Íbúðalánasjóður réttlætir tilvist sína

Þessa dagana heyrist ekkert í þeim sem vildu leggja Íbúðalánasjóð niður.  Ástæðan er einföld - það sjá allir hvernig ástandið væri ef Íbúðalánasjóður væri ekki til staðar nú þegar bankarnir hafa nánast algerlega skrúfað fyrir lánveitingar til íbúðarkaupa.

Ef ekki væri fyrir Íbúðalánasjóð væri fasteignamarkaðurinn ekki bara hálflamaður - hann væri dauður - steindauður og sennilega nálykt af honum líka.

Bönkunum ber engin skylda til að halda áfram að lána húskaupendum þegar illa stendur á hjá þeim sjálfum.  Þeir ákváðu upp á sitt einsdæmi að bjóða upp á þessi lán og geta hætt því ef þeir vilja.  Íbúðalánasjóður heldur hins vegar áfram að lána, sama hvernig ástandið í efnahagsmálum er - en með því sannar hann tilvistarrétt sinn, eða sýnir öllu frekar fram á að hann er nauðsynlegur - bönkunum er ekki treystandi til að sitja einir að því að veita þessa þjónustu.


mbl.is Fasteignasalar óska eftir fundi með félagsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllingsmyndin 'Jesus Camp'

jesus-camp-092706-xlgPúkinn horfði á myndina 'Jesus Camp' sem var sýnd á rás 4 í Bretlandi í gær.  Þessi mynd var tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda, en hún sýnir þær "heilaþvottaraðferðir" sem ofsatrúarmenn beita í sumarbúðum til að móta næstu kynslóð kristinna ofsatrúarmanna. 

Flestum mun sjálfsagt finnast það ótrúlegt sem myndin sýnir - en eins og einn aðalprédikarinn segir:

 "I want to see them as radically laying down their lives for the gospel as they are in Palestine, Pakistan and all those different places.  Because, excuse me, we have the truth."

Fólkið sem stendur á bak við sumarbúðir eins og þessar hefur ekki áhuga á að ala börn upp til að verða að einstaklingum sem skoða allar hliðar mála og mynda sínar eigin skoðanir - nei, þau skulu alin upp til að hafa hinar einu réttu skoðanir.  Mörg barnanna hafa verið tekin úr almenna skólakerfinu og fá heimakennslu - þar sem þeim er kennt að Biblían sé bókstaflega sönn frá upphafi til enda, jörðin sé 6000 ára gömul og annað í þeim dúr.

Hófsamari kristnir einstaklingar hafa almennt fordæmt þennan heilaþvott, eins og t.d. þessi hér, sem sagðist hafa þurft að horfa á myndina með hléum til að biðja fyrir börnunum.

Púkinn veit ekki hvort þessi mynd hefur verið sýnd á Íslandi, en hún er virkilega þess virði að horfa á hana - meðal annars til að minna á að sú ógn sem heiminum stafar af ofsatrú er ekki bara bundin við Islam, nú eða þá bara fyrir aðdáendur hryllingsmynda og heimildarmynda.


Eru gjöld á flutningabílum ekki nægjanlega há?

Þessar tölur um slit sem flutningabílar valda á vegakerfinu má túlka sem svo að landsmenn séu með sköttum sínum að niðurgreiða rekstur flutningabílanna verulega.

Ef þessir bílar þyrftu að greiða fyrir þær skemmdir sem þeir valda á vegakerfinu yrði rekstur þeirra væntanlega það óhagkvæmur að eitthvað af flutningunum myndi fara aftur sjóleiðina.

Bílstjórarnir vilja hins vegar lægri álögur, ekki hærri - það er að segja - þeir vilja að almenningur í landinu niðurgreiði rekstur þeirra enn frekar en nú er.

Já, svona er Ísland í dag.


mbl.is Flutningabíll slítur vegum á við 9 þúsund fólksbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um útdauðar lífverur

ExtinctDodoBirdÞví hefur verið haldið fram að yfir 99% allra dýrategunda sem hafa verið uppi á jörðinni hafi dáið út.

Það sem er sérstakt við þann fjölda lífvera sem er að deyja út nú um þessar mundir er að maðurinn ber beint eða óbeint ábyrgð á stöðunni.  Hins vegar er ekki enn um neitt met að ræða.

Við lok krítartímans (fyrir um 65 milljónum ára) er áætlað að um 50% allra tegunda hafi dáið út.  Við nutum á vissan hátt góðs af því, því meðal þeirra tegunda sem lifðu af voru lítil loðin spendýr, sem um 12 milljón kynslóðum síðar áttu eftir að verða forfeður (og formæður manna).  Sennilegasta skýring þessa atburðar er talinn árekstur stórs loftsteins við jörðina, á þeim stað sem Yucatanskagi í Mexico er nú.

Þetta hverfur hins vegar í skuggann af atburðum sem áttu sér stað fyrir um 251 milljón ára síðan, í lok Permian-tímabilsins, en þá er áætlað að 70% allra tegunda á landi og 96% allra tegunda í sjó hafi dáið út.  Ástæður þessa eru ekki þekktar með vissu, en sennilegt er að eldgos í Síberíu (stærsta eldgos síðustu 500 milljón árin) eigi hlut að máli, en einnig virðist sem súrefnisskortur í hafinu hafi átt hlut að máli.

Hvað um það - mannkynið hefur aðeins verið uppi í 100.000-200.000 ár og meðal líftími spendýrategunda á jörðinni er ekki nema um ein milljón ára.  Kakkalakkarnir hafa hins vegar verið á jörðinni í 300 milljón ár og verða hér sjálfsagt áfram þótt mannkynið útrými sjálfu sér.


mbl.is Skordýr í hitabeltislöndum gætu dáið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þennan dag árið 2349 f. Kr.....

araratSamkvæmt James Ussher, fyrrverandi erkibiskup írsku kirkjunnar, var 5. maí árið 2349 f.Kr. dagurinn þegar örkin hans Nóa strandaði á Ararat fjallinu.  Hann lét ekki smávægileg vandamál eins og umrætt flóð átti sér aldrei stað og að örkin var aldrei til (a.m.k. ekki eins og lýst er í Genesis) hindra sig.

Enn í dag er ótrúlegur fjöldi manna (flestir í Bandaríkjunum og öðrum löndum þar sem trúarskoðanir eru taldar jafngildar sannleika) sem trúir því að þetta flóð hafi átt sér stað og að leifar af örkinni megi finna á Ararat.  Svikahrappinum Ron Wyatt tókst til dæmis að telja fjölda manna trú um að hann hefði fundið leifar af örkinni nálægt Doğubeyazıt í Tyrklandi.

Fyrir tilviljun er 5. maí líka dagurinn sem John T. Scopes var handtekinn fyrir að kenna þróunarkenninguna í Tennessee, árið 1925 en lögin sem hann var sakfelldur fyrir að brjóta voru ekki felld úr gildi fyrr en 1967.


Stuðningur við rannsóknir og þróun

Púkinn á sér draum - að hér á Íslandi verði stutt við rannsóknir og þróun af sama myndugleika og í mörgum nærliggjandi löndum, þar sem ráðamenn gera sér grein fyrir mikilvægi þess að styðja við þessi svið.  Menn geta velt fyrir sér hvers vegna hér á Íslandi sprettur ekki upp fjöldi hátæknifyrirtækja, en ástæður þess eru margvíslegar - þar á meðal hversu fjandsamlegt umhverfið hér er slíkum fyrirtækjum.

Því miður er Púkinn þeirrar skoðunar að íslenskir ráðamenn muni klúðra málinu - "afrekaskrá" þeirra hingað til bendir nefnilega til þess að ráðamenn séu hræddir við alla hátækni sem þeir skilja ekki.

Púkinn er hræddur um að ráðamenn hér fari þá leið að setja upp opinbert styrkjaapparat (þar sem eingöngu tiltekin verkefni verða styrkt - ekki "stöðug" þróunarvinna og fyrirtæki þurfa að eyða helmingi styrksins að gera skýrslur um verkefnin)

Nú, eða að farin verði sænska leiðin, og fyrirtækjum veittur skattafrádráttur sem nemur hluta rannsókna- og þróunarkostnaðar -  sem er gott og blessað fyrir þau fyrirtæki sem eru farin að skila hagnaði, en nýtist þeim ekkert sem eru að reyna að komast á það stig.

Síðan þykjast ráðamenn verða hissa þegar fyrirtækin flytja rannsókna- og þróunarvinnuna úr landi


mbl.is Marel: Fimm milljarðar í rannsóknir og þróun á hverju ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar skilja ekki verðbólgu

inflationpicPúkinn er þeirrar skoðunar að flestir Íslendingar skilji ekki eðli verðbólgu. 

Verðbólgan er persónugerð hérlendis - menn tala um hana eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru og hægt sé að berjast við hana eina og sér - tala um "nauðsyn þess að kveða niður verðbólgudrauginn" eða að "verðbólgubálið geisi".

Þetta er þvættingur.

Púkinn kýs að líkja verðbólgunni við sótthita hjá sjúklingi - myndi fólki ekki þykja eitthvað athugavert við lækni sem legði alla áherslu á að ná niður sótthita sjúklings, en hirti ekkert um alvarlega, undirliggjandi sýkingu?

Það sama á við um Seðlabankann - lögum samkvæmt er honum gert að hafa það að meginmarkmiði halda verðbólgunni niðri og hann notar þau tól og tæki sem hann hefur - vaxtabreytingar og bindiskyldu - svona svipað og að ef læknar gerðu ekkert annað en að gefa fólki hitalækkandi lyf.

Það er engin furða að aðgerðir Seðlabankans virki ekki, því ekki er hreyft við þeim þáttum sem valda varðbólgunni - verðbólga er einkenni undirliggjandi vandamála og ef ekki er tekið á þeim vandamálum þá helst hún áfram há - nú eða (svo vísað sé aftur í fyrri samlíkingu) sjúklingurinn nær sér upp á eigin spýtur eða deyr.

Skoðum nú aðeins nokkur mistök sem hafa verið gerð.

  • Þegar bankarnir fóru að bjóða upp á húsnæðislán á "góðum" vöxtum þýddi það aukið framboð á peningum (í höndum kaupenda) eð eltast við takmörkuð gæði (eignir til sölu). Það þurfti ekki mikla hagfræðiþekkingu til að sjá fyrir að þetta myndi hafa í för með sér verðhækkanir á húsnæði, uns sársaukamörkum yrði náð - þ.e.a.s. meðalafborganir yrðu jafnháar og þær voru áður með gömlu "óhagstæðu" lánunum.  Það sem Seðlabankinn hefði átt að gera á þessum tímapunkti hefði verið að hemja útlánagleði bankanna með því að auka bindiskylduna, en nei - Seðlabankinn hleypti þessum verðhækkunum í gegn og túlkaði þær síðan sem verðbólgu sem þyrfti að berjast gegn með hækkuðum vöxtum.
  • Seðlabankinn tók einnig þá ákvörðun að virkjana- og álversframkvæmdir fyrir austan væru verðbólguhvetjandi og það þyrfti að berjast gegn þeirri væntanlegu verðbólgu með hækkuðum vöxtum.  Þarna gleymdist að stór hluti  greiðslnanna fór til erlendra aðila, eða til erlendra verkamanna sem sendu þá peninga úr landi, en dældu þeim ekki inn í hagkerfið hér.  Verðbólguáhrifin voru því í raun mun minni en Seðlabankinn miðaði "fyrirbyggjandi" aðgerðir sínar við.
  • Þegar Seðlabankinn hækkaði vextina tók krónan að verða áhugaverð fyrir spákaupmenn, sem sáu sér leik á borði að hagnast á vaxtamunarviðskiptum - krónubréfunum svokölluðu. Bankarnir stórgræddu líka á þessu sem milliliðir - þeir þurftu bara að fá Íslendinga til að taka lán á móti og það var ekki vandamál - það var nóg af fólki sem var til í að fá pening lánaðan til að kaupa hluti sem það í rauninni hafði ekki efni á.   Gerði Seðlabankinn eitthvað til að vinna gegn þessu, þótt honum hefði átt að vera ljóst að þetta myndi raska stöðugleika í efnahagslífinu?  Nei.
  • Málið var nefnilega að útgáfa krónubréfanna styrkti íslensku krónuna, sem gerði allan innflutning ódýrari, sem stuðlaði að því að halda verðbólgunni niðri.  Það er jú lögum samkvæmt markmið Seðlabankans - ekki að viðhalda stöðugleika og draga úr viðskiptahalla.
  • Þetta var hins vegar skammgóður vermir - svona eins og að pissa í skóinn sinn.  Þessi ofursterka króna var á góðri leið með að sliga útflutningsfyrirtækin - sum þeirra lögðu upp laupana eða fluttu starfsemina úr landi, en önnur drógu úr starfsemi eða steyptu sér í skuldir (nú nema álverin, sem bjuggu við ódýrt rafmagn, lækkandi hráefnisverð og hækkandi afurðaverð, þannig að þau kvörtuðu ekki).
  • Svo byrjar að hrikta í spilaborginni og að lokum fellur hún - afleiðingarnar þekkja allir.

Núna um þessar mundir eru allir að kvarta og heimta aðgerðir.  Miðað við afrekaskrá ríkisstjórna og Seðlabanka á undanförnum árum er Púkinn næsta viss um að ýmist verði gripið til rangra aðgerða - nú eða þá réttra aðgerða á röngum tíma.  Vaxtahækkanir virka ekki til að drepa niður verðbólguna, ef gengi krónunnar er leyft að hækka á sama tíma - það er bara uppskrift að áframhaldandi óstöðugleika og annarri kollsteypu.  Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar sé "rétt" um þessar mundir, en ef Seðlabankinn lækkar ekki vextina fljótlega þá mun hún styrkjast aftur - nokkuð sem yrði sjálfsagt vinsælt hjá mörgum því erlendu lánin og innfluttar vörur myndu lækka - en það er bara ekki forsenda fyrir þeirri lækkun - ef við viljum sterkan gjaldmiðil þá verður að ná niður viðskiptahalla og og byggja styrk krónunnar á raunverulegum útflutningsverðmætum, en ekki gerviverðmætum, sem byggja á engu öðru en gjaldmiðlabraski vegna ofurvaxta hérlendis. 


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til varnar nafnleysingjum

anonymousUpp á síðkastið hefur nokkuð verið rætt um þá afstöðu sumra bloggara að vilja ekki skrifa undir sínu eigin nafni, heldur einhverju dulnefni.

Þar sem Púkinn er einn þeirra sem tilheyra þessum hópi langar hann aðeins til að stíga í pontu fyrir hönd nafnleysingja.

Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk kjósi að koma ekki fram undir eigin nafni.  Ein ástæðan er sú að viðkomandi vilji koma á framfæri skoðunum sem ekki njóta vinsælda meðal fjölskyldu, vina eða vinnufélaga viðkomandi.  Nafnleysið er þá leið til að forðast árekstra í einkalífi en geta geta þó tjáð sig um ákveðin mál.

Það er líka mögulegt að það sem viðkomandi bloggari vilji skrifa um sé þess eðlis að viðkomandi myndi hreinlega stofna sér í hættu ef vitað væri hver stendur á bak við dulnefnið.   Þetta er sem betur fer óþekkt hérlendis, en ýmsum öðrum löndum er þetta virkilegt vandamál - bloggarar sem skrifa um mál sem ekki eru yfirvöldum (eða ákveðnum hópum) þóknanleg geta átt í vændum ofsóknir - nú eða bara verið látnir "hverfa".

Það geta þó verið fleiri ástæður fyrir nafnleysi.  Í tilviki Púkans er meginástæðan til dæmis sú að sá sem stendur á bak við Púkann er þekktur fyrir verk sín á nokkrum afmörkuðum sviðum.  Það sem Púkinn kýs að blogga um er hins vegar almennt ekki tengt þeim sviðum, heldur alls óskyld mál.  Púkinn vill að skrif hans séu metin út frá eigin verðleikum, en ekki með tilliti til þess hver stendur á bak við þau.

Það sama á við einstaklinga sem eru almennt tengdir við ákveðna hugmyndafræði.  Ef t.d. landsþekktur framsóknarmaður eða femínisti kýs að tjá sig um eitthvað, er hætt við að sumir myndu meta skrif viðkomandi með hliðsjón af skoðunum sínum á þeirri stefnu sem viðkomandi tengist í hugum þeirra, jafnvel þótt skrifin séu um alls ótengt efni. ("Hún segir þetta bara af því að hún er svo mikill framsóknarmaður/femínisti")

Það er síðan allt annað mál hversu vel nafnleysingjar leyna því hverjir þeir raunverulega eru - það er t.d. barnaleikur að sjá hver Púkinn er, en nokkuð erfiðara þegar ýmsir aðrir eiga í hlut.  Púkinn vill hins vegar halda sínu nafnleysi þannig að hann hefur almennt fylgt þeirri stefnu að eyða út athugasemdum frá þeim sem ekki sýna þá kurteisi að greina á milli Púkans og þess sem stendur á bak við hann.


Baugur? Útflutningsverðlaun?

Púkinn á svolítið bágt með að skilja fyrir hvað Baugur hlýtur útflutningsverðlaun forseta Íslands. 

Sú hlið á starfsemi Baugs sem helst snýr að íslensku þjóðinni varðar verslunarrekstur og þar með innflutning á vörum til Íslands.  Sá rekstur hefur haft hag af sterkum gjaldmiðli undanfarin misseri - hagnast á þeirri sömu ofurkrónu og hefur verið að gera út af við þau raunverulegu útflutningsfyrirtækja sem eru starfandi hér á Íslandi.

Hagsmunir Baugs og hagsmunir útflutningsfyrirtækja fara ekki saman - svo einfalt er það.

Ef um "útrásarverðlaun" væri að ræða, þá væri þetta gott og blessað - en að gefa Baugi útflutningsverðlaun jafngildir því að slá blautri tusku framan í alla þá sem reyna að stunda útflutning héðan frá Íslandi.


mbl.is Baugur Group hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttur þinn til að sveifla hendinni endar þar sem nefið á mér byrjar

Loksins...loksins...loksins.  Púkinn hefur fengið sig fullsaddan af því að lögreglan geri ekkert gegn þessum ribbaldalýð annað en að bjóða þeim í nefið.

Aðgerðir atvinnubílstjóranna nutu stuðnings almennings í fyrstu, en eftir því sem fleiri blásaklausir borgarar hafa orðið fyrir barðinu á þeim og fólk hefur gert sér betur grein fyrir því að bílstjórarnir eru bara að berjast fyrir sínum þröngu sérhagsmunum eins og að fá að aka óhvíldir ósofnir, þá hefur stuðningurinn við aðgerðirnar minnkað.

Það að stöðva alla umferð á mikilvægum akstursleiðum er ekki bara ólöglegt, heldur getur stofnað lífi annarra í hættu - það hefur ítrekað verið bent á að sú staða gæti komið upp að sjúkrabílar kæmust ekki leiðar sinnar vegna aðgerðanna.

Jú, atvinnubílstjórar mega mótmæla eins og aðrir, en þeir verða að haga sínum mótmælum þannig að þeir stofni ekki lífi og heilsu annarra í hættu - eða eins og það hefur verið orðað:

  Réttur þinn til að sveifla hendinni endar þar sem nefið á mér byrjar.

Það var kominn tími til að lögreglan gripi til alvöru aðgerða.


mbl.is Lögregla beitir táragasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband