Færsluflokkur: Lífstíll
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Samtök tilvistarskertra
Púkinn á við tilvistarkreppu að stríða - eða væri réttara að kalla það "tilvistarskerðingu"? Hann er nefnilega ekki til - svona í vissum skilningi.
Púkinn hefur enga kennitölu og tilvist hans er ekki viðurkennd af hinu opinbera. Hann getur ekki fjarfest í hlutabréfum eða höfðað meiðyrðamál, svo dæmi sé tekið um þá mismunun sem Púkinn og aðrir tilvistarskertir einstaklingar búa við.
Púkinn er ekki einn um að búa við þetta vandamál, en tilvistarskerðing er útbreiddari en margir myndu halda. Meðal þekkra einstaklinga með tilvistarskerðingu má nefna Andrés Önd, Stekkjastaur og alla hans fjölskyldu, já og líka Silvíu Nótt.
Við, tilvistarskertir einstaklingar höfum fengið okkur fullsadda á þeirri mismunum sem viðþurfum að búa við og stefnum að stofnun samtaka til að standa vörð um hagsmuni okkar.
Tilvistarskertir einstaklingar allra landa, sameinist!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Guð er í kjallaranum og heldur þræla
Guð er fundinn. Hann heitir Glenn Marcus, 53 ára, og býr í kjallara í húsi foreldra sinna þar sem hann selur myndasögublöð.
Já - og hann hefur líka nokkra BDSM þræla, konur sem hann kallar nöfnum eins og "Doggie", "Nameless" og "Robot". Þrælarnir kalla hann hins vegar "God".
Glenn Marcus er nú fyrir rétti, en réttarhöldin snúast að miklu leyti um það hvort samband hans og þrælanna byggðist á upplýstu samþykki þeirra eða ekki.
Það skal tekið fram að hann hélt konunum ekki föngnum. Þær komu og fóru eins og þær vildu - komu till að láta niðurlægja sig og pína á undarlegasta hátt.
Púkanum finnst mannfólk skrýtin dýrategund og stundum skilur hann það alls ekki. Honum finnst til dæmis undarlegt að femínistar mótmæli ekki hóteli sem gerir út á S&M markaðinn og útbýr sérstakar handjárnafestingar á rúmin, en ætli alveg að ærast yfir hóteli sem hýsir hóp fólks sem kemur hér og ætlar að fara í Bláa lónið, skoða Geysi og kynna sér skemmtanalíf Reykjavíkur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Lögfræðingar í Undralandi
Baugsmálið vakti Púkann til umhugsunar um undarlega hegðun lögfræðinga og í framhaldi af því komst hann að því að árlega eru ýmsar viðurkenningar veittar á því sviði.
Samkvæmt The Times í London var sigurvegari ársins 2006 lögfræðingurinn Bob Moodie, sem mætti fyrir rétt klæddur eins og Lísa í Undralandi til að vekja athygli fjölmiðla á því sem hann taldi vera yfirhilmingu stjórnvalda.
Dómari ársins var Florentino Flore jr. sem var vikið frá störfum eftir að hann hafði lýst því yfir að hann nyti aðstoðar þriggja ósýnilegra dverga, Luis, Armand og Angel við dómarastörfin.
Vitni ársins var Gail Sheridan, sem bar vitni í máli manns hennar gegn News of the World, sem hafði sagt hann taka þátt í kynsvalli. Gail sagði manninn sinn svo leiðinlegan að það skemmtilegasta sem hann gerði um helgar væri að lesa orðabækur til að finna löng orð til að nota í Scrabble.
Sigurvegari í flokki vonlausra málssókna var lögfræðingurinn Jens Lorek, sem leitaði einstakinga sem hefðu verið numdir á brott af geimverum, til að geta höfðað mál fyrir þeirra hönd.
Og svo finnst fólki Baugsmálið vera skrípaleikur....huh!
Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Leðurólar og sveittir, naktir karlmenn
Blóma, konfekt- og hjálpartækjasalar fagna væntanlega auknum vinsældum Valentínusardagsins á Íslandi.
Púkinn er nú sjálfur frekar hlyntur hinum íslensku konu- og bóndadögum, en í tilefni Valentínusardagsins finnst Púkanum viðeigandi að rifja upp uppruna hans.
Í Róm var til forna haldinn hátíðlegur hin svonefnda Lupercalia hátíð 15. febrúar, en tilgangur hennar var að bægja frá illum öndum og tryggja frjósemi.
Þessi hátíð fólst í því að tveimur geithöfrum og hundi var slátrað, og blóði þeirra síðan smurt á unga karlmenn. Síðan voru ólar skornar úr skinni geitanna og karlmennirnir hlupu naktir um götur borgarinnar, sveiflandi ólunum.
Konur og stúlkur stilltu sér upp meðfram hlaupaleiðinni og reyndu að verða fyrir höggum ólanna, en það átti að tryggja frjósemi.
Púkinn ætlar ekkert að fullyrða um hvort það að vera slegnar með skinnólum af blóðugum, nöktum og sveittum karlmönnum hefur örvandi áhrif á konur, en svo mikið er víst að hátíðin lifði allt til ársisns 494 í Róm.
Árið 496 var Valentínusardagurinn tekinn upp þann 14. febrúar og leðurólunum var skipt út fyrir blóm og konfekt - að minnsta kosti í flestum tilvikum.
Púkinn lætur öðrum eftir að meta það hvort sveittu, nöktu karlmennirnir hafi horfið líka.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
(Ekki svo) góðir kennarar?
Grunnskólakennarar njóta ákveðinna forréttinda umfram margar aðrar stéttir. Það virðist skipta ósköp litlu máli hversu góðir þeir eru í raun í starfi sínu. Frami þeirra og launahækkanir virðist fyrst og fremst ráðast af starfsaldri og ýmsu öðru, en ekki því sem Púkanum finnst í rauninni mestu máli skipta - hversu góðir kennarar þeir eru.
Tveir kennarar geta haft sömu menntun, og sömu starfsreynslu, en annar getur kveikt áhuga hvers árgangsins eftir annan á viðfangsefninu, meðan hinum tekst að drepa niður allan námsáhuga nemendanna. Samt myndu þessir tveir kennarar hafa sömu laun að öllu óbreyttu.
Púkinn var svo heppinn að hafa nokkra góða kennara á sínum námsárum, en inn á milli voru aðrir sem voru þannig að Púkinn hugsar enn í dag til "kennslu" þeirra með hryllingi.
Í dag á Púkinn lítinn púkaunga sem stundar grunnskólanám og svo virðist sem staðan sé lítið breytt.
Púkinn vill gott menntakerfi og er tilbúinn að greiða sinn skerf til samfélagsins til að stuðla að því, en launahækkanir yfir línuna til kennara er að mati Púkans ekki rétta leiðin til að bæta kerfið.
Almennir grunnskólakennarar virðast hins vegar hafa næsta lítinn áhuga á því að skoða kerfi sem umbunar þeim kennurum sem standa sig best.
Er eina lausnin að starfrækja einkaskóla sem geta gert auknar kröfur til frammistöðu kennara?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. febrúar 2007
Nytjalist ?
Það er merkilegt að listfræðingar halda varla vatni yfir listrænu gildi hlandskálar, en þar sem óumdeilt er að hlandskál hefur ákveðið notagildi er niðurstaðan greinilega sú að hér sé um "nytjalist" að ræða.
Nytjalist er að sjálfsögðu ætluð til þess að vera notuð, en sá hængur er á að séu hlandskálar notaðr til þess sem þær eru raunverulega hannaðar, þá er hætt við því að einhverjir myndu ekki átta sig á að um nytjalist sé að ræða, heldur bara venjulega, ólistræna hlandskál.
Nei, til að fyrirbyggja slíkan misskilning skulu hér eftir allar hlandskálar Púkans ekki bara nefnast listaverk, heldur verður hönnun þeirra virkilega að bera með sér að um listrænar hlandskálar sé að ræða.
Þegar gestir koma í heimsókn og þurfa að míga í hlandskálar Púkans mun ekki fara á milli að þeir eru að nota nytjalist, ef hlandskálarnar líta út eins og þær sem hér eru myndir af.
Skilorðsbundinn dómur fyrir að skemma fræga hlandskál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 13.2.2007 kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. febrúar 2007
"Mile high club" ?
Flugvélasalaerni eru nú ekki sérlega rúmgóð og Púkinn á bágt með að ímynda sér að það geti verið þægilegt að athafna sig þar með öðrum aðila.
Sem betur fer eru sérstakar flugferðir í boði frá aðilum eins og þessum fyrir pör sem hafa áhuga á að njóta hvors annars í háloftunum á þægilegri hátt.
Fólk getur jafnvel bókað ferð þar sem það fær í lokin vottorð um að það sé fullgildir meðlimir hins svokallaða "Mile high club".
Sá sem var upphafsmaður þessa var Lawrence Sperry, árið 1916, sem er einnig þekktur sem uppfinningamaðurinn sem fann upp sjalfstýringuna (autopilot) fyrir flugvélar. Það er að sjálfsögðu mjög skiljanlegt, þar sem hann var gjarnan upptekinn við annað meðan á flugi stóð.
Fiennes og flugfreyja í háloftahneyksli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)