Þriðjudagur, 31. mars 2009
Ábyrgðarlaus tölvuveiruhræðsluáróður
Þessi frétt um Conficker "tölvuveiruna" er í öllum meginatriðum röng.
Í fyrsta lagi er Cocficker ekki veira.
Í öðru lagi er það eina sem mun gerast á morgun að Conficker leitar á fleiri stöðum en áður að uppfærslu á sjálfum sér.
Það er hins vegar rétt að nauðsynlegt er að setja inn öryggisuppfærslur fyrir Windows, en þeir sem eru með sjálfvirkar uppfærslur ættu að hafa þær nú þegar.
Varað við skæðri tölvuveiru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 31. mars 2009
Hugleiðingar um ábyrgð á lánum
Með því að krefjast traustra ábyrgðarmanna hafa lánastofnanir tryggt sig í bak og fyrir - þær hafa litlar áhyggjur haft af því að lána einstaklingum sem eru á mörkum þess að vera traustir lántakendur - ef þessir einstaklingar reynast ekki borgunarmenn, nú þá var alltaf hægt að ganga að foreldrunum eða öðrum sem voru ábyrgðarmenn.
Nýja frumvarpið neyðir bankana til að fara varlegar - það má í raun segja að áhættan af að lántakandi standi ekki í skilum sé nú að stærra leyti hjá lánastofnuninni sjálfri.
Það má búast við því að lánastofnanir muni fara mun varlegar í framtíðinni í því að lána fólki með litlar eignir og litla viðskiptasögu - sem á við um margt ungt fólk, sem mun hugsanlega eiga verra með að fá lánað en áður.
En er það endilega slæmt?
Verri aðgangur að lánsfé kennir einhverjum hugsanlega að spara fyrir hlutunum áður en þeir eru keyptir - kennir ungu fólki að peningar vaxa ekki á trjánum.
Sameinast um að vinna bug á ósið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 30. mars 2009
Er einhver hissa á lækkun krónunnar?
Púkanum finnst ekki skrýtið að krónan lækki. Þvert á móti finnst Púkanum furðulegt að sumir tali eins og hækkun krónunnar á næstunni sé algerlega óhjákvæmileg.
Staðan núna er sú að þau fyrirtæki sem gætu aflað gjaldeyris reyna mörg hver að komast fram hjá reglunum um skilaskyldu á gjaldeyri, með því að selja vörur fyrir krónu.
Þetta fer til dæmis þannig fram að fiskútflytjandi sendir fisk til kaupanda erlendis - sá kaupandi borgar í evrum til eiganda jöklabréfa, sem síðan borgar í krónum hér á Íslandi.
Allir þátttakendur í þessum þríhliða viðskiptum "græða".
Fiskútflytjandinn græðir, því hann fær á endanum fleiri krónur en ef hann hefði fengið evrur hingað heim og skipt þeim á því hálfopinbera gengi sem er hér.
Kaupandinn græðir því hann þarf að borga færri evrur en annars.
Jöklabréfaeigandinn græðir, því honum tekst að losna við krónurnar sínar á gengi sem er skárra en það gengi sem er í gangi erlendis.
Þeir sem tapa á þessu eru þeir sem þurfa af þessum sökum að horfa upp á minnkandi gjaldeyrisflæði til Íslands, sem aftur veldur stöðugri veikingu krónunnar, sem kemur sér illa fyrir flesta.
Jú, veikingin er góð fyrir skuldlaus útflutningsfyrirtæki - þau sem börðust í bökkum þegar krónan var allt, allt of sterk .... en þau eru bara ekkert voðalega mörg.
Þetta ástand er að hluta afleiðing kolrangrar stefnu undanfarin ár og alvarlegum mistökum Seðlabankans, en að mati Púkans er enn það mikill þrýstingur á krónuna til staðar vegna jöklabréfanna, að engin ástæða er til að halda að hún styrkist á næstunni.
Krónan lækkar enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 31.3.2009 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Sunnudagur, 29. mars 2009
Vesturlönd að vaxa upp úr þörf fyrir trúarbrögð?
Púkanum finnst trúleysisstrætisvagnarnir vera gott framtak - vekur fólk til umhugsunar um réttmæti þess að láta leiða sig áfram í blindni af trú á einhverja ósýnilega súperkarla, en sýnir í leiðinni þá ánægjulegu staðreynd að trúarbrögð eru á vissan hátt á undanhaldi.
Fyrir nokkur hundruð árum hefðu menn átt á hættu að vera teknir af lífi fyrir að halda á lofti skoðunum eins og þeim sem nú skreyta strætisvagnana. Síðar hefðu slíkar skoðanir ekki varðað refsingu, en menn hefðu átt á hættu að vera nánast útskúfað úr samfélaginu vegna þeirra.
Í dag getur fólk leyft sér að segja "Ég trú ekki á tilvist ósýnilegra súperkarla". "Ég trúi ekki að trúarrit sem voru skrifuð fyrir nokkrum þúsundum ára (og ritskoðuð í gegnum tíðina) hafi nokkra raunverulega þýðingu fyrir heiminn eða mig persónulega". "Ég hafna þeirri skoðun að nokkur trúarstofnun hafi nokkurn rétt til að setja mér siðareglur eða segja mér hvernig ég á að lifa mínu lífi". "'Ég er frjáls undan bábiljum trúarbragðanna og stoltur af því."
Já, þetta er framför - því miður er þessi þróun ekki sjáanleg alls staðar - en mörg Vesturlanda (að Bandaríkjunum undanskildum) eru þó á réttri leið.
Herferð heiðingja á hjólum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 25. mars 2009
Er afsökunarbeiðni nóg?
Bankahruninu hefur verið líkt við fall Enron...sjáum nú til.
Eftir margra ára málaferli varð niðurstaðan í Enron málinu sú að Andrew Fastow var dæmdur til 10 ára fangelsisvistar (sem síðar var stytt) og upptöku 23.800.000 dollara. Lea Fastow var dæmd í fimm mánaða fangelsi og einn höfuðpaurinn, Jeffrey Skilling var dæmdur í 24 ára fangelsi. Að auki voru David Bermingham, Giles Darby og Gary Mulgrew dæmdir til um þriggja ára fangelsisvistar hver.
Samt rústuðu þessir menn bara einu fyrirtæki og lífeyirssparnaði starfsmanna, en aðgerðir þeirra höfðu óveruleg áhrif utan Kaliforníu.
Hér á Íslandi rústuðu vanhæfir og gráðugir einstaklingar innan og utan bankakerfisins efnahag þjóðarinnar - og Gylfi segir nauðsynlegt að menn biðjist afsökunar.
Tja...ekki er nú farið fram á mikið.
Verða að biðjast afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 23. mars 2009
Ein hógvær krafa
Púkinn vill hér með koma með eina litla, hógværa kröfu til þeirra sem útdeila skattpeningum hans til misilla staddra fyrirtækja.
Púkinn vill að ríkið krefjist þess að þau fyrirtæki sem njóta ríkisaðstoðar, hvort sem það eru (sparisjóðir eða önnur fyrirtæki) greiði hvorki arð til hluthafa né bónusgreiðslur til stjórnarmanna fyrr en ríkisaðstoðin hefur verið greidd til baka með vöxtum og verðbótum.
Er þetta til of mikils mælst ?
Uppbygging í stað arðgreiðslna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. mars 2009
Hrunið var fyrirsjáanlegt (upprifjun á spá frá júlí 2007)
Sumir (fyrrverandi) ráðamenn hafa haldið því fram að enginn hafi átt von á hruni íslensks efnahagslífs, en Púkinn þarf ekki að leita lengra en í sína eigin grein frá júli 2007:
Hagfræðingar framtíðarinnar munu ef til vill skilgreina þessar ákvarðanir Seðlabankans sem eina meginorsök hruns íslensks efnahagslífs á fyrstu áratugum 21. aldarinnar.
Greinina má lesa í heild hér . Þessi orð voru rituð 15 mánuðum áður en allt hrundi, en þá hefði hverjum hugsandi manni átt að vera augljóst að hverju stefndi.
Var hlustað á Púkann og aðra sem vöruðu við þeirri braut sem þjóðfélagið var á? Voru allir of uppteknir við að skara eld að eigin köku?
Svari hver fyrir sig.
Viðskipti og fjármál | Breytt 21.3.2009 kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 16. mars 2009
Athugasemd um Íslendingabók
Það er svolítið hvimleitt þegar fjölmiðlar fjalla um Íslendingabókargrunninn eins og hann tilheyri eingöngu Íslenskri Erfðagreiningu, en hér er um að ræða samstarfsverkefni tveggja aðila, ÍE og undirritaðs, Friðriks Skúlasonar.
Þessir aðilar ákváðu að veita þjóðinni aðgang að hluta þeirra upplýsinga sem geymdar eru í grunninum. Að öðru leyti hafa aðstandendur Íslendingabókargrunnsinns rétt til að nota hann á mismunandi vegu. ÍE hefur einkarétt á að nota hann á öllum sviðum sem tengjast læknisfræði eða erfðarannsóknum, en undirritaður hefur einkarétt á að nýta grunninn til að veita ættfræðiþjónustu umfram það sem mögulegt er með hinum hálfopna grunni á vefnum (svo sem gerð niðjatala og þess háttar).
Íslendingabók mætt á Fésbókina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Laugardagur, 14. mars 2009
Skilur Framsókn ekki hagfræði?
Púkinn er þeirrar skoðunar að forystumönnum Framsóknarflokksins væri hollt að fara námskeið í undirstöðuatriðum hagfræði - þá myndu þeir kannski hætta að koma með hugmyndir sem reynast tóm mistök þegar upp er staðið.
Púkinn vill í þessu sambandi minna á hækkun húsnæðislána fyrir nokkrum árum, en sú hugmynd byrjaði sem kosningaloforð Framsóknarflokksins. Því miður var það loforð efnt, en fyrirhuguð hækkuð lán íbúðalánasjóðs leiddu til þess að bankarnir stukku til og fóru að bjóða sambærileg lán.
Þegar fólk hafði skyndilega meiri pening milli handanna og fleiri gátu ráðist í fasteignakaup en áður hefði afleiðingin átt að vera augljós - íbúðaverð hækkaði - fasteignabólan var komin af stað. Aukin eftirspurn og óbreytt framboð leiðir til hækkaðs verðs.
"Hækkuð lán" var hugmynd sem hljómaði vel í eyrum kjósenda og tryggði sjálfsagt einhver atkvæði, en þau voru dýri verði keypt fyrir þjóðina.
Þegar bólan loks sprakk sátu margir eftir í þeirri stöðu að hafa keypt sér stærri eign á hærra verði en þeir réðu við og framhaldið þekkja allir.
Núverandi hugmynd um 20% niðurfærslu lána er sama marki brennd - hljómar vel í eyrum margra og tryggir ef til vill einhver atkvæði, en kostnaðurinn fyrir þjóðina yrði mun meiri á endanum en ef betri og markvissari leið yrði farin.
Þjónkun IMF við stjórnvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 13. mars 2009
Enn einn þingmaður gefur skít í kjósendur
Púkanum finnst það ákaflega óeðlilegt að þingmenn skuli geta skipt um flokk án þess að segja af sér þingmennsku.
Ástæða þess er einföld - með því að skipta um flokk eru þeir að svíkja þá kjósendur sem kusu viðkomandi flokk. Það er nefnilega ekki þannig að kjósendurnir hafi kosið þingmanninn sem slíkan - nei, þeir kusu lista flokksins. Með því að yfirgefa flokkinn án þess að segja af sér og láta varaþingmann taka við er verið að svíkja þá kjósendur sem kusu viðkomandi lista.
Það eru tvær lausnir á þessu. Önnur er einfaldlega að þingmenn segi af sér þingmennsku þegar þeir yfirgefa flokk sinn, enda hafa þeir í raun glatað því umboði sem þeir höfðu. Þetta væri einföld, siðferðislega rétt leið, en þingmenn og siðferði eiga víst oft litla samleið.
Hin lausnin er mun rótækari og krefst algerrar endurskoðunar á kosningalögunum, en hún byggir á því að kjósendur kjósi eingöngu þingmenn - ekki flokka. Þá væri óumdeilanlegt að þingmaðurinn sæti á þingi í umboði kjósenda sinna, óháð því hvaða flokki hann tilheyrði. Svona fyrirkomulag myndi líka opna möguleikann á að kjósa þingmenn sem í raun tilheyrðu mismunandi flokkum.
Púkinn myndi gjarnan vilja geta kosið ákveðna frambjóðendur á listum flestra flokka - það eru menn á listum Sjálfstæðisflokksins, Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar sem Púkinn myndi gjarnan vilja kjósa - en svo eru aftur aðrir frambjóðendur á viðkomandi listum sem Púkinn telur að eigi ekkert erindi á þing.
Púkinn er hlynntur beinu lýðræði - ekki flokksræði, en líkurnar á að slíkt komist í gegn eru nánast engar - flokkarnir myndu missa áhrif sín ef fólk gæti kosið frambjóðendur milliliðalaust og það myndu þeir aldrei samþykkja.
Karl V. til liðs við Frjálslynda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |