Færsluflokkur: Lífstíll
Föstudagur, 9. mars 2007
Að vilja ekki kannast við (hálf)systkini sín
Púkinn ætlar ekki að tala um Lúðvík Gizurarson, þar sem endanleg niðurstaða er ekki enn fallin í því máli. Þess í stað ætlar Púkinn að minnast á annað svipað mál - faðerni Péturs Jens Thorsteinssonar, sem mun næsta örugglega hafa verið sonur Hannesar Hafstein.
Það mál var um margt svipað og sumir afkomendur Hannesar Hafstein þráuðust lengi við að viðurkenna skyldleikann - jafnvel árið 2004 þegar minnst var aldarafmælis heimastjórnarinnar og afkomendum Hannesar Hafstein boðið til veislu, þá náði það boð einungis til afkomenda hjónabandsbarnanna, þótt hin væru á alla vegu jafn miklir "afkomendur".
Utanhjónabandsbörn og framhjátökubörn hér á landi eru að sjálfsögðu jafngömul Íslandssögunni, en lengst af hefur þeim verið ýtt til hliðar á einn eða annan hátt.
Þegar Íslendingabók opnaði voru einhverjir sem uppgötvuðu þar hálfsystkini sín - sumir urðu reiðir en aðrir hissa. Einhverjir héldu að um mistök væri að ræða, en komst síðan að því að foreldrar þeirra höfðu logið að þeim, jafnvel áratugum saman.
Dapurlegt, en þannig er þetta nú.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð um mannerfðafræðilega rannsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 10.3.2007 kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 9. mars 2007
Við karlmenn hrjótum ekki!
Það er til fjöldi af tækjum og uppfinningum sem ætlað er að koma í veg fyrir hrotur. Þar á meðal má nefna þá leið að sauma eitthvað (svo sem tvinnakefli eða tennisbolta) á bakið á náttfötunum, til að koma í veg fyrir að viðkomandi leggist á bakið. Svo eru líka til koddar sem eiga að halda munninum lokuðum eða nefklemmur sem þenja út nasirnar. Jafnvel eru til tæki sem dæla lofti inn um nefið.
Öll þessi tæki eiga eitt sameiginlegt - þau valda notandanum óþægindum.
Ef einhverjum tækist að finna upp þægilegt tæki sem getur fyrirbyggt hrotur gæti sá orðið ríkur á því.
Hvað Púkann varðar, þá hrýtur hann að sjálfsögðu ekki - það er bara ímyndun í konunni hans.
Hrotur maka kosta mikinn svefn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 9. mars 2007
Má bjóða þér bjórvömb?
Það hefur aldrei þótt eftirsóknarvert að vera með bjórvömb og talið merki um óheilbrigt líferni og hreyfingarleysi.
Nú er hins vegar bandarískt fyrirtæki farið að bjóða upp á bjórvambir til sölu - á 40 dollara auk flutningskostnaðar. Þetta er belgur sem hangir framan á maga viðkomandi, auk sogrörs þannig að ,menn geti fengið sér bjórsopa þegar þá langar til.
Áhugasömum er hér með bent á beerbelly.com
Fyrirtækið markaðssetur einnig útgáfu fyrir konur, undir nafninu WineRack og er reyndar sem stendur að leita að fyrirsætum - þær sem hafa áhuga eru beðnar að senda fyrirtækinu tölvupóst með upplýsingum um skálastærð.
Það er sama hvað hver segir - Púkann langar ekki í bjórvömb í jólagjöf.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 9. mars 2007
"Road rage"
Geðvonska ökumanna fer vaxandi jafnhliða því að ökuleiðir lengjast og tafir aukast.
Áður fyrr var það nánast óþekkt að fólk sæti langtímum saman hálfstopp í bílalestum innan höfuðborgarsvæðisins, en því miður fer það nú vaxandi.
Þetta snertir Púkann ekki svo mikið þar sem hann fer nú venjulega fótgangandi til vinnu - hressilegur 30 mínútna göngutúr er góð byrjun á deginum, en þetta er hins vegar vel þekkt vandamál í öðrum löndum, þar sem umferðarteppur hafa þekkst áratugum saman og þar brýst þessi pirringur ökumanna stundum út sem "road rage", sem getur lýst sér á ýmsa vegu, allt frá aftanákeyrslum af ásetningi, til þess að draga upp skammbyssu og skjóta á næstu bíla.
Púkinn vonar að ástandið fari ekki á þann veg hér á landi, en því miður sýnist honum þjóðfélagið stefna í þá átt.
Úrillir ökumenn á höfuðborgarsvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Fegrunaraðgerðir virka!
Sarah Burge er 46 ára og þriggja barna móðir. Hún hefur eytt rúmlega 20 milljón krónum í margvíslegar fegrunaraðgerðir í gegnum tíðina.
Auk þess að láta hana líta út eins og Barbie-dúkku, hefur tilgangur aðgerðanna væntanlega verið að láta hana líta yngri út og það virðist hafa tekist.
Sarah komst nefnilega í fréttirnar fyrir að vera beðin um skilríki þegar hún var að kaupa rauðvín í matinn.
Sarah hefur þá væntanlega fengið nægjanlega staðfestingu á því að aðgerðirnar hafa virkað eins og hún vildi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Vítamín eru góð (í hófi)
Það er ekkert nýtt að bent sé á skaðleg áhrif af ofneyslu vítamína, en Púkinn vill nú samt minna á að ekki eru öll vítamín undir sömu sök seld.
Til einföldunar má skipta vítamínum í tvo flokka, vatnsleysanleg og fituleysanleg.
Fituleysanlegu vítamínin geta safnast upp í líkamanum og það eru þau sem geta valdið eiturverkunum og geta verið lífshættuleg í óhófi. Þetta eru A, D, E og K vítamín.
Ofneysla A vítamíns getur valdið einkennum eins og flagnandi húð, hárlosi, beinverkjum, en ofneysla D vítamíns getur valdið hægðatregðu, þunglyndi og almennum slappleika. Enn stærri skammtar geta síðan valdið lífshættulegri nýrnabilun. E og K vítamín geta einnig valdið eitrunum, en þær eru mun sjaldgæfari, enda er mun algengara að fólk taki inn stóra skammta af A og D vítamínum, til dæmis með lýsisneyslu, en E og K.
Púkinn hefur einnig heyrt að ísbjarnalifur innihaldi það mikið magn af A (og D) vítamínum að hún sé stórhættuleg en grænlenskir veiðimenn munu víst hafa lært þá lexíu fyrir longu síðan.
Eins og Púkinn sagði, þá er þetta ekkert nýtt.
Vatnsleysanlegu vítamínin (B og C) eru hins vegar meinlausari þótt þau séu tekin í óhófi þar sem hjá fólki með eðlilega nýrnastarfsemi skiljast þau jafnóðum út með þvagi. Samt er ofneysla þeyrra ekki alveg meinlaus. Púkinn notaði sjálfur á sínum tíma mikið af C-vítamíni á formi freyðitaflna, þegar hann var að venja sig af kókdrykkju. Var svo komið að dagneyslan mun hafa verið um 2 grömm af C-vítamíni.
Áhrifin létu ekki á sér standa - hlandið í Púkanum varð svo súrt að hann endaði á spítalanum með nýrnasteina.
Síðan þá hefur Púkinn farið varlega í vítamínneyslunni.
Fjörefnin banvæn? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 4. mars 2007
Hjálparhundar
Þegar Púkinn fjallar um það sem aflaga fer í þjóðfélaginu er það venjulega á léttu nótunum. Stundum kemur það þó fyrir að Púkinn rekst á frétt sem er þess eðlis að alvarlegri umfjöllun er við hæfi.
Margir landsmenn muna sjálfsagt eftir að hafa séð umfjöllun í sjónvarpinu um Harald Sigþórsson sem bundinn er við hjólastól og hundinn hans, Tinna, sem meðal annars er þjálfaður til að opna dyr og taka upp hluti sem eigandinn missir á gólfið.
Hundana má hins vegar nýta á marga aðra vegu og Púkinn rakst nýlega á umfjöllun um Canine Partners sem þjálfar hunda til að gera hluti eins og að setja þvott í þvottavélar og taka út úr hraðbönkum.
Þannig sérþjálfaðir hundar geta stórbætt líf eigenda sinna og það er skoðun Púkans að sjtjórnvöld ættu að styðja slíkt. Í fyrsta lagi ætti að setja reglur um aðgengi þjálfaðra aðstoðarhunda, hvor sem þar er um að ræða hjálparhunda fyrir fatlaða eða blindrahunda, þannig að almennt sé óheimilt að vísa eigendum þeirra frá fyrirtækjum eða stofnunum þar sem þeir séu með hund. Í öðru lagi ætti að niðurgreiða þjálfunarkostnaðinn, sem getur verið um ein milljón.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. mars 2007
Íslenskir munkar?
Púkinn efast um að margir Íslendingar séu reiðubúnir til að ganga í klaustur, þannig að ef af stofnun munkaklausturs í Reyðarfirði verður, þá má væntanlega gera ráð fyrir að flestir munkanna erði erlendir. Það er hvorki gott né slæmt í sjálfu sér - það bara er þannig.
Hins vegar eru skoðanir Púkans á klaustrum nokkuð blendnar. Hér á Íslandi gegndu klaustrin óneitanlega mikilvægu hlutverki fyrr á öldum og eiga stóran þátt í því að menningararfur okkar Íslendinga varðveittist.
Klausturlíf getur einnig sjálfsagt verið gott fyrir marga - það er væntanlega minni streita þar en á flestum öðrum stöðum.
Ýmislegt gott hefur einnig komið frá klaustrum í gegnum tíðina og má þar á meðal nefna nótnaskrift og rannsóknir Mendels,
Hins vegar finnst Púkanum klaustur nú á vissan hátt vera tímaskekkja og hefur alvarlegar efasemdir um að klaustur uppfylli þarfir í nútíma þjóðfélagi sem ekki er unnt að gera á annan hátt.
Klaustur á Kollaleiru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. mars 2007
Að lifa í fótbolta...
Sumir lifa fyrir fótbolta. Núna býðst þeim hið fullkomna fótboltahús, sem inniheldur lítinn eldhúskrók, rúm og sjónvarp.
Húsin eru framleitt af Kimidori Kenchiku fyrirtækinu í Japan og þau eru sögð skotheld og veita vörn gegn fellibyljum, jarðskjálftum, eldi og hryðjuverkaárásum.
Púkinn veltir hins vegar fyrir sér hvort Íbúðalánasjóður veiti 90% lán til kaupa á svona húsi.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. mars 2007
Að kenna öskubökkum að standa upp
Púkinn hefur aldrei skilið hvað veldur því að fólk fellur fyrir svona þvættingi. Meðferð Narconon er óneitanlega óhefðbundin og virðist aðallega felast í því að gefa fíklum ofurskammta af B3 vítamíni, magnesíum og kalki og láta þá sitja klukkutímum saman í gufubaði.
Einnig felur meðferðin í sér ýmsar æfingar, en ein þeirra (TR8) felst í því að sjúklingarnir skipa öskubakka að standa upp og setjast síðan aftur og þakka öskubakkanum síðan fyrir eins hátt og þeir geta.
Púkinn er nú enginn sérfræðingur á sviði fíkniefnameðferðar, en hann fær nú samt ekki alveg séð samhengið.
Fullyrðiingar þeirra um 80% árangur virðast einnig vafasamar - eina raunverulega rannsóknin sem hefur verið framkvæmd af óháðum aðila sýndi 6.6% árangur meðferðarinnar - mun lægra en sá 20-30% árangur sem telst gjarnan nást með hefðbundari meðferðum.
Það sem Púkanum finnst reyndar furðulegast af öllu er að sumir þeirra sem gagnrýna Narconon og vísindakirkjuna sem háværast eru meðlimir trúarsamtaka, sem sumir hverjir bjóða upp á sínar eigin "óhefðbundu" meðferðir gegn sama vandamáli. Það er þetta með steinana og glerhúsin...
Travolta segir að Vísindakirkjan hefði getað komið Önnu Nicole til bjargar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)