Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Ný fjarstýring - ekki fyrir femínista
Hér er komin hin fullkomna fjarstýring fyrir alla karlmenn - ja, eða næstum því alla. Púkinn verður nú að viðirkenna að karlmenn sem telja sig femínista eða eru að reyna að þykjast vera virðulegir munu varla vilja nota hana.
Framleiðendurnir vekja athygli á "klassísku" útliti fjarstýringarinnar og segja hana samhæfða öllum sjónvörpum og karlmönnum.
Verðið er tæpir 12 dollarar.
Ekki virðist vera til neitt sambærilegt módel ætlað kvenfólki.
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Ertu eldri borgari (í anda) ?
Púkinn átti nýverið leið inn á vef Námsgagnastofnunar og rakst þar á síðu um orð í máli eldra fólks.
Púkanum brá. Það er nefnilega þannig að Púkinn vill ekki telja sig eldri borgara, en hann þekkti nánast öll orðin á listanum og notar sum þeirra reglulega.
Púkinn notaði síðan þennan lista til að búa til "eldriborgarapróf", sem hann lagði fyrir ættingja og vinnufélaga.
Prófið er í 3 hlutum:
- Þú færð 1 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 3 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: altan, betrekk, húmbúkk, kamína og útstáelsi.
- Þú færð 2 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 5 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: bíslag, bolsía, dannaður, gallósíur og kaskeiti.
- Þú færð 5 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 10 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: blankskór, fortó, gesims, ranimosk og sufflör.
Niðurstaðan:
Færri en 20 stig: Þú ert ung(ur) í anda
20-40 stig: Þú þykir svolítið forn í tali.
Fleiri en 40 stig: Fólk undir fertugu á erfitt með að skilja þig. Kannski ertu bara svona gömul sál.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Skilaboð frá Guði? Nei, takk!
Estrella Benavides er (að eigin sögn) í beinu sambandi við Guð, sem talar við hana í gegnum styttu í kirkjunni hennar.
Hennar hlutverk er síðan að breiða út boðskapinn til annarra, en það gerir hún annars vegar í gegnum hátalara á þaki bílsins síns, en hins vegar með því að skrifa skilaboðin á húsið sitt.
Bæjaryfirvöldum í San Mateo í Kaliforníu er ekki skemmt, þar sem þeir telja hana vera að brjóta lög um hámarksstærð auglýsingaskilta.
Þau hafa því skipað henni að fjarlægja skilaboðin af þaki hússins, að viðlögðum 50 dollara dagsektum. Neiti hún að fjarlægja skilaboðin eða greiða dagsektirnar hafa þau sagst munu höfða mál gegn henni.
Estrellu er ekki skemmt heldur og telur skipunina stríða gegn málfrelsi hennar.
Og skilaboðin frá Guði? Jú, þau virðast aðallega snúast um eitthvað samsæri stjórnvalda.
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Á hvaða leið eru tryggingarfélögin?
Er réttlátt að tryggingartakar borgi iðgjöld í samræmi við áhættu?
Púkinn var að velta þessu fyrir sér og niðurstaða hans var "stundum já, stundum nei".
Skoðum fyrst bílatryggingar. Tryggingarfélögin hafa óskað eftir upplýsingum um ökuferil ökumanna, þannig að þau geti látið þá sem eru t.d. ítrekað teknir fyrir hraðakstur eða slíkt borga hærri iðgjöld en aðra.
Þessari beiðni var hafnað, en hvað þetta mál varðar er Púkinn alfarið á bandi tryggingarfélaganna - það að aka of hratt er ákvörðun sem hver ökumaður tekur fyrir sig og Púkanum finnst ekki nema réttlátt að menn taki afleiðingunum af eigin hegðun.
Skoðum næst sjúkdómstryggingar. Púkanum finnst til dæmis á sama hátt eðlilegt að reykingarmenn borgi hærri iðgjöld en aðrir og með sömu rökum - fólk verður að taka afleiðingum eigin heimsku.
Hvað erfðagalla varðar snýst dæmið hins vegar við að mati Púkans þar sem tryggingartakinn getur á engan hátt borið ábyrgð á þeim göllum. Þar ætti áhættan að dreifast á allt samfélagið.
![]() |
Læknafélagið: Reynt að skipta þjóðinni upp í hreinan kynstofn og hina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Framtíð nýsköpunarfyrirtækja
Púkinn fagnar því þegar nýsköpunarfyrirtækjum gengur vel, en hins vegar er hann svolítið svartsýnn á köflum hvað framtíð nýsköpunarfyrirtækja almennt varðar.
Það verður nefnilega að segjast eins og er að ólíkt því sem gerist í löndum eins og Írlandi og Kanada, þá hefur stuðningur íslensskra stjórnvalda við nýsköpun verið ómarkviss og óáreiðanlegur.
Púkann grunar að ástæðan sé hugsanlega sú að stjórnmálamenn skilji hreinlega ekki hátækni.
Púkinn gæti haldið langa ræðu um það hvernig stefna stjórnvalda virðist stundum vera sú að hrekja nýsköpunarfyrirtæki úr hátæknigeiranum úr landi, en sú grein verður að bíða betri tíma.
Samt tekst sumum að gera athygliverða hluti og Púkinn verður nú að viðurkenna að fyrir 10 árum síðan hefði hann ekki átt von á að Íslendingar myndu flytja út búnað sem er eiginlega á mörkum þess að teljast hergögn.
![]() |
Hafmynd handhafi Nýsköpunarverðlauna í ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Nýja hlerunarmálið
Eins og kom fram í frétt Blaðsins í morgun, er lítið mál að hlera samræður í bílum þar sem Bluetooth búnaður er í notkun, eins og til dæmis leigu- og lögreglubílum landsins.
Sé til dæmis staðsetningartæki eða þráðlaus sími með Bluetooth tengingu í bílnum eru góðar líkur á því að aðili með réttan búnað geti heyrt allt sem fer fram þar.
Það er auðvitað unnt að gera meira en bara að hlera - það er hægt að sækja símaskrár, skoða SMS skeyti, eða hringja símtöl í gegnum síma annarra.
Nú spyrja menn kannski - hvernig er þetta hægt? Er tæknin ekki örugg? Málið er það að öryggið er til staðar í Bluetooth - en öryggi er einskis nýtt sé það ekki notað.
Aðgangskóðar eru til dæmis ekki mikils virði ef þeiru eru alltaf settir sem "1234", svo að dæmi sé tekið.
Það er nefnilega svo að auknu öryggi í hvaða mynd sem er fylgja minnkuð þægindi og reynslan hefur sýnt að fólk vill hafa hlutina þægilega - sem aftur þýðir minna öryggi.
Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða tækni eins og Bluetooth, þar sem hinn dæmigerði notandi er ekki fullkunnugur eðli tækninnar - hann getur notað hana en ekki útskýrt í smáatriðum hvernig hún virkar.
Hvort einhverjir hafi nýtt sér þetta - hlerað samtöl í leigubílum, lögreglubílum, nú eða bílum ráðamanna þjóðarinnar er hins vegar nokkuð sem Púkinn getur ekkert sagt um.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Enn ein "ekkifrétt" um Britney
Hvað er það sem veldur áhuga fólks á að velta sér upp úr erfiðleikum fólks eins og Britney Spears. Hvers vegna er svona innihaldslaust þvaður ein mest lesna fréttin á mbl.is?
Eins og Púkinn hefur sagt áður þá er athygli það síðasta sem Britney og aðrar stöllur hennar þurfa á að halda. Þessi stelpugrey þurfa aðstoð og frið til að ná áttum, en það er erfitt þegar þær eru hundeltar af fjölmiðlunum.
Nú má í sjálfu sér segja að þetta sé sjálfskaparvíti - það lendi enginn svona í sviðsljósinu fyrir tilviljun - fólk þurfi virkilega að hafa fyrir því að komast þangað og verði þá að sætta sig við það sem fylgir frægðinni.
Það er svolítið til í því, en eins og einhver sagði:
Það þarf sterk bein til að þola góða daga.
Það er einmitt málið. Britney greyið virðist greinilega ekki þola allt það sem frægðin hefur fært henni, en fjölmiðlarnir hlakka yfir óförum hennar eins og hrægammar yfir veikburða skepnu í eyðimörk.
![]() |
Britney sögð hafa staldrað stutt við á meðferðarstofnun í Malibu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
80 þúsund króna morgunverður?
Viltu borga 80 þúsund krónur fyrir morgunverðinn? Þú getur gert það á Le Parker Meriden hótelinu í New York, ef þú pantar þér þessa eggjaköku hérna.
Uppskriftin inniheldur egg og humar - já og rúmlega 280 grömm af sevruga kavíar.
Verðið er 1000 dollarar, en síðan þurfa menn eitthvað að drekka og svo verður að bæta við þjórfé eins og hefðin er í New York.
Þetta lítur nú nokkuð girnilega út, en er það 80 þúsund króna virði?
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Falsaður tölvupóstur í ÞINNI tölvu!
Í tilefni umræðunnar um meintar falsanir á tölvupósti í Baugsmálinu finnst Púkanum við hæfi að minna á að verulegur hluti þess tölvupósts sem er í umferð er einmitt falsaður.
Hér á Púkinn að sjálfsögðu við ruslpóst sem hefur verið gerður þannig úr garði að meintur sendandi er allt annar en raunverulegur sendandi. "Haus" póstsins er þannig falsaður og stundum einnig hluti þeirra upplýsinga sem fylgja póstinum um leið hans í gegnum Netið.
Þetta er ástæða þess að margir fá tölvupóst þar sem þeim er sagt að tölvupóstur þeirra (sem þeir kannast ekki við) hafi ekki komist til skila, en þá hefur póstfang þeirra verið sett sem póstfang sendanda. Erfitt er að berjast gegn þessu nema með endurbótum á öllu kerfi póstsendinga á Netinu.
Hin tegund falsana felst gjarnan í því að halda "hausum" póstsins óbreyttum en breyta innihaldinu og prenta síðan breytta bréfið út.
Sendendur geta að hluta verndað sig gegn þessu með notkun rafrænna undirskrifta.
![]() |
Falsaðir tölvupóstar og samsæri í Baugsmálinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Tölvuleikjafíkn
Ef umhverfi tölvunnar þinnar er eins og þessi mynd sýnir, eru verulegar líkur á því að þú sért haldinn tölvufíkn á háu stigi.
Púkinn ætti að vita það, enda er ekki laust við að hann sé sjálfur haldinn þessum kvilla. Að minnsta kosti hefur hann eytt umtalsverðum tíma síðustu 27 árin fyrir framan tölvur að spila einhverja leiki.
Það er reyndar þannig að sum forrit eru líklegri en önnur til að fá notendur þeirra til að vanrækja allt annað, þar á meðal mannleg samskipti, og það hættulegasta af öllu eru stórir, vinsælir fjölnotendaleikir, sérstaklega þeir sem á einn eða annan hátt "refsa" notendunum fyrir að hætta að spila. World of Warcraft er best þekktur slíkra leikja hér á Vesturlöndum, en í sumum Asíulöndum, eins og S-Kóreu eru fjölmargir aðrir leikir sem eru álíka vanabindandi.
Sem stendur spilar Púkinn nú ekkert annað en FreeCell kapalinn á tölvunni sinni stöku sinnum, en hann þekkir þetta mál nægjanlega vel frá ýmsum hliðum til að fullyrða að sumir tölvuleikir geta orðið vanabindandi og notendur þeirra háðir þeim á sama hátt og einhverjum fíkniefnum.
Að aftengja tölvur fíkla skyndilega jafngildir því að setja dópista í "Cold Turkey" - sem ekki er endilega talin besta leiðin.
Heilsuhæli nokkurt í Amsterdam hefur boðið upp á meðferð gegn tölvuleikjafíkn og er unnt að fá nánari upplýsingar um það hér.
![]() |
Stympingar vegna tölvunotkunar unglingspilts á höfuðborgarsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)