Færsluflokkur: Spaugilegt
Föstudagur, 17. apríl 2009
Skrýtinn kosningakompás
Þegar Púkinn var búinn að athuga hvað kosningakompásinn segði miðað við skoðanir hans, var kominn tími til að leika sér....prófa að segjast hafa engar skoðanir. Svara "Hvorki-né" alls staðar og segja að engin spurninganna skipti máli.
Niðurstaðan:
Lýðræðishreyfingin (P) | 99% | |
Samfylkingin (S) | 93% | |
Borgarahreyfingin (O) | 92% | |
Frjálslyndi flokkurinn (F) | 91% | |
Sjálfstæðisflokkur (D) | 89% | |
Framsóknarflokkur (B) | 89% | |
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) | 89% |
Það er nú aldeilis frábært að vita að ef maður hefur engar skoðanir og telur ekkert skipta máli, þá eru allir flokkarnir 89-99% sammála manni....
Miðvikudagur, 11. júní 2008
Svarthöfði, svartstakkar og aðrir
Þótt Púkinn eigi að mörgu leyti samleið með þeim aðilum í Vantrú sem stóðu fyrir Svarthöfðauppákomunni, þá er hann ekki að öllu leyti sammála aðferðinni. Það má túlka svona aðgerðir eins og menn líti þannig á að ekki eigi að taka trúarbrögð alvarlega - þau séu eitthvað til að gera grín að.
Þar er Púkinn ósammála - honum finnst trúarbrögð nefnilega vera alvarlegt vandamál - ein versta uppfinning mannkynsins frá upphafi. Að gera grín að trúarbrögðum er svona eins og að gera grín að fíkniefnanotkun, farsóttum eða þrælahaldi - það er einfaldlega ekkert fyndið við viðfangsefnið.
Púkinn vonast að sjálfsögðu til þess að mannkynið vaxi einhvern tíman upp úr því að telja sig þurfa á trúarbrögðum að halda, en líkurnar á því eru því miður minni en að trúarbrögð verði til þess að mannkynið útrými sjálfu sér.
Púkanum finnst það ekki heldur fyndið.
Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 20. maí 2008
Myndasaga Sigmunds og meintur rasismi Íslendinga
Púkanum finnst athyglivert að skoða viðbrögðin við myndasögunni í ljósi skoðanakönnunarinnar á Íslandi um það hvern fólk myndi vilja sjá sem næsta forseta Bandaríkjanna - hvern myndu Íslendingar kjósa ef þeir hefðu kosningarétt þar.
Niðurstöðurnar voru þannig að Clinton og Obama voru nánast jöfn, með um 48% atkvæða hvort, en McCain fékk um 4%.
Það má líta á þetta á ýmsa vegu, eins og að Íslendingar séu það langt til vinstri á mælikvarða bandarískra stjórnmála að margir þeirra sem teljast hægrimenn hér myndu teljast teljast til vinstri við miðju í Bandaríkjunum - já og vinstrimennirnir okkar myndu teljast sjálfsagt hættulegir öfgamenn þar.
Það má líka líta þannig á að sá fókus sem er á húðlit eða kyn frambjóðendanna sé einfaldlega ekki mál málanna frá sjónarhóli Íslendinga - þegar allt kemur til alls höfum við jú raunverulega reynslu af því að hafa kvenkyns þjóðhöfðingja. Frá þeim sjónarhóli má túlka skopmyndina sem ádeilu á yfirborðsmennsku Bandaríkjamanna - að horfa á kynið og húðlitinn, frekar en hvað einstaklingurinn stendur fyrir.
Þýðir þetta þá að Íslendingar séu upp til hópa fordómalausir? Nei - málið er ekki svo einfalt - það er nefnilega óþægilega grunnt á fordómunum hjá mörgum hérna - en Púkinn sér þessa skopmynd ekki sem rasistíska fordóma - ekki fyrir hinn ætlaða markhóp - íslenska lesendur, en það er hins vegar vel skiljanlegt að hún veki viðbrögð annars staðar.
Myndasaga Sigmunds gagnrýnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 17. maí 2008
Þrjú umslög - lítil saga
Í bananalýðveldinu Langtburtistan áttu sér stað stjórnarskipti. Þegar gamli forsætisráðherrann afhenti þeim nýja lyklana að ráðuneytinu rétti hann honum líka þrjú númeruð umstög og sagði honum að opna þau í réttri röð ef hann stæði frammi fyrir erfiðri krísu í efnahagslífinu.
Nokkrum mánuðum síðar skall fyrsta krísan á og ráðherrann sá fram á að sér yrði ekki vært í embætti mikið lengur að öllu óbreyttu. Hann mundi þá eftir umslögunum þremur og opnaði það fyrsta. Í því var lítill miði sem sagði "Kenndu mér um allt". Ráðherrann fór að þessum ráðum, kenndi röngum ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar um allt sem aflaga hafði farið, og tókst að sannfæra þjóðina að hún yrði að herða sultarólina um stund meðan unnið væri úr þeim vandamálum sem forverar hans bæru ábyrgð á.
Nokkrum misserum síðar stefndi allt aftur á sama veg og ráðherrann opnaði annað umslagið. Í því var miði sem sagði "Kenndu útlendingum og ytri aðstæðum um allt". Ráðherrann fór að þessum ráðum og kenndi erlendum spekúlöntum og óhagstæðri þróun á hrávöruverði á erlendum mörkuðum um ástandið í efnahagslífinu. Þjóðin trúði honum og ró færðist yfir.
Þó koma að því að ólga gaus upp aftur í þjóðfélaginu og ráðherrann opnaði þriðja umslagið skjálfandi höndum. Í því var miði sem sagði "Útbúðu þrjú umslög".
-----------------------
Púkinn getur ekki að því gert, en stundum veltir hann fyrir sér hvort íslenskir ráðamenn eigi eitthvað sameiginlegt með þessum ímynduðu kollegum sínum í Langtburtistan.
Þriðjudagur, 1. apríl 2008
Aprílgöbb erlendis
Í dag hafa fjölmiðlar út um allan heim gert grín að lesendum sínum, eða að minnsta kosti fengið þá til að brosa út í annað. Púkinn hefur verið að eltast við nokkur af göbbum dagsins, en það sem sendur upp úr var samstarfsverkefni BBC, The Daily Mirror og The Daily Telegraph um hóp mörgæsa sem hefði á ný þróað flughæfnina og tekið á loft fyrir framan hóp furðu lostinna sjónvarpsmanna.
Breska blaðið The Guardian birti frétt um að franska forsetafrúin, Carla Bruni-Sarkozy hefði tekið að sér að bæta breska fatamenningu og matargerðarlist og franskir ráðamenn voru einnig í sviðsljósinu hjá The Sun, sem sagði Sarkozy vera á leiðinni í strekkingarmeðferð til að hækka sig um nokkra sentimetra.
Já, og svo var það The Daily Star, sem upplýsti lesendur sína um að í þágu jafnréttis yrði James bond hér eftir ekki bara kvennabósi, heldur jafn mikið gefinn fyrir karlkyns bólfélaga.
Fimmtudagur, 24. janúar 2008
Borgarpólitík...eða Spaugstofan?
Púkinn bíður næsta þáttar af Spaugstofunni með eftirvæntingu - það er ekki oft sem jafn mikið af góðu "hráefni" er í boði handa þeim félögum, enda hafa atburðir undanfarinna daga verið með hreinum ólíkindum og það ætti engum að koma á óvart þótt hnífastungur, launráð og dularfull jakkaföt kæmu þar við sögu.
Undanfarið hefur pólitíkin minnt á farsa í leikhúsi - verk sem skilur ósköp lítið eftir, en leyfir fólki að skemmta sér um stund.
Nei, það er ekki skrýtið að aðeins 12% þjóðarinnar treysti stjórnmálamönnum meira en öðrum - og reyndar finnst Púkanum sú tala furðulega há.