Færsluflokkur: Lífstíll

Púkinn sammála Samfylkingunni - hvað er að gerast???

128Púkinn hefur almennt verið algerlega ósammála nánast öllu sem kemur frá Samfylkingunni.

Núna, hins vegar - í fyrsta skipti í langan tíma - kemur frá þeim gáfuleg hugmynd sem Púkinn getur verið sammála.

Það að lækka fargjöld í strætó allverulega er góð leið til að auka notkunina, jafnvel þannig að heildartekjurnar rýrni ekki nándar nærri eins mikið hlutfallslega og gjöldin lækka.

Það gæti jafnvel skeð að tekjurnar myndu standa í stað og færri einkabílar í umferð myndu leiða til ávinnings fyrir Reykvíkinga í heild.

Púkinn er hins vegar að velta fyrir sér hvort á bak við þetta séu dulin pólítísk skilaboð.  Er Samfylkingin e.t.v. að gefa í skyn að hún sé þrátt fyrir allt ekki andvíg umtalsverðum skattalækkunum?  Á sama hátt og lækkun fargjalda gæti þýtt að fleiri myndu ferðast með strætó, gæti lækkun (jaðar)skatta valdið því að fólk myndi vinna meira, gerast áræðnara í fyrirtækjastofnun og skatttekjurnar kæmu á endanum úr fleiri vösum.

Annars snertir þetta mál Púkann bara óbeint - hann tekur aldrei strætó, því þar eru hundar ekki leyfðir - Púkinn labbar bara með hundinn sinn í vinnuna, en allt sem getur dregið úr svifryksmengun er framfaraskref að mati Púkans.


mbl.is Lagt til að fargjald í strætó lækki í 100 krónur í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkamsrækt fyrir striplinga

Nú nefur Púkinn ekkert á móti striplingum, þótt hann hafi aldrei haft neina sérstaka þörf á að striplast á almannafæri.

Púkinn hefur heldur ekkert á móti líkamsræktarstöðvum - svo lengi sem hann er  ekki neyddur til að fara þangað sjálfur.

Það sem Púkinn á hins vegar erfitt með að skilja er hvort þetta tvennt fari vel saman - það hlýtur að vera svolítið óþægilegt fyrir suma að hlaupa á hlaupabraut eða hamast á róðrarvél með allt dinglandi út í loftið, eða sveiflandi fram og aftur.

Þetta er reyndar ekki alveg nýtt.  Hér á arum áður voru einhverir íslenskir góðborgarar sem stunduðu sínar Mullersæfingar naktir í Öskjuhlíðinni og annars staðar.  Einnig munu sjálfsagt einhverjar nektarnýlendur bjóða upp á þessa þjónustu. 

Púkinn setti enga mynd með þessari grein, en áhugasamir geta t.d. farið hingað.


mbl.is Mikill áhugi á líkamsrækt fyrir nakta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamborgari fyrir þá virkilega svöngu

giant_burgerErtu svangur?  Ertu virkilega, virkilega svangur?

Ef svo er, þá gæti þetta verið fyrir þig.  Veintingastaðurinn Denny's Beer Barrel Pub í Clearfield, Pa. býður nú upp á 60 kílóa hamborgara.

 Hann inniheldur 40 kíló af kjöti,  120 ostsneiðar, fimm lauka, 12 tómata og annað eftir því.

Verðið er aðeins 379 dollarar, en ekki fylgja upplýsingar um fjölda hitaeininga.

Super Size hvað.....


Ný fjarstýring - ekki fyrir femínista

bikini-remoteHér er komin hin fullkomna fjarstýring fyrir alla karlmenn - ja, eða næstum því alla.  Púkinn verður nú að viðirkenna að karlmenn sem telja sig femínista eða eru að reyna að þykjast vera virðulegir munu varla vilja nota hana.

Framleiðendurnir vekja athygli á "klassísku" útliti fjarstýringarinnar og segja hana samhæfða öllum sjónvörpum og karlmönnum.

Verðið er tæpir 12 dollarar.

Ekki virðist vera til neitt sambærilegt módel ætlað kvenfólki.


Ertu eldri borgari (í anda) ?

old_ladyPúkinn átti nýverið leið inn á vef Námsgagnastofnunar og rakst þar á síðu um orð í máli eldra fólks.

Púkanum brá.  Það er nefnilega þannig að Púkinn vill ekki telja sig eldri borgara, en hann þekkti nánast öll orðin á listanum og notar sum þeirra reglulega.

Púkinn notaði síðan þennan lista til að búa til "eldriborgarapróf", sem hann lagði fyrir ættingja og vinnufélaga.

Prófið er í 3 hlutum:

  1. Þú færð 1 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 3 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: altan, betrekk, húmbúkk, kamína og útstáelsi.
  2. Þú færð 2 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 5 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: bíslag, bolsía, dannaður, gallósíur og kaskeiti.
  3. Þú færð 5 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 10 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: blankskór, fortó, gesims, ranimosk og sufflör.

Niðurstaðan:

Færri en 20 stig: Þú ert ung(ur) í anda

20-40 stig: Þú þykir svolítið forn í tali.

Fleiri en 40 stig: Fólk undir fertugu á erfitt með að skilja þig.  Kannski ertu bara svona gömul sál.


Enn ein "ekkifrétt" um Britney

britney-spears-oldHvað er það sem veldur áhuga fólks á að velta sér upp úr erfiðleikum fólks eins og Britney Spears.  Hvers vegna er svona innihaldslaust þvaður ein mest lesna fréttin á mbl.is?

Eins og Púkinn hefur sagt áður þá er athygli það síðasta sem Britney og aðrar stöllur hennar þurfa á að halda.  Þessi stelpugrey þurfa aðstoð og frið til að ná áttum, en það er erfitt þegar þær eru hundeltar af fjölmiðlunum.

Nú má í sjálfu sér segja að þetta sé sjálfskaparvíti - það lendi enginn svona í sviðsljósinu fyrir tilviljun - fólk þurfi virkilega að hafa fyrir því að komast þangað og verði þá að sætta sig við það sem fylgir frægðinni.

Það er svolítið til í því, en eins og einhver sagði:

Það þarf sterk bein til að þola góða daga.

Það er einmitt málið.  Britney greyið virðist greinilega ekki þola allt það sem frægðin hefur fært henni, en fjölmiðlarnir hlakka yfir óförum hennar eins og hrægammar yfir veikburða skepnu í eyðimörk. 


mbl.is Britney sögð hafa staldrað stutt við á meðferðarstofnun í Malibu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðskreiðasta húsgagn heims

fastsofaPúkinn hefur gaman af skrýtnum hlutum, eins og þessum sófa hér, sem nýlega sló hraðamet í flokki húsgagna þegar eigandinn, Edward China ók honum á 140 km/klst hraða.

Púkinn efast að vísu um að sófinn fáist skráður sem ökutæki, enda vantar í hann flest þess sem nauðsynlegt er, en hins vegar verður að viðurkenna að það ber vott um mjög frumlega hugsun að láta sér detta í hug að smíða svona tæki.

Sófabíllinn (eða er það bílsófinn?) mun verða seldur á uppboði á næstunni til styrktar góðgerðasamtökum.

Nánari upplýsingar má nálgast hér


Handa þeim sem eiga allt

chocolatecarhatislandmysterypenPúkinn er ekki í hópi þeirra sem eiga allt.  Hann hefur aldrei flutt inn Elton John til að syngja í afmælinu sínu til dæmis.

Púkinn velti hins vegar fyrir sér hvað þeir sem eiga allt gætu gefið hver öðrum og ákvað að koma með nokkrar uppástungur.  

Fyrst má nefna súkkulaðihúðaða bíla. Konfeckt eða  súkkulaðihúðuð jarðarber eru ágæt fyrir okkur hin, en sumt fólk þarf væntanlega meira en það.  Sá bíll sem hér er mynd af er að vísu bara súkkulaðihúðuð Volkswagen bjalla, þakin 200 kílóum af súkkulaði, en að sjálfsögðu má súkkulaðihúða Ferrari á sama hátt.

Vilji menn eitthvað stærra má til dæmis benda á eyjuna Vatu Vara,sem er til sölu hér.  Verðið er aðeins um 5 milljarðar íslenskra króna.

Svo má auðvitað gefa minni gjafir, eins og til dæmis penna.  Gimsteinarnir á þessum sem myndin er af hér eru samtals um 20 karöt og verðið er aðeins 5 milljónir.


Mini-skrifborð

mini-deskÞað getur verið erfitt að vera með ólæknandi bíladellu en þurfa að sitja á bak við skrifborð allan daginn.  Fyrir þá sem eru í þessum hópi er nú komin hin fullkomna lausn, sem sameinar skrifborðið og bílinn.

Glynn Jenkins, breskur hönnuður, á heiðurinn af þessari nýstárlegu hugmynd, en áhugasömum er hér með bent á þessa vefsíðu framleiðenda.

Púkinn getur ekki gert að því að honum finnst einhvern veginn að svons skrifborð myndi hæfa Ómari Ragnarssyni sérstaklega vel.


Lófalestur? Nei, ekki alveg...

buttocksUlf Buck, blindur 39 ára spámaður í Þýskalandi segist hafa hæfileika til að sjá fyrir framtíð fólks með því að lesa í rasskinnar þess. 

Að sögn hans má lesa í lesa í línur sem þar eru alveg á sama hátt og þær línur sem eru í lófum fólks. 

Nánari upplýsingar má finna um þetta hér og hér.

Uflf Buck hafnar að sjálfsögðu öllum ásökunum um að áhugi hans á að strjúka afturenda fólks stafi af einhverjum annarlegum hvötum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband