Álver - hátækni?

alcanÁ vefsíðu Alcan má lesa eftirfarandi: "Hátæknilegur og flókinn búnaður stýrir öllu framleiðsluferli álversins.  Álverið er þannig hátæknifyrirtæki."

Einmitt það já.

Samkvæmt þessu er hægt að flokka flest undir hátækni.

Videoleigan úti á horni notar hátæknilegan og flókinn búnað ril að stýra öllu sínu ferli (tölvan sem er notuð til að skrá hver hefur leigt hvaða spólu).  Hún er því hátæknifyrirtæki.

Götusóparinn sem ekur um göturnar á hátæknilegu og flóknu tæki (sem er í raun ryksuga á hjólum) er því væntanlega starfandi hjá hátæknifyrirtæki.

Hvers konar bull er þetta eiginlega?

Ef fyrirtækið þróaði sjálft þann búnað sem um ræðir, eða ef afrakstur vinnunnar væri "hátæknilegur og flókinn búnaður" þá gæti ég samþykkt að um raunverulegt hátæknifyrirtæki væri að ræða.

Það að "nota" hlutina er bara ekki nóg.  Raunveruleg hátæknifyrirtæki eru fyrirtæki eins og deCode og  Össur - fyrirtæki sem nota "hátæknilegan og flókinn búnað" til að framleiða hátækni. 

Þau framleiða líka þekkingu.  Það er lykilatriðið.  

Púkinn vill fleiri þekkingarfyrirtæki - fyrirtæki sem vinna með þekkingu og "framleiða" þekkingu.  Fyrtæki sem gera kröfur til menntunar starfsmanna - fyrirtæki sem framleiða hugvit og flytja það út.

Ætlar Alcan e.t.v. líka að halda því fram að þeir séu þekkingarfyrirtæki?


Lítur þetta út eins og sprengja?

bostonbombSprengjur eru ekki fyndnar, en Púkanum finnst broslegt að nokkur skuli hafa haldið að blikkandi ljósaskilti með mynd af teiknimyndafígúru væri sprengja.

Það þarf alveg sérstaka samsetningu af fáfræði og ofsóknarbrjálæði til að komast að þeirri niðurstöðu.

Þar sem þetta tvennt virðist því miður allt of ríkjandi í Bandaríkjunum um þessar mundir er þetta ef til vill ekki svo skrýtið eftir allt saman.

Æ, já - eins og Púkinn hefur áður sagt:

Fólk er fífl

Mikið er Púkinn stundum feginn að vera ekki mannvera, heldur bara lítið blátt kríli sem hlær að mannfólkinu.


mbl.is Framkvæmdastjóri Cartoon Network segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

iTunes á Íslandi

Púkanum finnst það athygliverðar fréttir að fyrirtæki íhugi að selja tónlist á MP3 formi án afritunarvarna.

Það er hins vegar spurning hvort það hafi nokkuð að segja fyrir okkur Íslendinga.  Púkinn notar vefinn gífurlega mikið til að leita að tónlist sem honum líkar.  Pandora er að sjálfsögðu tær snilld í þeim tilgangi, en sá vefur leyfir notandanum að velja uppáhaldslög eða hljómsveitir og leitar síðan að "svipuðum" lögum.

Notendur pandora.com geta síðan farið inn á amazon.com til að kaupa geisladiskana eða á itunes.com til að kaupa stök lög.

Þar stendur hins vegar hnífurinn í kúnni.  iTunes vill ekki selja til Íslands. Það eru leiðir fram hjá því en að öllu óbreyttu er Apple hreinlega að hvetja til ólöglegrar afritunar.

Púkinn er með iTunes forritið í tölvunni sinni, þar sem hann geymir um 1800 MP3 lög sem eru fengin af þeim geisladiskum sem hann á.  Það er fjöldinn allur af lögum sem Púkinn myndi glaður kaupa á $0.99, ef hann ætti þess kost - en Apple vill ekki selja hingað.

 Steve Jobs ætti ef til vill að taka til í þessum málum áður en hann fer að þrýsta á önnur fyrirtæki.


mbl.is EMI íhugar að hætta notkun afritunarvarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíufurstarnir og dómstóll götunnar

Væntanlega munu margir lýsa vandlætingu sinni á þessari frávísun Héraðsdóms, enda liggur fyrir að olíufélögin höfðu viðskiptavini sína að fíflum og höfðu í raun fé af öllum almenningi með því að okra á opinberum aðilum þannig að við, skattborgarar landsins, þurftum á endanum að borga brúsann.

Þeir sem eru ósáttir við þetta hafa hins vegar eitt ráð - versla við Atlantsolíu.

Púkinn gerir það - fyllti á bílinn sinn hjá Öskjuhlíðinni áðan.  Eins og enska orðatiltækið segir: "put your money where your mouth is".

Að lýsa vandlætingu sinni á Héraðsdómi eða olíufélögunum en halda síðan áfram að versla við þessa aðila er hrein hræsni, ekkert annað.

Púkinn er hluti of dómstóli götunnar og stoltur af því.


mbl.is Máli gegn olíuforstjórum vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10% vinnudagsins í óþarfa?

Ósköp eru þeir nú gamaldags í Danmörku að líta þannig á að það sé eitthvað vandamál að 10% vinnudagsins fari í að svara símtölum og tölvupósti.

Hvað með allan þann tíma sem tölvupósturinn sparar vegna hraðari og betri upplýsingamiðlunar?

Þetta er svona dæmigerð "ekkifrétt". 

Ef rannsóknir hefðu sýnt að 10% vinnutímans færu í að blogga um persónuleg mál á vefnum, þá væri það hugsanlega frétt.

Púkinn eyðir hins vegar 100% af sínum vinnutíma á Netinu og er stoltur af því. 


mbl.is 10% vinnudagsins fer í að svara símtölum og vinnupósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að rægja krónuna

Látum okkur nú sjá...

Fyrst færir Kaupþing stóran hluta af sínu eigin fé yfir í danskar krónur og evrur.  Síðan byrjar Sigurður Einarsson að tala niður krónuna, svona á svipaðan hátt og Bandaríkjastjórn talar um Castro - það sé ekki spurning um hvort hún muni hverfa, heldur hvenær - og hvað komi á eftir.

Púkinn er í sjálfu sér sáttur við þetta - í rauninni mjög sáttur.   Meira svona tal og þá munu þessir útlendu bankar sem hafa verið að gefa út þessi svokölluðu "jöklabréf" vonandi fara að hika.

Þessi bréf hafa stuðlað að allt of miklu ójafnvægi í efnahagsmálum, gert krónuna allt, allt of sterka og skapað alvarlega ógnun við útflutningsfyrirtæki og ferðamannaiðnaðinn.

Púkinn segir "Niður með krónuna!", því þá fer hann að græða.


mbl.is Segir íslensku krónuna munu hverfa með tímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ég blár eða grænn?

Ég er blár, ekki satt?  Sjáið bara myndina af mér - ég er blárri en Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn og Geir H. Haarde til samans.

Samt er ég farinn að efast um minn sanna lit. Mér finnst ég nefnilega vera að verða svolítið grænleitari eftir því sem tíminn líður, og það virðist ágerast eftir því sem styttist í kosningar.

Ég rek fyrirtæki, á allgóðar eignir, hef allsæmilegar fjármagnstekjur og vil skattkerfi sem verðlaunar framtakssemi, en refsar ekki þeim sem sýna dugnað með því að hrekja þá úr landi. Ég ætti samkvæmt því í rauninni að eiga heima í Sjálfstæðisflokknum.  En samt - ég er ekki sáttur við stóriðjustefnuna, með sínum háspennulínum og tilheyrandi loftmengun.  Ég er ekki sáttur við efnahagsóstjórnina heldur. Hávaxtastefnan og ofurkrónan er að murka lífið úr mínu fyrirtæki - ég er nefnilega svo vitlaus að vera með útflutningsfyrirtæki, sem borgar laun í krónum, en hefur tekjur í dollurum og evrum.

Ég er ekki viss um að ég þrauki önnur 4 ár með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn á þjóðarskútunni.

En hvaða aðrir valkostir eru í boði?

  • Framsóknarflokkurinn?  Hjálpi mér - að koma þeim frá völdum væri eitt mesta framfaraskref sem íslenska þjóðin gæti tekið.  Ég vil ekki fleiri Héðinsfjarðargöng og önnur gæluverkefni ætluð til að tryggja einhver jaðaratkvæði - nei, ég vil flokk sem þorir að hugsa til framtíðar og taka ákvarðanir sem gagnast lengur en sem nemur kjörtímabili viðkomandi þingmanna og ráðherra.
  • Frjálslyndir?  Nei takk, ekki þegar Margrét er farin og  lýðskrumararnir úr Nýju afli eru eftir.   Auk þess er mér ekki vel við flokk sem elur á tortryggni í garð útlendinga.  Ég gæti ekki verið án þeirra útlendinga sem vinna hjá  mér, en þeir koma frá 5 heimsálfum.
  •  Samfylkingin?  Ég get stutt sum af þeirra málum.  Ég vil gott heilbrigðis- og menntakerfi og er reiðubúinn að borga minn skerf til samfélagsins til að standa undir því.  Ég er hins vegar svo ósammála mörgum af þeirra baráttumálum að ekki þarf að hafa um það fleiri orð.
  • Vinstri grænir?  Vandamálið er að ég er mjög sáttur við "græna" hlutann af þeirra málflutningi, en það er þetta með "vinstri" partinn sem ég get ekki alveg samþykkt.

Það stefnir í fjölbreytt úrval framboða í komandi kosningum.  Hvorugur hópur aldraðra og öryrkja höfðar til mín, en ég sé þó ljós í myrkrinu, ef Ómar og Margrét Sverrisdóttir ná saman.  

Þar væri loksins kominn raunhæfur kostur fyrir litla blágræna púka eins og mig.


Að gelda guð

Púkinn hló þegar femínistaprestar fóru að tala um guð í kvenkyni.

Púkinn hlær enn hærra þegar talað er um að "..nota hvorugkyn stað karlkyns hvar sem því verður við komið í biblíunni".  Biblían er óumdeilanlega einhver mesta karlrembubók mannkynssögunnar og einhverjar breytingar af þesu tagi fá engu um það breytt.

Allt frá boðorðunum, þar sem konurnar eru taldar upp með öðrum eigum karlmannanna, til bréfa Páls, þar sem hann skipar konunum að vera mönnunum undirgefnar, þá er þetta sama sagan.  Karlkynið er það sem skiptir máli.

Ætli einhverjir prestar geldi guð í prédikunum sínum og fari að tala um guð í hvorugkyni "hvar sem því verður við komið"?  Mikið mun púkinn hlæja, sitjandi á loftbitanum.

Púkinn er að sjálfsögðu trúlaus, þannig að þetta snertir hann ekkert. Þetta gefur honum bara enn eitt tækifæri til að hlæja að vitleysunni í mannfólkinu.


mbl.is „Biblía 21. aldarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavík og Byrgið

Breiðavík og Byrgið eiga margt sameiginlegt.

Í báðum tilvikum er um að ræða stofnanir sem opinberlega er ætlað að gera skjólstæðinga sína að betri manneskjum, en bregðast illilega.

Í báðum tilvikum er um að ræða skort á raunverulegu eftirliti.

Í báðum tilvikum virðist sem ráðamönnum sé meira í mun að koma "vandræðabörnum" þjóðarinnar fyrir þar sem engir sjá þau og þau skapi ekki vandræði - það sé mikilvægara en að veita viðkomandi raunverulega aðstoð -  svona eins og að rónahreinsa Austurvöll fyrir 17. júní.

Í  báðum tilvikum er um að ræða ofbeldi og misnotkun.

Í báðum tilvikum er líklegt að langtímagagn dvalarinnar sé ekkert - jafnvel að einstaklingarnir fari út verr á sig komnir en þeir fóru inn - sundurtættir á sálinni. Það er jafnvel líklegt að einhver þeirra barna sem komu undir í Byrginu muni alast upp við erfiðar aðstæður og eyða stórum hluta ævinnar á einhverjum stofnunum.

Í báðum tilvikum vill enginn bera neina ábyrgð á neinu sam aflaga fór. 

Í báðum tilvikum er um að ræða skort á hæfu, sérmenntuðu starfsfólki.  Það að ætlast til þess að samtök sem þykjast vera "kristileg" geti veitt veiku fólki rétta ummönnunn er svona álíka gáfulegt og að ætlast til þess að bilaður bíll hrökkvi í lag sé beðið fyrir honum. 

Ég þekki einn af fyrrum vistmönnum Breiðavíkur en hef aldrei heyrt hann minnast einu orði á dvöl sína þar fyrr en ég sá hann í sjónvarpinu í gær.  Það er gott að heyra að þagnarmúrinn hefur verið rofinn.

Þetta er eins og að stinga á kýli.  Gröfturinn vellur út, en eftir það getur sárið farið að gróa.

Annars ættu þessi mál ekki að hafa komið neinum á óvart - svipaðir hlutir hafa gerst á heimilum á hinum Norðurlöndunum.

 


Capacent flokkurinn

Lao Tze sagði að sérhver þjóð fengi þá leiðtoga sem hún ætti skilið.

 Eftir að hafa skoðað íslenska stjórnmálamenn og afrek þeirra í gegnum tíðina er niðurstaðan augljós með hliðsjón af orðum Lao Tze.

 Fólk er fífl
 

Flóknara er það nú ekki.  Sé þessi staðreynd höfð í huga er líka augljóst hvers vegna Árni Johnsen komst á þing og hvers vegna efnahagsstjórnin er eins og hún er.

Við púkarnir áttuðum okkur hins vegar nýlega á því hvernig hægt er að gefa þjóðinni ekki bara það sem hún á skilið, heldur einnig það sem hún raunverulega vill.

Skoðanakannanir sýna hátt hlutfall óákveðinna - fólk sér ekki þá valkosti sem það vill...en hvað vill fólk eiginlega?

Jú, fólk vill stjórnmálamenn sem hafa sömu skoðanir og það sjálft, en því miður gera margir stjórnmálamenn þau mistök að hafa eigin skoðanir á hlutunum.  Það gengur augljóslega ekki.

Ég vil því kynna hina endanlegu lausn - hið fullkomna lýðræði á íslenskan máta.

Í framboð fyrir Capacent flokkinn fer einungis fólk sem skuldbindur sig til að hafa ekki sjálfstæðar skoðanir.  Þvert á móti - Þingmenn flokksins greiða engin atkvæði, halda engar ræður og láta engin nefndarálit frá sér nema að undangenginni skoðanakönnun þar sem vilji almennings er kannaður - og haga sér síðan í samræmi við vilja meirihlutans.

Þetta gæti að sjálfsögðu þýtt að þingmennirnir gætu þurft að hafa eina skoðun fyrir hádegi og aðra seinni part dags.   Einhvern veginn finnst manni það þetta hljóma kunnuglega - þeir hafa bara aldrei viljað viðurkenna það.

Capacent flokkurinn væri tilvalinn vettvangur fyrir atvinnulausa leikara - það ætti ekki að vera mikið mál fyrir þá að bregða sér í landsföðurlegt hlutverk á viðeigandi stundum, en að leika múgæsingarmenn inn á milli - nú eða þá að halda uppi málþófi - allt eftir því hvað fólk vill.

Flokkurinn gæti síðan alltaf haldið því fram að hann tali fyrir munn meirihluta þjóðarinnar.  

Þannig fengi þjóðin nákvæmlega það sem hún vill - og það sem hún ætti skilið, samkvæmt Lao Tze, því fólk er jú fífl.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband