Færsluflokkur: Ferðalög

Frumlegasta farartækið?

jetlooMannfólkið virðist stundum hafa þörf á að gera hluti bara af því að þeir eru skrýtnir - sumir vilja vekja svolitla athygli og fá sínar fimm mínutur af frægð.

Paul Stender er einn af þessum, en hann vakti nýlega athygli með því að smíða hraðskreiðasta útikamar í heimi.

Kamarinn notar 1000 hestafla túrbínu frá Boeing og standa eldtungurnar 10 metra aftur úr honum þegar hann er á ferð, en hámarkshraðinn er rúmlega 100 km/klst þannig að hann nær ekki hámarkshraða þessa fararækis.

Paul tekur fram að hann hafi upphaflega haft rúllu af salernispappír inni á kamrinum, en hætti því, þar sem blöðin vildu sogast inn í loftinntakið - sem hefði getað verið hættulegt.

Þetta er væntanlega útikamar fyrir þotuliðið...eða hvað?


Atlantsolía - eina leiðin til að halda verðinu niðri?

atlantsoliaÞað er athyglivert að gömlu olíufélögin þrjú virðast ekki vera í bullandi samkeppni við hvert annað, samkvæmt þessu - þau keyra a.m.k. ekki niður bensínverðið á þeim stöðum þar sem þau eru að keppa við hvert annað, heldur aðeins þar sem Atlantsolía hefur raskað því jafnvægi sem var á milli þeirra.

Nú er Púkinn ekki stór bensínnotandi - gengur oft í vinnuna og ekur bílnum ekki nema um 4000 kílómetra á ári að meðaltali, en engu að síður vill Púkinn kaupa sitt bensín á eins lágu verði og kostur er.  Lægsta verðið er ekki alltaf hjá Atlantsolíu, en engu að síður beinir Púkinn nánast öllum sínum bensínviðskiptum þangað.  

Hvers vegna?

Jú - það er skoðun Púkans að Atlantsolía veiti hinum olíufélögunum nauðsynlegt aðhald.  Ef Atlantsolía hyrfi af markaðinum færi allt aftur í sama horfið.


mbl.is Atlantsolía sakar gömlu olíufélögin um að gera atlögu að fyrirtækinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur gera aldrei mistök...

"Konur gera aldrei mistök og karlmenn mega ekki hafna óskum kvenna".  Þetta mun vera slagorð Longshuihu þorpsins í Shuangqiao héraði.  Kínversk yfirvöld hafa nefnilega ákveðið að eyða 200-300 milljón yuan í að byggja upp þorp þar sem kynjahlutverk eru alveg skýr - konurnar ráða og mennirnir hlýða.

Ætlunin er að laða ferðamenn til þorpsins og munu ákveðnar reglur gilda um hegðun ferðamanna sem þangað koma - ætlast er til að konurnar stjórni, velji gististaði og þess háttar.

Tekið er fram að óhlýðnum karlmönnum verði meðal annars refsað með því að láta þá þvo upp diska. 

Sjá nánar hér

Púkinn er svona aðeins að velta fyrir sér hver viðbrögðin yrðu ef einhver vildi stofna svona þorp á Íslandi og nota þetta skipulag tll að draga að ferðamenn.


Snoop Dogg - fyrir ári síðan

Í dag, 26. apríl er slétt ár síðan hann var handtekinn á Heathrow flugvelli vegna óláta, þegar honum var meinaður aðgangur að VIP-stofu þar.  

Sjö lögreglumenn slösuðust í sklagsmálunum, en síðan þá hefur honum verið bannað að koma til Bretlands og sömuleiðis er hann á svörtum lista hjá British Airways.

Með þessu áframhaldi fer ferðamöguleikum hans væntanlega að fækka verulega.

Púkanum stendur rétt svo á sama - tónlist þessa manns er nokkuð sem hann hlustar ekki á ótilneyddur og fólk sem hagar sér eins og erki-hálfvitar verður bara að taka afleiðingum gjörða sinna.  Svo einfalt er það.


mbl.is Snoop Dogg óvelkominn til Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfir foreldrar

fjorhjolPúkinn á bágt með að skilja hvað er að foreldrum þeirra drengja sem voru teknir (og ekki í fyrsta skipti) fyrir akstur á fjórhjólum.  Þetta eru nú ekki ódýrustu leiktækin á markaðnum, þannig að hér er augljóslega um að ræða fólk með of mikla peninga og of lítið vit í kollinum.

Það er á svona stundum sem Púkanum finnst það jaðra við að vera hlálegt að fólk skuli þurfa leyfi til að meiga eignast hund, þar sem krafist er umsagnar tvegggja valinkunnra manna, en engar hæfniskröfur séu gerðar til þeirra sem eignast börn.

Foreldrar sem ítrekað leyfa 10 og 12 ára börnum sínum að rúnta um á svona tækjum eru vanhæfir - það er ekkert meira um það að segja. 

Vonandi átta foreldrarnir sig ef barnaverndaryfirvöld fara að gera athugun á heimilishögum þeirra, en hins vegar finnst Púkanum það dapurlegt að lögreglan skuli ekki hafa heimild til að gera meira.  Það vantar leyfi til að gera svona tæki upptæk undir svona kringumstæðum

Þetta er reyndar sama og Púkinn vill sjá varðandi bíla þeirra sem gripnir eru viðakstur undir áhrifum - það ætti að gera bílana upptæka, eða að minnsta kosti að kyrrsetja þá til lengri eða skemmri tíma.  Þetta eru jú tæki sem eru notuð til að fremja með afbrot.

Vonandi kemur að því að einhverjir þingmenn átti sig á kostum svona lagaheimildar.


mbl.is 10 og 12 ára teknir á fjórhjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistvænir bílar

Púkinn heyrði einhverjar hugmyndir um að hvetja til notkunar á vistvænum bílum meðví að leyfa þeim að leggja endurgjaldslaust í stæði.

Þetta er í sjálfu sér ekki slæm hugmynd, en óttalega hljómar þetta nú korter-fyrir-kosningalega, svona eins og flokkurinn sem stendur að þessu sé að reyna að skella á sig einhverri grænni slikju svona til að telja fólki trú um að umhverfismál skipti hann raunverulegu máli.

Kannski eigum við eftir að sjá bíla eins og þessa hér á götunum - ekki kraftmikill, að vísu - væntanlega bara eitt hestafl, en samt...


Er matvöruverslunum treystandi til að selja áfengi?

liquorPúkinn hefur ekki látið sjá sig hér á blog.is síðustu vikurnar, enda hefur hann verið í fríi á sólarströnd, þar sem svo margt annað er hægt að gera en að hanga á Netinu.

Meðal þess var að sitja úti á góðum kvöldstundum, narta í osta og hráskinku og sötra rauðvín sem var keypt í matvöruversluninni á næsta horni.

Púkanum varð stundum hugsað til þess hversu notalegt það væri nú ef staðan væri svona á Íslandi - ef mann langaði í eina góða rauðvísflösku  væri nóg að skjótast út á næsta horn.

Ekki vantar áhugann hjá matvöruverslunum eða SVÞ, auk þess sem skoðanakannanir hafa sýnt að stór hluti landsmanna er fylgjandi því að léttvín og bjór verði selt í matvöruverslunum.

Hins vegar...

Púkinn er nefnilega ekki viss um að íslenskum matvöruverslunum sé treystandi til að selja léttvín. Í dag eru í gildi aldurstakmarkanir varðandi kaup á tóbaki, en reynslan hefur sýnt að á mörgum stöðum er auðvelt fyrir kaupendur undir þeim aldursmörkum að nálgast tóbakið.  Verslanirnar eru ekki að standa sig og ekki hefur Púkinn séð mikil merki þess að þessar verslanir séu sviptar heimild til að selja tóbak til lengri eða skemmri tíma, þannig að eftirlitið er ekki heldur í lagi.

Nú er það reyndar skoðun Púkans að tóbak sé mun hættulegra en léttvín, en hvað um það - samkvæmt landslögum gilda aldurstakmarkanir um kaup á hvoru tveggja. 

Ef verslunum er ekki treystandi til að selja tóbak nema til þeirra sem hafa náð tilsettum aldri, er einhver ástæða til að ætla að eitthvað annað verði uppi á teningnum með léttvínið?


Bruðl dagsins - fljúgum hærra

rocketbeltEnn heldur Púkinn áfram að aðstoða þá sem vita ekki hvað þeir eiga að gera við peningana sína.  Í dag er það hins vegar þannig að Púkinn verður samt að viðurkenna að hann langar í þennan hlut ... bara pínulítið, sko.

Og hvað er þetta?  Jú, eldflaugabelti sem notandinn festir á bakið og flýgur svo af stað.  Með í kaupunum fylgir búnaður til að framleiða eldsneyti og þjálfun í notkun tækisins.

Menn þurfa að vísu að skreppa til Mexíkó og borga 250.000 dollara, en samt....

Nánari upplýsingar má sjá hér.


Bruðl dagsins - hefðbundið

bugatti-veyron-bigBruðl dagsins er "klassískt", eða jafnvel bara gamaldags bruðl.  Myndin hér sýnir dýrasta bíl sem er í fjöldaframleiðslu í dag, Bugatti Veyron.  Það er hægt að fá dýrari bíla sérsmíðaða, en þessi hér er raunverulega fjöldaframleiddur.

Reyndar er fjöldinn ekki mjög mikill, því verðið væri um 120 milljónir fyrir bílinn kominn hingað á götuna.

Hvað fá menn svo fyrir peninginn?  Jú, bíl með tvöfaldri V8 vél,  1001 hestöfl, sem nær 400 km/klst hraða á 56 sek.

Jamm, einmitt það.

Það er reyndar eitt sem Púkinn skilur ekki - hvernig gátu menn gert nokkuð svona dýrt þetta ljótt?


Réttfyrirkosninganefnd?

Vestfirðir..að skipa nefnd til að fjalla um leiðir til að...

Óskapleg kosningalykt er af þessu máli.  Nú er ég ekki að segja að það sé allt í lagi með atvinnulífið á Vestfjörðum, síður en svo.

Vestfirðingar vita vel að stjórnmálamenn eru aldrei jafn reiðubúnir til að hlusta á kjósendur eins og rétt fyrir kosningar.   Stjórnmálamennirnir vita líka að þeir verða að halda atkvæðunum sínum góðum - það gengur ekki að tapa þeim burt svona á endasprettinum.

Kanski er Púkinn bara svona skeptískur að eðlisfari, en heldur virkilega einhver í alvöru að svona nefnd geri eitthvað raunverulegt gagn?  Jú, jú, hún gæti búið til fallega skýrslu á gæðapappír, með mörgum línuritum, en eru einhverjar líkur að niðurstaðan verði eitthvað sem getur snúið við hinni stöðugu hnignun margra vestfirskra byggða?

Púkinn efast um það. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband