Færsluflokkur: Menntun og skóli

Peningum illa varið í menntakerfinu

TeachingMiðað við hversu miklum peningum Íslendingar verja til menntamála, þá er það dapurlegt hve lélegur árangurinn er - sérstaklega á grunnskólastiginu.

Púkinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að námsefni og kennsluaðferðir í sumum greinum , sér í lagi stærðfræði og raunvísindum, séu til háborinnar skammar.

Námsefnið er lélegt - kennsluaðferðir eins og "uppgötvanastærðfræði" eru til þess eins fallnar að drepa niður allan áhuga nemenda á námsefninu og tryggja að þeir öðlist aldrei djúpan skilning á því.

Samræmdu prófin í stærðfræði eru illa samin, eins og Púkinn minntist á í þessari grein og benda til þess að þeir sem bera ábyrgð á náminu séu ekki hæfir til þess.

Allmargar staðreyndavillur má líka finna í kennslubókum í náttúruvísindum, eins og t.d. að gler sé seigfljótandi vökvi við eðlilegt hitastig (og bent á að gamlar glerrúður í miðaldadómkirkjum séu þykkari að neðan en ofan), en þetta er firra sem hefur verið afsönnuð fyrir löngu.

Til að bæta gráu ofan á svart er stærðfræði- og náttúrufræðikunnáttu kennaranna oft verulega ábótavant - hugsanlega vegna þess að fólk með raunverulega hæfileika og þekkingu á þeim sviðum fær betur launuð störf en grunnskólakennslu.

Þetta er ef til vill ekki mikið vandamál fyrir þá nemendur sem eiga foreldra sem hafa sæmilega þekkingu sjálfir á þessum sviðum og geta stutt börn sín, þannig að þau þurfi ekki að reiða sig á lélegt námsefni, kennt í yfirfullum bekkjum af fákunnandi kennurum....en hvers eiga allir hinir að gjalda?

Er öllum sama öllum sama þótt börn í efstu bekkjum grunnskóla séu ennþá að telja á puttunum?

Að hluta til stafar vandamálið af atgervisflótta úr stéttinni - margir góðir kennarar leita í önnur, betur launuð störf, þannig að eftir sitja þeir sem kenna af hugsjón og þeir sem fá ekkert annað að gera.

Púkinn myndi vilja sjá laun grunnskólakennara hækkuð verulega, en Púkinn myndi líka vilja sjá laun kennara ráðast af hæfileikum þeirra, árangri og getu til að miðla námsefninu.  Eins og staðan er í dag, þá starfa arfaslakir og frábærir kennarar hlið við hlið með sömu laun - nokkuð sem ekki myndi gerast í eðlilega reknu fyrirtæki


mbl.is Ísland ver mestu til skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðun hönnunarmistaka - hugleiðingar um friðun MH

Þegar Púkinn var við nám í MH (1980-1982), var þakleki viðvarandi vandamál í húsinu.  Frumorsök þessa vandamáls var væntanlega hið flata þak, en slík þök hafa ekki reynst vel hérlendis - enda upphaflega ættuð frá löndum þar sem önnur veðrátta ríkir en hér.

Hvað um það, Púkanum skildist að ein ástæða þess að þetta var ekki lagað hafi verið þvermóðska arkitektsins sem vildi ekki samþykkja neinar útlitsbreytingar á húsinu - og að sjálfsögðu bar arkitektinn enga ábyrgð á eigin hönnunarmistökunum. 

Með því að friða húsið er væntanlega verið að festa þessi hönnunarmistök í sessi um ókomna tíð, en hvernig er það - lekur þakið á MH ennþá ?


mbl.is Menntamálaráðherra friðar 7 hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þágufallssýki" á mbl.is

Af einhverjum ástæðum pirrar það Púkann þegar fólk fellur í þágufallsgryfjuna - notar t.d. "mér langar " í stað "mig langar".

Mbl.is hefur nú sem betur fer verið nokkurn veginn laust við þetta vandamál og því slær það Púkann e.t.v. meira en annars að lesa grein sem byrjar á orðunum "Breska grínistanum Eddie Izzard langar..." en það ætti að sjálfsögðu að vera "Breska grínistann Eddie Izzard langar..."

Það er síðan allt annað mál að málfar margra bloggara er til háborinnar skammar og að mati Púkans mættu fleiri nota litla "púka" fídusinn sem er innbyggður í blog.is - og þótt hann finni ekki allar villurnar finnur hann þær flestar....þótt þágufallssýkin sé honum ofviða.


mbl.is Izzard vill gerast stjórnmálamaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar fjármálafræðslu í skólana?

500kronurFréttir um nauðungarsölur á húsnæði og aukningu á fjölda þeirra sem þurfa að leita til ráðgjafa þegar fjármál þeirra eru komin í óefni vekur upp spurninguna hvort ekki sé nauðsynlegt að efla fræðslu um fjármál í skólakerfinu.

Í  grunnskóla er nú reyndar námsgrein sem nefnist 'Lífsleikni', þar sem meðal annar eru skilgreind markmið eins og að nemendur "geti metið eigin tekjur og útgjöld og rekstur heimilis".

Gott mál, en það er bara ekki nóg áhersla á það sem raunverulega þyrfti að kenna, eins og til dæmis eftirfarandi reglur:

Bankar eru ekki góðgerðastofnanir.  Þeir hugsa um sinn hag - ekki þinn. Ef þeir vilja lána þér pening er það vegna þess að þeir vilja græða á þér - ekki vegna þess að þeir vilja vera góðir við þig.  Ef þú stendur ekki í skilum með greiðslurnar, þá ert það þú sem lendir í vandræðum - ekki þeir.

Heimurinn er fullur af fólki sem vill komast yfir peningana þína. Ef einhver gerir þér tilboð sem hljómar of gott til að vera satt, þá máttu vera viss um að það er eitthvað vafasamt á ferðinni.

Smáa letrið í samningunum sem þú skrifar undir er ekki til að vernda þig, heldur þann sem samdi samninginn.

 ...og svo framvegis.  Með öðrum orðum - Púkanum finnst að það þurfi að kenna fólki að láta ekki draga sig á asnaeyrunum - og að sú fræðsla eigi að byrja í grunnskólanum.


mbl.is Fleiri nauðungarsölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðileg íslenska!

Stundum ofbýður Púkanum málvillur í texta sem hann sér, en sú frétt sem hér er vísað í slær flest met.  Púkinn ætlar rétt að vona að fjármálavit þeirra sem sendu fréttatilkynninguna frá sér sé betra en íslenskukunnáttan, en svona texti er ekki til þess fallinn að auka tiltrú manna á fyrirtækinu.  (nú, nema klúðrið sé hjá mbl.is)

 "Tap Verðbréfunar hf. sem fer í eigu "  

"Tap félagsins er fært til lækkunar á óráðstafað eigið fé."

"Verðbréfun sér um kaup og eignarhald safna fasteignaveðlána af Landsbanka Íslands hf. og að standa að eiginfjármögnun með útgáfu markaðshæfra skuldabréfa."

"2,3 millj. króna tap eftir útreiknings skatta."

 "tapi þar það telur að skattinneignin muni nýtast félaginu til framtíðar."


mbl.is Tap Verðbréfunar 2,3 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kunna (ekki) stærðfræði

Tvær milljónir skeyta á mínútu gerir ekki tæpa þrjár billjónir á sólarhring, heldur þrjá milljarða.  Við búum ekki í Bandaríkjunum eða öðru landi þar sem menn líta svo á að í billjóninni séu þúsund milljónir, heldur eru það milljón milljónir.

Svona ónákvæmni ergir Púkann.  Það sama á við þegar fólk segir að 4 sé helmingi meira en 2 (en á væntanlega við að það sé tvöfalt meira), svo ekki sé nú minnst á merkingarlaust bull eins og að segja að "verðið er tvöfalt lægra en fyrir útsölu", hvað svo sem það gæti nú átt að þýða.

Það er kannski ekki skrýtið að íslensk börn standi sig illa í stærðfræði þegar þau alast upp við þann hugsanahátt að það sé allt í lagi með svona skekkjur.  Kannski er þarna fundin skýringin á eilífum skekkjum í íslenskum áætlunum - Íslendingar kunna kannski bara ekki stærðfræði.

---

Viðbót: ég sé að greinin hefur verið lagfærð, þannig að gagnrýnin á hana á ekki lengur við - hins vegar stendur það enn sem sagt var um skort á stærðfræðilegri nákvæmni hjá þjóðinni almennt.


mbl.is Tölvupóstsstress
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er treystandi?

Púkanum finnst það góð frétt að Íslendingar treysti kennurum betur en öðrum starfstéttum og að trúarleiðtogar séu neðstir á listanum - já, neðar en stjórnmálamennirnir.

Það er einnig athyglivert að skoðun Íslendinga á því hverjum sé treystandi er ekki í nokkru samræmi við það hvað þjóðfélagið er tilbúið til að greiða viðkomandi fyrir sína vinnu - laun stjórnmálamanna eru verulega miklu hærri en laun kennara og trúarleiðtogar hafa nú oft ekki yfir neinu að kvarta að þessu leyti heldur.

Það er eitthvað athugavert við þetta, en ... tja, svona er Ísland í dag. 


mbl.is Kennurum treyst best á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur einhver rekist á kristilegt siðgæði nýlega?

Í þeirri umræðu sem varð nýlega vegna orðanna "kristilegt siðgæði" í grunnskólalögunum, lýstu sumir því yfir hversu mikilvæg þessi umrædda tegund siðgæðis væri íslensku þjóðfélagi.

Púkinn hefur ekki enn komið auga á birtingarform þessa siðgæðis hér í þjóðfélaginu, þannig að hann vill hér með auglýsa eftir ábendingum um það hvar þetta kristilega siðgæði sé að finna, fyrst það á að sumra mati að vera svona mikilvægur þáttur þjóðfélagsins.

Púkinn fær til dæmis ekki séð að almennur kærleikur og umhyggja fyrir náunganum gegnsýri íslenskt þjóðfélag.  Þessi orð um að sá sem ætti tvo kyrtla ætti að gefa annan þeim sem engan ætti virðast til að mynda ekki í samræmi við þá gífurlegu og vaxandi misskiptingu sem er í þjóðfélaginu.

Ekki sér Púkinn heldur mikið fara fyrir fyrirgefningu - þvert á móti virðist almenn refsigleði ríkjandi í þjóðfélaginu og margir kalla eftir harðari refsingum þeirra sem gera á hlut annarra.

Umburðarlyndi er af sumum talinn hluti þessa umrædda kristilega siðgæðis (þótt erfitt sé að rökstyðja það), en hér virðist gilda sú regla um marga að því "kristnara" sem fólk telur sig vera, því minna umburðarlyndi hefur það gagnvart þeim sem hafa aðrar trúarskoðanir eða kynhneigð en það sjálft.

Nú er Púkinn ekki að segja að þau atriði sem hann taldi upp þekkist ekki í þjóðfélaginu, en skoðun Púkans er eftirfarandi:

  • Það sem er gott í því siðgæði sem er ríkjandi á Íslandi sé ekkert sérstaklega "kristið", heldur má alveg eins segja að það sé hluti siðgæðiskerfis sem byggi á speki Konfúsíusar eða dæmisögum Esóps.
  • Það sem má telja sérstaklega "kristið" er ýmist ekki eftirsóknarvert eða er einfaldlega ekki mikilvægur hluti daglegs lífs landsmanna.

Kannski er Púkinn að missa af einhverju, þannig að hann vill spyrja þá sem til þekkja - Ef rétt er að kristilegt siðgæði sé mikilvægur hluti íslensks samfélags, í hverju birtist það þá eiginlega?


Íslenska menntakerfið - það er vont, það er vont og það versnar

TeachingPúkinn er ekki hissa að heyra að að íslensk börn standi sig undir meðallagi í náttúrufræði og skyldum greinum.

Þetta er í raun ekki skrýtið, ef gæði námsefnisins og kennslunnar eru athuguð.  Púkinn ætlar reyndar ekki að halda því fram að allt námsefni í grunnskólum landsins sé slæmt og vissulega finnast góðir kennarar inn á milli.

Vandamálið er bara að það er allt of mikið af arfaslökum kennurum að kenna illa samið og óvandað námsefni. 

Það er nú kannski ekki skrýtið að illa gangi að fá hæft fólk í skólana - launin eru nú ekki beint neitt til að hrópa húrra fyrir og Púkinn skilur vel að kennarar með góða þekkingu í stærðfræði og náttúrufræði skuli ekki vilja vinna við kennslu, þegar þeir geta fengið tvöfalt eða þrefalt hærri laun annars staðar.  Þetta er ekki eins mikið vandamál í greinum eins og íslensku, sögu og samfélagsfræði, þannig að betri líkur eru á að börnin fái viðunandi kennslu þar.

Viðunandi kennsla ætti hins vegar að vera reglan, ekki undantekning.

Ástandið er hins vegar ekki bara sök kennaranna.

Námsefni í stærðfræði í grunnskólum á Íslandi er til háborinnar skammar að mati Púkans.  Það eru einstaka góðir hlutir inn á milli, eins og svonefnd "Ólympíustærðfræði", en svo eru hlutir og kennsluhættir eins og "uppgötvanastærðfræði", sem Púkinn getur ekki litið á öðru vísi en tilraun til skemmdarverka á stærðfræðigetu og stærðfræðiáhuga nemenda.

Annað dæmi um skammarlega óvandvirkni og metnaðarleysi í stærðfræði eru "gæði" samræmdu prófanna í þeirri grein, eins og Púkinn hefur sagt áður (sjá þessa grein).  Af hverju eru stærðfræðiprófin svona miklu óvandaðri en íslenskuprófin?

Námsefnið í náttúrufræði er síðan kafli út af fyrir sig - allt of mikið af þurru og leiðinlegu staðreyndastagli og ekkert gert til að vekja raunverulega áhuga nemenda á faginu.

Það eru enn fleiri samverkandi þættir.

Lestrargetu bana hefur farið verulega aftur frá því sem var fyrir nokkrum áratugum. Ástæður þess eru margvíslegar, en efst á blaði er að sjálfsögðu minni lestur - minni æfing.  Ef ekki væri fyrir Harry Potter og nokkrar aðrar bækur er hætt við að mörg íslensk börn myndu hreinlega ekkert lesa ótilneydd.  Minni lestrargeta þýðir meðal annars að erfiðara er að tileinka sér námsefni á rituðu formi.

Aðstoð foreldra er enn einn þátturinn - Púkinn efast um að allir foreldrar í dag telji sig hafa tíma eða getu til að fara yfir námsefnið með börnum sínum, heldur varpi margir allri ábyrgðinni yfir á skólana og verða svo undrandi þegar börnin standa sig illa. 

Niðurstaða Púkans er sú að hann hefur verulegar áhyggjur af þeirri kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi - skólakerfið er ekki að undirbúa þessi börn fyrir 21 öldina.


Af hverju ekki samræmd próf?

Af hverju er svo mörgum kennurum illa við samræmdu prófin?  Er hin raunverulega ástæða sú að þeir eru hræddir við að foreldrar beri saman meðaleinkunnir í skólum landsins?

Púkinn er ekki alveg sáttur við samræmdu prófin, enda eru mörg þeirra illa samin og innihalda slæmar villur.  Þau gegna hins vegar ákveðnu hlutverki, sérstaklega fyrir nemendur sem hyggja á hefðbundið bóknám í menntaskólum landsins, því þau leyfa þeim skólum að velja inn nemendur á sanngjarnan hátt.

Ef samræmd próf í 10. bekk eru lögð niður, mun það þá ekki þýða að skólarnir verða annað hvort að taka upp inntökupróf eða aka bara mark á skólaeinkunnum, sem eru sennilega ekki fyllilega sambærilegar milli skóla.  Er það eitthvað betra?

Samræmdu prófin í 4. og 7. bekk eru einnig nytsamleg fyrir foreldra - leyfa þeim að sjá hvar börnin standa miðað við jafnaldra þeirra á landsvísu - nokkuð sem skólaeinkunnir og umsagnir kennara gera ekki.  Af hverju á að taka þessar upplýsingar frá foreldrum?

Foreldrar sem hafa metnað varðandi menntun barna sinna geta í dag valið sér búsetu í nánd við þá skóla sem koma einna best út í samræmdu prófunum - ekki svo að skilja að þær einkunnir segi neitt um gæði kennslunnar við viðkomandi skóla, en þær segja hugsanlega eitthvað um bakgrunn þeirra barna sem stunda nám þar.   Þetta verður erfiðara ef samræmdu prófin verða lögð af.

Nei, samræmdu prófin eru ekki fullkomin, en það leysir engin vandamál að henda þeim burt - það er margt að íslenska skólakerfinu og þessi aðgerð gerir ekkert til að bæta það. 


mbl.is Samræmd próf aflögð og kennaranám lengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband