Hrakfarir Microsoft

Það er í sjálfu sér akki svo skrýtið að Microsoft skuli koma illa út á svona prófi.  Þegar Microsoft ákvað að fara (í annað sinn) inn í veiruvarnageirann stóðu þeir frammi fyrir því að þurfa að kaupa tækni, því tíminn var of knappur til að þeir gætu þróað veiruvarnarhugbúnað frá grunni.

Microsoft hafði ákveðnar verðhugmyndir, en eina fyrirtækið sem var tilbúið til að selja þeim tæknina á því verði var lítið fyrirtæki í Rúmeníu, sem var ekki alveg með bestu lausnirnar.

Púkanum finnst bara ekkert skrýtið við þetta - stundum fær fólk nefnilega það sem það borgar fyrir.


mbl.is Windows féll aftur á veiruvarnarprófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bless, bless glóperur

bulbsUmhverfisráðherra Ástralíu, Malcolm Tunbull hefur tilkynnt þá fyrirætlun sína að banna sölu á glóperum frá og með árinu 2010, en með því að skipta slíkum perum út fyrir sparperur ætti að vera hægt að draga úr raforkunotkun heimula um allt að 16% og lækka rafmagnsreikninginn sem því nemur.

Sparperurnar eyða ekki bara mun minna rafmagni en glóperur sem lýsa jafn vel, heldur eru þær einnig ódýrari til lengdar - hver sparpera er ef til vill 5 sinnum dýrari en sambærileg glópera, en endist 8 sinnum lengur, þannig að til lengri tíma litið er verulegur sparnaður af notkun þeirra.

Það er að vísu ekki unnt að nota sparperur alls staðar - þær ganga til dæmis ekki þar sem ljósastyrk er stýrt með "dimmer", en Púkinn notar sjálfur sparperur þar sem hann getur og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama.

Púkanum finnst líka að íslensk stjórnvöld ættu að taka ástralska kollega sína sér til fyrirmyndar, nú eða bara að ganga á undan með góðu fordæmi og nota sjálfir sparperur þar sem því verður við komið. 

Púkinn er nefnilega stundum svolítill aurapúki.


Dýr (og vonandi góður) eftirréttur

expensive-ice-cream-sundaeFrá árinu 2004 hefur veitingastaðurinn Serendipity 3 í New York boðið upp á þennan eftirrétt sem sést hér og nú nýverið var hann pantaður í 15. skipti.

Það mætti halda að þessi litla sala bæri vitni um að rétturinn væri ef til vill ekki mjög góður, en ástæðan er ef til vill frekar verðið -  um 80 þúsund krónur að meðtöldu þjórfé.

Í uppskriftinni er vanilla frá Madagascar og Tahiti, Amedei Porcelana, dýrasta súkkulaði heims, gylltur kavíar og gullþynnur.

Já, gullþynnur.

Gull er nefnilega leyfilegt bætiefni í mat og með E-númerið E-175. 

Ef einhver hefur hug á að panta sér þennan rétt, er viðkomandi bent á að gera það með fyrirvara, því það tekur nokkra daga að undirbúa hann.


Hjálparhundar

Ccashmachine1Þegar Púkinn fjallar um það sem aflaga fer í þjóðfélaginu er það venjulega á léttu nótunum.  Stundum kemur það þó fyrir að Púkinn rekst á frétt sem er þess eðlis að alvarlegri umfjöllun er við hæfi.

Margir landsmenn muna sjálfsagt eftir að hafa séð umfjöllun í sjónvarpinu um Harald Sigþórsson sem bundinn er við hjólastól og hundinn hans, Tinna, sem meðal annars er þjálfaður til að opna dyr og taka upp hluti sem eigandinn missir á gólfið.

Hundana má hins vegar nýta á marga aðra vegu og Púkinn rakst nýlega á umfjöllun um Canine Partners sem þjálfar hunda til að gera hluti eins og að setja þvott í þvottavélar og taka út úr hraðbönkum.

Þannig sérþjálfaðir hundar geta stórbætt líf eigenda sinna og það er skoðun Púkans að sjtjórnvöld ættu að styðja slíkt.  Í fyrsta lagi ætti að setja reglur um aðgengi þjálfaðra aðstoðarhunda, hvor sem þar er um að ræða hjálparhunda fyrir fatlaða eða blindrahunda, þannig að almennt sé óheimilt að vísa eigendum þeirra frá fyrirtækjum eða stofnunum þar sem þeir séu með hund.  Í öðru lagi ætti að niðurgreiða þjálfunarkostnaðinn, sem getur verið um ein milljón.  


Máttur bænarinnar

hands_of_prayerHvað á fólk við þegar það talar um "mátt bænarinnar"?

Nú ætlar Púkinn ekki að halda því fram að bænir hafi engan mátt, en honum þykir nokkuð augljóst að bænir geti haft sama mátt og hugleiðsla, róað hugann, lækkað blóðþrýsting eða aukið losun endorfína.

Það sem Púkinn á bágt með að trúa er að bænir geti haft nokkur áhrif fyrir utan líkama þess sem biðst fyrir.

Þetta er hins vegar unnt að rannsaka.  Frændi Darwins, Francis Galton var sá fyrsti til að gera það.  Hann benti á að á hverjum sunnudegi væri beðið fyrir heilsu konungsfjölskyldunnar í öllum kirkjum Bretlands.  Ef þær bænir hefðu áhrif ætti konungsfjölskyldan að vera við betri heilsu en aðrir.  Hann skoðaði málið, en fann engan mun.

Galton gerði líka tilraun með að skipta landssvæði upp í skika, velja suma þeirra af handahófi og biðja fyrir þeim til að athuga hvort plöntur í þeim yxu hraðar (sem þær gerðu ekki).

Nú má gagnrýna þessar tilraunir, bæði frá vísindalegum og trúarlegum sjónarhóli, en í apríl 2006 voru birtar niðurstöður rannsóknar í American Heart Journal.  Sú rannsókn uppfyllir allar vísindalegar kröfur.

Dr. Herbert Benson og aðstoðarfólk hans fylgdist með heilsu 1802 sjúklinga í 6 spítölum sem höfðu farið í hjartaþræðingu.  Þeim var skipt í þrjá hópa.

  • Hópur 1: Það var beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því.
  • Hópur 2: Það var ekki beðið fyrir þessum sjúklingum en þeir vissu ekki af því
  • Hópur 3: Það var beðið fyrir þessum hópi og þeir vissu af því.

Væntingar þeirra sem stóðu að rannsókninni voru að sá munur sem kæmi fram milli hópa 1 og 2 myndi sýna mátt bænanna, en munur á hópi 1 og 3 myndi sýna "psychosomatic" áhrif þess að vita af bænunum.

Bænirnar fóru fram í kirkjum í Minnesota, Massachusetts og Missouri.  Þeim sem báðust fyrir voru afhentir listar með hluta nafns ("John E.") viðkomandi sjúklinga.  Ólíkt Galton sem minnst var á áðan efaðist enginn um að væru framkvæmdar af einlægum trúmönnum.

Niðurstöðurnar?

Jú, enginn marktækur munur var á hópi 1 og 2, en hins vegar sýndi hópur 3 mun verri útkomu en hópur 1.  Sennilegasta skýringin er sú að sjúklingarnir í hópi 3 hafi meðvitað eða ómeðvitað litið svo á að ástand þeira væri slæmt, fyrst það þyrfti að biðja fyrir þeim og það hafi dregið þá niður.

Svona fór um það.


Tveir kennarar með barnaklám

Púkinn var að lesa um tvo kennara sem báðir voru gripnir með barnaklám.  Annar var hér á Íslandi, en hinn í Arizona.

Sá íslenski fékk dóm upp á einhverja mánuði - hluta skilorðsbundinn.  Sá í Arizona var dæmdur til 200 ára fangelsisvistar, án möguleika á náðun - 10 ár fyrir hverja af þeim 20 myndum sem hann var sakfelldur fyrir.  Hann áfrýjaði til Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem hafnaði að taka málið fyrir, þannig að dómurinn stendur.

Nánari upplýsingar um Morton Berger má fá hér.

Púkinn er ósáttur við hvernig er tekið á málum barnaperra hérlendis, en það er síðan annað mál hvort þeir eru að fara rétta leið í Arizona.


13.200 króna tap á mínútu

365logo_med6943 milljónir á ári jafngilda um 19 milljónum á dag, sem jafngilda um 80 þúsund krónum á klukkutíma eða um 13.200 krónum á hverri mínútu - nú eða þá 220 krónum á hverri sekúndu allt árið.

Það hlýtur að þurfa alveg sérstaka hæfileika til að tapa peningum á þessum hraða, en... tja, viðskiptahalli íslands á síðasta ári var um það bil 20 sinnum meiri.  Málið er bara það að tap 365 er þeirra eigið vandamál, en viðskiptahallinn er vandamál þjóðarinnar.


mbl.is Tap 365 tæpir sjö milljarðar á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Týndar fjarstýringar

remoteÁ mörgum heimilum er til fjöldi fjarstýringa, fyrir sjónvarpið, DVD-spilarann, heimabíóið, gerfihnattamóttakarann o.s.frv.  

 Þessar fjarstýringar eiga til að týnast, en það vandamál gæti verið úr sögunni ef sú uppfinning sem sést hér nær útbreiðslu.

Uppfinningamaðurinn bendir á að uppfinninguna hans megi nota fyrir margt annað en fjarstýringar - menn þurfi bara að festa Velcro ræmu á það sem þeir vilji ekki týna.

Púkinn hefur reyndar ofurlitlar efsasemdir um þetta allt saman.


Íslenskir munkar?

scriptorium-monk-at-work-571x536Púkinn efast um að margir Íslendingar séu reiðubúnir til að ganga í klaustur, þannig að ef af stofnun munkaklausturs í Reyðarfirði verður, þá má væntanlega gera ráð fyrir að flestir munkanna erði erlendir.  Það er hvorki gott né slæmt í sjálfu sér - það bara er þannig.

Hins vegar eru skoðanir Púkans á klaustrum nokkuð blendnar.  Hér á Íslandi gegndu klaustrin óneitanlega mikilvægu hlutverki fyrr á öldum og eiga stóran þátt í því að menningararfur okkar Íslendinga varðveittist.

Klausturlíf getur einnig sjálfsagt verið gott fyrir marga - það er væntanlega minni streita þar en á flestum öðrum stöðum.  

Ýmislegt gott hefur einnig komið frá klaustrum í gegnum tíðina og má þar á meðal nefna nótnaskrift og rannsóknir Mendels, 

Hins vegar finnst Púkanum klaustur nú á vissan hátt vera tímaskekkja og hefur alvarlegar efasemdir um að klaustur uppfylli þarfir í nútíma þjóðfélagi sem ekki er unnt að gera á annan hátt.


mbl.is Klaustur á Kollaleiru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lömunarveiki og samsæriskenningar

PolioÞað er dapurlegt að það hafði næstum tekist að útrýma lömunarveiki í heiminum fyrir nokkrum árum - í árslok 2004 voru aðeins rúm 1200 tilvik í heiminum,  en þá kom sá orðrómur upp í nokkrum múslímaríkjum að bóluefnið væri hluti af bandarísku samsæri til að gera börn múslíma ófrjó.

Nokkrir trúarleiðtogar í Nígeríu básúnuðu þetta út og samsæriskenningin breiddist út um hinn íslamska heim.

Nú í dag er lömunarveikin búin að ná sér á strik í sex löndum (Afghanistan, Egyptalandi, Indlandi, Níger, Nígeríu og Pakistan) og stök tilvik í nokkrum öðrum löndum.

Þótt yfirvöld í Bangladesh séu að bregðast við af skynsemi er staðan því miður sú í sumum öðrum löndum að ekki er unnt að framkvæma bólusetningar vegna aðstöðu klerkanna.

Enn eitt dæmi um hvernig fordómar af trúarlegum rótum geta verið skaðlegir.


mbl.is Herferð gegn lömunarveiki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband