Færsluflokkur: Lífstíll
Sunnudagur, 9. mars 2008
Eru Íslendingar mestu nöldrarar í heimi?
Stundum læðist sú hugsun að Púkanum að nöldur sé þjóðaríþrótt Íslendinga. Það virðist engu máli skipta hvaða mál er skoðað - það má alltaf finna einhverja sem geta nöldrað út af því.
Suma nöldurgjörnustu einstaklinga landsins má finna hér á blog.is, en hér er nöldrað um bækur, dægurmál, enska boltann, ferðalög, íþróttir, menningu, tónlist, trúmál og alla hina bloggflokkana.
Mesta íþróttin virðist þó vera að nöldra um stjórnmál og fjármál og helst ef þetta tvennt tengist.
Skoðum til dæmis eitt helsta nöldurefnið þessa dagana - ástandið á fasteignamarkaðinum. Fyrir nokkrum árum voru íslendingar nöldrandi yfir því hve erfitt væri að fá fé til íbúðarkaupa. Íbúðalánasjóður væri nískur og vextirnir háir. Þá komu bankarnir og hófu að ausa fé í landsmenn á "góðum" kjörum.
Er þjóðin ánægð með þetta í dag og hætt að nöldra? Ónei. Allir þessir peningar ýttu upp íbúðarverðinu og nú nöldrar þjóðin sem aldrei fyrr - nöldrar yfir afleiðingum þess að hún fékk það sem hún bað um.
Er til eitthvað það mál sem Íslendingar nöldra ekki yfir?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þriðjudagur, 11. desember 2007
Jack Nicholson og hinir hundarnir
Jack Nicholson segir karlmenn líkjast hundum. Nú á Púkinn hund, en sá er tæplega fjögurra ára, sem í hundaárum mælt mun víst jafngilda "twenty-something" karlmanni.
Þótt sá hundur hafi aldrei komist í náin kynni við tík, þá er áhuginn fyrir hendi. Ef hann sér tík á götu gerir hann allt hvað hann getur til að vekja athygli hannar og áhuga á nánara sambandi og ljóst er að þá stundina er aðeins eitt sem kemst að í hans litla hundsheila.
Þetta er ef til vill ekki svo ólíkt sumum "twenty-something" karlmönnum sem Púkinn hefur þekkt í gegnum tíðina og vel má vera að Jack Nicolson myndi sóma sér vel í þessum hópi.
Af þessu tilefni finnst Púkanum við hæfi að birta mynd af "hundaleikfangi" sem er til sölu á Netinu, en það er fáanlegt í tveimur stærðum, fyrir litla og stóra hunda.
Það ætti kannski að senda Jack Nicolson eitt svona leikfang, ásamt aukabúnaðinum - tíkarlykt á brúsa?
Líkjast hundum meira en konum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. desember 2007
Hundheiðin jól
Er einhver mótsögn í því að trúleysingjar haldi upp á jól - þetta er jú "Fæðingarhátíð frelsarans", eða hvað?
Ekki að mati Púkans (sem mun víst flokkast sem róttækur trúleysingi), enda er ákaflega lítið kristilegt við jólin, eins og þau eru haldin hér á Íslandi.
Skoðum aðeins nokkur mest áberandi einkenni jólahátíðarinnar.
Tímasetningin. 25 desember er ekki nefndur sem fæðingardagur Jesú fyrr en í ritinu Chronographiai, sem Sextus Julius Africanus skrifaði um 221. Jafndægur á vori var talinn sköpunardagur Adams, og því hlaut það að vera getnaðardagur Jesú líka (samkvæmt 3. aldar guðfræði) og fæðingardagur hans því 9 mánuðum síðar. Það skipti hins vegar líka máli að heiðin vetrarsólstöðuhátíð var haldin um svipað leyti og með því að velja þennan dag gat kirkjan yfirtekið þá hátíð án mikillar andspyrnu. Staðreyndin er hins vegar sú að hafi umræddur Jesús yfirhöfuð verið til, eru líkurnar á því að hann hafi raunverulega fæðst 25. desember ekki miklar.
Nafnið. Eins og tímasetningin, þá er nafnið "jól" ættað aftur úr heiðni, hugsanlega skylt orðunum "Ýlir" eða "Jólnir" en þó er það allt óvíst. Við erum ekki að burðast með orð eins og "Kristsmessa" eða neitt þvílíkt - nei - bara gott og gilt heiðið nafn. Púkinn sér ekkert athugavert við það.
Jólamatur. Það eru litlar heimildir til um hvernig heiðnir menn héldu jólafagnaði, en mikill og góður matur er nefndur á nokkrum stöðum. Það tíðkaðist til dæmis að fórna svíni í nafni Freys. Púkinn sér því ekkert athugavert við að fá sér Hamborgarhrygg á jólunum - það eru bara leifar af gömlum og góðum heiðnum venjum.
Jólatré. Jólatréð í sinni núverandi mynd er væntanlega upprunnið í Þýskalandi á 16. öld, en í raun er ekkert sérlega "kristilegt" við tréð sem slíkt. Það væri þá helst sá siður sumra að setja stjörnu á toppinn, því geta trúleysingjar auðveldlega sleppt án vandræða.
Mistilteinn. Hann tíðkast sem hluti jólaskreytinga í nálægum löndum en fáar plöntur voru jafn merkilegar í heiðnum sið.
Jólagjafir og jólaverslun. Jólin eru hápunktur efnishyggjunnar, þegar fólk eyðir peningum sem það á ekki í gjafir handa fólki sem hefur ekki þörf fyrir þær. Gjafir sem slíkar eru að sjálfsögðu mun eldri siður en kristnin og ekki veit Púkinn til þess að nokkur telji óbeislaða efnishyggju sérstaklega "kristilega".
"Hátíð ljóss og friðar". Hugmyndin um "hátíð ljóssins" er hluti hinnar upphaflegu vetrarsólstöðuhátíðar - haldin í dimmasta skammdeginu áður dagana tekur að lengja að nýju - ekkert kristilegt við það eða við ljósaskreytingar í einni mynd eða annarri. Hvað friðinn varðar, þá hafa kristnir menn nú ekki einkarétt á honum - hafa ekki "kristnar" þjóðir háð fleiri og blóðugri stríð en flestir aðrir?
Íslensku jólasveinarnir. Það má túlka jólasveinana 13 á ýmsa vegu, til dæmis sem fulltrúa ýmis konar perragangs, en kristilegir eru þeir ekki. Engin vandamál hér fyrir trúleysingjana heldur.
Hvað er þá eftir?
Niðurstaða Púkans einfaldlega sú að eins og jólahefðin er, þá er ekkert kristilegt við hana - ekkert sem skapar mótsögn fyrir sannfærða trúleysingja.
Púkinn mun því óska öllum gleðilegra hundheiðinna jóla.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 29. nóvember 2007
Elsta atvinnugreinin
Púkinn ætlaði nú upphaflega ekki að skrifa neitt um þessa vændiskonu í Chile sem seldi 27 tíma "þjónustu" til styrktar góðgerðarmálum, en hér kemur nú samt mynd af viðkomandi auk hlekks á viðtal við hana.
Líf hennar hefur ekki verið eintómur dans á rósum samkvæmt því sem þar segir.
Góðgerðarstofnunin sem upphaflega átti að fá peningana mun hins vegar hafa hafnað þeim, samkvæmt þessari grein.
Meira hefur Púkinn ekki að segja um þetta mál.
Kynlíf í góðgerðarskyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Mætið í vinnu í nærfötunum!
Fyrirtæki nokkurt í Taizhong í Taiwan mæltist til þess að hinir 500 kvenkyns starfsmenn þess mættu til vinnu í nærfötunum einum þann 21 nóvember til að halda upp á metsölu (og að sjálfsögðu til að vekja athygli á fyrirtækinu).
Að sögn urðu um 90% þeirra við þessum tilmælum.
Púkinn veltir nú aðeins fyrir sér hver viðbrögðin yrðu ef svipuð tilmæli kæmu frá stjórnendum íslensks fyrirtækis.
Það skal að vísu tekið fram að framleiðsluvörur fyrirtækisins eru, jú...nærföt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Ekki-femínísk fréttastofa
Í tilefni af opnun femínísku fréttastofunnar, sem Sóley Tómasdóttir segir frá hér, þá fannst Púkanum við hæfi að minnast á nokkrar aðrar fréttastofur sem verða seint sakaðar um femínisma.
Efst á blaði er að sjálfsögðu þessi hér, sem hefur sent út frá Toronto frá árinu 2000.
Nú, ef fólki hugnast hvorki femíníska fréttastofan né sú ofanfarandi, þá mætti e.t.v. reyna þessa hér.
Ef engin af ofanfarandi fréttastofum höfðar til ykkar, þá er alltaf hægt að fara bara hingað og skoða lista yfir þær sjónvarpsútsendingar sem eru aðgengilegar á netinu - allt frá barnaefni til íranska ríkissjónvarpsins.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 23. nóvember 2007
Má bjóða þér hnetusteik, væni?
Það hefur nú heyrst áður að rautt kjöt sé ekki heilsusamlegt, en hingað til hafa yfirlýsingar um að það sé beinlínis krabbameinsvaldandi fyrst og fremst verið takmarkaðar við reykt kjöt, en sumir hafa sagt tengsl milli neyslu þess og blöðruhálskrabbameins.
Púkinn veltir því fyrir sér hvort fréttir eins og þessi verði til þess að fleiri gerist jurtaætur, eða hvort fiskneysla muni aukast, en komst svo að þeirri niðurstöðu að flestir munu bara yppa öxlum og halda áfram að borða sínar svínakótelettur, nautalundir og lambalæri.
Púkinn prófaði reyndar eitt sinn sjálfur að gerast jurtaæta, en sú tilraun stóð yfir tíu ár - þá var nóg komið af eplum og baunabuffum.
Það er hins vegar allt annað mál að Íslendingar (og sér í lagi börn) borða allt of lítið af grænmeti og mætti alveg reyna að auka það. Það myndi ekki gera neinn skaða - nú nema fólk fái ofsafengin ofnæmisviðbrögð við hnetunum...nú eða gulrótum.
Bannfæra allt rautt kjöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2007
"Brúðkaup aldarinnar" - hvað á að gefa fólki sem á allt?
Púkinn er ekki á gestalistanum fyrir "brúðkaup aldarinnar", en hann leyfir sér samt að velta fyrir sér vandamálinu við að finna viðeigandi gjafir handa fólki sem á allt .. og á líka verslanir þar sem hægt er að kaupa nánast allt.
Púkinn og félagar hans ræddu þetta vandamál í gær og ýmsar hugmyndir komu fram - sumar raunhæfar, en aðrar litaðar svolítilli hæðni eða öfund.
Hvað um það - hér er topp-5 listinn
- Sérsmíðaður, gullhúðaður iPod, eða annað sambærilegt tæki (sjá mynd hér að neðan).
- Segl fyrir lystisnekkju. Þetta er ætlað til að bæta ímynd snekkjunnar og gera hana vistvæna. (sjá mynd hér að neðan)
- Gjafabréf í Nóatúni. ("Alveg öruggt að þetta eiga þau ekki")
- Fjarðarkaup. (Þ.e.a.s. að kaupa verslunina, setja bleikan borða utan um hana og gefa þeim hana)
- Láta gera brunn í Afríku, merkja hann hjónunum í bak og fyrir og gefa þeim bréf upp á að þessi tiltekni brunnur sé nú tileinkaður þeim.
Fleiri tillögur?
Mánudagur, 12. nóvember 2007
Íslenskir rasistar og aðrir aumingjar
Það er því miður staðreynd að rasismi er eitt af þeim vandamálum sem fer vaxandi hér á Íslandi og kemur meðal annars fram í nýlegri opnun tiltekinnar vefsíðu.
Það er að sjálfsögðu möguleiki að þessi vefsíða (skapari.com) sé bara ætluð sem brandari - svona einhver misheppnaður unglingahúmor til að athuga hvað hægt er að fá marga til að æsa sig upp yfir þessu, en Púkinn er hálf-hræddur um að sú sé ekki raunin - þessum greyjum sem standa að síðunni gæti verið fúlasta alvara.
Það er nú annars spurning hverjir raunverulega standa að síðunni, því skráður eigandi hennar er þekktur bandaríkur rasisti:
Hal Turner Radio Show | ||||
1906 Paterson Plank Road | ||||
North Bergen, NJ 07047 | ||||
US |
Hal þessi er frekar ómerkilegur og óskemmtilegur náungi, frægur fyrir hótanir og að hvetja til ofbeldis, eins og til dæmis þegar hann birti heimilisfang Joan Lefkow, dómara í máli gegn Sköpunarkirkirkjunni, en skömmu síðar var brotist inn hjá dómaranum og eiginmaður hennar og móðir skotin til bana. "Sköpunarkirkja" þessi er reyndar tæplega kirkja sem slík, heldur bara samtök rasista sem hika ekki við að beita ofbeldi, en tengslin milli hennar og skapari.com eru nokkuð augljós.
Væntanlega eru nú einhverjir stuðningsmenn þeirra hér á Íslandi, því efnið er á íslensku, þótt ekki beri orðaforðinn né málfarið nú vott um að nein andleg mikilmenni sé að ræða.
Þetta er í stuttu máli frekar ógeðfelldur félagsskapur einstaklinga með minnimáttarkennd - en Púkanum sýnist ekki minni ástæða til að hafa áhyggjur af þeim en t.d. þessum útsendurum Hell's Angels sem voru gerðir afturrækir nýlega.
Halló, Björn Bjarnason, hvernig væri nú að skoða þetta mál?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 12. nóvember 2007
Bruðl dagsins: Dýrasti eftirréttur heims
Púkinn er áhugamaður um góðan mat og skammast sín ekkert fyrir að borga vel fyrir það.
En það eru takmörk fyrir öllu og $25.000 eftirréttur er eiginlega utan þeirra takmarka.
Serendipity 3 veitingahúsið í New York býður nú upp á súkkulaðiísrétt, sem nýtur þess (vafasama) heiðurs að vera dýrasti eftirréttur heims.
Verðið skýrist aðeins að hluta til með því að í réttinn eru notaðar 14 dýrustu súkkulaðitegundir heims og að á ísinn er sáldrað 5 grömmum af gulldufti. Að auki er ísbikarinn þakinn gullflögum að innan, en ætlast er til að þær séu borðaðar líka.
Í fæti bikarsins er 18-karata gullarmband með gimsteinum og rétturinn er borðaður með demantaskreyttri gullskeið, en hvort tveggja mun víst fylgja með í kaupunum.
Er ekki fyrirhafnarminna að eyða $25.000 bara beint í skartgripaverslun, heldur en að vera að blanda einhverjum súkkulaðiís í málið?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)