Eiginhagsmunamótmæli atvinnubílstjóra

Þrátt fyrir framkomu atvinnubílstjóra undanfarið hafa enn margir samúð með mótmælum þeirra - ef til vill vegna þess að þeir halda að mótmælin snúist eingöngu um álögur ríkisins á eldsneyti.

Það er bara ekki þannig.

Háværustu kröfur bílstjóranna snúa nefnilega að hlutum sem varða einungis þeirra eigin hag - undanþágur frá reglum um hvíldartíma og lækkun á kílómetragjaldi.

Púkinn er þeirrar skoðunar að kílómetragjaldið sé síst of hátt.  Ef það ætti að vera í samræmi við það slit sem þessir bíla valda á vegakerfinu þyrfti sennilega að hækka það verulega.  Þjóðin er sem stendur að niðurgreiða rekstur bílanna og bílstjórarnir vilja að þær niðurgreiðslur hækki enn frekar, með því að sameiginlegu sjóðirnir borgi enn stærri hluta kostnaðarins.

Svo er það þetta með hvíldartímann.  Afsakið, en miðað við þann fjölda bílstjóra sem nú þegar ekur um með pallana uppi og rekur þá upp undir brýr, eða missir farminn á götuna, þá finnst Púkanum eins og þeir séu hálfsofandi nú þegar.  Viljum við enn fleiri syfjaða bílstjóra á tíu hjóla trukkum á göturnar?

 


mbl.is Bílstjórar: „Við höldum áfram"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um stýrivexti

Í flestum stærri löndum eru stýrivextir seðlabanka mjög virkt stjórntæki.  Það sem Seðlabanki Íslands virðist ekki vilja skilja er að þannig er því ekki farið hér.

Vextir hafa áhrif á aðsókn í lánsfé, en því aðeins að lántakandi eigi ekki annarra kosta völ.  Hér á Íslandi hafa hækkaðir vextir í raun ekki haft þau áhrif sem þeir myndu hafa víðast erlendis - að draga úr lántökum, því að á undanförnum misserum hefur fólk í staðinn tekið gengisbundin lán með mun lægri vöxtum.  Það er að vísu að koma í bakið á viðkomandi núna vegna gengisfalls krónunnar, en það er annað mál. Þettaþekkist ekki meðal almennings erlendis - þar dettur engum í hug að taka lán í öðrum gjaldmiðli en sínum eigin og þess vegna bíta vaxtahækkanir annarra seðlabanka.

Púkinn telur einnig sennilegt að Seðlabankinn muni hækka vexti frekar - ekki vegna þess að það sé vænlegt til að halda verðbólgunni niðri, heldur vegna þess að Seðlabankinn kann engin önnur ráð - þetta er klassíska staðan að ef eina verkfærið sem einhver á er hamar, þá líta öll vandamál út eins og naglar.

Verðbólgan mun að líkindum lækka þegar líður á árið og Seðlabankinn mun væntanlega þakka það sinni vaxtastefnu, en staðreyndin er að það mun ekkert hafa með málið að gera - verðbólgulækkunin mun stafa af lækkun íbúðaverðs og samdrætti í útlánum banka, vegna verra aðgengis þeirra að lánsfé. 


mbl.is Glitnir spáir stýravaxtahækkun í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er vont, það er vont...og það versnar

Fasteignaverð fer lækkandi og menn spá 5% lækkun.  Púkinn telur það varlega áætlað og sennilegra að lækkunin verði 10% að meðaltali.  Það er enn mikill fjöldi eigna í byggingu og það geta ekki allir eigendur þeirra leyft sér að sitja á þeim og bíða uns markaðurinn jafnar sig.

Einhverjir (bæði húsbyggjendur og verktakar) munu verða gjaldþrota og bankarnir eignast eignirnar - bankarnir geta ólíkt öðrum leyft sér að bíða í nokkur ár með að selja - en það gildir ekki um þá sem eru að reyna að selja í dag.

Púkinn spáir áframhaldandi verðlækkunum á fasteignum næstu mánuði.


mbl.is Mesta lækkun á verði einbýlishúsa í tæp 7 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er smávegis kjaraskerðing nauðsynleg?

Íslendingar virðast ætlast til þess að kjör þeirra batni stöðugt.  Þetta á kannski sérstaklega við um yngra fólk sem aldrei hefur kynnst raunverulegum samdrætti og kjararýrnun.

Þessa dagana kvartar fólk yfir hækkunum á verði eldsneytis og öðrum innfluttum varningi.  Sumir virðast líta þannig á að hér sé um tímabundin óþægindi að ræða, sem hljóti að ganga yfir - aðrir líta svo á að hér sé um "vandamál" að ræða, sem stjórnvöld verði að leysa.

Púkinn er annarrar skoðunar - hann lítur svo á að þjóðin hafi lifað um efni fram í allnokkurn tíma og fólk verði einfaldlega að átta sig á því að "gömlu góðu dagarnir" séu ekki að koma aftur alveg á næstunni.

Verð hlutabréfa rauk upp langt umfram það sem eðlilegt mátti telja - V/H hlutfall markaðarins var komið út yfir öll velsæmismörk, fólk var farið að slá lán til að taka þátt í hlutabréfabraski og ýmis önnur einkenni hlutabréfabólu voru sýnileg.

Sama á við um gjaldmiðilinn.  Krónan var orðin allt, allt of sterk, sem sást meðal annars á því að meðaljóninn var farinn að taka 100% myntkörfulán til að kaupa risapallbíl frá Bandaríkjunum - og það þarf nú varla að minna á hvað þeir sem ekki töldu sig meðaljóna voru að gera.

Svo...*púff* krónan féll og margir sitja uppi með sárt ennið.  Ungt fólk sem er að átta sig á því að það á minna en ekkert í bílunum sínum - skuldar kannski 175% af verðmæti hans, svo ekki sé nú minnst á fasteignamarkaðinn.

Já fasteignamarkaðurinn - Púkanum finnst það furðulegt að einhverjum skuli hafa komið á óvart að íbúðaverð skyldi hækka, þannig að vonlaust yrði fyrir ungt fólk að kaupa sér sína fyrstu íbúð.  Fólk átti að geta sagt sér þetta - þegar bankarnir komu og buðu fólki upp á "hagstæð" lán, þá þýddi það meiri peninga að eltast við takmarkað framboð.  Eðlileg afleiðing er að varan hækkar, uns jafnvægi er náð. 

Líta maður hins vegar yfir allt sviðið er niðurstaðan einföld - þjóðin hefur lifað um efni fram og verður að gjöra svo vel að sætta sig við smávægilega kjaraskerðingu á næstunni - það er ekki hægt að velta öllum vandamálum endalaust á undan sér.

Svona fullyrðing er ekki líkleg til vinsælda, og því mun varla nokkur stjórnmálamaður taka undir þþetta, en sannleikurinn er stundum óþægilegur. 


mbl.is Seðlabankastjóri segir ástandið stöðugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ribbaldagangur atvinnubílstjóra

Atvinnubílstjórar sýna enn og aftur að þeir kunna ekki að skammast sín.  Hvenær ætla þessir frekjudallar að skila að aðgerðir þeirra bitna á röngum aðilum og að þeir eru á góðri leið með að eyðileggja alla þá samúð sem þeir kunna að hafa haft meðal almennings?

Púkanum er líka spurn hvers vegna lögreglan gerir ekkert.  Ef Púkinn myndi leyfa sér viðlíka aksturslag í umferðinni þá myndi lögreglan væntanlega ekki sitja aðgerðarlaus hjá.

Nei, það er nóg komið - þjóðin er orðin þreytt á þessum dólgshætti.

--

Að gefnu tilefni vill Púkinn taka fram að aðgerðir bílstjóranna hafa ekki snert hann persónulega - Púkinn gengur til vinnu flesta daga, og í þeim tilvikum sem þörf hefur verið á bíl hefur Púkinn ekki lent í vandræðum - þetta er ekki persónulegt, þetta er spurning um almennt siðferði og dómgreind....eða skort á því.


mbl.is Mestu tafir hingað til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aprílgöbb erlendis

penguinsÍ dag hafa fjölmiðlar út um allan heim gert grín að lesendum sínum, eða að minnsta kosti fengið þá til að brosa út í annað.   Púkinn hefur verið að eltast við nokkur af göbbum dagsins, en það sem sendur upp úr var samstarfsverkefni BBC, The Daily Mirror og The Daily Telegraph um hóp mörgæsa sem hefði á ný þróað flughæfnina og tekið á loft fyrir framan hóp furðu lostinna sjónvarpsmanna.

Breska blaðið The Guardian birti frétt um að franska forsetafrúin, Carla Bruni-Sarkozy hefði tekið að sér að bæta breska fatamenningu og matargerðarlist og franskir ráðamenn voru einnig í sviðsljósinu hjá The Sun, sem  sagði Sarkozy vera á leiðinni í strekkingarmeðferð til að hækka sig um nokkra sentimetra.

Já, og svo var það The Daily Star, sem upplýsti lesendur sína um að í þágu jafnréttis yrði James bond hér eftir ekki bara kvennabósi, heldur jafn mikið gefinn fyrir karlkyns bólfélaga.


Dýfunni ekki lokið

rollercoaster_bigPúkinn verður reyndar að viðurkenna að hann hefur næsta lítið álit á matsfyrirtækjum eins og Fitch, enda gáfu þau þeim erlendu bönkum sem mestu töpuðu á bandarísku ruslbréfavafningunum hæstu einkunn, allt fram á síðasta dag.

Það eru hins vegar margir sem taka mark á þessum fyrirtækjum og tilkynning Fitch í dag gefur til kynna að matið á íslenska ríkinu og bönkunum verði sennilega lækkað á næstunni - með fyrirsjáanlegum afleiðingum á gengi krónunnar og hlutabréfa.

Það er hætt við að einhverjir fái í magann við að sitja í þessum rússibana.


mbl.is Lánshæfi bankanna endurskoðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðileg íslenska!

Stundum ofbýður Púkanum málvillur í texta sem hann sér, en sú frétt sem hér er vísað í slær flest met.  Púkinn ætlar rétt að vona að fjármálavit þeirra sem sendu fréttatilkynninguna frá sér sé betra en íslenskukunnáttan, en svona texti er ekki til þess fallinn að auka tiltrú manna á fyrirtækinu.  (nú, nema klúðrið sé hjá mbl.is)

 "Tap Verðbréfunar hf. sem fer í eigu "  

"Tap félagsins er fært til lækkunar á óráðstafað eigið fé."

"Verðbréfun sér um kaup og eignarhald safna fasteignaveðlána af Landsbanka Íslands hf. og að standa að eiginfjármögnun með útgáfu markaðshæfra skuldabréfa."

"2,3 millj. króna tap eftir útreiknings skatta."

 "tapi þar það telur að skattinneignin muni nýtast félaginu til framtíðar."


mbl.is Tap Verðbréfunar 2,3 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvenns konar vandi í efnahagsmálum - er það Seðlabankinn og ríkisstjórnin?

500krGeir heldur því fram að tvenns konar vandi sé í efnahagsmálum - lausafjárkreppa og óvæntur skortur á gjaldeyri.

Púkinn er hins vegar þeirrar skoðunar að grunnvandamálið sé miklu einfaldara - markmið Seðlabankans sé einfaldlega rangt.  Málið er að Seðlabankanum er samkvæmt lögum skylt að halda verðbólgunni niðri umfram allt.  Þar falla menn í þá gildru að hálf-persónugera verðbólguna, eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru, en sé ekki einkenni undirliggjandi vandamáls.

Þetta er svona svipað og ef læknir legði á það alla áherslu að halda sótthita sjúklings niðri með hitalækkandi lyfjum - en hirða ekki um það að sjúklingurinn sé með grasserandi sýkingu.

Markmið Seðlabankans ætti að vera að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu - jafnvel þótt það þýddi smávægilega verðbólgu stundum.

Seðlabankinn hækkaði til dæmis vexti til að halda verðbólgunni niðri, en þetta leiddi til fáránlegrar styrkingar krónunnar, sem nú er gengin til baka með hávaða og látum.  Það sem Seðlabankinn hefði átt að gera hefði verið að stórauka gjaldeyrisforðann samtímis - selja krónur og kaupa gjaldeyri.  Krónan hefði þá ekki styrkst eins mikið, og þegar kom að falli hennar hefði Seðlabankinn getað mildað það fall með sínum sterka gjaldeyrisvarasjóði.

Þetta hefði þýtt stöðugra gengi krónunnar, betri afkomu útflutningsfyrirtækja, minna kaupæði Íslendinga og færri sem hefðu gert þau mistök að taka lán í erlendum gjaldmiðli - ja, almennt meiri stöðugleika, en því miður - það er ekki markmið Seðlabankans, eins og það er skilgreint samkvæmt lögum.


mbl.is Geir: Tvennskonar vandi í efnahagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásir á krónuna - eða leit að blóraböggli?

Sú hugsun læðist að Púkanum að með tali um rannsókn á því hvort áhlaup hafi verið gert á krónuna sé verið að reyna að draga athyglina frá hagstjórnarmistökum undanfarinna missera.

Púkinn vill reyndar byrja á að gera skýran greinarmun á árásum á bankakerfið og árásum á gjaldmiðilinn.  Tilhæfulausar fréttir um peningaflótta úr útibúum íslensku bankanna í Bretlandi virðast nefnilega mjög gott dæmi um árásir á bankana - það er nefnilega alkunna að ein besta leiðin til að koma bönkum í vandræði og láta hlutabréf þeirra hrynja er að koma af stað orðrómi um að þeir séu í vandræðum.  Sennilegustu sökudólgarnir að baki þessum orðrómi eru að sjálfsögðu þeir sem hafa tekið sér neikvæða stöðu í hlutabréfum bankanna og vilja sjá verð þeirra lækka áður en þeir loka stöðum sínum.

Árásir á krónuna eru hins vegar allt annar handleggur, en Púkinn hefur ekki séð neinar raunverulegar vísbendingar um slíkt.  Staðreyndin er sú að gengi krónunnar hefur verið allt, allt of hátt um þónokkurn tíma.  Gengdarlaus viðskiptahalli, innflutningsbrjálæði Íslendinga og vandræði útflutningsfyrirtækjanna eru augljósustu vísbendingarnar um það. Þessu háa gengi hefur verið haldið uppi með okurvöxtum Seðlabankans, en slík staða gengur ekki til lengdar.  Eins og Púkinn hefur ítrekað sagt síðustu mánuðina, þá er þar um spilaborg að ræða - það var ekki spurning um hvort gengi krónunnar myndi hrynja, heldur hvenær.

Bankarnir vissu þetta og að sjálfsögðu birgðu þeir sig upp af gjaldeyri - annað hefði verið hreint ábyrgðarleysi.

Gengið er sennilega á eðlilegu róli þessa dagana og tilraunir til að styrkja krónuna aftur munu bara leiða til þess að hrunið mun endurtaka sig síðar.

Nei, mönnum finnst ekki gaman að láta segja sér að þeir verði bara að sætta sig við 30% hækkun á matarverði og öðrum innfluttum varningi, en svona er það nú bara - íslenska þjóðin hefur lifað um efni fram og nú þarf hún að vakna upp og borga reikninginn.

Það má að vísu vera að einhverjir hafi hjálpað krónunni að falla, svona svipað og spilaborgin fellur ef ýtt er við einu spili, en það er tæplega "árás".  Nei, Púkanum finnst að hér sé verið að leita að blóraböggli til að draga athyglina frá þeirri staðreynd að stefna ráðamanna hefur einfaldlega ekki virkað.


mbl.is FME rannsakar árásir á krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband