Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Að búa til betra blogg

blogÁ þeim tíma sem Púkinn hefur verið hér á blog.is, hefur hann rekið augun í nokkra hluti sem mætti lagfæra að hans mati.

Það má vera að ekki séu allir sammála, en vonandi komast einhverjar þessara ábendinga til skila.

Hverjar eru svo tillögurnar?

Skoðum fyrst bloggelítuna, en það er hinn handvaldi hópur 50-60 einstaklinga sem lenda í "Umræðunni".  Þar eru margir góðir pennar, málefnalegir og skemmtilegir, en að sumu leyti er svolítið einhæft að sjá alltaf sömu einstaklingunum hampað á þennan hátt.  Það mætti að skaðlausu stækka hópinn og auka þannig fjölbreytnina.

Í öðru lagi eru það bloggflokkarnir, en það mætti gjarnan endurskoða þá svolítið - Púkinn saknar þess að sjá  ekki flokk eins og "Verslun og viðskipti" til dæmis.

Í þriðja lagi er það misnotkun fólks á aukaflokkakerfinu.  Það eru allt of margir sem hafa þann leiða ávana að troða greinum sínum í flokka þar sem þær eiga alls ekki heima, og "ýta" þannig burt greinum þeirra sem reyna að sýna almenna kurteisi.  Það er í raun engin ástæða til að leyfa meira en 2-3 aukaflokka. 


Cantat - loksins

fiberopticPúkinn fagnar því að Cantat skuli nú loksins vera kominn aftur í lag.

Léttir Púkans er sjálfsagt meiri en flestra (sem fólk ætti að skilja ef það athugar höfundarupplýsingarnar til að sjá hver stendur á bak við Púkann) því fyrirtæki Púkans byggir jú á því að geta dreift gögnum fljótt og vel yfir Netið.

Meðan Cantat hefur verið bilaður, hefur öll umferðin farið í gegnum FarIce strenginn, sem hefur nú ekki verið til fyrirmyndar hvað bilanir snertir, þannig að síðustu 4 mánuðina hefur Púkinn haft af því verulegar áhyggjur að þessar sæstrengsbilanir gætu kippt fótunum undan fyrirtæki hans.

Eftir sem áður er staðan sú að Cantat er kominn til ára sinna og Teleglobe fyrirtækið er ekki það besta og áreiðanlegasta í þessum geira.

Það eru uppi fyrirætlanir um nýjan streng til Evrópu, en þegar Cantat verður aflagður þá munum við vera í þeirri stöðu að hafa enga beina tengingu vestur um haf.

Það lítur ekki vel út því ef einhverjir ætla að reyna að markaðssetja Ísland sem vænlegan kost til hýsingar á netþjónabúum, þá er hætta á að þeir verði hreinlega ekki teknir alvarlega miðað við núverandi stöðu mála.

Við værum betur sett ef sá kostur hefði verið valinn að leggja streng í suður til að tengjast Hibernia strengnum sem liggur þvert yfir hafið, en Púkanum skilst að Síminn hafi verið því mótfallinn, enda hefur hann lagt í verulegan kostnað við hafsbotnsathuganir annars staðar.

Púkinn vill að lokum lýsa þeirri skoðun sinni að skeytingaleysi varðandi sæstrengina lýsir því betur en margt annað hversu lítið er að marka orð stjórnmálamanna um upplýsingaþjóðfélag.  Ef þeir vilja ekki byggja upp undirstöður slíks þjóðfégs mun það aldrei verða að veruleika.

Nei, þá er nú betra að þeirra mati að byggja nokkur Héðinsfjarðargöng. 


mbl.is Viðgerð á CANTAT-3 sæstrengnum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sala ISNIC

isnicPúkanum finnst sumt skrýtið við söluna á ISNIC, en sú sala snertir Púkann beint, því hann er einn hinna 20 hluthafa sem eftir eru í fyrirtækinu.

Það er margt skrýtið við þetta mál.  Söluverðið er sagt fáránlega hátt, þannig að litlar líkur virðast á að þjónustan lækki í verði, en það er spurning hversu eðlilegt það í rauninni sé að eignarhald svona fyrirtækis færist í hendur póstsins (Modernus er að sjálfsögðu bara leppur).

Sambærileg fyrirtæki í öðrum löndum eru venjulega sjálfstæð, sjálfseignarstofnanir eða hálf-opinber fyrirtæki, en ekki peningamaskínur.

Púkinn býst nú við að til lengri tíma verði afleiðingarnar þær að fleiri og fleiri velji þann kost að skrá .com lén í stað .is lénanna.

Hvað um það - nú er spurningin sem snýr að Púkanum hversu mikils virði hans (pínulitli) eignarhlutur sé - Vodafone átti 98% en síðustu 2 prósentin skiptust á milli allra hinna hluthafanna, þar á meðal Púkans.


Sundbolir + tónlist

solar-swimsuit_48Það hlaut að koma að þessu.  Nú er búið að hanna sundbol með innbyggðum sólarrafhlöðum, þannig að fólk getur eytt öllum deginum í sólinni á ströndinni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að rafhlaðan í iPod tækinu eða farsímanum klárist - bara stinga honum í samband við sundbolinn og málið er leyst.

Þessi hátæknibolur er framleiddur af Triumph fyrirtækinu, en ekki fylgir sögunni hvað hann kostar, né heldur hvort sólarrafhlöðurnar eru vatnsheldar.

Nú fyrir þá sem ekki hafa áhuga á sundbolum eða tónlist, þá er þetta að minnsta kosti þokkaleg afsökun fyrir birtingu á mynd af fáklæddri fyrirsætu. 

Sjá nánar á Gizmodo.


Stríð er leikur

AABandaríski herinn á í stöðugt meiri erfiðleikum við að vekja áhuga sjálfboðaliða, enda ekki skrýtið vegna stöðugs fréttaflutnings af mannfalli í Írak.

Meðal þeirra leiða sem þeir nota til að vekja áhuga vænlegra umsækjenda, er gerðs tölvuleiks sem ber nafnið America's Army.  Þessi leikur er þróaður fyrir skattpeninga og dreift endurgjaldslaust.  Á heimasíðu leiksins (sjá hér) eru hlekkir yfir á skráningarskrifstofur hersins, enda hafa þeir lýst leiknum sem "a cost-effective recruitment tool".

Markmiðið er nefnilega að sannfæra unglingana um að lífið í hernum sé spennandi, og fyrst það sé gaman að hlaupa um og skjóta mann og annan í tölvuleik, þá hljóti að vera enn meira gaman að gera það í alvörunni.

Í raunveruleikanum er hins vegar ekki hægt að bakka og sækja síðasta "saved game" þegar allt fer á versta veg.


Tré í Helguvík

tre_helguvikPúkanum finnst nú ákaflega hlálegt að sjá þessa mynd sem á að sýna fyrirhugað álver í Helguvík.

Það eru nefnilega hávaxin tré á henni.

 Og hvað með það?  Jú - á þessum slóðum er nefnilega alls ekki auðvelt að rækta tré - saltrokið er hreinasta eitur fyrir flestar trjáplöntur.  Það er unnt að rækta nokkra runna eins og silfurblað með góðum árangri á þessum slóðum, en há tré...það myndi jaðra við kraftaverk.

Nema þá auðvitað ef þetta eru gerfitré - jú ætli það ekki bara.

Hinn möguleikinn er auðvitað sá að trén séu svona tveggja metra kræklur eins og sjá má þarna við ströndina og álverið sé þá um meter á hæð - svona lítið og sætt dúkkuhúsaálver.

Hvern halda þeir eiginlega að þeir geti platað?


mbl.is Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrita orkusamning vegna álvers í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins - Ekki af þessum heimi

Nú veit Púkinn ekki hvort einhverjir íslensku auðmannanna eru Star Trek aðdáendur, en sé svo, þá er hér komin hin fullkomna jólagjöf til þeirra.

Star Trek íbúðin er nefnilega komin í sölu á eBay.  Þessi íbúð var hönnuð með geimskipið Voyager sem fyrirmynd.

Það er svolítið erfitt að lýsa henni með orðum, en unnt er að fá nokkurs konar sýndarferð um hana hér

Uppboðið sjálft á eBay er hins vegar hér.


"Hátæknilandið" Ísland

hightechPúkinn lenti um daginn í rökræðum um framtíð hátækni á Íslandi.  Þetta er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema hvað Púkinn fór að hugleiða mismunandi skilgreiningar á hátækni, og í framhaldi af því hvort öll hátækni væri æskileg hér á landi.

Sumir skilgreina "hátækni" sem notkun á þeirri tækni sem telst þróuðust á hverju sviði á hverri stundu.  Samkvæmt því telst t.d. olíuhreinsunarstöð sem byggð er þannig að hún nýti sér nýjustu tækni til olíuhrinsunar vera "hátæknifyritæki".

Þetta er gott og blessað, það er bara ekki svona "hátækni" sem Púkinn vill sjá hér á landi - nei, Púkinn vill hátækni sem byggir á þekkingu og menntun.  Fyrirtæki sem ekki byggja eingöngu á því að þjálfa starfsmenn til að nota innfluttan hátæknibúnað, heldur fyrirtæki sem nota menntun og þekkingu starfsmanna til að framleiða hátæknivörur.

Púkinn vill sjá fyirtæki í lyfja-, líftækni-, rafeinda, upplýsingatækni- og jafnvel fjármálageiranum.  Fyrirtæki þar sem stór hluti starfsmanna hefur langskólamenntun og nýtir þá menntun við vinnu sína.

Púkinn er búinn að fá nóg af orkufrekum mengunarfyrirtækjum.


Að kaupa tónlist á Netinu

ipod_videoÞað munu víst vera fáir sem slá Íslendinga út í iPod eign - miðað við fólksfjölda að sjálfsögðu. Púkanum finnst það þess vegna dapurlegt hversu erfitt það er fyrir Íslendinga að kaupa tónlist fyrir slík tæki. 

Apple selur yfir 1.500.000 lög í gegnum iTunes Store, en því miður er Ísland ekki meðal þeirra landa sem geta nýtt sér þá þjónustu.  Hún er í boði í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en hvorki á Íslandi né Noregi.

Hvers vegna?  Tja, annað hvort vill Apple ekki selja hingað, eða þeir hafa af einhverjum ástæðum ekki náð samkomulagi við samtök rétthafa tónlistarinnar um sölu til Íslands.

Á meðan þessi staða varir vex úr grasi kynslóð sem lítur á það sem sjálfsagðan hlut að stela tónlist í gegnum kerfi eins og Limewire - krakkar sem líta á þetta sem sjálfsagðan hlut því þau hafa ekki aðra möguleika til að nálgast stök lög fyrir iPod tækin sín.

Það er gott mál að lag Bjarkar skuli vera boðið til sölu, en betur má ef duga skal.
 


mbl.is Smáskífa Bjarkar seld á netinu án afritunarvarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins - fljúgum hærra

rocketbeltEnn heldur Púkinn áfram að aðstoða þá sem vita ekki hvað þeir eiga að gera við peningana sína.  Í dag er það hins vegar þannig að Púkinn verður samt að viðurkenna að hann langar í þennan hlut ... bara pínulítið, sko.

Og hvað er þetta?  Jú, eldflaugabelti sem notandinn festir á bakið og flýgur svo af stað.  Með í kaupunum fylgir búnaður til að framleiða eldsneyti og þjálfun í notkun tækisins.

Menn þurfa að vísu að skreppa til Mexíkó og borga 250.000 dollara, en samt....

Nánari upplýsingar má sjá hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband