íslensk lén veittur forgangur í 6 mánuði til að skrá samsvarandi lén með séríslensku stöfunum. Sem dæmi má nefna olis.is og olís.is.
Væri þessi réttur ekki nýttur fyrir 1. jan. 2005 féll forgangurinn niður - svo einfalt er það.
island.is var skráð í febrúar 2002 af forsætisráðuneytinu. Þeim stóð síðan til boða 2004 að eignast ísland.is, en af einhverjum ástæðum nýttu þeir sér ekki þann rétt.
Í mars 2005, þegar forgangur ráðuneytisins er fallinn niður, fær Netvistun skráð lénið xn--sland-ysa.is, einnig þekkt sem ísland.is. Samkvæmt reglum ISNIC, sem voru hreinar og skýrar, var það þeirra réttur.
Það hefði verið betra ef forsætisráðuneytið hefði nýtt sér þann rétt sem það hafði 2004, en þar sem það var ekki gert, er ljóst að ráðuneytið verður að hætta að tala um ísland.is, eða semja við Netvistun um kaup á því léni.
Aðalfundur ISNIC er eftir viku - skyldi þetta verða til umræðu þar?
Netvistun á Ísland en forsætisráðuneytið Island | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 9.3.2007 kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)