Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Hjálpartæki ástarlífsins - hættuleg þjóðaröryggi?
Nýlega bárust þær fréttir frá Kýpur að það tæki sem er sýnt hér á myndinni hefði verið bannað þar, sökum þess að það væri ógnun við þjóðaröryggi.
Ástæða þess mun vera sú að tækinu er stjórnað með fjarstýringu, en sú tíðni sem er notuð er víst sú sama og herinn á Kýpur notar til einhverra leynilegra fjarskipta.
Púkinn verður reyndar að viðurkenna að hann skilur þetta ekki alveg, enda mun drægni fjarstýringarinnar ekki vera nema nokkrir metrar.
Talsmaður Ann Summers fyrirtækisins sem framleiðir umrætt tæki sagði fyrirtækið virða þessa ákvörðun og hafa tekið tækið úr sölu á Kýpur, en bætti við "..after all it is better to make love, not war".
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Sæstrengur - getur það verið vitlausara?
Enn og aftur kemur í ljós að stjórnvöldum er ekki alvara þegar þau tala um að "...efla hátækni á Íslandi", "...gera Ísland að þekkingarsamfélagi" eða annað í þeim dúr. Þau geta bruðlað með peninga í óþarfa eins og Héðinsfjarðargöng, en að styðja af alvöru við byggingu á undirstöðum þekkingarsamfélags...nei.
Nú á að leggja annan sæstreng til Evrópu og hafa hann í höndum sama rekstraraðila og rekur FarIce í dag. Það skal enginn reyna að telja mér trú um að verðið fyrir notkun strengsins komi til með að lækka við það - frekar hækka ef eitthvað er, því ekki vex notkunin bara við það að nýr strengur sé tekinn í notkun, en fjármagnskostnaðurinn vex hins vegar.
FarIce er dýr og íslenskir aðilar sem dreifa miklum gögnum nota hann ekki nema þau neyðist til. Staðreyndin er sú að kostnaður við að dreifa gögnum yfir Farice er allt að tífaldur kostnaður við að dreifa þeim frá netþjónabúum erlendis, en það, ásamt núverandi óáreiðanleika sambandsins er til dæmis ástæða þess að þjónarnir fyrir EVE Online eru í London, en ekki á Íslandi.
Nú, svo er það sú ákvörðun að leggja bara streng til Evrópu. Þegar Cantat strengurinn verður lagður niður verðum við ekki með neina beina tengingu við Bandaríkin eða Kanada. Ætla menn síðan í alvöru að reyna að sannfæra bandaríska aðila um að Ísland sé góður kostur til að reka netþjónabú? Þá hefði nú verið betra að leggja streng í suður og tengjast Hibernia strengnum sem liggur fyrir sunnan land.
Púkinn getur ekki tekið svona menn alvarlega.
Botnrannsóknir vegna nýs sæstrengs í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Ráðherrastólar - eða hvað?
Púkinn hefur gaman af að lesa um skemmtilegar uppfinningar - hluti sem gera mismikið gagn, en kosta sitt.
Hér er dæmi um einn slíkan hlut - hinn fullkomni stóll fyrir þá sem verða öðru hverju gripnir sterkum þreytuviðbrögðum við vinnu sína.
Undir þeim kringumstæðum geta menn dregið lok stólsins yfir sig og fengið sér 20 mínútna endurnærandi orkublund.
Stóllinn leyfir manni að vísu ekki að hvíla sig lengur en 20 mínútur, því þá fer hann að hristast og vekjaraklukkan fer í gang.
Eitthvað fyrir ráðherra sem hljóta að vera þreyttir vegna allra þeirra loforða og viljayfirlýsinga sem þeir eru að gefa út þessa dagana.
Og verðið? Aðeins 8000 dollarar. Sjá nánar hér.
Tölvur og tækni | Breytt 9.5.2007 kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Púkinn mættur til starfa
Innrás púkanna er hafinn. Hlauppúkinn, piparpúkinn og frændur þeirra hafa komið sér fyrir í sælgætisgeiranum og nú er röðin komin að fjölmiðlunum.
Villuleitarpúkinn er mættur til starfa hér á blogginu og mun hann gera sitt besta til að villuleita skrif bloggara. Þess ber reyndar að gæta að hann er svolítið takmarkaður - ræður ekki vel við erlend orð eða orð með fleiri en einni villu, en Villuleitarpúkinn lofar að gera sitt besta til að leita uppi allar einfaldar innsláttarvillur, en þær geta komið upp hjá öllum - líka þeim sem telja stafsetningu sína fullkomna.
Við púkarnir vonum bara að allir séu sáttir við að fá aðstoð hjá litlum, glottandi, rauðum púka með horn og hala.
Leiðréttingapúki á blog.is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 7. maí 2007
Höfundarréttarbrot
Tíu ára fangelsi fyrir að brjóta gegn höfundarrétti hugbúnaðarframleiðenda? Púkinn getur nú ekki að því gert að hann veltir fyrir sér hvort sú áhersla sem lögð hefur verið á þetta ákveðna mál sé ekki að hluta vegna þess að Bandaríkjamenn vilji senda út þau skilaboð að þeir muni ekki hika við að beita lögum sínum og krefjast framsals, jafnvel þótt brotin séu framin í öðru landi.
Púkinn veltir því líka fyrir sér hvort ekki sé fyrst og fremst verið að senda Kínverjum og öðrum Asíulöndum þessi boð - en þau lönd bera ábyrgð á stórum hluta ólöglegrar afritunar á bandarískum hugbúnaði og öðrum hugverkum.
Nú er Púkinn ekki að segja að þessi mál séu í góðu lagi hér á Íslandi, síður en svo, en ástandið er þó skárra en það var fyrir 20 árum síðan, þegar stolinn hugbúnað mátti jafnvel finna á tölvum Hæstaréttar.
Hvernig ætli viðbrögðin yrðu hér á Íslandi ef bandarísk stjórnvöld krefðust framsals á Íslendingi vegna svipaðra afbrota?
Framseldur til Bandaríkjanna þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Frumlegasta farartækið?
Mannfólkið virðist stundum hafa þörf á að gera hluti bara af því að þeir eru skrýtnir - sumir vilja vekja svolitla athygli og fá sínar fimm mínutur af frægð.
Paul Stender er einn af þessum, en hann vakti nýlega athygli með því að smíða hraðskreiðasta útikamar í heimi.
Kamarinn notar 1000 hestafla túrbínu frá Boeing og standa eldtungurnar 10 metra aftur úr honum þegar hann er á ferð, en hámarkshraðinn er rúmlega 100 km/klst þannig að hann nær ekki hámarkshraða þessa fararækis.
Paul tekur fram að hann hafi upphaflega haft rúllu af salernispappír inni á kamrinum, en hætti því, þar sem blöðin vildu sogast inn í loftinntakið - sem hefði getað verið hættulegt.
Þetta er væntanlega útikamar fyrir þotuliðið...eða hvað?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 2. maí 2007
Afrit...afrit....afrit!
Á þeim 27 árum sem eru liðin frá því að Púkinn komst fyrst í kynni við tölvur hefur honum tekist að týna miklu magni af gögnum. Gögnum sem ekki væru týnd ef afritunarmál hefðu alltaf verið í góðu lagi - en þótt þau séu í lagi í dag, hefur það ekki alltaf verið þannig.
Púkinn hefur einnig lent í því að reyna að bjarga fólki sem hefur lent í hremmingum eins og að uppgötva að eina eintakið af lokaritgerðinni þeirra var týnt, nokkrum dögum áður en skilafrestur rann út.
Með tilliti til þeirrar reynslu sem Púkinn hefur í að týna (og bjarga) gögnum, ætlar hann að leyfa sér að prédika ofurlítið um afrit og afritatöku.
- Afrit er lítils virði ef það er geymt á sama stað og upphaflegu gögnin. Til hvers að taka afrit af skrá og geyma hana annars staðar á harða diskinum? Ef diskurinn bilar er sennilegt að afritið týnist líka. Sama á við ef afrit af mikilvægum gögnum er t.d. tekið á DVD disk og hann geymdur í sömu tösku og ferðatölvan - ef tölvunni er stolið er ósennilegt að þjófurinn sé það tillitssamur að hann skilji afritið eftir.
- Afrit er einskis virði ef það er ekki í lagi. Það er nauðsynlegt að athuga afrit öðru hverju, sækja eina og eina skrá úr því og ganga úr skugga um að þær hafi verið rétt afritaðar.
- Afrit er einskis virði, nema það sé tekið af réttum hlutum. Það er til dæmis gagnslaust að eiga afrit af mikilvægum skrám, dulkóðuðum með PGP ef ekkert afrit er til af PGP lyklinum.
- Afrit er lítils virði ef það er úrelt. Sumar skrár úreldast aldrei, svo sem stafrænar ljósmyndir, en öðrum er breytt daglega. Sé afritið of gamalt, miðað við úreldingartíma skráarinnar, er það oft ónothæft.
Týndu tímaritinu við hrun tölvukerfis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 30. apríl 2007
Bruðl dagsins - Zzzzzzzzzzz
Enn og aftur er Púkinn reiðubúinn að hjálpa þeim sem hafa of mikla peninga milli handanna, en í þetta skipti er horft inn í svefnherbergið og dýrasta rúm heims skoðað - ríka fólkið þarf jú að sofa eins og aðrir, en það sem skiptir máli er að það sé gert með stæl.
Reyndar er spurning hvort þetta megi kallast rúm - það er í rauninni fyrst og fremst dýna sem svífur í lausu lofti - nokkuð sem myndi sóma sér vel í hvaða vísindaskáldsögu sem er.
Tæknin byggir á notkun segla sem hrinda hver öðrum frá sér, en rúmið var þróað í samvinnu Universe Architecture og Bakker Magnetics.
Og verðið? Lauslega áætlað yrði það um 150.000.000 íslenskar krónur hingað komið.
Svo verða menn bara að vona að rafmagnið fari ekki af rúminu, því þá gætu þeir hlunkast niður á gólf á frekar óvirðulegan hátt.
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Novator og Novator
Púkinn var að leita á Netinu að upplýsingum um Novator og komst að því að þetta nafn er notað af mörgum mismundandi aðilum á mörgum mismunandi sviðum.
- Novator KS-172 AAM-L er langdrægt rússneskt flugskeyti, sem reyndar er ekki í framleiðslu sem stendur, en viðræður munu vera í gangi milli Rússlands og Indlands um sameiginlega þróun og framleiðslu þess.
- Novator.com er í eigu bandaríska fyrirtækisins Novator sem sérhæfir sig í útvistun hugbúnaðarlausna fyrir markaðssetningu á Netinu.
- Novator.co.uk og Novator.is er í eigu fjárfestingafyrirtæki Björgólfs.
- Novator.se er í eigu sænska fyrirtækisins Novator, sem sérhæfir sig í umhverfisvænni orku.
- Novator er einnig nafn skips sem nú er statt undan strönd Norður-Noregs. Hér má sjá hvar það er á hverri stundu.
- Novator mun einnig vera nafn á krossviðarverksmiðju í Vologda héraði í Rússlandi, samkvæmt þessari vefsíðu.
- Novator.nu er í eigu fyrirtækis sem virðist sérhæfa sig í að búa til göt.
Ætli það hafi aldrei orðið ruglingur vegna þessa?
Novator selur 65% hlut í búlgörsku fjarskiptafélagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. apríl 2007
Syngjandi salerni
Salernamenning Japana er svolítið sérstök. Margir kannast við salerni með innbyggðum þvottabúnaði, sem senda vatnsbunu upp í loftið þegar notkun er lokið, enda hafa þau verið fáanleg hérlendis.
Japanska fyrirtækið Inax hefur hins vegar nýlega framleitt salerni með ýmsum athygliverðum nýjungum.
Það á meðal má nefna upplýsta skál (mynd D), væntanlega til þess að karlmenn eigi auðveldara með að nota salernið í myrkri.
Að auki inniheldur salernið stereo-hátalara og MP3 spilara, sem kemur forhlaðinn með tónlist eftir Bach, Chopin og Mendelsohn (mynd A),
Einnig er sjálfvirkur setulyftibúnaður (mynd C).
Það sem Púkinn skilur hins vegar ekki er mynd B, en hún hlýtur að túlkast sem svo að salernið sé sérlega æluvænt. Ætli einhverjum verði flökurt meðan þeir hlusta á Bach og gera sín stykki í upplýsta skál?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)