Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Istorrent glæpagengið

piracyÞað má vera að Svavari Lútherssyni, stofnanda torrent.is líki ekki að meðlimir "Istorrent-samfélagsins" séu kallaðir þjófar og sakaðir um lögbrot og jafnvel skipulagða glæpastarfsemi.

Það er því miður bara lítið við því að gera.

Á þessum vef eru höfundarréttarlög þverbrotin og Púkinn hefur megnustu fyrirlitningu á þeim sem standa í svona starfsemi - dreifa höfundarréttarvörðum verkum annarra í heimildarleysi, hvort sem það er gert í hagnaðarskyni eða ekki.

Það gildir einu hvort um er að ræða myndskeið, tónlist, hugbúnað eða annað efni - þeir sem eiga höfundarrétt af efninu verða af tekjum vegna svona starfsemi.

Það er ljóst að viðkomandi aðilar kunna ekki að skammast sín, en það sem Púkinn skilur ekki er hvers vegna yfirvöld gera ekkert - gera húsleit hjá torrent.is, leggja hald á tölvubúnaðinn, leita uppi þá sem standa að dreifingunni, leggja hald á tölvubúnað þeirra, kæra þá og krefja um viðeigandi sektir.

Lögreglan er fljót til þegar einhver mannræfill stelur hangikjötslæri úr Bónus.  Hvers vegna er ekkert gert í þessari starfsemi sem er mun umfangsmeiri og um mun meiri verðmæti er að ræða?

Hvers konar aumingjaskapur er þetta í lögreglunni?

Það verður að stöðva þessa þjófa...já, ég segi þjófa - Púkinn hikar ekki við að nefna þessa aðila viðeigandi nöfnum - það er ólíðandi að glæpagengi fái að starfa hér óáreitt.


Er tölvan þín uppvakningur?

zombiecomputerFjölmargar tölvur eru nýttar á ólöglegan hátt án vitundar eigenda þeirra. Þetta er gert á þann hátt að "bakdyrum" er komið fyrir í tölvunum, en þau forrit leyfa utanaðkomandi aðila að yfirtaka tölvuna.  Svona tölvur eru síðan tengdar saman í svonefnd "botnet", sem er stjórnað af einum aðila, til dæmis til að senda út ruslpóst, en annars er hægt að leigja þessi "botnet" til hvers sem er.

Stakar tölvur í netinu eru nefndar "zombies", enda eru þær eins og góðum uppvakningum sæmir algerlega viljalaus verkfæri í höndum óþjóðalýðs.

Eitthvað mun vera um svona "zombie" tölvur hér á landi, þótt Púkinn hafi ekki ákveðnar tölur handbærar um fjölda þeirra.

FBI hefir hins vegar verið að reyna að leita uppi svona "botnet", en það er gert í samvinnu við Symantec fyrirtækið.  Þeir sem hafa áhuga á að athuga þeirra tölvur eru hluti af einhverju slíku "botnet" geta fylgt þessum hlekk til Symantec og tekið þátt í prófunum á AntiBot forriti þeirra.


mbl.is FBI berst við uppvakninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Grænar" tölvur

Þetta hljómar eins og ódýr auglýsingabrella að vilja framleiða "grænar" tölvur, þar sem minni útblástur á gróðurhúsalofttegundum verður til við framleiðsluna.

Það er nefnilega ekki þar sem vandamálið við mengunina frá tölvuiðnaðinum liggur.  Mengunin sem stafar af notkun þungmálma við framleiðsluna er sennilega mun hættulegra vandamál.

Tölvuframleiðsla er nefnilega langt frá því að vera umhverfisvæn starfsgrein, sé allt ferlið skoðað.

Fyrirtæki standa sig reyndar misilla, en hér má sjá  kort frá Greenpeace, sem sýnir hversu "græn" helstu tölvu- og farsímafyrirtækin eru.


mbl.is Tölvuiðnaðurinn sameinast um grænar tölvur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný leið til að læra íslensku - eða hvað?

Við leit að námsefni í íslensku fyrir útlendinga á geisladiskum rakst Púkinn á þann geisladisk sem hér er sýndur.  Það merkilegasta við hann er sennilega textinn "There are no audible words on this subliminal CD".

Einmitt það já. Við nánari athugun kom í ljós að diskurinn inniheldur aðallega rigningar- og  þrumuveðurshljóð, en í bakgrunninum eru einhver orð sögð, en of lágt til að hægt sé að greina þau.

Púkanum er ekki alveg ljóst hvernig þetta á að auðvelda íslenskunámið, en samkvæmt framleiðenda byggir þetta á því að virkja undirmeðvitundina.

Einmitt það já - þetta er væntanlega jafn áhrifaríkt og að undirbúa sig fyrir próf með því að sofa með námsbækurnar undir koddanum. 

Og verðið á þessum disk?  Tja, það er rétt tæpir 5 dollarar - enn eitt dæmi um að maður fær kannski það sem maður borgar fyrir.


Nicola Tesla

Það er í sjálfu sér athyglivert að menn skuli leita leiða til að flytja rafmagn á þráðlausan hátt, en það er hins vegar ekki nýtt, en rúm 100 ár eru síðan serbneski uppfinningamaðurinn og sérvitringurinn Nicola Tesla hóf rannsóknir á því sviði.

Tesla á heiðurinn af mörgum mikilvægustu uppfinningum nútímans, svo sem riðstraumskerfum og útvarpinu, þótt oft hafi aðrir fengið heiðurinn af þeim en hann var sérkennilegur í háttum og geðheilsa hans var dregin í efa af sumum.

Púkinn hvetur alla sem hafa áhuga á sérvitrum snillingum til að lesa um Nicola Tesla - það má t.d. byrja hér á Wikipedia.


mbl.is Þráðlaust rafmagn er staðreynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kílóvattstundirnar

Það er nú aldeilis munur að vera með álbræðslu og fá rafmagnið á 2.1 krónu kílóvattstundina.  Púkinn var að fara yfir rafmagnsreikningana sína og honum reiknast til að ef hann fengi rafmagnið á sama verði og Norðurál, þá myndi rafmagnsreikningurinn lækka um 500.000 á ári.

Líkurnar á að það gerist eru væntanlega engar, því það er nú ekki svo gott að það sé bullandi samkeppni milli orkufyrirtækjanna að selja Púkanum raforku.

Það sem væri hins vegar forvitnilegast er spurningin hver "framleiðslukostnaðurinn" á kílóvattstundinni raunverulega er.  Raforkufyrirtækin eru nú ekki góðgerðastofnanir og Púkinn trúir því ekki að raforkan sé seld undir kostnaðarverði, en varla er hagnaðurinn mikill.


mbl.is Norðurál greiðir OR 2,1 kr. á kílóvattstund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cantat bilaður - enn einu sinni

fiberopticMaður er einhvern veginn hættur að kippa sér upp við fréttir af því að Cantat sé bilaður eina ferðina enn.  Ekki er langt síðan hann komst loksins í lag aftur, eftir að hafa bilað fyrir síðustu áramót og ekki skrýtið að menn séu að velta fyrir sér hvenær hann verði endanlega afskrifaður.

Nú er bara að vona að engar bilanir verði á FarIce meðan Cantat-tengingin til Evrópu liggur niðri - afleiðingar þess gætu orðið slæmar. Menn munu sjá það fljótt ef skosku rotturnar naga strenginn í sundur á þeim hluta hans sem ekki hefur enn verið tvöfaldaður.

Það er enn alllangt í nýjan streng, Farice II og eins og Púkinn hefur oft sagt áður hefur hann verulegar efasemdir um hvernig staðið er að því máli, en sem stendur er lítið hægt að gera annað en að bíða og vona.


mbl.is Bilun á Cantat-3 sæstrengnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veirur eru ekki vandamál

virus_skullÍ tilefni af því málþingi sem fyrirhugað er hér á landi næstu tvo daga um prófanir á veiruvarnaforritum, þá langaði Púkann til að varpa fram þeirri fullyrðingu að tölvuveirur eru í raun ekki vandamál.  Tölvuveirur eru nefnilega mjög sjaldséð fyrirbæri og það er nánast óþekkt að nokkur tölva smitist af slíku.

En bíðum nú við - það kannast allir við þann ófögnuð sem kemur í tölvupósti eða á annan hátt, stelur upplýsingum , eyðir gögnum og gerir tölvurnar stundum óstarfhæfar - hvað á Púkinn þá við með því að halda því fram að veirur séu nánast ekki til.

Það er nefnilega málið.  Þessi forrit sem fólk fær inn á tölvurnar eru ekki veirur, heldur allt aðrar tegundir af óværu.  Þessi forrit falla helst í eftirfarandi flokka (en þess ber þó að gæta að mörg forritanna sameina eiginleika tveggja eða fleiri flokka).

Bakdyr: Forrit sem setja upp aðgang á tölvunni þannig að aðrir aðilar geti tengst henni utan úr heimi og sett forrit inn á hana.

"Bot": Forrit sem leyfir utanaðkomandi aðila að stjórna tölvunni og er þá talað um að tölvan sé "zombie".  Margar slíkar tölvur eru síðan gjarnan tengdar saman í net undir stjórn einnar aðaltölvu, en það "zombienet" er síðan hægt að (mis)nota í margvíslegum tilgangi.  Jafnvel kemur fyrir að aðgangur að slíkum netum sé seldur eða leigður hæstbjóðandi.

Rusldreififorrit: Forrit sem nota tölvutenginguna sem er til staðar til að dreifa ruslpósti á kostnað eiganda tölvunnar.

Hlerunarforrit: Forrit sem hlerar samskipti tölvunnar yfir netið og reynir að stela aðgangsupplýsingum, kreditkortanúmerum og öðru slíku.

Eiginlegar veirur eru hins vegar orðnar mjög sjaldséðar - innan við 1% þess sem menn rekast á í dag.


mbl.is Málþing um tölvuveiruvarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin, land hátækni og fáfræði

Arftaki Hubble sjónaukans er óneitanlega meðal háþróuðustu tækniundra samtímans og kemur vafalítið til með að gera merkar uppgötvanir varðandi upphaf alheimsins.

Púkanum finnst hins vegar alltaf jafn skondið að slík tækni skuli koma frá því landi þar sem einna mest fáfræði ríkir varðandi þessar vísindagreinar - að minsta kosti ef "þróuð" lönd eru skoðuð.

Um helmingur Bandaríkjamanna (sjá þennan hlekk) trúir því að heimurinn (eða a.m.k. jörðin og sér í lagi mannkynið) séu ekki nema um 6000 ára og sumir ganga svo langt að afneita nánast öllum grundvallaratriðum nútíma vísinda, sökum þess að þau stangast á við túlkun þeirra á Biblíunni.

Þannig er til að mynda hópur fólks sem hafnar því að jörðin snúist um sjálfa sig, eða snúast kringum sólina og býr til sína eigin heimsmynd út frá því.  Vefsíður eins og þessi væru í raun fyndnar ef þetta væri ekki svo dapurlegt


mbl.is Arftaki Hubble-sjónaukans afhjúpaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yahoo og sæstrengurinn

Fréttin um mögulegt netþjónabú Yahoo er svolítið villandi.  Sagt er að lagning nýs sæstrengs sé forsenda fyrir verkefninu, og því bætt við að gífurlega flutningsgetu þurfi, eða um 10 Gb/s.

 Þetta er hvort tveggja rétt, en það lítur út eins og nýjan streng þurfi vegna gagnamagnsins.  Það er bara ekki málið.

Farice-1 strengurinn sem þegar er í notkun hefur hámarksflutningsgetu upp á 720 Gb/s, þannig að 10 Gb/s til eða frá hafa í raun lítið að segja.

Nei, ástæða þess að það þarf annan streng kemur flutningsgetunni ekkert við, heldur er það spurning um öryggi, öryggi og aftur öryggi.  Það er ekki ásættanlegt að sambandið rofni, jafnvel þótt í skamman tíma sé, þannig að tveir óháðir strengir eru nauðsyn.

Púkinn á reyndar bágt með að trúa því að Yahoo sætti sig við að Ísland hafi enga beina tengingu vestur um haf, heldur þurfi að beina öllum samskiptum hingað í gegnum Evrópu, og sömuleiðis að strengirnir tveir séu reknir af sama aðila, en hvort það er vandamál eða ekki kemur síðar í ljós.

Ef af þessu netþjónabúi yrði, þá er vonandi að verð á gagnaflutningum yfir strenginn verði lækkað, þannig að íslensk fyrirtæki með mikla gagnaumferð þurfi ekki lengur að fara með netþjónana sína úr landi - en staðan í dag er sú að það er allt að tífalt dýrara að dreifa gögnum héðan heldur en ef þjónarnir eru erlendis.


mbl.is Yahoo kannar möguleika á netþjónabúi hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband