Færsluflokkur: Dægurmál
Laugardagur, 10. nóvember 2007
"Bænaganga" á fölskum forsendum?
Þessi "bænaganga" er athyglivert fyrirbæri, eða öllu heldur markmið þeirra sem að henni standa, en þarna ægir saman hinum undarlegustu jaðarhópum ef eitthvað er að marka þá umræðu sem Púkinn hefur séð.
Sumir hommahatarar líta á þessa göngu sem andsvar við "Gay Pride" göngunni. Ef Fred Phelps (sem Púkinn minntist á hér) á sér einhverja skoðanabræður á Íslandi, þá eru þeir væntanlega mættir á staðinn - en varðandi þá umræðu vill Púkinn vísa á þessa grein.
Svo eru þeir sem líta á sjálfa sig sem frelsaða úr einhverjum myrkum fjötrum - fyrrverandi ofbeldismenn og afturbatadópistar sem hafa skipt út dópfíkninni fyrir trúarfíkn og telja sig betri menn. Púkinn getur reyndar tekið undir það - ef menn þurfa endilega að flýja veruleikann er af tvennu illu betra að flýja í trú en dóp - þar þarf enginn að stela til að fjármagna næsta skammt.
Væntanlega eru líka þarna einhverjir sem líta fyrst og fremst á gönguna sem göngu gegn myrkrinu í þjóðfélaginu, frekar en sem trúarlega göngu - göngu gegn almennu þunglyndi, böli og mannskemmandi tilveru, sem því miður allt of margir þurfa að búa við. Um það viðhorf er svosem allt gott að segja - það sem Púkinn efast hins vegar um er að "trú" í hvaða mynd sem er sé einhver lausn á þeim vandamálum. Betri félagsleg úrræði, geðlyf eða sálfræðimeðferð eru vænlegri leiðir til árangurs.
Fólk sem mætir í gönguna á þessum forsendum er hins vegar að láta blekkja sig. Myrkrið virðist nefnilega alls ekki vera aðalatriðið í hugum margra þeirra sem standa að göngunni, samanber fréttina á visir.is:
Hópur kristinna trúfélaga sem stendur fyrir svokallaðri bænagöngu á laugardag hefur sent alþingismönnum og sveitarstjórnarmönnum bréf þar sem farið er fram á það að kristinfræðikennsla verði efld í grunnskólum og að kristið siðferði fái aukið vægi í menntun og uppeldi komandi kynslóða.
Það er nefnilega það. Ekki senda þeir alþingismönnum og sveitarstjórnarmönnum bréf og biðja um fleiri gistiskýli fyrir heimilislausa, fleiri meðferðarúrræði fyrir dópista, menntunarstyrki fyrir öryrkja, eða hækkaðar húsaleigubætur fyrir einstæða foreldra.
Nei, þeir vilja fá að stunda sitt trúboð í friði - halda áfram að innræta börnum sinn boðskap eins og þeir hafa gert öldum saman - reyna að ala á sektarkennd ómótaðra barna og þykjast síðan vera með einu lausnina sem virkar. Það er gott að þeir hafa forgangsröðina á hreinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Þriðjudagur, 6. nóvember 2007
Að eitra fyrir börnum ... með leikföngum
Í leit sinni að skjótfengnum gróða stytta margir sér leið og reyna að fara á svig við kostnaðarsamar reglur um vörugæði og eftirlit.
Bindeez leikföngin eru aðeins nýjasta dæmið af mörgum. Þetta eru litskrúðugar perlur sem hægt er að raða upp og festast saman þegar vatni er úðað á þær.
Perlurnar eru nefnilega húðaðar með efni sem verður að eins konar fljótþornandi lími þegar það blotnar.
Það virðist engum hafa dottið í hug að ef börn gleypa perlurnar komast þær líka í snertingu við vatn í meltingarveginum, þannig að .. ja, börnin eru í raun að gleypa fljótþornandi lím.
Hvað er að þeim sem framleiða þetta? Hvað er að þeim sem útnefna þetta "leikfang ársins 2007"? Hvað er að þeim sem kaupa þetta?
Þegar síðan kemur í ljós að límefnið er efnafræðilega skylt ofskynjunarlyfi, þá verður það frétt - en börnin sem hafa lent á sjúkrahúsi fóru ekki þangað vegna ofskynjunaráhrifa, heldur vegna þess að samanlímdir kögglar af perlum sátu í meltingarvegi þeirra.
Ofskynjunarefnið er í raun aukaatriði - en það er leið til að vekja athygli á hættunni og losna við þessi leikföng úr verslunum.
Vonandi eru þessi leikföng ekki seld hér á landi, en Púkinn myndi gjarnan vilja sjá það staðfest af Leikbæ og Toys'r'us.
![]() |
Vinsæl leikföng innihalda ofskynjunarlyf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 1. nóvember 2007
Alvöru seðlabanki óskast!
Stundum líður Púkanum eins og sérvitringi sem stendur á trékassa í almenningsgarði og hrópar einhvern boðskap um yfirvofandi heimsendi, en áheyrendur labba framhjá og hrista í mesta lagi höfuðið - segja að allt sé í lagi.
Púkinn er nefnilega þeirrar skoðunar að stefna Seðlabankans sé eins arfavitlaus og unnt er.
Vandamálið er að hér á Íslandi er í raun bullandi, falin verðbólga. Klassísk einkenni falinnar verðbólgu lýsa sér í minnkandi vörugæðum eða vöruúrvali, en hér er verðbólgan falin með því að láta krónuna styrkjast langt út fyrir öll velsæmismörk. Ef gengi krónunnar væri "eðlilegt" myndu innfluttar vörur snarhækka í verði, sem kæmi fram sem verðbólga - en það ber Seðlabankanum að forðast umfram allt, samkvæmt þeim lögum sem gilda um hann.
Á meðan okurvaxtastefna Seðlabankans heldur ofurkrónunni uppi, þá blæðir útflutningsfyrirtækjunum. Sum þeirra eru betur sett en önnur - álfyrirtækin borga fyrir hráefni með ódýrum gjaldeyri og fá orkuna á niðurgreiddu verði, þannig að þau kvarta nú ekkert sérstaklega - en sjávarútvegurinn er í vondum málum og versnandi.
Verst af öllu eiga þó þau fyrirtæki sem eru með alla starfsemi sína hér á Íslandi og allan launakostnað í íslenskum krónum, en tekjurnar í dollurum og evrum. Seðlabankinn mun sjálfsagt ná fram markmiðum sínum að kæla efnahagslífið með því að slátra þeim fyrirtækjum eða hrekja þau úr landi, en það virðist ljóst að stefna stjórnvalda sé að héðan megi ekkert flytja út annað en ál og fisk.
Nei, svona fer þegar Seðlabankanum er stjórnað af afdönkuðum pólitíkusum samkvæmt lögum sem eru meingölluð.
Það er margt sem hægt er að gera - Púkinn vill nefna tvennt - setja þak á vexti Seðlabankans - þeir megi t.d. ekki vera meira en 5 prósentustigum hærri en sambærilegir vextir í helstu viðskiptalöndum. Það sem er hins vegar mikilvægast er að forgangsröð Seðlabankans verði endurskoðuð. Nú undanfarin ár hefur forgangurinn verið að halda verðbólgu niðri - sem hefur tekist þokkalega, en hefur í raun ekki skilað neinu í vasa fólks, en aðeins valdið gífurlegri aukningu á innflutningi, fáránlegri eyðslu í "ódýrar" innfluttar vörur (pallbíla, flatskjái o.s.frv.) og gengdarlausum tekjum innflytjenda.
Verði haldið áfram á sömu braut, blasir hrun margra útflutningsfyrirtækja við. Er ekki eitthvað að peningastefnu sem veldur svona röskun?
Eftir nokkur ár geta menn síðan skoðað brunarústirnar af efnahagslífinu og velt fyrir sér hvers vegna íslenskt atvinnulíf sé svona einhæft, samanborið við atvinnulíf nágrannalandana - velt fyrir sér hvað hafi orðið af öllum þeim fyrirtækjum sem ætluðu að flytja út eitthvað annað en ál.
Er ekki bara kominn tími til að flýja land - fara til einhvers lands með alvöru seðlabanka?
![]() |
Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um 0,45% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 30. október 2007
Ísland - meinlausasta land heims?
Púkinn var að velta fyrir sér ímynd Íslands úti í hinum stóra heimi og spurningunni hvaða skoðun stjórnvöld í fjarlægum löndum hafa á okkur.
Nýlega var einn fyrrverandi samstarfsmanna Púkans að velta fyrir sér að skreppa yfir til Pakistan og athugaði hvers konar vegabréfsáritun Íslendingar þyrftu.
Í ljós kom að þeir þurfa enga áritun og mega dvelja þar eins og þeir vilja. Aðeins nokkrar aðrar þjóðir eru í svipaðri stöðu, nefnilega Maldives, Nepal, Tobago, Tonga, Trinidad, Western Samoa og Zambia.
Góður félagsskapur, þetta - en öll þessi lönd eiga það sameiginlegt að vera frekar meinlaus - væntanlega flokkuð sem engin ógn við þjóðarhagsmuni Pakistan.
Já, svona er Ísland í dag...meinlaust.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 25. október 2007
Svikahrappar vikunnar
Það er nú ekki svo að Púkinn sé syndandi í peningum eins og Jóakim Önd eða íslenskir bankastjórar, en samt eru á hverjum degi einhverjir sem reyna með vafasömum hætti að komast yfir peninga Púkans.
Svona til gamans kemur hér listi yfir nokkrar tilraunir þeirra síðustu vikuna.
Charles James
Fyrst er dæmigert "Nígeríubréf", sem fylgir hér:
Dear Friend,
From the over drafts records of outstanding contracts award due for payment in our bank, we discovered that the next person on the list to be paid for this contract named: Mr. Charles James had just died recently due to heart related diseases. His heart condition was due to the death of all the members of his family in the Gulf Air Flight Crashes in Persian Gulf Near Bahrain
none of his family has shown up to claim the money for this contract. Records in our Department shows that late Mr. Charles James had already finished the contract before he died and he was only awaiting his payment from us.The said money ($30,000,000.00) had been in our custody in our Bank since the last government regime. I have the mandate of my colleagues to look for a reliable and trustworthy person (foreign partner) that we shall present as the next-of-kin to late Mr. Charles James to enable us claim the said amount $30m.
I wish to inform you that the said payment will be processed and the money will be released to you as soon as you respond to this letter.
Kindly send to me the followings:
1) Your full name.
2) Phone, fax and mobile #.
3) Company name, position and address.
4) Profession, age and marital status.
As soon as this information is received, the payment will be processed and wired to your nominated bank account directly from the CBN our bank. Please e-mail me back via this address [eytt út] as soon as you receive this letter for further communication.
NB. I REALLY NEED YOUR TOTAL HONESTY AND TRUST IN THIS MATTER.
Regards,
CLIFF ARMSTRONG
Þetta er illa skrifað, ótrúverðugt og til að falla fyrir þessu þurfa fórnarlömbin að vera fáfróð, fégráðug og með vafasamt siðferði. Það er nóg til af slíku fólki - annars hefðu sendendurnir væntanlega gefist upp á þessu fyrir löngu.
European City Guide
Þetta bréf datt inn um lúguna - Púkanum er þar boðið að leiðrétta upplýsingar um fyrirtæki sitt. Í smáa letrinu kemur síðan fram að fyrir þetta þarf Púkinn að borga 987 evrur á ári. Þetta hefur gengið árum saman og væntanlega gabba þeir nógu marga til að þetta borgi sig.
IRS Tax refund
Nú hefur Púkinn aldrei greitt skatt í Bandaríkjunum, þannig að tölvupóstur um að hann eigi rétt á endurgreiðslu er ekkert sérstaklega trúverðugur. Hins vegar var umræddur tölvupóstur vel gerður - HTML síða með trúverðugum hausum, vönduðu orðalagi og sannfærandi upphæð, $282.15. Nægjanlega há upphæð til að fólk nenni að eltast við hana, en ekki það há að hún virðist ótrúverðug. Í tölvupóstinum er tengill sem virðist benda á irs.gov, en bendir í rauninni á vefsíðu í Frakklandi, þar sem fólk þarf að gefa upp ýmsar persónulegar upplýsingar, þar á meðal bankareikning til að leggja endurgreiðsluna inn á.
eComTrainers.com
Það kom bréf heim til Púkans, þar sem frú Púka er boðið (ásamt gesti) í hádegisverð eða kvöldverð á Radisson SAS þann 22 eða 23. Púkanum finnst nú alltaf gaman að láta bjóða sér í mat, en það eru takmörk - og að hluta á sölufyrirlestur frá vafasömu fyrirtæki í 90 mínútur, það sem beitt er þrýstingi til að fá fólk til að skrifa undir samninga sem fyrir flesta þýða tapað fé og tapaðan tíma ... nei, það eru takmörk fyrir því hvað Púkinn er til í að gera til að fá að borða á kostnað annarra.
Yahoo happdrættið
CONGRATULATIONS!Yahoo! Mail announces you as one of the 10 lucky winners in the ongoing 12 Years Yahoo lottery Award of the new year2007. All 10 winning email addresses were randomly selected from a batch of 50,000,000 international emails each from Canada. Australia. United State.Asia.....
Púkinn á bágt með að trúa að nokkur falli fyrir þessum gerfihappdrættisvinningstilkynningum en svo virðist vera, því þær koma aftur og aftur - aðeins nöfn fyrirtækjanna breytast. Þeir sem standa á bak við þetta vita að sumt fólk er tilbúið til að senda þeim vegabréfa- og bankareikningaupplýsingar sem síðan nýtast þeim til að svíkja út peninga á einn eða annan hátt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 19. október 2007
Dílerinn á þakinu?
Fyrir skömmu horfði Púkinn á lögregluaðgerð út um skrifstofugluggann - fjöldi lögreglumanna og bíla í kringum hús eitt. Það var svo sem fátt merkilegt við það, nema hvað þegar lögreglan fór sást maður nokkur klifra ofan af þaki (þar sem hann hafði falið sig bakvið skorsteininn) og niður á svalir.
Það vakti líka athygli að umræddur maður virtist önnum kafinn á þakinu við að tala í farsímann sinn.
Í dag mætti lögreglan síðan aftur, með bíla og hunda og hélt inn í sama hús. Sú ferð virtist árangursríkari, miðað við hve mikið var borið út.
Púkinn og samstarfsmenn hans veltu fyrir sér hvað hefði verið á seyði, en sennilegasta tilgátan var að hér væri ekki um að ræða "Fiðlarann á þakinu", heldur "dílerinn á þakinu".
Já....svona er Ísland í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. ágúst 2007
Drukknar konur og aðrir hálfvitar
Eins og margir aðrir hefur Púkinn fylgst með umræðunni um byttuna sem var neydd til að láta af hendi þvagsýni og satt best að segja hefur Púkinn nú ósköp litla samúð með viðkomandi.
Það er nefnilega skoðun Púkans að fólk verði að taka afleiðingum þess þegar það hegðar sér eins og hálfvitar og það á við í þessu tilviki. Konunni var í sjálfsvald sett að vera samvinnuþýð, en hún tók þann kost að gera það ekki.
Skoðum aðeins hvað hefði getað gerst ef lögreglan hefði bara hætt við og konan ekki verið neydd til að láta sýnið af hendi. Fyrir dómi hefði konan getað haldið því fram að hún hafi ekki hafið drykkju fyrr en eftir að akstri lauk. Blóðsýnið eitt og sér hefði ekki dugað til að hrekja þá fullyrðingu, þannig að hugsanlega hefði konan verið sýknuð af ölvunarakstri.
Ef fólki er stætt á því að neita að láta af hendi sýni í málum eins og þessum er það uppáskrift á að hafa fleiri drukkna hálfvita keyrandi um göturnar án þess að hægt sé að koma lögum yfir þá.
Púkanum finnast þeir hagsmunir mikilvægari en einhver auðmýking sem fullur hálfviti verður fyrir vegna eigin háttalags. Konan tók þá ákvörðun að keyra drukkin og hún hafnaði samvinnu við lögreglu. Það þarf að stöðva svona fólk - eg ef það felur í sér auðmýkingu, þá verður bara svo að vera - það var ekki eins og hún hefði ekki getað komist hjá þessu.
![]() |
Konu haldið niðri og þvagsýni tekið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 15. ágúst 2007
Að velja sér apótek
Nú er það ekki þannig að lyfjakostnaður sé meðal stærstu útgjaldaliða Púkans, en þó - á þriggja mánaða fresti þarf Púkinn að lalla út í apótek með lyfseðlana sína til að fá það sem til þarf til að halda blóðþrýstingnum og bakinu í góðu lagi.
Púkinn hefur lengst af verslað við stóru keðjurnar, en síðast varð breyting þar á - þessi lyf voru núna keypt hjá einu af litlu, sjálfstæðu apótekunum.
Sömu lyf frá sama framleiðanda - sama "þjónustustig", en verðið var ekki það sama. Í stað þess að borga 5514 krónur borgaði Púkinn 4208 krónur.
Með öðrum orðum - verðið hjá stóru keðjunni var 31% hærra en hjá litla apótekinu.
Þótt þetta séu ekki stórar upphæðir, þá safnast þetta upp - munurinn er rúmar 5000 krónur á ári og þær krónur má nota í eitthvað gáfulegra en að styðja verslanakeðju sem með yfirgangi er búin að bola allmörgum litlum apótekurum í burtu.
Nei, hér eftir er ljóst að Púkinn fær sér frekar gönguferð upp í Skipholt þegar hann á leið í apótekið heldur en að versla við stóru keðjuna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 2. ágúst 2007
Að treysta mönnum....eða ekki
Það er ljóst að Þjóðhátíðarnefndin í Vestmannaeyjum treystir ekki Árna Johnsen til að koma fram sem kynnir. Það er ennfremur ljóst að stór hópur fólks sunnanlands treystir Árna til starfa á Alþingi - starfa sem maður myndi nú ætla að væru mikilvægari.
Það er eitthvað að hér.
Fleira ætlar Púkinn ekki að segja um þetta mál, enda væri málið þá fljótt að enda í ómálefnalegum upphrópunum.
![]() |
Segjast ekki hafa treyst sér lengur til að bera ábyrgð á Árna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 31. júlí 2007
Lítill heimur stundum
Púkinn ætlar ekki að skrifa um þann harmleik sem átti sér stað nýverið þegar maður var skotinn, að öðru leyti en því að minnast á hvað samfélag okkar hér á Íslandi er í raun lítið.
Það hefur verið sagt að hér á Íslandi sé keðja á milli manna aðeins að lengd 2, þ.e.a.s. fyrir sérhverja tvo einstaklinga A og B, þá sé til X, þannig að A og X þekkjast og sömuleiðis X og B.
Þetta var einmitt rauninn með Púkann í þessu máli, sem hvorki þekkti morðingjann né hinn myrta, en þekkir hins vegar marga vinnufélaga hins myrta svo og vin morðingjans sem hann gisti hjá skömmu fyrir atburðinn.
Já, þetta er lítill heimur stundum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)