Miðvikudagur, 7. mars 2007
Þjóðareign - merkingarleysa
Það er ýmislegt sem Púkinn skilur ekki. Eitt af því er hvernig mönnum dettur í hug að stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar myndi hafa nokkra þýðingu, aðra en bara táknræna.
Púkinn man ekki betur en svo að í Sovétríkjunum hafi til dæmis verksmiðjurnar verið sagðar sameign þjóðarinnar - en það hafði enga þýðingu fyrir verkamennina sem unnu í þeim.
Það er nefnilega ekki eignarrétturinn sem skiptir máli í þessu sambandi, heldur afnota- eða nýtingarrétturinn. Þótt svo færi að umrætt ákvæði yrði sett inn í stjórnarskrána, er ekki þar með sagt að það myndi hafa nokkra þýðingu varðandi það hverjir mega nýta sér auðlindina og á hvaða hátt.
Púkinn er þess fullviss að þótt þessi breyting yrði gerð myndu menn finna sér einhverja ástæðu til að hrófla ekki við fiskveiðistjórnunarkerfinu.
![]() |
Eyjamenn lýsa efasemdum um auðlindaákvæði í stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Fegrunaraðgerðir virka!
Sarah Burge er 46 ára og þriggja barna móðir. Hún hefur eytt rúmlega 20 milljón krónum í margvíslegar fegrunaraðgerðir í gegnum tíðina.
Auk þess að láta hana líta út eins og Barbie-dúkku, hefur tilgangur aðgerðanna væntanlega verið að láta hana líta yngri út og það virðist hafa tekist.
Sarah komst nefnilega í fréttirnar fyrir að vera beðin um skilríki þegar hún var að kaupa rauðvín í matinn.
Sarah hefur þá væntanlega fengið nægjanlega staðfestingu á því að aðgerðirnar hafa virkað eins og hún vildi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Not fyrir óperutónlist
Púkinn er ekki aðdáandi óperutónlistar - en það hefur af sumum verið talið merki um vanþroska Púkans á sumum sviðum, svona á svipaðan hátt og að Púkinn vill hvorki sjá koníak né ólífur.
Óperutónlist einfaldlega heillar Púkann ekki og hann hefur ekki séð not fyrir þessa tegund tónlistar.
Nú er hins vegar búið að upphugsa ný not fyrir þessa tegund af tónlist. Lögreglan í Vín hefur átt í vandræðum með dópista og róna sem hafa lagt undir sig Karlplatz neðanjarðarbrautarstöðina.
Það hefur verið ákveðið að leika óperutónlist samfellt úr hátölurum stöðvarinnar í þeim tilgangi að fæla þennan hóp í burtu þar sem þeir eru nú ekki þekktir fyrir áhuga sinn á henni, samkvæmt talsmanni lögregunnar.
Púkin veit ekki hvort þetta mun virka - en hitt er víst að þessi aðferð myndi duga til að fæla Púkann í burtu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Hestaat
Fyrr á öldum var hestaat stundað hér á landi. Þótt Íslendingar stundi það ekki lengur tíðkast það enn á nokkrum stöðum í heiminum, þar á meðal hjá MIao þjóðflokknum í Kína, en síðustu 500 árin hefur það verið fastur liður í sumarhátíð þeirra.
Dýraverndunarsamtök berjast gegn þessu, en Kínverjar láta sér fátt um finnast og er hestaat jafnvel liður í dagskrám margra ferðamanna.
Púkinn er lítið hrifinn af svona íþróttum, ekki frekar en nautaati, en honum finnst nú samt að frekar ætti að banna hnefaleika - þar eru þó menn að slasa hvern annan.
Svo er auðvitað alltaf spurning um hvort það ssé hræsni að berjast gegn svona íþróttum - en fara síðan og fá sér góða steik á eftir.
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Misheppnað uppeldi?
Þegar Púkinn heyrir sögur af níu ára búðarþjófum þykir honum það benda til þess að eitthvað hafi misfarist í uppeldinu. Krakkar á þessum aldri hafa ekki enn náð þeim þroska að gera fullkominn greinarmun á því sem er rétt og því sem er rangt (en spennandi) - varla hafa krakkarnir verið að stela sér til matar, en það er hlutverk foreldranna að kenna börnunum þetta.
Refsingar af hálfu hins opinbera eru tæpast viðeigandi - í flestum tilvikum ætti að duga auðmýkingin af því að þurfa að mæta í verslunina með foreldrunum. Það er hins vegar spurning um ábyrgð foreldra sem eiga born sem leiðast út í svona - hvað er að á heimilinu?
Stundum finnst Púkanum að fólk þyrfti að fá leyfi til að eiga börn - svona eins og til að eiga hund.
![]() |
9 ára stúlkur staðnar að búðarhnupli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Stranglers - ekki enn dauðir
Púkinn ætlar á tónleika í kvöld. Þetta væri ekki merkilegt ef Púkinn gerði slíkt reglulega, en nei - það gerist ekki nema á nokkurra ára fresti.
Sú hljómsveit sem um ræðir er Stranglers, en þeir hafa verið í miklu uppáhaldi hjá Púkanum frá 1986 þegar hann kynntist þeim fyrst, en plata þeirra, Dreamtime kom einmitt út það árið, þótt þeir hafi verið starfandi frá 1977. Margar eldri plötur þeirra eru einnig góðar, svo sem Black and White og The Raven, en því miður áttu þeir slæmt skeið í kringum 1996 og plöturnar About Time, Coup De Grace og Written In Red eru ekki í sérstöku uppáhaldi hjá Púkanum.
En liðsmenn Stranglers voru ekki búnir að vera og sönnuðu það með plötunni Norfolk Coast, sem kom út 2004 og svo með Suite XIV sem kom út á síðasta ári, en sum lögin þar svo sem Unbroken og I Hate You jafnast að mati Púkans á við það besta sem liðsmenn Stranglers hafa gert síðustu 3 áratugina.
Púkinn vonast til að sjá sem flesta aðdáendur Stranglers í kvöld.
Tónlist | Breytt 8.3.2007 kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Gerum bílana upptæka!
Þegar sami strákgepillinn er tekinn í annað skipti fyrir ofsaakstur á stuttum tíma er eitthvað að og ljóst að einfaldar sektir eru ekki að virka.
Púkinn vill koma með nokkrar hugmyndir:
- Til viðbótar fjársektum og tímabundinni ökuleyfissviptingu verði viðkomandi gert að sækja námskeið - ökukennslan hefur greinilega ekki gengið sem skyldi.
- Bíllinn verði kyrrsettur í einhvern tíma - nema auðvitað ef honum hefur verið stolið. Ef einhver, t.d. foreldri hefur sýnt það dómgreindarleysi að lána viðkomandi bílinn ber viðkomandi ábyrgð að hluta.
- Við alvarlegri brot verði bílarnir einfaldlega gerðir upptækir (nema þeim hafi verið stolið). Þetta gæti verið viðeigandi þegar akstur viðkomandi er með þeim hætti að hann gæti varðað viðalmenn hegningarlög. Bíllinn er þá einfaldlega tæki sem er notað til að fremja með afbrot.
![]() |
Tekinn tvisvar fyrir ofsaakstur á 10 dögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Vítamín eru góð (í hófi)
Það er ekkert nýtt að bent sé á skaðleg áhrif af ofneyslu vítamína, en Púkinn vill nú samt minna á að ekki eru öll vítamín undir sömu sök seld.
Til einföldunar má skipta vítamínum í tvo flokka, vatnsleysanleg og fituleysanleg.
Fituleysanlegu vítamínin geta safnast upp í líkamanum og það eru þau sem geta valdið eiturverkunum og geta verið lífshættuleg í óhófi. Þetta eru A, D, E og K vítamín.
Ofneysla A vítamíns getur valdið einkennum eins og flagnandi húð, hárlosi, beinverkjum, en ofneysla D vítamíns getur valdið hægðatregðu, þunglyndi og almennum slappleika. Enn stærri skammtar geta síðan valdið lífshættulegri nýrnabilun. E og K vítamín geta einnig valdið eitrunum, en þær eru mun sjaldgæfari, enda er mun algengara að fólk taki inn stóra skammta af A og D vítamínum, til dæmis með lýsisneyslu, en E og K.
Púkinn hefur einnig heyrt að ísbjarnalifur innihaldi það mikið magn af A (og D) vítamínum að hún sé stórhættuleg en grænlenskir veiðimenn munu víst hafa lært þá lexíu fyrir longu síðan.
Eins og Púkinn sagði, þá er þetta ekkert nýtt.
Vatnsleysanlegu vítamínin (B og C) eru hins vegar meinlausari þótt þau séu tekin í óhófi þar sem hjá fólki með eðlilega nýrnastarfsemi skiljast þau jafnóðum út með þvagi. Samt er ofneysla þeyrra ekki alveg meinlaus. Púkinn notaði sjálfur á sínum tíma mikið af C-vítamíni á formi freyðitaflna, þegar hann var að venja sig af kókdrykkju. Var svo komið að dagneyslan mun hafa verið um 2 grömm af C-vítamíni.
Áhrifin létu ekki á sér standa - hlandið í Púkanum varð svo súrt að hann endaði á spítalanum með nýrnasteina.
Síðan þá hefur Púkinn farið varlega í vítamínneyslunni.
![]() |
Fjörefnin banvæn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Rafmagnsbílar og aðrir bílar
Púkinn er að velta fyrir sér hvort hann sé óþarflega tortrygginn, eða hvort það sé tilviljum að þetta útspil ríkisstjórnarinnar komi fram einmitt núna, rétt fyrir kosningar, þegar flokkarnir virðast vera í einhvers konar grænkukeppni.
Nú má ekki skilja það sem svo að Púkinn sé andvígur þessu útspili - síður en svo. Hér er um að ræða verulega framför frá því viðhorfi sem ríkti hjá stjórnvöldum áður fyrr.
Púkin man eftir því að fyrir um 20 árum síðan var einn rafmagnsbíll hér á landi, sem stóð lengi á gólfinu á jarðhæð VR-II byggingar Háskólans. Ástæða þess að bíllinn var þar var að í stað þess að stjórnvöld á þeim tíma styddu tilraunanokkun slíks bíls hér á landi, var þvert á móti unnið gegn notkun hans, til dæmis með kröfum um greiðslu á þungaskatti - ekki vegna þess að bíllinn væri sérstaklega þungur, heldur vegna þess að hann var ekki bensínknúinn.
Púkinn ekur sjálfur mjög lítið - innan við 5000 kílómetra á ári, enda gengur hann venjulega í vinnuna. Púkinn á hins vegar bíl, sem ekki telst sérstaklega vistvænn - ef til vill verður brátt tími til að skipta honum út, til dæmis fyrir einhvern framúrstefnulegan rafbíl eins og þann sem sjá má á meðfylgjandi mynd.
![]() |
Ríkisstjórnin vill stuðla að aukinni notkun vistvænna bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Allt sem fer upp...
Púkinn er ekki í hópi umsvifamikilla fjárfesta á íslenska markaðinum.
Það breytir því þó ekki að Púkinn hefur gaman að fylgjast með hjarðhegðun fjárfesta eins og öðru skrýtnu í mannlífsflórunni.
Einn af vinum Púkans er með doktorsgráðu á sínu sviði og þykir ákaflega gáfaður maður. Sá hafði aldrei fjárfest í hlutabréfum fyrr en einn daginn þegar honum fanst hann vera útundan - það voru allir að fjárfesta í kringum hann. Þá loksins stökk hann til og setti spariféð sitt í hlutabréf. Þetta var í apríl 2000. Það tók hann 5 ár að komast aftur á núllið.
Málið er nefnilega það að þegar allir eru búnir að kaupa, er kominn tími til að selja - eða með öðrum orðum: "Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér".
Og hvað kemur þetta svo hlutabréfamarkaðinum í dag við?
Jú, hækkanir síðustu mánaða hafa verið allmiklar hækkanir á gengi bréfa - margir fjárfestar hafa séð eignir sínar aukast umtalsvert á pappírnum, en á einhverjum tímapunkti vilja þeir væntanlega breyta þeirri pappírsaukningu í raunverulega aukningu og leysa út hagnaðinn.
Ef Púkinn væri atvinnubraskari myndi hann vera búinn að leysa út hagnaðinn sinn núna og hafa grætt 20% frá áramótum - ávöxtun sem hann gæti verið alveg sáttur við sem heildarávöxtun fyrir árið.
Púkinn situr og fylgist með sumum ókyrrast - vona að þetta sé ekki byrjunin á raunverulegri "leiðréttingu", meðan aðrir sitja sem fastast og tala um að þeir séu að fjárfesta til lengri tíma og hafi ekki áhyggjur af skammtímasveiflum.
Á meðan situr Púkinn og horfir á.
![]() |
Fjárfestar á öryggisflótta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |