Hraðskreiðasta húsgagn heims

fastsofaPúkinn hefur gaman af skrýtnum hlutum, eins og þessum sófa hér, sem nýlega sló hraðamet í flokki húsgagna þegar eigandinn, Edward China ók honum á 140 km/klst hraða.

Púkinn efast að vísu um að sófinn fáist skráður sem ökutæki, enda vantar í hann flest þess sem nauðsynlegt er, en hins vegar verður að viðurkenna að það ber vott um mjög frumlega hugsun að láta sér detta í hug að smíða svona tæki.

Sófabíllinn (eða er það bílsófinn?) mun verða seldur á uppboði á næstunni til styrktar góðgerðasamtökum.

Nánari upplýsingar má nálgast hér


Hvað er barnaklám - hluti 2

hentaiEr hægt að kæra einstakling fyrir misnotun á sjálfum sér? Púkanum finnst skrýtið ef svo er.  Púkinn er reyndar ekki löglærður, en hann hélt að það væri nú þannig að lögum sem eru sett til verndar ákveðnum hópi væri almennt ekki beitt gegn meðlimum þess hóps.

Með öðrum orðum - er eðlilegt að lögum gegn barnaklámi sé beitt gegn börnum? Í hluta 1 af þessari grein benti Púkinn á Jeremy og Amber, sem gerðu þau mistök að taka myndir af sér í rúminu. 

Það eru fleiri dæmi um það sem Púkanum finnst óeðlileg beiting svona laga, til dæmis þetta.  15 ára stúlka sendi nektarmyndir af sjálfri sér til annarra í tölvupósti og var fyrir vikið kærð fyrir misnotkun á barni, framleiðslu og dreifingu barnakláms.  Það er nokkuð ljóst að hún var sek um dreifinguna - en Púkinn setur ákveðið spurningarmerki við misnotkunina.  Að mati Púkans þyrfti umrædd stúlka frekar á sálfræðiaðstoð en því að vera kærð fyrir misnotkun og þurfa að dragnast með barnaníðingsstimpil á sér ævilangt.

Púkinn vill ekki að neinn misskilji sig - hann vill sjá verulegar hertar refsingar handa þeim sem misnota börn, en ef lögin eru óljós, eða skilgreiningar í þeim eru óljósar er hætta á að annað af tvennu gerist - annað hvort gæti lögunum verið beitt í tilvikum þar sem það er umdeilanlegt, eins og í ofanfarandi dæmum, eða einhverjir sem ættu refsingar raunverulega skildar sleppa fyrir horn vegna gata í lögunum.

Hvort tveggja er slæmt.

Þess vegna er það mikilvægt að skilgreiningar í lögunum séu ótvíræðar og Púkinn spyr því aftur "Hvað er barnaklám".  Svarið við þeirri spurningu er nefnilega ekki svo einfalt og það er nokkurt magn efnis sem liggur á "gráu" svæði.

Tökum nokkur dæmi:

  • Klámmyndir af börnum, framleiddar af þeim sjálfum.  Púkinn bendir á ofanfarandi sem dæmi um það.
  • "Hentai" Grófar teiknimyndir í japönskum "manga" stíl.  Ef þær sýna börn, er það þá barnaklám? Engin raunveruleg börn voru (mis)notuð við gerð myndanna, en áhugi á þeim gæti borið vitni um verulega brenglaðan hugsanahátt.
  • Tölvugrafík fer stöðugt batnandi og eitthvað mun vera um tölvugert klámefni.  Nú veit Púkinn ekki hvort nokkuð slíkt efni sýnir börn, en sé svo er spurningin hvort um "barnaklám" sé að ræða.  Hvað ef tölvugrafíkin batnar svo í framtíðinni að myndirnar verða óþekkjanlegar frá raunveruleikanum?
  •  Ungar "fyrirsætur".  Það munu vera einhver dæmi um það að myndir séu teknar af "barnalegum" stúlkum, sem í raun eru 18 ára eða eldri (og eru löglegar þar sem þær eru framleiddar), en líta út fyrir að vera yngri.  Er þetta barnaklám?  Verjandi manna sem væru gripnir með slíkt myndefni gæti hugsanlega rökstutt að  svo væri ekki -  myndirnar sýni ekki börn - þær bara líti út fyrir það.
  • Photoshop-breyttar myndir.  Hér er um svipaðan hlut að ræða, nema hvað myndir (sem eru löglegar þar sem þær eru framleiddar) eru teknar og þeim breytt til að láta "fyrirsæturnar" líta út fyrir að vera yngri en þær eru.  

Nú má vera að þetta sé ekki vandamál í raunveruleikanum, þar sem flestir sem eru gripnir með efni á svona "gráu" svæði eru væntanlega einnig með "harðara" efni, sem engin spurning er að flokkist sem barnaklám, og er þá hægt að dæma viðkomandi fyrir vörslu þess.  Púkinn vill hins vegar benda þeim sem vilja tjá sig um barnaklám á nauðsyn þess að hafa á hreinu hvað þeir eiga við.


Þer sem risaeðlur og biblían mætast

dinolandKent Hovind, einnig þekktur sem "Dr. Dino" er stofnandi "Creation Science Evangelism" og "Dinosaur Adventure Land".  Samtök hans framleiða einnig kennsluefni handa foreldrum sem taka börn sín úr skóla, ef þau vilja ekki að börnin læri um hluti eins og þróun lífs, eða heyri "guðlausan" boðskap eins og að jörðin sé eldri en sex þúsind ára.

Kent Howind er nefnilega einn af þeim sem trúir því að hvert einasta orð í Biblíunni sé bókstaflega satt og hann er einn af áhrifamestu mönnunum í þessum hópi.

Honum virðist reyndar hafa yfirsést smávegis - það var þetta með sjöunda boðorðið.

Kent Hovind var nefnilega dæmdur á föstudaginn í 10 ára fangelsi fyrir skattsvik og til að greiða 640.000 dollara.

Púkinn gat ekki annað en glott - svona eins og þegar hann heyrði af prestinum sem stal kirkju.


Ekki eru allar rafhlöður eins

nicadPúkanum finnst það gott mál að gert sé átak í því að  safna saman ónýtum rafhlöðum, en saknar þess svolítið að ekki sé minnst á það að ekki eru allar rafhlöður jafn slæmar.

Nikkel-Kadmíum endurhlaðanlegar rafhlöður eru mjög slæmar hvað mengun varðar, en þeim fer sem betur fer fækkandi, þar sem Nikkelmálmhýdríð rafhlöður eru að koma í stað þeirra.  Þar sem þessar rafhlöður eru endurhlaðanlegar er líftími þeirra hins vegar mjög langur.

Kvikasilfursoxíðsrafhlöður eru jafnvel enn verri, en þær voru mjög útbreiddar í myndavélum fyrir nokkrum áratugum.  Þar sem bannað er að framleiða þær eða selja í mörgum löndum hefur notkun þeirra hins vegar minnkað verulega.

Rafhlöður sem innihalda liþíum, zink eða silfur (en það eru flestar þær litlu rafhlöður sem eru til að mynda notaðar í myndavélum) eru einnig mengunarvaldar, en ekki eins slæmar og þær fyrrnefndu.

Venjulegar "alkaline" rafhlöður eru hins vegar illskástar, enda innihalda þær ekki eitruð efni í sama mæli og fyrri tegundirnar.

Blýrafgeymar af öllum stærðum eru síðan alveg sérstakur kafli út af fyrir sig. 


mbl.is Hvetja til þess að ónýtum rafhlöðum verði skilað til úrvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsuhótel?

heilsuvPúkinn hefur ekki átt erindi í gömlu heilsuverndarstöðina við Barónsstíg áratugum saman og ber engar sérstakar tilfinningar til byggingarinnar sem slíkrar.

Byggingin er hins vegar reisuleg og gæti sjálfsagt orðið hið ágætasta hótel.  Að því gefnu að hægt sé að samræma nauðsynlegar breytingar við þær friðunarkröfur sem eru gerðar.

Það sem Púkanum finnst hins vegar furðulegt við þetta er hvernig einhver et tilbúinn til að fjárfesta í hótelbyggingu um þessar mundir, með tilliti til þess fjölda hótela sem er í byggingu eða á teikniborðinu.  Fer þessi markaður ekki að mettast?

Nema...auðvitað, ef hótelið á að höfða til einhvers sérstaks markhóps - á þetta e.t.v. að vera heilsuhótel?


mbl.is Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg verður hótel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

40 ára fangelsi fyrir fáfræði?

Í hvaða ríki heims gætu kennarar átt á hættu 40 ára fangelsi fyrir að nemendur þeirra sjái efni á netinu sem er yfirvöldum ekki þóknanlegt?  Norður-Kóreu?  Kína?  Sádi-Arabíu?

Nei, í Bandaríkjunum. 

Julie Amaro var afleysingakennari sem kenndi 7. bekk grunnskóla í Connecticut.  Hún var ekki mjög tölvufróð og vissi ekkert hvað hún átti að gera þegar endalaus straumur af klámfengnum "pop-up" myndum tók að birtast á tölvunni í skólastofunni.  Tölvu sem ekki var varin af eldvegg eða "pop-up blocker " og hafði aðeins úrelt veiruvarnarforrit.

Hún hefði getað slökkt á tölvunni, eða ýtt á Ctrl-Alt-Del, kallað up Task Manager og skotið niður vafrann, en nei - hún hljop yfir á kennarastofuna að leita aðstoðar.

Stór mistök, en eins og Púkinn sagði...hún var ekki mjög tölvufróð.

Til að gera langa sögu stutta var hún kærð fyrir að stofna velferð barna í hættu ("endangering the welfare of children by exposing them to porn") - ein kæra fyrir hvert barn sem staðfest var að hefði séð klámmyndirnar. Fullyrðingar saksóknara (sem voru í besta falli ósannaðar, en í versta falli meinsæri), um að hún hefði beinlínis verið að skoða klámsíður bættu ekki stöðu hennar.  

Juli Amaro var fundin sek af kviðdómi.  Dómur verður kveðinn upp í byrjun mars, en samkvæmt lögum Connecticut gæti hún átt 40 ára fangalsi yfir höfði sér. 


Er þetta list? (hluti 1)

hornslethPúkinn á stundum svolítið erfitt með að skilja hvað menn telja "list".  Tökum til dæmis gjörning sem danski listamaðurinn Kristian von Hornsleth framkvæmdi í Uganda, þar sem hann fékk íbúa eins þorps til að breyta um nafn og taka upp nafnið sitt sem eftirnafn.

Þorpsbúum var greitt fyrir með kúm og svínum, en Kristian tók myndir af nýjum skilríkjum þeirra og hélt sýningu á þeim í listasafni.

Frumlegt? Já.

Listrænt?  Púkinn er ekki viss.

Þetta er í sjálfu sér ekki vitlaus leið til að vekja athygli á óæskilegum vestrænum menningaráhrifum sem fylgja gjarnan þróunaraðstoð.

En er þetta list ? 


Handa þeim sem eiga allt

chocolatecarhatislandmysterypenPúkinn er ekki í hópi þeirra sem eiga allt.  Hann hefur aldrei flutt inn Elton John til að syngja í afmælinu sínu til dæmis.

Púkinn velti hins vegar fyrir sér hvað þeir sem eiga allt gætu gefið hver öðrum og ákvað að koma með nokkrar uppástungur.  

Fyrst má nefna súkkulaðihúðaða bíla. Konfeckt eða  súkkulaðihúðuð jarðarber eru ágæt fyrir okkur hin, en sumt fólk þarf væntanlega meira en það.  Sá bíll sem hér er mynd af er að vísu bara súkkulaðihúðuð Volkswagen bjalla, þakin 200 kílóum af súkkulaði, en að sjálfsögðu má súkkulaðihúða Ferrari á sama hátt.

Vilji menn eitthvað stærra má til dæmis benda á eyjuna Vatu Vara,sem er til sölu hér.  Verðið er aðeins um 5 milljarðar íslenskra króna.

Svo má auðvitað gefa minni gjafir, eins og til dæmis penna.  Gimsteinarnir á þessum sem myndin er af hér eru samtals um 20 karöt og verðið er aðeins 5 milljónir.


Mini-skrifborð

mini-deskÞað getur verið erfitt að vera með ólæknandi bíladellu en þurfa að sitja á bak við skrifborð allan daginn.  Fyrir þá sem eru í þessum hópi er nú komin hin fullkomna lausn, sem sameinar skrifborðið og bílinn.

Glynn Jenkins, breskur hönnuður, á heiðurinn af þessari nýstárlegu hugmynd, en áhugasömum er hér með bent á þessa vefsíðu framleiðenda.

Púkinn getur ekki gert að því að honum finnst einhvern veginn að svons skrifborð myndi hæfa Ómari Ragnarssyni sérstaklega vel.


Auga fyrir auga

palestinePúkanum finnst í senn hlálegt og dapurlegt að Ísraelsríki skuli fordæma Palestínumenn miðað við hvernig þeirra eigin afrekaskrá er - hernám sem brýtur gegn alþjóðalögum, ólöglegar landnemabyggðir, skipulögð barátta til að brjóta niður innviði samfélags Palestínumanna, árásir á íbuðarhverfi (sem væru kölluð hryðjuverk ef einhver annar ætti í hlut) og fleira í svipuðum dúr, svo ekki sé nú minnst á hryðjuverk Ísraelsmanna gegn Bretum fyrir 60 árum síðan.

Ísraelsmenn komast nefnilega upp með hvað sem er, meðan Bandaríkin beita neitunarvaldi sínu í Öruggisráðinu til að stöðva hverja einustu tilraun til að fordæma hegðun Ísraelsmanna. 

Púkanum finnst einng dapurlegt að hér á Íslandi skuli vera til samtök sem styðja ofbeldisstefnu Ísraelsmanna.

Nú er Púkinn ekki að segja að hann sé stuðningsmaður Palestínumanna, enda eru þeirra aðferðir engu betri og þeir eiga sína stuðningsmenn hér sem vilja berjast gegn Ísraelsríki á hvaða hátt sem er.

Nei, Púkinn er þeirrar skoðunar að báðir aðilar séu of fastir í þeim úrelta hugsunarhætti semn einkennist af orðunum "Auga fyrir auga, tönn fyir tönn." 

Því miður sér Púkinn enga von um að þetta breytist á næstunni.


mbl.is Olmert: Samstaða um að hundsa Palestínustjórn sem virðir ekki samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband