Hafnfirskir brennuvargar?

sinubruniHvað er eiginlega á seyði í Hafnarfirði?  Hver sinubruninn eftir annan og hugsanlega bara spurning um tíma þangað til stórslys verður - eldur sem berst í hús eða skógarflæmi.

Eru þetta hafnfirskir krakkar og unglingar sem standa að þessu?  Standa foreldrarnir sig ekki í stykkinu, eða er þetta alvarlegra - fullorðnir brennuvargar sem þora ekki að kveikja í húsum og láta sér nægja sinu?

Púkinn er ekki viss, en veltir fyrir sér hvort það sé að verða nauðsyn á skipulögðu nágrannaeftirliti - fólk sem skiptist um á að vera á ferðinni og fylgist með íkveikjutilraunum, veggjakroti og öðru slíku.  Svo mikið er víst að ekki er lögreglan að sinna svona eftirliti á viðunandi hátt.


mbl.is Sinubruni í Setbergslandi í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þágufallssýki" á mbl.is

Af einhverjum ástæðum pirrar það Púkann þegar fólk fellur í þágufallsgryfjuna - notar t.d. "mér langar " í stað "mig langar".

Mbl.is hefur nú sem betur fer verið nokkurn veginn laust við þetta vandamál og því slær það Púkann e.t.v. meira en annars að lesa grein sem byrjar á orðunum "Breska grínistanum Eddie Izzard langar..." en það ætti að sjálfsögðu að vera "Breska grínistann Eddie Izzard langar..."

Það er síðan allt annað mál að málfar margra bloggara er til háborinnar skammar og að mati Púkans mættu fleiri nota litla "púka" fídusinn sem er innbyggður í blog.is - og þótt hann finni ekki allar villurnar finnur hann þær flestar....þótt þágufallssýkin sé honum ofviða.


mbl.is Izzard vill gerast stjórnmálamaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar fjármálafræðslu í skólana?

500kronurFréttir um nauðungarsölur á húsnæði og aukningu á fjölda þeirra sem þurfa að leita til ráðgjafa þegar fjármál þeirra eru komin í óefni vekur upp spurninguna hvort ekki sé nauðsynlegt að efla fræðslu um fjármál í skólakerfinu.

Í  grunnskóla er nú reyndar námsgrein sem nefnist 'Lífsleikni', þar sem meðal annar eru skilgreind markmið eins og að nemendur "geti metið eigin tekjur og útgjöld og rekstur heimilis".

Gott mál, en það er bara ekki nóg áhersla á það sem raunverulega þyrfti að kenna, eins og til dæmis eftirfarandi reglur:

Bankar eru ekki góðgerðastofnanir.  Þeir hugsa um sinn hag - ekki þinn. Ef þeir vilja lána þér pening er það vegna þess að þeir vilja græða á þér - ekki vegna þess að þeir vilja vera góðir við þig.  Ef þú stendur ekki í skilum með greiðslurnar, þá ert það þú sem lendir í vandræðum - ekki þeir.

Heimurinn er fullur af fólki sem vill komast yfir peningana þína. Ef einhver gerir þér tilboð sem hljómar of gott til að vera satt, þá máttu vera viss um að það er eitthvað vafasamt á ferðinni.

Smáa letrið í samningunum sem þú skrifar undir er ekki til að vernda þig, heldur þann sem samdi samninginn.

 ...og svo framvegis.  Með öðrum orðum - Púkanum finnst að það þurfi að kenna fólki að láta ekki draga sig á asnaeyrunum - og að sú fræðsla eigi að byrja í grunnskólanum.


mbl.is Fleiri nauðungarsölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtæki flýja land

Af hverju ætti einhver heilvita maður að vera að rembast við að reka fyrirtæki hér á landi sem annað hvort flytur út vörur eða þjónustu?

Efnahagsóstjórn síðustu ára hefur gengið mjög nærri mörgum útflutningsfyrirtækjum með því að styrkja krónuna langt umfram það sem eðlilegt er.  Ástandið hefur að vísu aðeins skánað undanfarið, þótt rökstyðja megi að krónan sé enn of hátt skráð og þyrfti að falla enn frekar.

Útlendingastofnun lokar á hæft fólk frá löndum  utan EES og hrekur jafnvel úr landi fólk sem hingað er komið - jafnvel lykilstarfsmenn hjá fyrirtækjum.  Það er skortur á menntuðu og hæfileikaríku fólki hérlendis - fái fyrirtæki ekki að ráða það fólk hingað til lands, er þeim stundum nauðugur einn kostur að setja upp starfsstöðvar eða útibú erlendis - og ekki borga starfsmenn þeirra skatta hingað.

Himinháir vextir hafa hækkað fjármagnskostnað upp úr öllu valdi - og ekki geta fyrirtæki sótt sér nýtt fjármagn með því að fara á hlutabréfamarkaðinn - a.m.k. ekki ef um minni fyrirtæki er að ræða.

Loforð stjórnvalda, t.d. um stuðning við hátækni hafa reynst marklaus með öllu - er það nokkur furða að fólk í þeim greinum horfi til landa eins og Írlands eða Kanada þar sem skilningur ríkir á að til eru fleiri atvinnugreinar en álbræðsla.

Er það nokkur furða að fyrirtæki hugsi sér til hreyfings - stefni til annarra landa þar sem ekki er eitthvað Matadorhagkerfi - stefni til landa þar sem stöðugleiki ríkir og seðlabankar sem njóta trausts?


mbl.is Hætta á að fyrirtæki flytji út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsta tré í heimi ... eða hvað?

oldesttreeÞessi frétt um að í Dölunum í Svíþjóð sé 10.000 ára gamalt tré er athygliverð, en því miður ekki algerlega nákvæm.  Það tré sem hér um ræðir (og sjá má hér á myndinni) er í rauninni ekki nema nokkurra alda gamalt.  Það er hins vegar klóni af eldra tré sem óx á sama stað, sem aftur er klóni af enn eldra tré og þannig áfram (eða aftur á bak) ein 10.000 ár eða svo.

Í jarðveginum kringum tréð fundust leifar af gömlum greinum og könglum sem voru annars vegar aldursgreindir með hefðbundinni kolefnisgreiningu en hins vegar DNA-greindir til að fá það staðfest að um klóna af sömu lífverunni væri að ræða.

Það sem þessi rannsókn sýndi er í raun að fura hefur numið land á þessum stað skömmu eftir að síðasta kuldaskeiði ísaldar lauk og klónar af sömu plöntu hafa lifað þar allan þann tíma.

"Bristlecone Pine" tré nokkurt í Bandaríkjunum telst vera 4768 ára, en það er aldur sem mætti staðfesta með beinni talningu árhringja - sænska tréð sem slíkt er ekki nema nokkur hundruð ára samkvæmt sömu aðferð, en fréttin hér er sú að það sé klóni af lífveru sem hefur lifað á sama stað í 10.000 ár.

Tengt þessu eru aldursgreiningar sem byggja á trjáhringarannsóknum, en þar sem þeir eru oft misþykkir eftir árferði, má byggja upp mælikvarða til að tímasetja gamlar viðarleifar - með þeirri aðferð hafa menn getað notað leifar af furum frá suðurhluta Þýskalands til að komast um 12400 ár aftur á bak.


mbl.is Elsta tréð er sænskt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ink Crew", "Cool Boyz" og önnur sóðagengi

graffitiVeggjakrotarar hafa almennt þá ímynd að þetta séu illa gefnir og illa siðaðir 10-14 ára strákaræflar, sem bera ekki virðingu fyrir eigum annarra, því þeim sé það fullljóst að þeir muni aldrei eignast neitt sjálfir og aldrei verða borgunarmenn fyrir þeim skemmdum sem þeir valda.

Þessi ímynd er að vísu ekki að öllu rétt, því þetta eru ekki allt stráklingar - í hópi sóðanna má líka finna eldra fólk, sem sumt er sjálfsagt með einhver geðræn vandamál.

Hvað er hægt að gera í þessu? 

Púkinn sér fram á aukningu á notkun öryggismyndavéla - ef hægt er að ná sóðunum á filmu, er möguleiki að hægt sé að hafa upp á þeim og krefja þá eða foreldra þeirra um skaðabætur.  Reyndar er Púkinn þeirrar skoðunar að það væri nú áhrifaríkara að reka þessi grey til að hreinsa ósómann eftir sig, en það er víst ekki hægt, því oft þarf sérstök hreinsiefni sem börn mega ekki nota.

Hegðun þessara krotara minnir Púkann svolítið á hegðun sumra hunda - ef þeir rekast á stað sem einhver annar hundur hefur migið á, þá þurfa þeir að merkja sér blettinn líka - yfirmíga og helst að reyna að ná hærra upp á vegginn en fyrri hundurinn - svona til að láta líta út fyrir að þeir séu stærri og merkilegri en þeir eru í raun.

Það er að vísu hægt að venja hundana af þessum ávana með því að gelda þá - synd og skömm að það má ekki nota þá aðferð á krotarana.

Kannski er bara áhrifaríkast að leggja fé til höfuðs þeim - 100.000 króna verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til handtölku viðkomandi? 


mbl.is Krotað á strætó í skjóli nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Trjámaðurinn" og annað sérstakt fólk

Púkinn sá í síðustu viku þátt í þáttaröðinni "Extraordinary People" á bresku sjónvarpsstöðinni "five" sem einmitt fjallaði um "trjámanninn"svonefnda.

Þessi hlekkur vísar á þáttaröðina, en vonandi sér einhver íslensk sjónvarpsstöð sér fært að sýna þessa þætti, því þetta er með athygliverðasta sjónvarpsefni sem er í boði þessa dagana.


mbl.is „Trjámaðurinn" á batavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Labrador mikilvægara en...

Það er nú gott að vita að forsætisráðherrann telur það mikilvægara að gera samning um samstarf við Labrador og Nýfundnaland, en að svara þeim röddum hér á landi sem spyrja hvort stjórnin hafi einhverja stefnu í efnahagsmálum.

Já, það er alltaf gott að vita hver forgangsröðun ráðamanna er.


mbl.is Samið um samstarf við Nýfundnaland og Labrador
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftur á atvinnubílstjórum

Nú eru bílstjórarnir að hóta því að lama þjóðfélagið og stofna mannslífum í hættu ef ekki verður gengið að kröfum þeirra - kröfum sem varða fyrst og fremst þeirra sérhagsmuni eins og að fá að keyra óhvíldir og að þurfa ekki að borga fyrir þær skemmdir sem þeir valda á vegakerfinu.

Lögreglan virðist vera besti vinur þeirra - gefur þeim bara í nefið - það er eins gott að þetta er ekki stórhættulegt fólk eins og Falun Gong mótmælendurnir, nú eða þá náttúruverndarsinnar.

Það eru einhverjir sem ættu virkilega að skammast sín.


mbl.is Sturla: „Málið verður klárað"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkandi íbúðaverð

Þessi lækkun á íbúðaverði er nú ekki mikil, enda eru hlutfallslega fáar sölur á bak við þessar nýjustu tölur.  Púkinn spáir því að mun hraðari lækkun verði á komandi mánuðum, þegar fleiri sem þurfa að selja eignir neyðast til að slá af verðinu til að koma þeim út.

Ef verðbólgan fer vaxandi og íbúðarverð stendur í stað eða lækkar jafnvel að krónutölu, þá jafngildir það að sjálfsögðu verulegri raunlækkun þar sem verðið heldur ekki í við verðbólguna.

Nei, steinsteypa verður ekki örugg fjárfesting næsta árið. Ætli það sé ekki óhætt að reikna með 10% raunlækkun eða svo.


mbl.is Vísitala íbúðaverðs lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband