Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 4. janúar 2008
Trúðurinn í framboð ... aftur
Sumum gremst að Ástþór skuli ætla í framboð enn og aftur, með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðina, en það er nú svo að einn af göllunum við að búa í lýðræðisþjóðfélagi er að trúðar hafa sömu réttindi og aðrir.
Það gildir einu þótt Ástþóri hafi áður verið hafnað í þetta embætti.
Það skiptir ekki máli þótt margir telji hann gersamlega óhæfan til að sinna því.
Það skiptir ekki máli þótt maðurinn hafi ítrekað gert sig að algjöru fífli í augum þjóðarinnar, t.d. með póstsendingum um yfirvofandi hryðjuverkahættu eða jólasveinaflugferðir.
Það skiptir ekki máli þótt hann telji sig vera þann mann sem Nostradamus spáði fyrir um - boðbera friðarins úr norðri.
Nei, Ástþór hefur rétt á að sólunda peningum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í tilgangslausar kosningar. Reglurnar eru einfaldlega þannig - trúðar hafa sinn rétt.
Það er hins vegar spurning hvort reglurnar séu ekki gallaðar. Kröfurnar um fjölda meðmælenda voru til dæmis settar á þeim tíma þegar fjöldi kosningabærra einstaklinga var mun lægri en hann er í dag. Væri ekki réttlátara að gefa kröfu um að ákveðið hlutfall þjóðarinnar mælti með viðkomandi - frekar en að miða við fasta tölu sem verður ómarktækari eftir því sem landsmönnum fjölgar. Ef t.d. væri þess krafist að 1.5% kosningabærra landsmanna væru meðmælendur viðkomandi, myndi það ekki hafa áhrif á þá frambjóðendur sem ættu raunverulega möguleika, en það gæti útilokað trúðana
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 11. desember 2007
Jack Nicholson og hinir hundarnir
Jack Nicholson segir karlmenn líkjast hundum. Nú á Púkinn hund, en sá er tæplega fjögurra ára, sem í hundaárum mælt mun víst jafngilda "twenty-something" karlmanni.
Þótt sá hundur hafi aldrei komist í náin kynni við tík, þá er áhuginn fyrir hendi. Ef hann sér tík á götu gerir hann allt hvað hann getur til að vekja athygli hannar og áhuga á nánara sambandi og ljóst er að þá stundina er aðeins eitt sem kemst að í hans litla hundsheila.
Þetta er ef til vill ekki svo ólíkt sumum "twenty-something" karlmönnum sem Púkinn hefur þekkt í gegnum tíðina og vel má vera að Jack Nicolson myndi sóma sér vel í þessum hópi.
Af þessu tilefni finnst Púkanum við hæfi að birta mynd af "hundaleikfangi" sem er til sölu á Netinu, en það er fáanlegt í tveimur stærðum, fyrir litla og stóra hunda.
Það ætti kannski að senda Jack Nicolson eitt svona leikfang, ásamt aukabúnaðinum - tíkarlykt á brúsa?
![]() |
Líkjast hundum meira en konum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. desember 2007
Mikill er máttur trúarinnar....eða þannig
Þegar Jose Mestre var á unglingsaldri fékk hann æxli á neðri vör. Það hefði verið tiltölulega auðvelt að fjarlægja það með einfaldri skurðaðgerð, en trúin kom í veg fyrir það - slíkt kom ekki til greina að mati móður hans, sem ól hann upp samkvæmt ströngustu túlkunum Votta Jehóva, því skurðaðgerð hefði hugsanlega krafist blóðgjafar.
Nú, 40 árum síðar er andlitið á Jose orðið eins og hægri myndin sýnir og enn hafnar hann hefðbundinni skurðagerð af trúarlegum ástæðum.
Já, mikill er máttur trúarinnar - að einhver skuli hennar vegna frekar kjósa að eyða lífinu á þennan hátt, afmyndaður, atvinnulaus, konulaus og vinafár, frekar en að þiggja einfalda læknisaðgerð sem hefði lagað vandamálið. Jafnvel þrýstingur frá systkinum hans hefur ekki dugað, en þau hafa flúið söfnuðinn.
Ástand Jose gæti þó lagast á næstunni, því læknir í Bretlandi hefur boðist til að beita aðferð sem felur í sér notkun á hátíðnihljóðbylgjum til að koma í veg fyrir blæðingar, þannig að blóðgjöf yrði ekki nauðsynleg.
Sjá nánar hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 6. desember 2007
Ofsaakstur - hvað þarf að drepa marga?
Það að aka á 212 km/klst er nokkuð sem allir ættu að geta samþykkt að sé ofsaakstur, en því miður heyrist allt of oft að ökumaðurinn hafi áður verið tekinn fyrir slíkt athæfi, eða jafnvel sviptur ökuréttindum ævilangt (þótt svo hafi að vísu ekki verið í þessu tiltekna tilviki).
Púkanum finnst nóg komið - það er greinilegt að núverandi úrræði eru ekki að virka. Á meðan sitja hæstvirtir alþingismenn (og -konur) og gera ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu máli - finnst það greinilega mikilvægara að ræða hluti eins og bleik eða blá föt fyrir ungabörn.
Hvað þarf að gerast til að ráðamenn þjóðarinnar taki við sér? Er verið að bíða eftir að einhver ökuníðingurinn keyri þeirra eigin börn (eða barnabörn) niður?
Nei, Púkanum finnst nauðsynlegt að gripið sé til aðgerða til að draga úr þessari plágu sem ofsaakstur er (svo ekki sé nú minnst á akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna). Þær aðgerðir þurfa að vera í formi lagasetningar frá Alþingi.
Púkinn hefur áður lýst sinni tillögu, en vill nú ítreka hana:
Sé réttindalaus einstaklingur tekinn við akstur skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttindum ævilangt vegna ofsaaksturs eða aksturs undir áhrifum skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttindum tímabundið, sem áður hefur hlotið tímabundna sviptingu skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttundum tímabundið í fyrsta sinn, skal ökutækið kyrrsett meðan sviptingin er í gildi. Sé kyrrsett ökutæki notað við akstur skal það get upptækt og selt á uppboði.
(að vísu verður að hafa undanþágu í þeim tilvikum sem um stolið ökutæki er að ræða)
Já, þetta eru harkalegar reglur. Já, þær munu bitna illa á fólki sem þarf að halda áfram að borga af bílalánunum sínum, þrátt fyrir að bílarnir hafi verið gerðir upptækir. Já, þetta mun bitna illá á þeim sem sýna þann dómgreindarbrest að lána vanhæfum ökumönnum bíla. Æ.Æ - Púkinn vorkennir ekki viðkomandi - það verður að kenna fólki að taka afleiðingum gerða sinna.
Þessar aðgerðir geta hins vegar ekki gert annað en að auka umferðaröryggið.
Það er hins vegar einn galli við hertar aðgerðir - líkurnar á að ökumenn reyni að stinga lögregluna af (með tilheyrandi ofsaakstri) gætu aukist. Spurningin er hins vegar hvort það sé réttlætanlegt ef unnt er að koma ökumönnunum úr umferðinni.
Finnist mönnum upptaka ökutækis of harkaleg, þá mætti beita kyrrsetningu ökutækis í ofangreindum tilvikum - taka lyklana tímabundið.
![]() |
Sautján ára á 212 kílómetra hraða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 4. desember 2007
Veggjakrotsræflarnir
Það dylst engum að það hefur orðið sprenging í veggjakroti í Reykjavík á undanförnum árum, en hvaða annarlegu hvatir reka þessi grey áfram til að sóða svona út umhverfi sitt?
Eru þetta bara ræflar sem ekkert eiga og aldrei munu eignast neitt og bera þess vegna enga virðingu fyrir eignum annarra?
Eru þetta strákar frá heimilum þar sem þeir fá ekki athygli og veggjakrotið ber því að skoðast sem eins konar neyðarkall eftir athygli? Það eru einstaka graffarar sem virðast hafa sæmilega listræna hæfileika, en meirihluti veggjakrotara eru ekkert annað en hæfileikalausir "taggarar" sem krota bara frasa eins og "AS", "WTC", "OHY3A" og annað í svipuðum dúr.
Eru þetta bara illa öguð grey, sem reyna að komast eins langt og þeir geta með að brjóta reglur sem þeim hafa í raun aldrei verið settar - er sökin foreldranna sem ekki hefur tekist að kenna börnunum muninn á réttu og röngu?
Gegnir þetta tjáningarform svipuðu hlutverki og sú hegðun hunda að míga utan í ljósastaura og önnur kennileiti? Halda greyin að þeir séu í einhverjum skilningi að merkja sér svæði?
Þegar um fullorðið fólk er að ræða, þá veltir Púkinn fyrir sér hvort um einhver geðræn vandamál sé að ræða, sem brjótast svona út í skemmdarfýsn.
Sennilega er um margar skýringar að ræða og mismundandi ástæður fyrir því að fólk leiðist út í svona, en eitt er ljóst - þessi grey þurfa aðstoð...nú og svo mætti alveg sekta foreldrana hressilega - sýna þeim fram á afleiðingar þess að klúðra uppeldinu á börnum sínum.
Púkinn tók um daginn eftir fullorðinni manneskju með stafræðan myndavél að taka myndir af nýlegu veggjakroti á vegg nálægt húsi sínu. Ef einhver getur vísað púkanum á þessar umræddu vefsíður þar sem graffarar birta myndir af "verkum" sínum myndi Púkinn vera þakklátur. Það væri þá e.t.v. möguleiki að kæra viðkomandi.
![]() |
Netvæðing veggjakrotsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 21. nóvember 2007
MIlljarðamisferli eða eðlileg viðskipti?
Skoðanir fólks á því hvort eðlilega hafi verið að málum staðið að sölu íbúðanna á varnarsvæðinu eru nokkuð misjafnar, svo ekki sé meira sagt.
Sumir einblína á það hverjir koma að þessu máli - sjá samsæri og misferli í hverju horni en aðrir benda á að það megi ekki útiloka menn frá því að eiga viðskipti, þótt þeir séu tengdir tilteknum ráðamönnum.
Það er hins vegar ljóst að ef einhver ástæða er til að ætla að ásakanir um óeðlileg hagsmunatengsl gætu komið upp, þá verða menn að fara sérstaklega gætilega og gæta þess að allar staðreyndir séu uppi á borðinu frá upphafi.
Það virðist ekki hafa tekist í þessu tilviki.
Nú ætlar Púkinn ekki að leggja dóm á það hvort þau sérlög sem sett voru um skil á varnarsvæðinu stangist á við lög um sölu á eignum hins opinbera - slíkt er deiluefni fyrir lögfræðinga og Púkinn er ekki í þeim hópi. Púkinn er hins vegar þeirrar skoðunar að sé um árekstur að ræða, þá hefðu menn átt að benda á hann fyrr, en ekki rúmum mánuði eftir að Klasi, Glitnir, Þrek, Teigur og Sparisjóðurinn í Keflavík kaupa eignirnar.
Það er einnig deilt um hvort verðið sem greitt var, um 9 milljónir á íbúð, sé eðlilegt. Það er að sjálfsögðu ljóst að það kaupir enginn 1660 íbúðir á markaðsverði - kaupandinn ber jú umtalsverðan fjármagnskostnað, auk þess sem hann ber áhættuna af því að geta ekki selt íbúðirnar aftur þegar að því kemur. Miðað við markaðsverð svipaðra eigna í Keflavík má segja að kaupendur hafi fengið 40-50% afslátt frá markaðsverði. Er það eðlilegt? Púkinn er ekki viss, en vill gagnrýna að ekki skuli hafa verið fenginn óháður utanaðkomandi aðili til að meta það á þann hátt að upphæðin væri hafin yfir alla gagnrýni. Slíkt er einmitt sérstaklega mikilvægt í tilvikum eins og þessum þegar hætta er á ásökunum um misferli vegna tengsla.
Annað sem ergir suma er að ekki kemur fram opinberlega hverjir standa í raun á bak við þessi viðskipti. Eftir að upplýst var að Klasi væri í eigu bróður fjármálaráðherra vaknar spurningin um hverjir eigi Þrek og Teig. Það myndi eyða hluta tortryggninnar ef þær upplýsingar lægju á borðinu.
Það sem er ef til vill það mikilvægasta í þessu máli er að ef menn hafa í raun ekkert að fela, þá verða þeir að gæta þess að hlutirnir líti ekki út eins og eitt stórt samsæri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2007
"Brúðkaup aldarinnar" - hvað á að gefa fólki sem á allt?
Púkinn er ekki á gestalistanum fyrir "brúðkaup aldarinnar", en hann leyfir sér samt að velta fyrir sér vandamálinu við að finna viðeigandi gjafir handa fólki sem á allt .. og á líka verslanir þar sem hægt er að kaupa nánast allt.
Púkinn og félagar hans ræddu þetta vandamál í gær og ýmsar hugmyndir komu fram - sumar raunhæfar, en aðrar litaðar svolítilli hæðni eða öfund.
Hvað um það - hér er topp-5 listinn
- Sérsmíðaður, gullhúðaður iPod, eða annað sambærilegt tæki (sjá mynd hér að neðan).
- Segl fyrir lystisnekkju. Þetta er ætlað til að bæta ímynd snekkjunnar og gera hana vistvæna. (sjá mynd hér að neðan)
- Gjafabréf í Nóatúni. ("Alveg öruggt að þetta eiga þau ekki")
- Fjarðarkaup. (Þ.e.a.s. að kaupa verslunina, setja bleikan borða utan um hana og gefa þeim hana)
- Láta gera brunn í Afríku, merkja hann hjónunum í bak og fyrir og gefa þeim bréf upp á að þessi tiltekni brunnur sé nú tileinkaður þeim.
Fleiri tillögur?
Miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Næturgisting fyrir pör ... í IKEA
Af einhverjum ástæðum leiðist mörgum karlmönnum að versla með konum sínum. Nú hefur IKEA ákveðið að gera átak í því að fá eiginmenn og unnusta til að tengja ferðir í IKEA við ánægju, þar sem pörum er boðið upp á ókeypis næturgistingu í einhverju af þeim fjölmörgu rúmum sem eru til sýnis og sölu í versluninni.
Einnig eru tvær máltíðir innifaldar. Þetta mun eiga sér stað 23. nóvember í IKEA versluninni í Gentofte.
Púkinn hefur ekki fregnað hvort til standi að endurtaka leikinn hér á Íslandi. Nánari upplýsingar, auk mynda af rúmunum má sjá hér.
Efter denne aften og nat vil han elske IKEA. Og du får det nemmere i fremtiden, når du skal have din mand med i IKEA.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. nóvember 2007
Ósiðleg Beyonce?
Hvar annars staðar en í Bandaríkjunum gætu viðbrögð ömmu við auglýsingaskilti orðið að frétt sem berst út um allan heim?
Púkinn gróf upp mynd af skiltinu (og ömmunni), þannig að nú getur hver dæmt fyrir sig.
Æ, já...og þetta er í Nevada, sem er annað tveggja fylkja í Bandaríkjunum (ásamt Rhode Island) þar sem vændi er löglegt. Ætli umrædd amma mótmæli því líka, eða stendur henni á sama, þar sem hún sér það ekki úr bakgarðinum hjá sér?
Púkinn bara spyr.
![]() |
Bikíníklædd Beyonce veldur uppnámi í Las Vegas |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 11. nóvember 2007
Hundalíf
Á flakki sínu um netið rekst Púkinn stundum á myndir sem honum finnst þess virði að deila með öðrum. Guinness heimsmetadagurinn var nýlega og eitt af því sem gert var í tilefni hans var að taka mynd af stærsta og minnsta hundi heims saman.
Gibson er Stóridani, sem er rúmlega 2 metrar á hæð þegar hann stendur á afturfótunum, en Boo Boo er hins vegar Chihuahua sem nær rétt rúmlega 10 cm hæð og væri ekki meira en hálfur munnbiti fyrir stóra frænda sinn.
Já, "frænda", því allir hundar eiga jú sameiginlega forfeður í hópi úlfa, fyrir ef til vill ekki nema 10.000 árum síðan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)