Atvinnubílstjóradólgar

truckerPúkinn hefur vissar efasemdir um gáfnafar þeirra atvinnubílstjóra sem hafa staðið fyrir mótmælum undanfarið. Þeim er nefnilega að takast að eyðileggja alla þá samúð sem almenningur hafði með sjónarmiðum þeirra.  Vandamálið er nefnilega að aðgerðirnar bitna ekki á þeim sem bera á einhvern hátt ábyrgð á ástandinu, heldur á öllum almenningi, sem er að verða þreyttur á að komast ekki leiðar sinnar vegna þess sem ekki er hægt að kalla annað en dólgshátt.

Ef aðgerðirnar hefðu verið markvissari - t.d. ef bílarnir þeirra hefðu fyrir tilviljun bilað beint fyrir utan innkeyrslurnar á bílastæðum Alþingis og Seðlabankans, myndi fólk sennilega ennþá hafa fulla samúð með þeim - hátt eldsneytisverð bitnar jú á flestum, þótt í minna mæli sé.

Dólgsháttur til lengri tíma er hins vegar ekki til þess fallinn að auka samúð fólks - ekki frekar en síendurtekin verkföll mjólkurfræðinga hér á árum áður.

Nú er Púkinn ekki að segja að hann hafi ekki skilning á þeim óþægindum sem þessi stétt hefur orðið fyrir vegna eldneytishækkana, en ólíkt almenningi á sínum fólksbílum, þá hafa atvinnubílstjórarnir þó þann möguleika til lengri tíma litið að velta kostnaðinum yfir á þá sem kaupa þeirra þjónustu.  Það er hins vegar erfitt að fást við þetta meðan eldsneytishækkanirnar ganga yfir og viðbrögð stjórnvalda hafa ekki verið til fyrirmyndar.

Það er hins vegar ekkert nýtt að aðgerðir stjórnvalda fari illa með tilteknar atvinnustéttir.  Hið falska, háa gengi krónunnar undanfarin misseri hefur t.d. gengið mjög nærri ýmsum útflutningsfyrirtækjum og hrakið sum í þrot en önnur úr landi. Þau fyrirtæki reyndu hins vegar ekki að vekja athygli á sínum málstað með dólgshætti.

Nú er Púkinn ekki að segja að menn verði bara að sætta sig við þetta.  Það er eitt og annað sem stjórnvöld gætu gert, en þar mætti t.d. nefna að lækka álögur á díselolíu, þannig að söluverð hennar yrði lægra en söluverð bensíns, eins og hugmyndin var í upphafi.

Það mætti líka tímabundið lækka eldsneytisgjaldið um sambærilega krónutölu og nemur hækkun virðisaukaskatts vegna hækkandi innkaupsverðs.  Þannig myndi ríkið fá jafn margar krónur í vasann og áður, en ekki græða á hækkandi innkaupsverði.  Þannig fyrirkomulag væri sanngjarnt að mati Púkans.


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll trúarbrögð eru ævintýri

fairytalePúkinn gerir ekki upp á milli trúarbragða, álítur þau öll uppskálduð ævintýri - bara misjafnlega slæm.  Meðal þeirra sem eru sömu skoðunar eru einhverjir óþekktir aðilar sem settu upp auglýsingaskilti það sem sést hér á myndinni í smábæ í Florida.

Skiltið fékk reyndar ekki lengi að vera í friði - það var tekið niður eftir mótmæli frá eigendum veitingastaðar í grenndinni, en þeir sögðu skiltið hafa dregið verulega úr viðskiptum hjá sér.

Já, svona eru Bandaríkin í dag. 


Kristalkúla Púkans

crystalballstocksUm miðjan janúar sagði kristalkúla Púkans: "Fram til páska gætu komið allmargir dagar þar sem gengið sveiflast upp eða niður um nokkur prósent, en einnig er möguleiki á einni stórri dýfu til viðbótar." (sjá greinina hér)  Púkinn vill láta öðrum eftir að meta hversu vel sú spá gekk eftir, en þar sem hún náði ekki nema fram til páska er kominn tími á nýja spá.

Og hvað segir kristalkúlan  nú?

Almennt

Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma.  Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.

Stjórnvöld með vit í kollinum myndu afnema stimpilgjöldin nú strax, til að koma í veg fyrir frost og alvarlegt verðfall á fasteignamarkaði og lækka eldsneytisgjald, a.m.k. sem nemur hækkun á virðisaukaskatti vegna hækkandi innkaupsverðs, þannig að ríkissjóður fái sömu krónutölu í vasann og áður, en sé ekki að græða á hækkandi olíuverði.  Púkinn efast hins vegar um að mikið vit sé í kollum íslenskra ráðamanna.

Ýmsir aðilar, svo sem byggingavöruverslanir og bílaumboð sem hafa hagnast vel á undanförnum misserum sjá nú fram á verulegan samdrátt í sölu og "hagræðing" verður væntanlega helsta umræðuefnið á neyðarfundum stjórnenda þeirra á næstunni.

Útflutningsfyrirtækin draga nú sum andann léttar.  Þau hafa mörg barist við allt of hátt gengi krónunnar undanfarið, sem hefur gengið nærri sumum þeirra, en svo framarlega sem þau hafa ekki þurft að taka erlend lán til að fjármagna sig ætti næstu 12 mánuðir að vera bærilegir - nú nema launahækkanir hérlendis éti upp allan ágóðann af gengisfalli krónunnar. 

Hlutabréfin

Kristalkúlan segir þokkalegar líkur á því að tímabundnum botni hafi verið náð núna um páskana, en í upphaflegu spánni sinni gerði Púkinn ráð fyrir að um þetta leyti yrði botninum náð fyrir árið.  Það má vera að það gangi eftir, en því miður er enn möguleiki á umtalsverðu falli til viðbótar, vegna óróa á erlendum mörkuðum - sérstaklega tengdum bankakerfinu.  Með öðrum orðum, það sem eftir lifir af þessu ári gerist annað af tvennu.  Annað hvort mun hlutabréfamarkaðurinn mjakast upp á við, þótt hann muni ekki ná þeim hæðum sem hann náði síðasta sumar eða markaðurinn gæti fallið um 20-30% viðbótar og það fall yrði leitt af bönkunum.

Gengið

Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar um þessar mundir sé nálægt því að vera "rétt" - kaupæði og viðskiptahalli Íslendinga á undanförnum mánuðum er merki um að gengið hafi verið allt of hátt.  Þjóðin hefur einfaldlega lifað um efni fram og máttlausar og rangar aðgerðir Seðlabankans hafa ekki gert það sem ætlast var til.

Já, mönnum svíður undan hækkandi verði og hækkandi höfuðstólum lána í erlendri mynt, en þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess sem á undan er gengið.  Púkinn ætlar hins vegar ekki að spá fyrir um gengisþróunina næstu mánuðina - krónan gæti styrkst um 15%, fallið um 30 % eða hvað sem er þess á milli.

Húsnæðismarkaðurinn

Húsnæðismarkaðurinn er ekki frosinn, en margir eiga von á lækkunum á fasteignaverði á næstunni og slíkar væntingar leiða til þess að fólk heldur að sér höndum, sem aftur leiðir til þess að þeir sem "verða" að selja neyðast til að lækka verðið.   Sennilega er raunhæft að gera ráð fyrir 10% verðlækkun á árinu að meðaltali - sem því miður mun þýða að margir (sér í lagi þeir sem tóku erlend lán) munu skulda meira í núsnæðinu sínu en sem nemur verðmæti þess.

--- 

Púkinn vill taka fram að hann er ekki fjármála- eða verðbréfaráðgjafi, hefur engin réttindi sem slíkur og ráðleggur engum að haga sínum fjárfestingum í samræmi við það sem hér segir.  Þetta er einungis til gamans gert og enginn ætti að taka þessa spá alvarlega, enda er Púkinn bara lítið skrýtið blátt fyrirbæri með stór eyru sem hefur ekkert vit á neinu. Púkinn vill að lokum taka fram að hann á engin hlutabréf sem eru skráð í íslensku kauphöllinni og hefur enga sérstaka hagsmuni af því hvernig þróunin verður.


mbl.is Mikil velta á skuldabréfamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skakki turninn - vísindi, trúmál og fleira

skakki0801Tímaritið Skakki turninn datt inn um lúguna hjá Púkanum nú nýlega en eftir lesturinn velti Púkinn því fyrir sér hvers vegna engir íslenskir öfgatrúmenn skuli hafa ráðist á blaðið og reynt að rakka það niður.

Blaðið er gott, engin spurning um það - svipar til blöndu af tímaritunum Sagan Öll og Lifandi Vísindi. Það tekur mjög einarða afstöðu með vísindum og rökhyggju gegn trúarfáfræði og lætur sér ekki nægja auðveld skotmörk eins og Mormónatrú, Vísindakirkjuna og Nýalsstefnu Helga Pjeturs, heldur fjallar ein athygliverðasta greinin um YHWH/Jahveh/Jehóva, guð Gamla testamentisins og hvernig hann leggur blessun sína yfir fjöldamorð, þjóðernishreinsanir og kynbundið ofbeldi.

Þessi grein er holl lesning þeim sem vilja meina að guð gamla testamentisins og þess nýja sé ein og sama fígúran - en Púkanum finnst alltaf jafn merkilegt að einhverjir skuli beinlínis hlakka til þess að eyða eilífðinni í samvistum við ósýnilegan súperkarl sem hegðar sér  eins og geðsjúkur fjöldamorðingi.   Verði þeim að góðu.

Í tímaritinu er líka fjöldi annarra greina um áhugaverð málefni og vill Púkinn sannarlega mæla með þessu blaði fyrir allt hugsandi fólk.

---

Þar sem Púkinn er á leiðinni í sólina á Kanaríeyjum, mun verða hlé á hans púkalegu skrifum næstu tvær vikurnar.


Sömu laun fyrir sömu vinnu? Nei, ekki með evrulaunum

euro Þótt opinberum starfsmönnum muni væntanlega aldrei standa til boða að fá laun sín greidd í evrum að hluta, eru margir - sér í lagi starfsmenn útflutningsfyrirtækja - sem nú þegar hafa þennan háttinn á.

Evrulaun vekja hins vegar upp nokkrar spurningar sem ekki hafa mikið verið ræddar.

Fyrsta spurningin snýr að rétti starfsmanna til að breyta milli þess að fá laun sín greidd í evrum  og krónum.  Stærri sveiflur á gengi krónunnar standa oft yfir mánuðum saman og það er augljóst að ef starfsmenn geta fengið laun sín í evrum á því tímabili sem krónan er að veikjast en skipt síðan yfir og fengið launin í krónum þegar hún er að styrkjast geta þeir hagnast verulega á kostnað launagreiðandans.  Launagreiðendur hljóta því að gera þá kröfu að samningar um greiðslu launa í öðrum gjaldmiðlum séu gerðir til langs tíma - líta þannig á að ef starfsmenn vilja hagnast á þessu fyrirkomulagi þegar krónan veikist, verði þeir líka að taka skellinn þegar hún styrkist.

Önnur spurningin snýr að þeim starfsmönnum sem fá launahækkanir samkvæmt kjarasamningum.  Nú er það svo að þegar samið er um launahækkanir er hluti þeirra hækkana ætlaður til að bæta þá kjararýrnun sem hefur orðið vegna verðbólgu.  Tengist sú verðbólga hins vegar gengisfalli krónunnar (og þar af leiðandi hækkunum á innfluttum vörum), er ljóst að sá sem fær launin í evrum hefur ekki orðið fyrir þeirri kjararýrnun að jafn miklu leyti og sá sem fær krónulaun.   Er þá réttlátt að báðir fái sömu launahækkun?  Verður ekki að semja sérstaklega um hækkanir á evrulaun?

Þriðja spurningin snýr að jafnrétti - ef tveir starfsmenn vinna hlið við hlið við sömu vinnu og fá sömu laun í upphafi, en annar fær laun í krónum og hinn í evrum, er ljóst að með tímanum geta laun þeirra breyst mismikið - þeir fá því ekki lengur sömu laun fyrir sömu vinnu.  Eru allir sáttir við það?
mbl.is SA samþykkja kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Íslendingar mestu nöldrarar í heimi?

grumpyStundum læðist sú hugsun að Púkanum að nöldur sé þjóðaríþrótt Íslendinga.  Það virðist engu máli skipta hvaða mál er skoðað - það má alltaf finna einhverja sem geta nöldrað út af því.

Suma nöldurgjörnustu einstaklinga landsins má finna hér á blog.is, en hér er nöldrað um bækur, dægurmál, enska boltann, ferðalög, íþróttir, menningu, tónlist, trúmál og alla hina bloggflokkana.

Mesta íþróttin virðist þó vera að nöldra um stjórnmál og fjármál og helst ef þetta tvennt tengist.

Skoðum til dæmis eitt helsta nöldurefnið þessa dagana - ástandið á fasteignamarkaðinum.  Fyrir nokkrum árum voru íslendingar nöldrandi yfir því hve erfitt væri að fá fé til íbúðarkaupa.  Íbúðalánasjóður væri nískur og vextirnir háir.  Þá komu bankarnir og hófu að ausa fé í landsmenn á "góðum" kjörum.

Er þjóðin ánægð með þetta í dag og hætt að nöldra?  Ónei.  Allir þessir peningar ýttu upp íbúðarverðinu og nú nöldrar þjóðin sem aldrei fyrr - nöldrar yfir afleiðingum þess að hún fékk það sem hún bað um.

Er til eitthvað það mál sem Íslendingar nöldra ekki yfir?


Að kunna (ekki) stærðfræði

Tvær milljónir skeyta á mínútu gerir ekki tæpa þrjár billjónir á sólarhring, heldur þrjá milljarða.  Við búum ekki í Bandaríkjunum eða öðru landi þar sem menn líta svo á að í billjóninni séu þúsund milljónir, heldur eru það milljón milljónir.

Svona ónákvæmni ergir Púkann.  Það sama á við þegar fólk segir að 4 sé helmingi meira en 2 (en á væntanlega við að það sé tvöfalt meira), svo ekki sé nú minnst á merkingarlaust bull eins og að segja að "verðið er tvöfalt lægra en fyrir útsölu", hvað svo sem það gæti nú átt að þýða.

Það er kannski ekki skrýtið að íslensk börn standi sig illa í stærðfræði þegar þau alast upp við þann hugsanahátt að það sé allt í lagi með svona skekkjur.  Kannski er þarna fundin skýringin á eilífum skekkjum í íslenskum áætlunum - Íslendingar kunna kannski bara ekki stærðfræði.

---

Viðbót: ég sé að greinin hefur verið lagfærð, þannig að gagnrýnin á hana á ekki lengur við - hins vegar stendur það enn sem sagt var um skort á stærðfræðilegri nákvæmni hjá þjóðinni almennt.


mbl.is Tölvupóstsstress
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan á réttri leið?

Gengi krónunnar hefur nú fallið það mikið að það er að nálgast það sem Púkinn telur ásættanlegt fyrir útflutningsfyrirtækin.  Lágt gengi þýðir auðvitað hækkað verð á innfluttum vörum - Bensín, Prins-póló og allt þar á milli er nú orðið nokkru dýrara en það var fyrir einhverjum vikum - eða ef það hefur ekki hækkað nú þegar mun það gerast á næstu vikum eða dögum.

Þetta gerist þrátt fyrir að Seðlabankinn haldi enn fast við ofurvaxtastefnu sína og reyni með því að fela verðbólguna - já "fela", því raunverulega ætti verðbólgan hér að mælast mun meiri en hún gerir - henni er bara sópað undir teppið með því að halda genginu uppi á röngum forsendum. 

Vandamálið er ekki bara það að Seðlabankinn hafi á undanförnum árum brugðist rangt við - stóra vandamálið er að Seðlabankanum er gert samkvæmt lögum að halda verðbólgunni niðri en hann notar ekki öll þau tæki sem hann hefur til þess og misbeitir þeim tækjum sem hann notar.

Menn virðast sem betur fer að vera farnir að sjá í gegnum þennan blekkingarleik og átta sig á því að það fer að koma að skuldadögunum.  Vandamálið er hins vegar að ef krónan heldur áfram að falla, mun draga verulega á áhuga fjárfesta á jöklabréfunum og ef þau verða ekki endurnýjuð mun það þýða verulegt fjárstreymi úr landi, sem aftur mun leiða til enn frekara falls krónunnar, sem kemur fram sem hækkun á verði innflutts varnings, sem aftur kemur fram sem verðbólga, sem gæti neytt Seðlabankann til að hækka vexti enn frekar í tilgangslausri baráttu sinni við að fela raunverulega vandamálið.


mbl.is Krónan lækkar um 2,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna Íslendingar ekki að gera áætlanir?

Grímseyjaferjan.  Kárahnjúkavirkjun.  KSÍ stúkan.

Eru Íslendingar upp til hópa gjörsamlega óhæfir til að gera áætlanir sem standast?  Af hverju er það regla fremur en undantekning að verkefni fari langt fram úr áætlunum og kostnaðurinn lendi á ríkinu eða borginni og á endanum á skattgreiðendum?

Af hverju gerist það aldrei að neinn taki ábyrgð á að klúðra áætlanagerðinni gjörsamlega?

Er þetta bara enn ein birtingarmynd almenns agaleysis í íslensku þjóðfélagi?


Er byggingabólan sprungin?

Það kom fáum á óvart að byggingafyrirtæki nokkurt skyldi segja upp 95 Pólverjum.  Það kæmi ennfremur ekki á óvart þótt svipaðar fréttir myndu heyrast frá öðrum fyrirtækjum í sama geira.  Þótt allir reyni að bera sig vel, er nokkuð ljóst að sum byggingafyrirtæki standa illa, en sérstaklega þau sem fóru seint af stað með framkvæmdir og standa nú uppi með hálfbyggð hús og enga trygga kaupendur.

Aðrir sem luku framkvæmdum á síðasta ári, seldu sín hús og litu svo á að nóg væri byggt í bili eru hins vegar í góðum málum.

Það vita allir að mikið hefur verið byggt síðustu ár og ný- eða hálfbyggð hús hafa sprottið upp eins og gorkúlur eftir vætutíð um haust.  Hingað til hefur ekki skort kaupendur, en verulega hefur dregið úr sölu á nýjum og notuðum íbúðum síðustu mánuði.   Fólk er hrætt við að taka innlend lán vegna hárra vaxta, sem væntanlega eiga eftir að hækka enn frekar og einnig eru margir hræddir við erlend lán ef alvarlegt gengisfall krónunnar er yfirvofandi.

Það sem helst heldur aftur af  fólki er þó væntanlega sú staðreynd að íbúðaverð hefur hækkað umfram öll velsæmismörk.  Sökudólgurinn er auðfundinn - bankarnir.  Þegar þeir fóru að bjóða hagstæð íbúðalán, sem léttu greiðslubyrði fólks þýddi það í raun ekkert annað en að fólk hafði meiri pening á milli handanna og var reiðubúið til að borga hærra verð fyrir íbúðirnar, þangað til verðið var komið á það stig að greiðslubyrðin af lánum fólks var svipuð og hún hafði verið fyrir aðkomu bankanna.

Munurinn var bara sá að erfiðara var fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð, fasteignaskattar hækka  og fólk var í mun verri stöðu gagnvart hækkandi vöxtum en áður.  Engir græða á þessu, jú nema bankarnir - svo framarlega sem fólk verður ekki gjaldþrota umvörpum og bankarnir neyðast til að leysa til sín illseljanlegar eignir.

Þetta er sú staða sem þjóðin er að vakna upp við núna - eins og að vakna í vafasömu ástandi morguninn eftir tryllt partí með dúndrandi timburmenn.


mbl.is Byggingafyrirtæki segir upp 95 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband