Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Falsaður tölvupóstur í ÞINNI tölvu!

emailÍ tilefni umræðunnar um meintar falsanir á tölvupósti í Baugsmálinu finnst Púkanum við hæfi að minna á að verulegur hluti þess tölvupósts sem er í umferð er einmitt falsaður.

Hér á Púkinn að sjálfsögðu við ruslpóst sem hefur verið gerður þannig úr garði að meintur sendandi er allt annar en raunverulegur sendandi.  "Haus" póstsins er þannig falsaður og stundum einnig hluti þeirra upplýsinga sem fylgja póstinum um leið hans í gegnum Netið.

Þetta er ástæða þess að margir fá tölvupóst þar sem þeim er sagt að tölvupóstur þeirra (sem þeir kannast ekki við) hafi ekki komist til skila, en þá hefur póstfang þeirra verið sett sem póstfang sendanda.  Erfitt er að berjast gegn þessu nema með endurbótum á öllu kerfi póstsendinga á Netinu.

Hin tegund falsana felst gjarnan í því að halda "hausum" póstsins óbreyttum en breyta innihaldinu og prenta síðan breytta bréfið út.

Sendendur geta að hluta verndað sig gegn þessu með notkun rafrænna undirskrifta.


mbl.is Falsaðir tölvupóstar og samsæri í Baugsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvuleikjafíkn

computeraddictionEf umhverfi tölvunnar þinnar er eins og þessi mynd sýnir, eru verulegar líkur á því að þú sért haldinn tölvufíkn á háu stigi.

Púkinn ætti að vita það, enda er ekki laust við að hann sé sjálfur haldinn þessum kvilla.  Að minnsta kosti hefur hann eytt umtalsverðum tíma síðustu 27 árin fyrir framan tölvur að spila einhverja leiki.

Það er reyndar þannig að sum forrit eru líklegri en önnur til að fá notendur þeirra til að vanrækja allt annað, þar á meðal mannleg samskipti, og það hættulegasta af öllu eru stórir, vinsælir fjölnotendaleikir, sérstaklega þeir sem á einn eða annan hátt "refsa" notendunum fyrir að hætta að spila.  World of Warcraft er best þekktur slíkra leikja hér á Vesturlöndum, en í sumum Asíulöndum, eins og S-Kóreu eru fjölmargir aðrir leikir sem eru álíka vanabindandi.

Sem stendur spilar Púkinn nú ekkert annað en FreeCell kapalinn á tölvunni sinni stöku sinnum, en hann þekkir þetta mál nægjanlega vel frá ýmsum hliðum til að fullyrða að sumir tölvuleikir geta orðið vanabindandi og notendur þeirra háðir þeim á sama hátt og einhverjum fíkniefnum.

Að aftengja tölvur fíkla skyndilega jafngildir því að setja dópista í "Cold Turkey" - sem ekki er endilega talin besta leiðin.

Heilsuhæli nokkurt í Amsterdam hefur boðið upp á meðferð gegn tölvuleikjafíkn og er unnt að fá nánari upplýsingar um það hér


mbl.is Stympingar vegna tölvunotkunar unglingspilts á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki eru allar rafhlöður eins

nicadPúkanum finnst það gott mál að gert sé átak í því að  safna saman ónýtum rafhlöðum, en saknar þess svolítið að ekki sé minnst á það að ekki eru allar rafhlöður jafn slæmar.

Nikkel-Kadmíum endurhlaðanlegar rafhlöður eru mjög slæmar hvað mengun varðar, en þeim fer sem betur fer fækkandi, þar sem Nikkelmálmhýdríð rafhlöður eru að koma í stað þeirra.  Þar sem þessar rafhlöður eru endurhlaðanlegar er líftími þeirra hins vegar mjög langur.

Kvikasilfursoxíðsrafhlöður eru jafnvel enn verri, en þær voru mjög útbreiddar í myndavélum fyrir nokkrum áratugum.  Þar sem bannað er að framleiða þær eða selja í mörgum löndum hefur notkun þeirra hins vegar minnkað verulega.

Rafhlöður sem innihalda liþíum, zink eða silfur (en það eru flestar þær litlu rafhlöður sem eru til að mynda notaðar í myndavélum) eru einnig mengunarvaldar, en ekki eins slæmar og þær fyrrnefndu.

Venjulegar "alkaline" rafhlöður eru hins vegar illskástar, enda innihalda þær ekki eitruð efni í sama mæli og fyrri tegundirnar.

Blýrafgeymar af öllum stærðum eru síðan alveg sérstakur kafli út af fyrir sig. 


mbl.is Hvetja til þess að ónýtum rafhlöðum verði skilað til úrvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

40 ára fangelsi fyrir fáfræði?

Í hvaða ríki heims gætu kennarar átt á hættu 40 ára fangelsi fyrir að nemendur þeirra sjái efni á netinu sem er yfirvöldum ekki þóknanlegt?  Norður-Kóreu?  Kína?  Sádi-Arabíu?

Nei, í Bandaríkjunum. 

Julie Amaro var afleysingakennari sem kenndi 7. bekk grunnskóla í Connecticut.  Hún var ekki mjög tölvufróð og vissi ekkert hvað hún átti að gera þegar endalaus straumur af klámfengnum "pop-up" myndum tók að birtast á tölvunni í skólastofunni.  Tölvu sem ekki var varin af eldvegg eða "pop-up blocker " og hafði aðeins úrelt veiruvarnarforrit.

Hún hefði getað slökkt á tölvunni, eða ýtt á Ctrl-Alt-Del, kallað up Task Manager og skotið niður vafrann, en nei - hún hljop yfir á kennarastofuna að leita aðstoðar.

Stór mistök, en eins og Púkinn sagði...hún var ekki mjög tölvufróð.

Til að gera langa sögu stutta var hún kærð fyrir að stofna velferð barna í hættu ("endangering the welfare of children by exposing them to porn") - ein kæra fyrir hvert barn sem staðfest var að hefði séð klámmyndirnar. Fullyrðingar saksóknara (sem voru í besta falli ósannaðar, en í versta falli meinsæri), um að hún hefði beinlínis verið að skoða klámsíður bættu ekki stöðu hennar.  

Juli Amaro var fundin sek af kviðdómi.  Dómur verður kveðinn upp í byrjun mars, en samkvæmt lögum Connecticut gæti hún átt 40 ára fangalsi yfir höfði sér. 


Mini-skrifborð

mini-deskÞað getur verið erfitt að vera með ólæknandi bíladellu en þurfa að sitja á bak við skrifborð allan daginn.  Fyrir þá sem eru í þessum hópi er nú komin hin fullkomna lausn, sem sameinar skrifborðið og bílinn.

Glynn Jenkins, breskur hönnuður, á heiðurinn af þessari nýstárlegu hugmynd, en áhugasömum er hér með bent á þessa vefsíðu framleiðenda.

Púkinn getur ekki gert að því að honum finnst einhvern veginn að svons skrifborð myndi hæfa Ómari Ragnarssyni sérstaklega vel.


iPhone undratækið

Svona fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á ýktri markaðssetningu undratækja kemur hér svolítið til að horfa á svona í lok vinnuvikunnar:

        iPhone - undratækið sem getur allt


(Ó)öryggi auðkennislykla

help_audkenniAuðkennislyklarnir bæta öryggi heimabankanotenda að nokkru leyti, en því fer þó fjarri að öryggið sé fullkomið.

Skoðum aðeins hvernig reynt er að stela af heimabankanotendum og hvaða vandamál auðkennislyklarnir leysa.

  • Vörn gegn njósnaforritum á tölvum notenda.  Það er til ótrúlegur fjöldi forrita sem reyna að stela aðgangsupplýsingum að heimabönkum, kreditkortaupplýsingum og ýmsum lykilorðum.  Fjöldi slíkra forrita í umferð er sennilega á bilinu 100.000-200.000.  Það hafa komið upp tilvik hér á landi þar sem slík forrit virðast hafa verið notuð til að nalgast aðgangsupplýsingar fyrir heimabanka. 

Fljótt á litið mætti halda að auðkennislyklarnir myndu koma að öllu leyti í veg fyrir notkun slíkra forrita, en svo er ekki, enda er tölva sem hefur slíkt njósnaforrit áfram galopin fyrir svokölluðum "man in the middle" árásum. Það væri ekki mikið verk að breyta njósnaforritunum þannig að þau megi áfram nota til innbrota í heimilisbanka, en Púkinn vill af augljósum ástæðum ekki lýsa því hvernig það mætti gera.

  • Vörn gegn þjófnaði aðgangsupplýsinga.  Þeir eru margir sem eiga erfitt með að muna stafa- og talnarunur og skrifa þær gjarnan á blöð - til dæmis litla gula "Post-it" miða sem eru jafnvel festir á hornin á tölvuskjánum.

Auðkennislykillinn veitir mjög góða vörn í þessum tilvikum.  Jafnvel þótt einhver steli upplýsingum um reikningsnúmer og aðgangsorð, eru þær upplýsingar einskis nýtar nema auðkennislyklinum sé stolið líka.  Fáir eru líklegir til að geyma hann á sama stað og blað með niðurskrifuðum aðgangsupplýsingum.

  • Vörn hegn heimsku og trúgirni. Þær upphæðir sem er stolið á beinan hátt út heimabönkum eru hverfandi miðað við þær upphæðir sem fólk tapar þegar það lætur gabbast til að eyða peningum í Nígeríusvindl, pýramída/keðjubréf eða hvað svo sem byggir á því að narra peninga út úr fáfróðum eða trúgjörnum einstaklingum.

Auðkennislykillinn veitir augljóslega enga vörn í þessum tilvikum....því miður.


Ævintýrið um OZ

ozPúkinn lifir og hrærist í heimi hátækni og gerir sitt besta til að fylgjast með því hvað er á döfinni hjá íslenskum fyrirtækjum í tækni- og tölvugeiranum.

OZ getur reyndar varla talist íslenskt fyrirtæki lengur, enda eru höfuðstöðvar þess í Montreal og meginhluti hluthafa erlendir.  Saga OZ er um margt ótrúleg og þá helst að fyrirtækið skuli hreinlega enn vera til, eftir allt sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum.

Skoðun Púkans er að það sé einna helst að þakka þæfileikum stjórnenda til að endurskilgreina eðli og tilgang fyrirtækisins og dugnaði þeirra við að fá stöðugt nýja samstarfsaðila og fjárfesta, þegar fyrri fyrirætlanir bregðast.

Margir töpuðu umtalsverðu fé á fjárfestingum í OZ á sínum tíma, en slíkt er eðli áhættufjárfesstinga í ungum fyrirtækjum - meirihluti þeirra rennur út í sandinn en inn á milli má finna fyrirtæki sem skila hluthöfum sínum fjárfestingunni margfaldri til baka.

Það sem Púkanum finnst hins vegar athygliverðast er hve hagur OZ tók að vænkast eftir að fyrirtækið flutti aðalstöðvar sínar til Kanada.  Þetta er í sjálfu sér ekki skrýtið - Kanadastjórn hefur stuðning á mikilvægi þess að styðja við hátæknifyrirtæki meðan þau eru að koma undir sig fótunum, en það sama getur Púkinn því miður ekki sagt um íslensk stjórnvöld.

Ef til vill horfir til betri vegar eftir næstu kosningar - sumar þeirra hugmynda sem komu fram á nýafstöðnu sprotaþingi eru góðra gjalda verðar, þótt Púkinn efist nú um að þær komist til framkvæmda nema í útvatnaðri mynd. Staðreyndin er einfaldlega sú að sjórnmálamenn eru hræddir við að styðja við hluti sem þeir skilja ekki. 


mbl.is Lausnir OZ til 85 milljóna notenda um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggaragræðgi

Púkinn er svolítill fýlupúki í dag.  Það sem pirrar hann er sú árátta sumra bloggara að troða greinum sínum í flokka þar sem þær eiga alls ekki heima.

Það eru ákveðnir flokkar sem Púkinn forðast - má þar á meðal nefna "Enski boltinn", "Íþróttir" og "Ljóð".  Hins vegar eru aðrir flokkar þar sem hann les nánast hverja grein - "Tölvur og tækni" og "Vísindi og fræði" eru þar á meðal.

Sumir bloggarar hafa hins vegar þann leiða ósið að troða greinunum sínum í fjölda flokka þar sem þær eiga alls ekki heima - ef menn skoða til dæmis flokk eins og "Matur og drykkur" má sjá þar fjölda greina sem snúast ekki á neinn hátt um mat og drykk.

Afleiðingin af þessu er sá að erfiðara og seinlegra er að finna þær greinar sem raunverulega tilheyra þeim flokkum sem þær eru settar í.

Ástæða þessarar hegðunar er væntanlega hrein bloggarargræðgi - fólk vill að sem flestir lesi greinarnar þeirra, en kærir sig kollótt um þau áhrif sem þetta hefur á bloggið sem heild.

Hver er lausnin - ætti að setja takmörk við t.d. 3-4 aukaflokka?  Eru einhverjar greinar þess eðlis að þær eigi heima í 10 eða fleiri flokkum? 


Microsoft "öryggi" ?

story.billgates.apPúkinn getur ekki annað en glott þegar hann rifjar upp orð Bill Gates um að öryggismál skyldu verða sett í forgang hjá Microsoft.

Síðan sú yfirlýsing var gefin út hefur hver öryggisuppfærslan rekið aðra og virðist svo sem þetta blessaða stýrikerfi sé götóttara en nokkur svissneskur ostur.

Nýjasta stýrikerfi Microsoft, Vista hefur verið lýst sem "öruggara" en XP, en allir sem hafa fylgst með afrekaskrá Microsoft á þessu sviði leggja takmarkaðan trúnað á þær yfirlýsingar, þannig að það kæmi Púkanum ekki á óvart að sjá sambærilegan fjölda öryggisuppfærslna fyrir það í framtíðinni.

Staðreyndin er sú að það eru fjölmennir hópar sem vinna sleitulaust við að semja hugbúnað til að brjótast inn í tölvur saklausra notenda.  Þeir nota fjölmargar aðferðir og þótt sumar þeirra megi fyrirbyggja með því að setja inn öryggisuppfærslur eins og þær sem hér um ræðir, þá er samt alltaf eftir mannlegi þátturinn, sem er veikasti hlekkurinn.

Púkinn vill því minna á eftirfarandi leiðir til að auka öryggi tölvunotenda:

  • Linux og Macintosh notendur eru öruggari en Windows notendur - ekki endilega af því að stýrikerfin séu öruggari heldur af því að árásunum er fyrst og fremst beint að Windows.
  • Öruggara er að nota Firefox en Microsoft Internet Explorer, a.m.k. ef menn eru að nota XP eða eldri stýrikerfi.  Þetta gæti hafa breyst með Vista.
  • Aldrei opna viðhengi í tölvupósti nema þú vitir nákvæmlega hvað þau innihalda.  Þetta á líka við ef tölvupósturinn virðist koma frá einhverjum sem þú þekkir - því póstfang sendanda gæti verið falsað.
  • Settu up "Popup-blocker"
  • Settu upp veiruvörn.
  • Settu upp eldvegg. 
  • Settu upp hugbúnað til að leita að "Adware" og öðrum óæskilegum hugbúnaði.


mbl.is Microsoft gefur út uppfærslu við 20 öryggisgöllum á Windows
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband