Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Útflutningur á upplýsingatæknivörum
Púkanum þótti þetta lágar tölur og athyglivert að verðmæti útfluttra upplýsingatæknivara sé aðeins 0.4% af verðmæti sambærilegra innflutningsvara. Svo fór Púkinn að skoða þetta nánar og málið skýrðist.
Sá tölvubúnaður sem við Íslendingar flytjum út er ýmist mjög sérhæfður, eða aðeins hluti af stærri kerfum. Við erum ekki samkeppnisfær við láglaunasvæði í Asíu varðandi fjöldaframleiðslu á vörum fyrir almennan markað - það myndi engum heilvita manni detta í hug að setja upp samsetningarverksmiðju hér á landi.
Nei, við Íslendingar getum ekki keppt við færiböndin og möguleikar á að auka útflutning liggja á öðrum sviðum, eins og þróun á mjög sérhæfðum búnaði, eða á hugbúnaði, en í þessum tölum er sala íslenskra fyrirtækja á hugbúnaði ekki meðtalin.
Ef upplýsingatæknin væri skoðuð í heild, að hugbúnaðarútflutningnum meðtöldum er nokkuð víst að hlutfallið yrði betra en 0.4%.
Upplýsingatæknivörur fluttar út fyrir 840 milljónir árið 2005 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Hrakfarir Microsoft
Það er í sjálfu sér akki svo skrýtið að Microsoft skuli koma illa út á svona prófi. Þegar Microsoft ákvað að fara (í annað sinn) inn í veiruvarnageirann stóðu þeir frammi fyrir því að þurfa að kaupa tækni, því tíminn var of knappur til að þeir gætu þróað veiruvarnarhugbúnað frá grunni.
Microsoft hafði ákveðnar verðhugmyndir, en eina fyrirtækið sem var tilbúið til að selja þeim tæknina á því verði var lítið fyrirtæki í Rúmeníu, sem var ekki alveg með bestu lausnirnar.
Púkanum finnst bara ekkert skrýtið við þetta - stundum fær fólk nefnilega það sem það borgar fyrir.
Windows féll aftur á veiruvarnarprófi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 4. mars 2007
Bless, bless glóperur
Umhverfisráðherra Ástralíu, Malcolm Tunbull hefur tilkynnt þá fyrirætlun sína að banna sölu á glóperum frá og með árinu 2010, en með því að skipta slíkum perum út fyrir sparperur ætti að vera hægt að draga úr raforkunotkun heimula um allt að 16% og lækka rafmagnsreikninginn sem því nemur.
Sparperurnar eyða ekki bara mun minna rafmagni en glóperur sem lýsa jafn vel, heldur eru þær einnig ódýrari til lengdar - hver sparpera er ef til vill 5 sinnum dýrari en sambærileg glópera, en endist 8 sinnum lengur, þannig að til lengri tíma litið er verulegur sparnaður af notkun þeirra.
Það er að vísu ekki unnt að nota sparperur alls staðar - þær ganga til dæmis ekki þar sem ljósastyrk er stýrt með "dimmer", en Púkinn notar sjálfur sparperur þar sem hann getur og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama.
Púkanum finnst líka að íslensk stjórnvöld ættu að taka ástralska kollega sína sér til fyrirmyndar, nú eða bara að ganga á undan með góðu fordæmi og nota sjálfir sparperur þar sem því verður við komið.
Púkinn er nefnilega stundum svolítill aurapúki.
Laugardagur, 3. mars 2007
Týndar fjarstýringar
Á mörgum heimilum er til fjöldi fjarstýringa, fyrir sjónvarpið, DVD-spilarann, heimabíóið, gerfihnattamóttakarann o.s.frv.
Þessar fjarstýringar eiga til að týnast, en það vandamál gæti verið úr sögunni ef sú uppfinning sem sést hér nær útbreiðslu.
Uppfinningamaðurinn bendir á að uppfinninguna hans megi nota fyrir margt annað en fjarstýringar - menn þurfi bara að festa Velcro ræmu á það sem þeir vilji ekki týna.
Púkinn hefur reyndar ofurlitlar efsasemdir um þetta allt saman.
Föstudagur, 2. mars 2007
Netlöggan mætt á staðinn
Púkanum finnst það athyglivert að notendur séu hvattir til að leita til lögreglunnar ef þeim berast grunsamleg gylliboð, því Púkinn á bágt með að trúa því að lögreglan hafi hreinlega mannskap til að sinna þessu verkefni ef allir myndu beina svona bréfum til hennar.
Nú er Púkinn að sjálfsögðu með póstsíu (sjá hér) sem sér um að hreinsa megnið af svona rusli úr póstinum hans, en ef það er skoðað sem sían stoppar kemur fljótt í ljós að magn svona rusls er gífurlegt.
Púkinn hefur nefnilega notað tölvupóst í rúm átján ár og hefur ekki komist hjá því að lenda á fjölda ruslpóstslista.
Lausleg yfirferð á þeim pósti sem sían lokaði á í dag leiðir í ljós 27 tilboð um kaup á Viagra, Cialis eða öðru slíku, 5 tilraunir til að reyna að plata Púkann til að gefa upp lykilorð í PayPal eða heimabanka, 2 tilraunir til að fá Púkann til að aðstoða við peningaþvætti, 7 tilraunir til að fá Púkann til að fjárfesta í einhverjum vafasömum "penny-stock" bréfum og svo framvegis - yfir 50 grunsamleg gylliboð alls.
Púkinn trúir því ekki að lögreglan vilji fá ruslpóstinn hans, en hafi hún áhuga er henni það velkomið.
Lögreglan ítrekar aðvaranir sínar vegna gylliboða á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 2. mars 2007
Of latur til að sækja bjórinn?
Finnst þér gott að sitja í sófanum, horfa á sjónvarpið og sötra bjór, en átt í vandræðum því þú nennir ekki að standa upp og sækja bjórinn í ísskápinn?
Ef svo er, þá er þetta fyrir þig - ísskápur með innbyggðum bjórkastara.
John Cornwell hannaði ísskáp með fjarstýringu sem tekur 24 bjórdósir. Þegar hann ýtir á takka í fjarstýringunni fer í gang lyfta, sem sendir eina dós upp í bjórvörpuna, sem hendir dósinni síðan yfir til notandans.
John segir að líkurnar á að fá dósirnar í höfuðið minnki með aukinni notkun.
Unnt er að sjá tækið í notkun hér.
Fimmtudagur, 1. mars 2007
Netþjónabú á Íslandi?
Púkinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að of mikil áhersla sé lögð á stóriðju hér á landi og núverandi stjórnvöld séu að gera stór mistök.
Í mörgum öðrum löndum hafa menn veðjað á hátæknina, með góðum árangri, en sú er því miður ekki raunin hér á landi.
Sum hátæknifyrirtækin eru að flytja hluta starfseminnar úr landi en önnur, eins og OZ er varla unnt að kalla "íslensk" lengur.
Erlendir aðilar hafa velt fyrir sér hvers vegna Íslendingar reyna ekki að laða til sín erlend fyrirtæki, til dæmis með því að reka raforkufrek netþjónabú hérlendis.
Púkinn rakst til dæmis á þessa grein á siliconvalleywatcher.com.
Íslendingar hafa einnig velt hugmyndinni fyrir sér, en það eru ljón í veginum - dýrt og óáreiðanlegt netsamband Íslands við umheiminn er stærsta vandamálið. Því miður virðast ekki miklar líkur á að það batni - sem stendur er ástandið skelfilegt, með Cantat bilaðan og innlend fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á Internetinu sitja bara og vona að ekki verði truflanir á FarIce á meðan.
Vonandi kemst Cantat í lag á næstunni, en líftími hans er brátt á enda, og þótt við fáum nýjan streng til Írlands, verður staðan sú að við munum þá hafa enga beina tengingu vestur um haf.
Það þýðir tafir, sem gera hugmyndir um netþjónabú hér á landi freklar óraunhæf.
Púkanum finnst að það hefði verið meira vit í að láta peninga í betrumbætt samband Íslands við umheiminn heldur en að eyða þeim í vitleysu eins og Héðinsfjarðargöng. Slík ákvörðun hefði hins vegar krafist framsýnna og gáfaðra stjórnmálamanna sem hugsa lengur fram í tímann en til næstu kosninga.
Þannig fólk virðist oft vandfundið á Alþingi.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Ný fjarstýring - ekki fyrir femínista
Hér er komin hin fullkomna fjarstýring fyrir alla karlmenn - ja, eða næstum því alla. Púkinn verður nú að viðirkenna að karlmenn sem telja sig femínista eða eru að reyna að þykjast vera virðulegir munu varla vilja nota hana.
Framleiðendurnir vekja athygli á "klassísku" útliti fjarstýringarinnar og segja hana samhæfða öllum sjónvörpum og karlmönnum.
Verðið er tæpir 12 dollarar.
Ekki virðist vera til neitt sambærilegt módel ætlað kvenfólki.
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Framtíð nýsköpunarfyrirtækja
Púkinn fagnar því þegar nýsköpunarfyrirtækjum gengur vel, en hins vegar er hann svolítið svartsýnn á köflum hvað framtíð nýsköpunarfyrirtækja almennt varðar.
Það verður nefnilega að segjast eins og er að ólíkt því sem gerist í löndum eins og Írlandi og Kanada, þá hefur stuðningur íslensskra stjórnvalda við nýsköpun verið ómarkviss og óáreiðanlegur.
Púkann grunar að ástæðan sé hugsanlega sú að stjórnmálamenn skilji hreinlega ekki hátækni.
Púkinn gæti haldið langa ræðu um það hvernig stefna stjórnvalda virðist stundum vera sú að hrekja nýsköpunarfyrirtæki úr hátæknigeiranum úr landi, en sú grein verður að bíða betri tíma.
Samt tekst sumum að gera athygliverða hluti og Púkinn verður nú að viðurkenna að fyrir 10 árum síðan hefði hann ekki átt von á að Íslendingar myndu flytja út búnað sem er eiginlega á mörkum þess að teljast hergögn.
Hafmynd handhafi Nýsköpunarverðlauna í ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Nýja hlerunarmálið
Eins og kom fram í frétt Blaðsins í morgun, er lítið mál að hlera samræður í bílum þar sem Bluetooth búnaður er í notkun, eins og til dæmis leigu- og lögreglubílum landsins.
Sé til dæmis staðsetningartæki eða þráðlaus sími með Bluetooth tengingu í bílnum eru góðar líkur á því að aðili með réttan búnað geti heyrt allt sem fer fram þar.
Það er auðvitað unnt að gera meira en bara að hlera - það er hægt að sækja símaskrár, skoða SMS skeyti, eða hringja símtöl í gegnum síma annarra.
Nú spyrja menn kannski - hvernig er þetta hægt? Er tæknin ekki örugg? Málið er það að öryggið er til staðar í Bluetooth - en öryggi er einskis nýtt sé það ekki notað.
Aðgangskóðar eru til dæmis ekki mikils virði ef þeiru eru alltaf settir sem "1234", svo að dæmi sé tekið.
Það er nefnilega svo að auknu öryggi í hvaða mynd sem er fylgja minnkuð þægindi og reynslan hefur sýnt að fólk vill hafa hlutina þægilega - sem aftur þýðir minna öryggi.
Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða tækni eins og Bluetooth, þar sem hinn dæmigerði notandi er ekki fullkunnugur eðli tækninnar - hann getur notað hana en ekki útskýrt í smáatriðum hvernig hún virkar.
Hvort einhverjir hafi nýtt sér þetta - hlerað samtöl í leigubílum, lögreglubílum, nú eða bílum ráðamanna þjóðarinnar er hins vegar nokkuð sem Púkinn getur ekkert sagt um.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)