Leggjum niður Flateyri

flateyri4Sumir vilja kenna fiskveiðistjórnunarkerfinu einu um stöðu mála á Flateyri, en Púkinn horfir til fleiri þátta - íslenska ofurkrónan og hátt vaxtastig á einnig sinn þátt.

Nú er sagt að gengi krónunnar muni haldast hátt út árið 2008 - fari svo, þá er Púkinn hræddur um að Flateyri verði ekki eina byggðarlagið sem verði lagt niður og lítið verði eftir af mörgum útflutningsfyrirtækjum.

En það að breyta blómlegum fyrirtækjum í rústir heitir víst bara "eðlileg ruðningsáhrif" - að minnsta kosti meðan það snertir ekki mann sjálfan. 


mbl.is „Minn tími í sjávarútvegi er liðinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins - kominn tími til að grilla

Það eru nokkrir dagar síðan Púkinn kom síðast með "bruðl dagsins", þar sem hann reynir að veita þeim aðstoð sem eiga of marga aura í vasanum, en hér skal bætt úr því.

Grilltíminn fer nú í hönd og grillauglýsingar dynja á landsmönnum - vandamálið er bara það að það er ekki samboðið íslenskum auðmönnum að eiga sams konar grill og sauðsvartur almúginn - jafnvel stærsta grillið frá BYKO er tæplega nógu sérstakt.

Nei, það sem er við hæfi er eitthvað eins og þetta - gullhúðað grill, framleitt af BeefEater.

Og verðið?  Ekki nema rúm milljón króna.

Púkanum verður nú bara hugsað til enska orðatiltækisins "..to have money to burn..".

Lík Parisar Hilton

paris_hilton_autopsySem hluti af baráttu gegn ölvunarakstri ungs fólks, hefur listamaðurinn Daniel Edwards búið til listaverk sem sýnir líkið af Paris Hilton, ásamt því að efna til samkeppni um minningargrein um hana.

Nánari upplýsingar má sjá á http://www.parishiltonautopsy.com/

Á þeirri síðu eru einnig nokkrir hlekkir á myndskeið á YouTube varðandi listaverkið.

Púkinn getur nú ekki að því gert, að honum finnst nú óttalegt auglýsingabragð af þessu - að listamaðurinn sé meira að reyna að vekja athygli á sjálfum sér en hættunum á ölvunarakstri - en, dæmi hver fyrir sig.


mbl.is Paris mun ekki áfrýja dómnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jákvæð áhrif á gengi krónunnar"

Svo afskráning Actavis á að hafa jákvæð áhrif á gengi krónunnar...en jákvæð fyrir hverja?

Áhrifin verða ekki jákvæð fyrir útflutningsfyrirtæki og ferðaþjónustuaðila á íslandi, svo mikið er víst.  

Púkinn hefur nú aldrei verið hrifinn af þeirri hugmynd að hætta með íslensku krónuna, en ef íslenska örhagkerfið er svo viðkvæmt að sala á einu fyrirtæki hefur umtalsverð áhrif á gengi gjaldmiðilsins er kannski best að hætta bara þessu kjaftæði - hætta að þykjast vera með alvöru gjaldmiðil og finna leið til að tengjast evrunni.


mbl.is Afskráning Actavis gæti haft áhrif á gengi krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græna hliðin upp!

grasNei, þessi grein er ekki um Framsóknarflokkinn eða Vinstri-Græna.  Hún er heldur ekki um Hafnarfjarðarbrandara. Hún fjallar hins vegar um túnþökur.  Púkinn átti leið framhjá Kjarvalsstöðum í dag og sá þar að búið var að leggja allmikið af grasþökum á bakvið bygginguna.

Það sem vakti hins vegar athygli Púkans var að um helmingur þeirra var á hvolfi.

Nú hefur það hingað til verið nokkuð almenn regla þegar túnþökur eru lagðar að græna hliðin er látin snúa upp, þannig að Púkanum þótti þetta nokkuð sérkennilegt athæfi.

Nánari athugun leiddi í ljós að þarna var um listaverk, "Litlatún", að ræða.

Garðeigendur og aðrir sem fást við að leggja þökur ættu því að hafa í huga framvegis að viðeigandi hlið á þökum snúi upp, eftir því hvort um grasflöt eða listaverk er að ræða.


Veirur eru ekki vandamál

virus_skullÍ tilefni af því málþingi sem fyrirhugað er hér á landi næstu tvo daga um prófanir á veiruvarnaforritum, þá langaði Púkann til að varpa fram þeirri fullyrðingu að tölvuveirur eru í raun ekki vandamál.  Tölvuveirur eru nefnilega mjög sjaldséð fyrirbæri og það er nánast óþekkt að nokkur tölva smitist af slíku.

En bíðum nú við - það kannast allir við þann ófögnuð sem kemur í tölvupósti eða á annan hátt, stelur upplýsingum , eyðir gögnum og gerir tölvurnar stundum óstarfhæfar - hvað á Púkinn þá við með því að halda því fram að veirur séu nánast ekki til.

Það er nefnilega málið.  Þessi forrit sem fólk fær inn á tölvurnar eru ekki veirur, heldur allt aðrar tegundir af óværu.  Þessi forrit falla helst í eftirfarandi flokka (en þess ber þó að gæta að mörg forritanna sameina eiginleika tveggja eða fleiri flokka).

Bakdyr: Forrit sem setja upp aðgang á tölvunni þannig að aðrir aðilar geti tengst henni utan úr heimi og sett forrit inn á hana.

"Bot": Forrit sem leyfir utanaðkomandi aðila að stjórna tölvunni og er þá talað um að tölvan sé "zombie".  Margar slíkar tölvur eru síðan gjarnan tengdar saman í net undir stjórn einnar aðaltölvu, en það "zombienet" er síðan hægt að (mis)nota í margvíslegum tilgangi.  Jafnvel kemur fyrir að aðgangur að slíkum netum sé seldur eða leigður hæstbjóðandi.

Rusldreififorrit: Forrit sem nota tölvutenginguna sem er til staðar til að dreifa ruslpósti á kostnað eiganda tölvunnar.

Hlerunarforrit: Forrit sem hlerar samskipti tölvunnar yfir netið og reynir að stela aðgangsupplýsingum, kreditkortanúmerum og öðru slíku.

Eiginlegar veirur eru hins vegar orðnar mjög sjaldséðar - innan við 1% þess sem menn rekast á í dag.


mbl.is Málþing um tölvuveiruvarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Osama bin Ladin og vinir hans

custom_tpÍ gær minntist Púkinn á svartan salernispappír sem mun vera markaðssettur sem hápunktur baðherbergisskreytinga.  Meðal þeirra athugasemda sem komu frá öðrum bloggurum var ein sem varðaði sérprentaðan salernispappír.

Viti menn - slíkt er til - menn þurfa bara að senda framleiðandanum mynd og hann sér síðan um afganginn.  Þannig geta menn fengið pappír með mynd af Osama bin Ladin, Bandaríkjaforseta, fyrrverandi maka, eða forystumönnum stjórnmálaflokkanna.

Verðið fer að sjálfsögðu eftir magni - ævibirgðir (4800 rúllur) myndu kosta um eina og hálfa milljón, en það er hægt að panta allt niður í 4 rúllur.

Nánari upplýsingar má sjá hér


Leitin að tilgangsleysi

Eins og margir aðrir er Púkinn þreyttur eftir að hafa vakað til að fylgjast með kosningaúrslitunum og einhvern veginn ekki í formi til að skrifa málefnalegt eða innihaldríkt blogg.

Nei, þess í stað fjallar þessi grein um það tilgangslausasta sem Púkinn gat fundið við leit á vefnum.

Einn nýjast afurð Renova fyrirtækisins er svartur salernispappír en þrátt fyrir mikil heilabrot fær Púkinn hreinlega ekki séð tilganginn með þeirri vöru.

Fréttatilkynning Renova fyrirtækisins er heldur ekki sérlega sannfærandi:

"Elegant, sophisticated, rebellious, alternative and eternally fashionable, black has become virtually synonymous with chic and style. But while this colour is often present in avant-garde creative work, no one has ever dared to use it for toilet paper until now. Black in the loo, how chic and sophisticated can you get?".

"Chic and sophisticated" á salerninu.  Já, það var einmitt það.


Síðasta pólitíska blogg Púkans (í bili)

greenguyPúkinn er orðinn þreyttur á stjórnmálaumræðunni, en jafnvel enn þreyttari á því að vera í vandræðum með að ákveða hvað hann eigi að kjósa.  Frá því að Púkinn fékk kosningarétt hefur valið verið auðvelt - Púkinn hefur nánast alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn.  

Þetta er í sjálfu sér ekkert skrýtið - Púkinn passar nefnilega mjög vel við "prófílinn" af hinum dæmigerða Sjálfstæðismanni - karlkyns, "40-something", með góða menntun, eigið fyrirtæki og þokkalegar tekjur og enn fremur hefur Púkinn alltaf verið þeirrar skoðunar að þjóðfélagið eigi að hvetja þá áfram sem sýna dugnað - leyfa þeim að njóta sín, frekar en að berja alla í sama mót í nafni einhvers "jöfnuðar".

Samt, fyrir þessar kosningar hefur Púkinn átt í verulegum vandræðum - það eru of margar ástæður fyrir því að hann getur hreinlega ekki kosið sinn gamla flokk.

Þær helstu (en ekki í neinni sérstakri röð)

  • Árni Johnsen.  Hvernig er hægt að bera trausts til flokks sem teflir fram siðblindum manni, jafnvel þótt það sé í öðru kjördæmi og þótt hann hafi tekið út sína refsingu.  Það eru sumir sem bara eiga ekki erindi á þing.
  • Íraksstríðið. Íslensk stjórnvöld voru höfð að fíflum, en þegar ljóst var að rök Bandaríkjamanna voru uppspuni og að innrásin hafði leitt meiri hörmungar yfir Íraka en áframhaldandi völd Saddams, hefðu stjórnvöld átt að biðja Íraka afsökunar á upphaflegum stuðningi sínum.  Slík afsökunarbeiðni hefði að vísu aðeins haft táknrænt gildi, en hún hefði sýnt að ráðamenn væru nógu miklir menn til að viðurkenna mistök sín.
  • Ofurkrónan.  Stjórnvöld misstu tökin á efnahagsmálum og juku þensluna í þjóðfélaginu á þeim tíma sem hagkerfið mátti ekki við því.  Niðurstaðan er ofurkróna, með slæmum afleiðingum fyrir útflutningsfyrirtækin.  Stjórnvöld kalla þetta "ruðningsáhrif", en frá sjónarhóli Púkans er þetta atlaga að lífsviðurværi hans.
  • Hálendið og mengunin.  Púkinn vill eiga heima í hreinu landi.  Það er ein af ásæðum þess að Púkinn er hér, en ekki úti í heimi, þar sem flestar aðrar aðstæður eru betri.
  • Eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra.  Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það.
  • Menntunar- og heilbrigðiskerfi sem er að þróast í þá átt að gæði þjónustunnar ráðast alfarið af efnahag viðkomandi.  Púkinn hefur skömm á bandaríska módelinu og vill ekki sjá Íslendinga færast nær því.

En hvað á Púkinn að kjósa?  Eini flokkurinn sem hentar hægri-grænum Púka er Íslandshreyfingin, en nær hún 5%?  Skoðanakannanir benda ekki til þess, en Púkinn vonar að einhver hluti óákveðinna sé óákveðinn vegna þess að þeim hugnast engir "gömlu" flokkanna og ákveði að greiða Ómari og Margréti atkvæði sitt á kjördag.


Sjálfstæðisflokkur til sölu (á eBay)

xdEf leitað er á eBay, má þar finna eftirfarandi auglýsingu: "

"Spilltur og þreyttur valdaflokkur, sem verið hefur í ríkisstjórn alltof lengi, fæst fyrir lítið fé - óskast sóttur. Varúð: getur reynst hættulegur öldruðum, öryrkjum, barnafólki og fátækum. Myndi sóma sér vel í flestum bananalýðveldum, enda þaulvanur í þjónkun við bandarísk stjórnvöld og aðra valdahópa.

Forystumenn geðþekkir, en tala slæma ensku. Öflugt tengslanet fylgir með, inniheldur helstu stjórnendur í íslensku viðskiptalífi og a.m.k. einn kvikmyndaleikstjóra og háskólaprófessor."

Með tilliti til þess að seljandi heitir "vg-konan", grunar Púkann sterklega einhvern húmorista í ungliðahreyfingu VG, en það er hins vegar öllu stærri spurning hver sá aðili er sem hefur boðið $1000 í flokkinn.

Hin spurningin er hvort við fáum að sjá eitthvað svar frá ungliðum innan Sjálfstæðisflokksins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband