Miðvikudagur, 24. júní 2009
Að skera niður framtíðina....
Púkinn gerir sér fyllilega grein fyrir því að nauðsynlegt er að skera niður á mörgum stöðum, vegna klúðurs undanfarinna ára.
Það sem Púkinn er hins vegar ekki sáttur við er að skorið skuli niður í skólakerfinu, á sama tíma og teknar eru ákvarðanir eins og að halda áfram byggingu tónlistarhúss, þrátt fyrir allt.
Málið er nefnilega einfalt - til þess að vinna sig út úr kreppunni og byggja upp gott þjóðfélag þurfa Íslendinga á vel menntuðu fólki að halda.
Niðurskurður á menntakerfi er mikið vandaverk og tjónið af slíkri aðgerð gæti orðið verulegt, til lengri tíma litið.
Skólunum gert að skera niður um þrjá milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 9. maí 2009
Góðar fréttir fyrir suma
Þótt sumum finnist það ef til vill eins og að strá salti í sárið, þá vill Púkinn nú minna á að verði krónan veik í nokkur ár, þá eru það góðar fréttir fyrir ýmsa.
- Útflutningsfyrirtæki sem höfðu vit á að taka ekki lán í erlendri mynt ættu að vera í góðum málum. Á "góðærisárunum" var erfitt að reka þannig fyrirtæki. Þessir örfáu vitleysingar sem voru vorui að rembast við að flytja út vörur og þjónustu voru í slæmum málum á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk. Enginn hlustaði á umkvartanir þeirra um taprekstur og fyrirtækin urðu að steypa sér í skuldir, ganga á varasjói eða flytja framleiðsluna úr landi. Nei, þau svör sem þessi fyrirtæki fengu var bara að um "eðlileg ruðningsáhrif" væri að ræða - þau gætu bara sjálfum sér um kennt að vera í svona rekstri. Nú hefur pendúllinn sveiflast í hina áttina og "eðlilegu ruðningsáhrifin" eru að hreins burt innflutningsfyrirtæki og aðila sem fóru óvarlega í fjárfestingum....en skuldlausu útflutningsfyrirtækin fá nú loksins tækifæri til að vinna til baka tap "góðæristímans".
- Ferðaþjónusta innanlands ætti að njóta góðs af því að ísland verði "ódýrt" land um tíma í augum erlendra ferðamanna.
- Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki sem sníða sér stakk eftir vexti og treysta ekki alfarið á utanaðkomandi fjármagn gætu mörg verið í góðum málum.
Eins og blaut tuska | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 24. apríl 2009
Hvað á Púkinn að kjósa?
Að sitja heima eða skila auðu er ekki til umræðu - það jafngildir því að segja að allt sé í himnalagi og skoðun Púkans skipti ekki máli. Að skila auðu jafngildir veruleikafirringu að mati Púkans - en hvað á eiginlega að velja?
Þetta var ekki vandamál í síðustu kosningum. Púkinn skilgreinir sig sem "hægri-grænan" í stjórnmálum, kaus Íslandshreyfinguna síðast og skammast sín ekkert fyrir það.
Nú er sá valkostur ekki fyrir hendi og enginn valkostanna sem eru í boði höfðar til Púkans.
Skoðum aðeins þá valkosti sem eru í boði:
X-B? Framsóknarflokkurinn hefur aldrei höfðað til Púkans og gerir það enn síður nú. Þar kemur margt til. Púkinn hefur alltaf verið þeirrar skoðunar að allir verði að taka fulla ábyrgð á gerðum sínum en það vantar mikið upp á að Framsóknarmenn viðurkenni sína ábyrgð á núverandi ástandi. Gerðir þeirra í sambandi við einkavæðingu bankanna og ábyrgð þeirra á fasteignabólunni með því að styðja hækkað lánshlutfall Íbúðalánasjóðs eru þar ofarlega á blaði. Loforð þeirra fyrir þessar kosningar höfða ekki til Púkans og sum þeirra væru beinlínis skaðleg til lengri tíma litið - svona eins og 20% hugmynd þeirra. Það vill nefnilega einkenna þá að horfa of mikið á skammtímalausnir, en sjá aldrei lengra fram í tímann en til næstu kosninga.
X-D? Ólíkt Framsóknarflokkinum hefur Sjálfstæðisflokkurinn þó a.m.k sýnt viðleitni til að viðurkenna sína ábyrgð. Eftir situr þó að flokkurinn ber stærsta hluta ábyrgðarinnar á uppbyggingu rotins fjármálakerfis. Spillingarstimpillinn og mútuþægnigrunsemdirnar hjálpa heldur ekki til. Það eru reyndar fleiri ástæður fyrir því að Púkinn vill ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn - ofuráhersla á álver og stuðningur við eyðileggingu íslenskrar náttúru er þar ofarlega á blaði, en val flokksins á frambjóðendum hjálpar ekki til.
X-F? Púkinn býr í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Þar er Sturla Jónsson efstur á lista. Það eitt og sér nægir Púkanum sem ástæða til að kjósa ekki þann lista. Önnur ástæða er of mikil áhersla á sjávarútvegsmálefni sem snerta Púkann lítið sem ekkert og engin áhersla, eða illa hugsaðar lausnir á þeim málum sem snerta Púkann.
X-O? Borgarahreyfingin er erfið - þar eru ýmsir einstaklingar með fersk viðhorf, en því miður allt, allt of lítið af raunhæfum lausnum, eins og Púkinn lýsti hér. Þær hugmyndir sem hreyfingin hefur sett fram hafaekki sannfært Púkann um að þar sé fólk með þá þekkingu og reynslu sem þarf til að koma þjóðinni út úr núverandi stöðu.
X-P? Kosningakompásinn setti Lýðræðishreyfinguna efst hjá Púkanum, sjá hér og Púkinn er reyndar sammála sumu sem frá þeim kemur. Það er bara það að ef einhver annar en Ástþór væri í forsvari mætti athuga þá nánar - en eins og staðan er, þá eyðir Púkinn ekki tíma í að skoða þá frekar - það er ekki hægt að taka Ástþór alvarlega.
X-S? Þótt Samfylkingin beri ekki sömu ábyrgð og B og D á hruni fjármálakerfisins, þá getur hún ekki vikist undan því að hafa verið á vaktinni þegar allt hrundi - og brugðist gjörsamlega. Samfylkingunni hefur að vísu tekist mjög vel að draga athyglina frá sinni ábyrgð, en Púkinn er ekki sáttur við getuleysi þeirra til að framkvæma uppgjör innan eigin raða. Púkanum hugnast heldur ekki áhersla Samfylkingarinnar á ESB og það viðhorf margra stuðningsmanna að ESB og upptaka evru sé einhver töfralausn sem muni koma öllu í lag. Púkinn vísar t.d í þessa grein sína um upptöku evru, en hvað ESB varðar, þá sér Púkinn bara ekki að í þvífelist nein töfralausn. Púkinn byggir lífsviðurværi sitt á upplýsingatækni og myndi gjarnan vilja kjósa flokk sem styddi menntun og uppbyggingu í nýsköpun og greinum sem byggja á hugviti. Samfylkingin hefur látið mörg góð orð falla um þessi mál, en efndirnar eru minni en engar. Það hefur ekkert komið frá Samfylkingunni sem myndi gagnast aðilum eins og fyrirtæki Púkans og innganga í ESB myndi að sumu leyti gera stöðu fyrirtækisins verri.
X-V? Púkinn á í svolitlum vandræðum með Vinstri Græna. Græni parturinn er í góðu lagi, en það er þetta með Vinstri partinn - eða réttara sagt, ákveðnar áherslur þeirra í skattamálum. Púkinn er nefnilega afskaplega ósáttur við að fólki sé refsað fyrir ráðdeild og sparnað, en hugmyndir þeirra um eignaskatt eru ekkert annað en eignaupptaka að mati Púkans. Hvers á fólk að gjalda sem ekki tók þátt í peningasukki undanfarinna ár, heldur situr bara á þeim eignum sem það hefur safnað með áratuga striti? Púkinn lýsti annars skoðun sinni á réttlátum sköttum og ranglátum hér, þannig að þau orð verða ekki endurtekin í þessari grein.
Ekki er það gæfulegt....engir góðir kostir í stöðunni - bara misslæmir ... og hvað á Púkinn að gera?
Stjórnin heldur enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 21. apríl 2009
Að toppa á réttum tíma
Það skyldi þó aldrei vera að Borgarahreyfingunni takist það sem margir flokkar hafa árangurslaust reynt að gera í gegnum tíðina - að toppa í vinsældum á hárréttum tíma - á kjördeginum sjálfum?
Nú er Púkinn ekki að lýsa yfir stuðningi við Borgarahreyfinguna - ekki beint - Púkinn er hreinlega ekki viss hvað hann á að kjósa og sumt af því sem kemur frá Borgarahreyfingunni er aðeins of barnalegt til að höfða til Púkans.
Sú hugmynd að handfæra vísitölur til baka er engu betri en 20% skuldaniðurfellingarhugmynd Framsóknarflokksins og hefur sömu galla og sú hugmynd.
Sú hugmynd að velja einstaklinga af handahófi úr þjóðskrá til að endursemja stjórnarskrána er arfavitlaus að mati Púkans - svona svipuð því og að segja að Alþingi eigi að endurspegla þjóðina.
Þegar Púkinn hefur heyrt einhverja halda þessu fram spyr hann gjarnan: "Þú vilt semsagt að helmingur alþingismanna sé með greind undir meðaltali"? Púkinn er nefnilega að þessu leyti fylgjandi ákveðinni elítustefnu - hann við að leiðtogar þjóðarinnar séu ekki meðaljónar, heldur úr hópi þeirra sem hafa betri menntun og reynslu en meðaltalið.
Sama á við um þá sem endursemja stjórnarskrána - það er full þörf að gera það, en Púkinn treystir ekki hverjum sem er til þess. Púkinn myndi frekar vilja setja landsliðið í skák í það mál - þá fengi maður þó einhverja sem eru færir um að hugsa meira en einn leik fram í tímann - nokkuð sem dæmigerðir stjórnmálamenn virðast ófærir um.
Hins vegar er Púkinn ekki viss um að þetta skipti miklu máli - hann er nefnilega að komast á þá skoðun að Íslendingar séu upp til hópa fífl og eins og Lao Tzu sagði, "Sérhver þjóð fær þá leiðtoga sem hún á skilið".
Púkinn efast um að nokkuð muni breytast, jafnvel þótt veruleg uppstokkun verði á Alþingi, eins og útlit er fyrir.
O-listi fengi fjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 17. apríl 2009
Skrýtinn kosningakompás
Þegar Púkinn var búinn að athuga hvað kosningakompásinn segði miðað við skoðanir hans, var kominn tími til að leika sér....prófa að segjast hafa engar skoðanir. Svara "Hvorki-né" alls staðar og segja að engin spurninganna skipti máli.
Niðurstaðan:
Lýðræðishreyfingin (P) | 99% | |
Samfylkingin (S) | 93% | |
Borgarahreyfingin (O) | 92% | |
Frjálslyndi flokkurinn (F) | 91% | |
Sjálfstæðisflokkur (D) | 89% | |
Framsóknarflokkur (B) | 89% | |
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) | 89% |
Það er nú aldeilis frábært að vita að ef maður hefur engar skoðanir og telur ekkert skipta máli, þá eru allir flokkarnir 89-99% sammála manni....
Föstudagur, 17. apríl 2009
Púkinn og kosningakompásinn
Púkinn er í hálfgerðum vandræðum fyrir þessar kosningar - enginn flokkanna höfðar sérstaklega til hans og flokkurinn sem Púkinn kaus síðast er ekki til lengur.
Í von um að kosningakompásinn myndi gefa einhverjar vísbendingar svaraði Púkinn spurningunum, en niðurstöðurnar voru ekki afgerandi:
Lýðræðishreyfingin (P) | 69% | |
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) | 65% | |
Borgarahreyfingin (O) | 64% | |
Samfylkingin (S) | 63% | |
Frjálslyndi flokkurinn (F) | 61% | |
Sjálfstæðisflokkur (D) | 61% | |
Framsóknarflokkur (B) | 60% |
Öll framboðin voru á bilinu 60-69%. Nei, ekki er það gæfulegt....
Kosningakompás mbl.is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. apríl 2009
Atlögu að flokksveldinu hrundið
Já - það tókst. Með málþófi tókst að koma í veg fyrir að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni að þessu sinni.
Nú er Púkinn ekki að segja að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni væru fullkomnar, en þær voru þó spor í rétta átt. Púkinn er til að mynda hlynntur því að allar stjórnarskrárbreytingar séu bornar undir þjóðaratkvæði, en ekki ákvarðar af þingmönnum sem ef til vill eiga annarlegra hagsmuna að gæta - svosem að viðhalda misvægi atkvæða eftir landshlutum og annað í þeim dúr.
Stjórnarskráin er nefnilega of mikilvægt plagg og satt best að segja treystir Púkinn þingmönnum ekki til að breyta henni svo vel sé - og þótt Púkinn sé ósammála Framsóknarmönnum um flest studdi hann nú hugmyndir þeirra um sérstakt stjórnlagaþing.
En - það tókst að koma í veg fyrir að þær hugmyndir næðu fram að ganga, þannig að flokksræðið keypti sér 4 ár í viðbót.
Púkinn er hins vegar að velta því fyrir sér hvort hér hafi Sjálfstæðisflokkurinn ekki unnið orustuna, en tapað stríðinu?
Þegar svona barátta gegn máli sem meirihluti þjóðarinnar styður (skv. skoðanakönnunum) kemur í kjölfarið á því sem lítur út eins og mútur og lyktar eins og mútur, þá er engin furða að fylgið sé á flótta.
Ætli næsti leikur verði ekki að reyna að fá óánægjufylgið til að skila auðu í kosningunum? Frá sjónarhóli sjálfstæðismanna er það illskárra en ef fólk færi að kjósa VG eða Borgarahreyfinguna.
Stjórnarskrárfrumvarpi frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 7. apríl 2009
Veiking krónunnar - það sem ekki er sagt
Púkanum finnst ýmislegt vanta inn í umræðuna um veikingu krónunnar og margir eru ýmist ekki að skilja hvers vegna henni er ekki leyft að falla almennilega, nú eða hvers vegna hún er ekki farin að styrkjast.
Skoðum fyrst þetta með styrkinguna. Púkinn lýsti því hér hvernig fyrirtæki væru að fara framhjá gjaldeyrishöftunum, en síðan var stoppað upp í það gat með neyðarlögum. Malið er hins vegar að þetta er aðeins eitt af þremur götum - það eru enn tvær góðar (og fullkomlega löglegar) aðferðir sem útflutningsfyrirtæki nota til að koma ekki með gjaldeyri í bankana.
Það eru mun fleiri ástæður fyrir veikingu krónunnar. Þótt útflutningur sé að aukast í krónum talið, stendur hann í stað eða er jafnvel að dragast saman í mörgum greinum sé hann mældur í erlendri mynt - álverð hefur hrapað og verð á fiski hefur lækkað erlendis. Sem betur fer hefur innflutningur dregist enn meira saman og þannig tekst að halda jákvæðum viðskiptajöfnuði - það þarf bara að halda þeirri stöðu til frambúðar til að krónan styrkist.
Það er hins vegar gífurlegur þrýstingur á krónuna - eigendur jöklabréfa sitja uppi með krónur sem þeir telja verðlitlar og vilja ólmir skipta þeim í erlenda mynt áður en krónan fellur enn meira. Það mætti því spyrja - hvers vegna ekki bara að leyfa krónunni að falla, þangað til hún er orðin það lág að jöklabréfaeigendurnir kjósi heldur að bíða með krónurnar uns hún styrkist aftur.
Það eru nokkrar ástæður fyrir því að þetta mun ekki gerast. Ein er sú að þetta myndi þýða fjöldagjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja sem sýndu þá heimsku að taka lán í erlendri mynt á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk. Já ég kalla þetta heimsku. Það gátu allir séð að krónan myndi veikjast verulega - spurningin var bara hvenær og hversu mikið. Það má hins vegar ekki leyfa þessi fjöldagjaldþrot svona rétt fyrir kosningar.
Önnur ástæða er staða aðila eins og Landsvirkjunar og OR, sem ekki myndu ráða við afborganir af erlendum lánum ef krónan félli verulega. Gjaldþrot þeirra myndi í raun þýða að yfirráð orkulindanna féllu í hendur erlendra kröfuhafa - það skiptir nefnilega ekki máli hverjir eiga orkulindirnar - það skiptir máli hverjir eiga réttinn til að nýta þær.
Þriðja ástæðan varðar óuppgerða gjaldeyrissamninga. Ef krónan félli og yrði t.d. 300/kr evran, myndi staða þeirra sem eiga óuppgerða samninga breytast verulega - það yrði erfitt að rökstyðja að samningana skuli gera upp á því gervigengi sem nú er haldið handvirkt uppi með gjaldeyrishöftum.
Nei, krónunni verður ekki leyft aðfalla svo mikið - a.m.k. ekki fyrr en eftir kosningar og þegar gjaldeyrissamningarnir hafa verið gerðir upp.
Gengi krónunnar veiktist um 2,8% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 6. apríl 2009
Einhliða evruupptaka? Kjánagangur.
Púkanum finnst ótrúlegt hvað margir virðast halda að einhliða evruupptaka sé framkvæmanleg og sé einhver töfralausn á vanda íslensks efnahagslífs.
Það er eins og margir geri sér hreinlega ekki grein fyrir því hvað slíkt myndi fela í sér - og reyndar skiptir ekki máli hvort rætt eru um upptöku Evru eða einhvers annars gjaldmiðils eins og dollars.
Skoðum aðeins hvað gerist í raun þegar lönd taka upp Evru sem hluta af evrópska myntsamstarfinu.
Á einhverjum álkveðnum tímapunkti eru seðlaprentvélarnar og myntsláttuvélarnar settar í gang og spýta út úr sér seðlum og mynt sem er skipt út fyrir þá peninga sem eru í umferð sem eru í mynt viðkomandi lands. Þeir peningar eru verðlausir á eftir (nú nema þá fyrir safnara) og þeim er einfaldlega eytt.
Verðmæti innistæðna og skuldbindinga sem aðeins eru til á rafrænu formi er umreiknað í evrur á fyrirfram ákveðnu gengi. Bankar sem áður áttu peseta, lírur, drökmur, mörk,gyllini eða franka eiga nú allt í einu Evrur.
Hókus Pókus!
Eða hvað? Eini aðilinn sem getur samþykkt að Evrur séu "búnar til" á þennan hátt er að sjálfsögðu evrópski seðlabankinn og það má í raun segja að hann "gefi" viðkomandi landi Evrurnar í skiptum fyrir þeirra eigin verðlausu mynt.
Nú spyr Púkinn:
Er einhver svo heimskur að halda að okkur yrðu bara gefnar Evrur á þennan hátt, ef við ákvæðum að ráðast í einhliða upptöku?
Málið er auðvitað það að ef við viljum taka upp evru einhliða, þá verðum við að kaupa þær evrur. Ekki getum við borgað fyrir þær með krónum - með upptöku annars gjaldmiðils yrði krónan endanlega verðlaus - heldur yrðum við að taka lán til að fá evrurnar.
Það yrði ekki neitt smálán - það þyrfti ekki aðeins að nema öllu seðlamagni í umferð, heldur líka öllum peningalegum innistæðum í bönkum og lífeyrissjóðum.
Þetta eru ekki neinir smáaurar.
Látum aðeins liggja á milli hluta hvort einhverjir væru reiðubúnir til að veita Íslandi slíkt lán - vextirnir og afborganir yrðu gífurleg byrði áratugum saman.
Hvað eru þeir sem vilja einhliða evruupptöku tilbúnir til að skuldsetja börn sín og barnabörn mikið í þeim tilgangi að þeir geti fengið evruna núna?
Vilja að Austur-Evrópuríki taki upp evru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Miðvikudagur, 1. apríl 2009
Réttlátir skattar og ranglátir
Púkinn borgar sennilega meira í skatta en hann fær til baka frá ríkinu, beint eða óbeint og því er ekki skrýtið að skattahækkanir séu ekki ofarlega á vinsældalista Púkans.
Staðan nú er hins vegar sú að erfitt er að komast hjá skattahækkunum, en þá skiptir máli að þeir skattar séu réttlátir.
Hátekjuskattur er svolítið gallaður að því leyti að hann leggst ekki á þá sem raunverulega hafa hæstu tekjurnar - þeirra tekjur eru gjarnan í gegnum arðgreiðslur eða á öðru formi sem almennur tekjuskattur og útsvar leggst ekki á. Það er að vísu ekki verið að ræða um stórar upphæðir, en sú tekjutenging sem þegar er í skattkerfinu vegna persónufrádráttar er það mikil að Púkanum finnst óþarfi að auka hana. Þurfi ríkið hins vegar nauðsynlega á þessum örfáu þúsundköllum að halda til viðbótar, þá er það svosem ásættanlegt.
Fjármagnstekjuskattur er meingallaður að mati Púkans. Ásstæða þess er sú að hann er of einfaldur og leggst á hluti sem ekki eru "tekjur". Púkanum finnst ekkert athugavert við fjármagnstekjuskatt á arðgreiðslur eða söluhagnað af hlutabréfum. Vandamálið er varðandi skatt af vöxtum af bankainnistæðum. Ef verðbólga er há, þá er fjármagnstekjuskatturinn að éta upp mun stærri hluta raunvaxtanna en annars. Það sem Púkinn myndi vilja er einfalt - mun hærri fjármagnstekjuskattur - t.d. 25% en hvað innistæður varðar þá myndi hann eingöngu leggjast á raunvextina - ekki á verðbætur á verðtryggðum reikningum til dæmis. Verðbætur eru ekki "tekjur" í sama skilningi og vextir. Þessi hærri skattur myndi hins vegar leggjast af fullum þunga á arðgreiðslur og söluhagnað af hlutabréfum. Það mætti líka hugsa sér stighækkandi fjármagnstekjuskatt eins og er í nágrannalöndunum - í Danmörku er skatturinn t.d. 45% af arðgreiðslum yfir 100..000 dönskum krónum.
Eignaskattur er algjört eitur í beinum Púkans. Hvers á fólk að gjalda sem er kannski komið á efri ár og býr í skuldlausu, en verðmætu húsnæði? Eignaskattur dregur úr hvata til sparnaðar og er á allan hátt óréttlátur skattur - 2% eignaskattur á bankainnistæður jafngildir kannski 40% skatti á raunávöxtun og 2% skattur á skuldlaust íbúðarhúsnæði jafngildir hægfara eignaupptöku. Púkinn sér enga siðferðislega réttlætingu fyrir eignaskatti. Skattlagning á arð af eignum er í góðu lagi, en skattlagning á eignir sem ekki skila arði er vafasöm, svo ekki sé meira sagt.
Skattaákvarðanir um mitt árið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)