Færsluflokkur: Ferðalög
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Bruðl dagsins - harðkornadekk með stæl
Frá og með deginum í dag mun (ó)reglulegur bloggliður hefja göngu sína. "Bruðl dagsins" mun benda á eitthvað sem Púkinn telur yfirgengilega sóun á peningum, þar sem hægt er að ná sömu virkni fyrir mun, mun minni pening.
Að sjálfsögðu vonast Púkinn til þass að hann geti aðstoðað einhverja auðmenn sem eru í vandræðum með milljónirnar sínar og vantar hugmyndir til að toppa hver annan - það er einfaldlega ekki "kúl" að flytja inn einhverjar miðaldra stjörnur til að syngja í afmælinu sínu, ef einhver annar er búinn að því á undan.
Nei, það það sem þarf eru nýjar og ferskar hugmyndir að áður óþekktum leiðum til bruðls.
Hér kemur sú fyrsta, sem hentar vel bílaáhugamönnum - hjólfelgur með ígreyptum demöntum. 26.000 samtals á einum umgangi af dekkjum.
Verðið? Um 130 milljónir króna, auk flutningskostnaðar, vörugjalda og virðisaukaskatts - ætli það verði ekki nálægt 200 milljónum hingað komið.
Þetta eru sko harðkornadekk með stæl.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 9. mars 2007
"Road rage"
Geðvonska ökumanna fer vaxandi jafnhliða því að ökuleiðir lengjast og tafir aukast.
Áður fyrr var það nánast óþekkt að fólk sæti langtímum saman hálfstopp í bílalestum innan höfuðborgarsvæðisins, en því miður fer það nú vaxandi.
Þetta snertir Púkann ekki svo mikið þar sem hann fer nú venjulega fótgangandi til vinnu - hressilegur 30 mínútna göngutúr er góð byrjun á deginum, en þetta er hins vegar vel þekkt vandamál í öðrum löndum, þar sem umferðarteppur hafa þekkst áratugum saman og þar brýst þessi pirringur ökumanna stundum út sem "road rage", sem getur lýst sér á ýmsa vegu, allt frá aftanákeyrslum af ásetningi, til þess að draga upp skammbyssu og skjóta á næstu bíla.
Púkinn vonar að ástandið fari ekki á þann veg hér á landi, en því miður sýnist honum þjóðfélagið stefna í þá átt.
Úrillir ökumenn á höfuðborgarsvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Hestaat
Fyrr á öldum var hestaat stundað hér á landi. Þótt Íslendingar stundi það ekki lengur tíðkast það enn á nokkrum stöðum í heiminum, þar á meðal hjá MIao þjóðflokknum í Kína, en síðustu 500 árin hefur það verið fastur liður í sumarhátíð þeirra.
Dýraverndunarsamtök berjast gegn þessu, en Kínverjar láta sér fátt um finnast og er hestaat jafnvel liður í dagskrám margra ferðamanna.
Púkinn er lítið hrifinn af svona íþróttum, ekki frekar en nautaati, en honum finnst nú samt að frekar ætti að banna hnefaleika - þar eru þó menn að slasa hvern annan.
Svo er auðvitað alltaf spurning um hvort það ssé hræsni að berjast gegn svona íþróttum - en fara síðan og fá sér góða steik á eftir.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Gerum bílana upptæka!
Þegar sami strákgepillinn er tekinn í annað skipti fyrir ofsaakstur á stuttum tíma er eitthvað að og ljóst að einfaldar sektir eru ekki að virka.
Púkinn vill koma með nokkrar hugmyndir:
- Til viðbótar fjársektum og tímabundinni ökuleyfissviptingu verði viðkomandi gert að sækja námskeið - ökukennslan hefur greinilega ekki gengið sem skyldi.
- Bíllinn verði kyrrsettur í einhvern tíma - nema auðvitað ef honum hefur verið stolið. Ef einhver, t.d. foreldri hefur sýnt það dómgreindarleysi að lána viðkomandi bílinn ber viðkomandi ábyrgð að hluta.
- Við alvarlegri brot verði bílarnir einfaldlega gerðir upptækir (nema þeim hafi verið stolið). Þetta gæti verið viðeigandi þegar akstur viðkomandi er með þeim hætti að hann gæti varðað viðalmenn hegningarlög. Bíllinn er þá einfaldlega tæki sem er notað til að fremja með afbrot.
Tekinn tvisvar fyrir ofsaakstur á 10 dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Rafmagnsbílar og aðrir bílar
Púkinn er að velta fyrir sér hvort hann sé óþarflega tortrygginn, eða hvort það sé tilviljum að þetta útspil ríkisstjórnarinnar komi fram einmitt núna, rétt fyrir kosningar, þegar flokkarnir virðast vera í einhvers konar grænkukeppni.
Nú má ekki skilja það sem svo að Púkinn sé andvígur þessu útspili - síður en svo. Hér er um að ræða verulega framför frá því viðhorfi sem ríkti hjá stjórnvöldum áður fyrr.
Púkin man eftir því að fyrir um 20 árum síðan var einn rafmagnsbíll hér á landi, sem stóð lengi á gólfinu á jarðhæð VR-II byggingar Háskólans. Ástæða þess að bíllinn var þar var að í stað þess að stjórnvöld á þeim tíma styddu tilraunanokkun slíks bíls hér á landi, var þvert á móti unnið gegn notkun hans, til dæmis með kröfum um greiðslu á þungaskatti - ekki vegna þess að bíllinn væri sérstaklega þungur, heldur vegna þess að hann var ekki bensínknúinn.
Púkinn ekur sjálfur mjög lítið - innan við 5000 kílómetra á ári, enda gengur hann venjulega í vinnuna. Púkinn á hins vegar bíl, sem ekki telst sérstaklega vistvænn - ef til vill verður brátt tími til að skipta honum út, til dæmis fyrir einhvern framúrstefnulegan rafbíl eins og þann sem sjá má á meðfylgjandi mynd.
Ríkisstjórnin vill stuðla að aukinni notkun vistvænna bíla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. mars 2007
Púkinn sammála Samfylkingunni - hvað er að gerast???
Púkinn hefur almennt verið algerlega ósammála nánast öllu sem kemur frá Samfylkingunni.
Núna, hins vegar - í fyrsta skipti í langan tíma - kemur frá þeim gáfuleg hugmynd sem Púkinn getur verið sammála.
Það að lækka fargjöld í strætó allverulega er góð leið til að auka notkunina, jafnvel þannig að heildartekjurnar rýrni ekki nándar nærri eins mikið hlutfallslega og gjöldin lækka.
Það gæti jafnvel skeð að tekjurnar myndu standa í stað og færri einkabílar í umferð myndu leiða til ávinnings fyrir Reykvíkinga í heild.
Púkinn er hins vegar að velta fyrir sér hvort á bak við þetta séu dulin pólítísk skilaboð. Er Samfylkingin e.t.v. að gefa í skyn að hún sé þrátt fyrir allt ekki andvíg umtalsverðum skattalækkunum? Á sama hátt og lækkun fargjalda gæti þýtt að fleiri myndu ferðast með strætó, gæti lækkun (jaðar)skatta valdið því að fólk myndi vinna meira, gerast áræðnara í fyrirtækjastofnun og skatttekjurnar kæmu á endanum úr fleiri vösum.
Annars snertir þetta mál Púkann bara óbeint - hann tekur aldrei strætó, því þar eru hundar ekki leyfðir - Púkinn labbar bara með hundinn sinn í vinnuna, en allt sem getur dregið úr svifryksmengun er framfaraskref að mati Púkans.
Lagt til að fargjald í strætó lækki í 100 krónur í mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
80 þúsund króna morgunverður?
Viltu borga 80 þúsund krónur fyrir morgunverðinn? Þú getur gert það á Le Parker Meriden hótelinu í New York, ef þú pantar þér þessa eggjaköku hérna.
Uppskriftin inniheldur egg og humar - já og rúmlega 280 grömm af sevruga kavíar.
Verðið er 1000 dollarar, en síðan þurfa menn eitthvað að drekka og svo verður að bæta við þjórfé eins og hefðin er í New York.
Þetta lítur nú nokkuð girnilega út, en er það 80 þúsund króna virði?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Hraðskreiðasta húsgagn heims
Púkinn hefur gaman af skrýtnum hlutum, eins og þessum sófa hér, sem nýlega sló hraðamet í flokki húsgagna þegar eigandinn, Edward China ók honum á 140 km/klst hraða.
Púkinn efast að vísu um að sófinn fáist skráður sem ökutæki, enda vantar í hann flest þess sem nauðsynlegt er, en hins vegar verður að viðurkenna að það ber vott um mjög frumlega hugsun að láta sér detta í hug að smíða svona tæki.
Sófabíllinn (eða er það bílsófinn?) mun verða seldur á uppboði á næstunni til styrktar góðgerðasamtökum.
Nánari upplýsingar má nálgast hér.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. febrúar 2007
Er þetta list? (hluti 1)
Púkinn á stundum svolítið erfitt með að skilja hvað menn telja "list". Tökum til dæmis gjörning sem danski listamaðurinn Kristian von Hornsleth framkvæmdi í Uganda, þar sem hann fékk íbúa eins þorps til að breyta um nafn og taka upp nafnið sitt sem eftirnafn.
Þorpsbúum var greitt fyrir með kúm og svínum, en Kristian tók myndir af nýjum skilríkjum þeirra og hélt sýningu á þeim í listasafni.
Frumlegt? Já.
Listrænt? Púkinn er ekki viss.
Þetta er í sjálfu sér ekki vitlaus leið til að vekja athygli á óæskilegum vestrænum menningaráhrifum sem fylgja gjarnan þróunaraðstoð.
En er þetta list ?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. febrúar 2007
"Smells like shit, tastes like heaven"
"Smells like shit, tastes like heaven" voru orð sölumanns á markaðstorgi í Singapore sem var að selja Durian ávexti, en Durian er einnig þekktur sem "Konungur ávaxtanna".
Þar sem Íslendingum finnst gaman að telja saklausum erlendum ferðamönnum trú um að þeir verði nú að prófa hákarl og brennivín gat ég ekki þekktur fyrir annað en að prófa þetta fyrirbæri.
Ég gat að vísu ekki farið með ávöxtinn heim á hótelið, þar sem 15.000 dollara sekt lá við því - vegna lyktarinnar þarf víst að framkvæma tímafreka og kostnaðarsama hreingerningu á herberginu eftir að þessi ávöxtur kemur þangað inn.
Lyktin, já - hvernig á að lýsa henni? Jafnvel mestu aðdáendur ávaxtarins viðurkenna að hún sé ekki góð, en þeir sem hata hann taka sterkar til orða: "..eins og rotnandi lík, fyllt með niðurgangsdrullu holdsveikrasjúklings frá helvíti.." var ein lýsing sem ég rakst á. Önnur lýsing sagði "..svínaskítur, terpentína og laukur, auk gamals leikfimisokks..".
Bragðið, hins vegar ... það er ekki í neinu samræmi við lyktina - ekki vont og vel þess virði að prófa - þótt ekki sé til annars en bara til að geta sagst hafa prófað það.
Þeim sem hafa áhuga á að kynnast durian nánar er bent á þessa vefsíðu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)