Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Rafrænar kosningar næst, takk!
Það að 10.000 atkvæði hafi verið ógild sýnir annað af tvennu - annað hvort eru Íslendingar fífl, sem eru ófær um að kjósa og ætti bara að svipta kosningarétti hið snarasta - eða framkvæmd kosninganna var eitt allsherjar klúður og slíkt má ekki endurtaka sig.
Hvor skýringin er sennilegri?
Púkinn vill enn og aftur ítreka þá skoðun sína að rafrænar kosningar séu mun hentugri en svona fyrirkomulag. Vel hannað slíkt kerfi myndi fyrirbyggja ógild atkvæði - (nú nema að kjósandinn beinlínis velji hnappinn "Skila ógildu atkvæði"), auk þess sem útreikningar á niðurstöðum ættu að taka mun skemmri tíma - þær ættu að geta legið fyrir nokkrum mínútum eftir að kjörstöðum er lokað.
Kosningarnar verði ræddar í allsherjarnefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Þeir sem ég ætla að kjósa (og hvernig ég fann þá)
Það er ekki auðhlaupið að því að velja þá frambjóðendur sem hafa sömu áherslur og maður sjálfur, en Púkanum tókst þó að finna nokkur nöfn - og þótt áherslur Púkans séu hugsanlega aðrar en áherslur meirihlutans, þá gæti aðferðin gagnast mörgum.
Það sem Púkinn gerði var að notakosningakönnun DV, http://www.dv.is/stjornlagathing/konnun/ en á nokkuð sérstakan hátt. Vandamálið við DV vefinn er nefnilega að ekki er hægt að stjórna vægi spurninga þannig að hætta er á að kerfið stingi upp á einhverjum sem maður er ósammála í öllum veigamestu málunum, bara af því að maður er sammála viðkomandi í "smámálum".
Það sem borgar sig að gera er að velja örfáar spurningar sem maður telur skipta mestu máli og svara þeim - en velja "vil ekki svara" við allar hinar spurningarnar - þá er þeim sleppt í úrvinnslunni. Síðan er hægt að skoða tillögurnar og henda út aðilum af ýmsum ástæðum - þeim sem eru sjálfum sér ósamkvæmir, hafa of sterk tengsl við einhverja aðila, eða virðast hreinlega ekki gera sér grein fyrir tilgangi stjórnarskrárinnar.
Eftir að Púkinn hafði á þennan hátt vinsað burt fjölda einstaklinga voru nokkur nöfn eftir. Púkinn valdi síðan þá þrjá sem hann ætlar að setja í efstu sætin, en þeir eru:
2853 Þorkell Helgason
Eitt mikilvægasta mál stjórnlagaþingsins að mati Púkans er að endurskoða kosningafyrirkomulagið - persónukjör og landið sem eitt kjördæmi, takk fyrir - Púkinn er þreyttur á kosningakerfi sem er beinlínis hannað til að sjá til þess að hér séu aðeins 4-5 flokkar. Púkinn á heldur ekki samleið með neinum sérstökum flokki, en gæti hugsað sér að kjósa fólk úr flestum flokkum. Púkinn er líka þreyttur á kjördæmapoti - vill þingmenn sem eru fulltrúar allra Íslendinga og hugsa um hagsmuni þjóðarinnar, en ekki bara "sinna" kjósenda.
Þorkell Helgason er sá frambjóðandi sem einna mesta þekkingu hefur á kosningakerfum og skoðanir hans og Púkans fara saman - ef Þorkell nær kjöri verður ekki komist hjá því að hlustað verði á það sem hann hefur að segja og þess vegna vill Púkinn kjósa hann.
Svipan: http://www.svipan.is/?p=13758
DV: http://www.dv.is/stjornlagathing/thorkell-helgason/konnun
9365 Ómar Ragnarsson
Það þarf ekki að kynna Ómar og það vita allir hvaða gildi hann stendur fyrir. Púkinn er svolítið viðrini í stjórnmálum og skilgreinir sig helst sem "hægri-grænan", en hann kaus Íslandshreyfingu Ómars og skammast sín ekki fyrir það.
Púkinn vill sjá auknar áherslu á réttindi borgaranna til betra lífs í stjórnarskránni - hvað varðar umhverfismál og almenn mannréttindi og Ómar er ótrauður baráttumaður á þeim sviðum. Þess vegna vill Púkinn kjósa hann.
4096 Svanur Sigurbjörnsson
Púkinn er ekki mikill stuðningsmaður trúarstofnana og er algerlega andvígur forréttindum "þjóðkirkjunnar". Svanur er einn margra frambjóðenda sem deila þeirri skoðun með Púkanum og þar sem hann hefur líka skynsamlegar skoðanir að öðru leyti vill Púkinn kjósa hann.
DV: http://www.dv.is/stjornlagathing/svanur-sigurbjornsson/konnun
Svipan: http://www.svipan.is/?p=13692
Það var að sjálfsögðu fjöldi annarra sem lenti á lista Púkans:
6340 Björn Einarsson, 8309 Áslaug Thorlacius, 4547 Eggert Ólafsson, 4921 Birna Þórðardóttir, 9948 Illugi Jökulsson, 7517 Arnaldur Gylfason, 5196, Þórhildur Þorleifsdóttir, 6208 Sigurður G. Tómasson svo nokkrir séu nefndir - þeirra númer munu verða á listanum - já og ætli Púkinn bæti ekki síðan við í lokin nokkrum fyrrverandi samstarfsmönnum og kunningjum sem eru í framboði.
Efstir á listanum verða samt þeir þrír sem Púkinn taldi upp að ofan.
Svo er bara að bíða og vona.
Rúmlega 10 þúsund búin að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 17. nóvember 2010
Merkingarlaust bull um eignarhald auðlinda
Sumir frambjóðendur til stjórnlagaþings segja að setja eigi í stjórnarskrána klausu um að náttúruauðlindir skuli vera sameign þjóðarinnar. Að mati Púkans eru þessir aðilar hreinir moðhausar, sem ekkert erindi eiga á þingið.
Þessi frasi "Náttúruauðlindir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar" hljómar svo sem ósköp fallega - svona eins og "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir", en þegar betur er að gáð, er þetta merkingarlaust kjaftæði - innihaldslaus klisja sem á ekkert erindi í stjórnarskrána.
Púkinn var einn þátttakenda á þjóðfundinum og þar heyrðist þessi frasi nokkuð oft, en þeir sem héldu þessu á lofti virtust almennt ekki hafa á hreinu hvað þetta þýddi.
Skoðum nokkur atriði.
- Hvaða náttúruauðlindir er verið að tala um - allar, eða bara sumar? Fólk nefnir gjarnan jarðvarma, orku fallvatna og fiskinn í sjónum, en hvað með aðrar náttúruauðlindir? Í sumarbústaðalandinu mínu vex bláberjalyng - náttúruauðlind sem unnt er að nýta - á berjalyngið mitt að verða sameign þjóðarinnar? Hvað með menn sem hafa ræktað upp skóg, eða sleppt silungi í tjörn sem þeir eiga? Ef aðeins tilteknar auðlindir eiga að verða "sameign þjóðarinnar", væri þá ekki nær að tilgreina þær sérstaklega heldur en að tala um allar auðlindir almennt?
- Hvað með auðlindir sem í dag eru sannanlega í einkaeign. Ef ég ætti t.d. land með jarðvarma sem ég nýtti til að hita upp gróðurhús - ætti þá að taka mína eign af mér og þjóðnýta hana? Hvaða bætur fengi ég? Er fólk að tala fyrir allsherjar Sovét-Íslands þjóðnýtingu allra auðlinda? Ekki gleyma því að 72. grein stjórnarskrárinnar segir "Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir."
- Hvað þýðir að eitthvað sé "sameign þjóðarinnar"? Getur þjóðin sem slík átt eitthvað? Eiga menn við að íslenska ríkið sé eigandi auðlindanna, eða eiga menn við eitthvað annað - og þá hvað? Óskýrir slagorðakenndir frasar eiga að mati Púkans ekkert erindi í stjórnarskrána - hún á að vera skýr og ekki rúm fyrir hártoganir og túlkanir sem breytast eftir því hvernig pólitískir vindar blása.
- Skiptir eignarréttur á auðlindum einhverju máli? Púkinn vill bera þetta saman við það sem gilti í gömlu Sovétríkjunum, þegar sagt var að verkamennirnir ættu verksmiðjurnar sem þeir unnu í. Þeir höfðu að vísu engan möguleika á að ráðstafa þeirri "eign" og nutu ekki arðsins af henni, en þeir "áttu" verksmiðjuna. Það skiptir nefnilega engu máli hver "á" auðlindina - það skiptir bara máli hver nýtir hana og hver fær arðinn af nýtingunni.
Málið er einfalt - jafnvel þótt í stjórnarskránni væri merkingarlaus klisjukenndur frasi um sameign þjóðarinnar á auðlindunum, þá væri það eftir sem áður hið opinbera sem réði því hverjir nýttu auðlindina og hvert arðurinn af nýtingunni rynni. Svo dæmi væri tekið, þá myndi svona frasi ekki breyta neinu um kvótakerfi eða möguleika fyrirtækja eins og Geysir Green Energy til að nýta auðlindir hér. Þjóðin má svosem "eiga" auðlindina, en stjórnvöld ákvarða sem fyrr hver nýtir hana.
Þessi frasi "Náttúruauðlindir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar" myndi nákvæmlega engu breyta.
Eignarhald auðlinda mikilvægasta málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Miðvikudagur, 10. nóvember 2010
Stjórnlagaþing (1) Hverja á að kjósa?
Púkinn er ekki ánægður með hvernig staðið er að kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings. Jú, jú - margir þeirra eru með FaceBook síður þar sem þeir kynna sig og sín baráttumál - nú og svo er von á bæklingi með kynningum á næstu dögum, en staðreyndin er einfaldlega sú að hinn mikli fjöldi gerir mönnum erfitt fyrir að velja þá frambjóðendur sem hafa sömu áherslur og maður sjálfur.
Púkanum finnst að einhver hefði átt að gera eftirfarandi - setja upp vefsíðu þar sem fólk er spurt um afstöðu sína til t.d. 10 helstu álitamálanna sem beint varða stjórnarskrána, og afstaða fólks síðan borin saman við afstöðu frambjóðendanna.
Púkanum finnst skrýtið að enginn skuli hafa tekið sig til og komið saman slíkri síðu - þetta er nokkurra daga verk fyrir góðan forritara og frábært tækifæri t.d. fyrir einhvern sem vill koma sér og hæfileikum sínum á framfæri.
Þess þarf að vísu að gæta vandlega að slík síða sé hlutlaus varðandi fyrrnefnd ágreiningsmál - leiðandi eða misvísandi spurningar myndu skemma fyrir - slík síða væri ekki tekin alvarlega.
Sambærilegar síður hafa verið gerðar áður - t.d. fyrir Alþingiskosningar.
Mesta vinnan við svona síðu fælist í því að skrá afstöðu frambjóðendanna, en það er þó leysanlegt vandamál.
Enn eru rúmlega tvær vikur til stefnu - hvernig væri að einhver myndi bara drífa þetta af - já, og gera það almennilega - þetta kerfi sem er núna uppsett á dv.is er meingallað - Púkinn getur ekki tekið alvarlega kerfi sem segir að hann eigi að kjósa Jón Val Jensson.
Tveir búnir að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 6. nóvember 2010
Þjóðfundurinn í Hálsaskógi
Púkinn var á þjóðfundinum, en stundum fannst honum eins og hann væri í miðju barnaævintýri í Hálsaskógi, þar sem Bangsapabbi stóð og sagði ábúðarfullur "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".
Vandamálið var nefnilega það að helmingurinn af því sem kom fram var ekkert annað en innihaldslitlir frasar sem flestir geta verið sammála, en eiga lítið erindi í stjórnarskrána sem slíka -minntu frakar á innantóm kosningaloforð stjórnmálaflokka.
Þessar setningar sem fylgja fréttinni eru hins vegar aðeins úrtak þess sem kom fram - á fundinum voru yfir um 120 hópar og hver hópur skilaði af sér einni stuttri setningu af þessari gerð.
Þessar setningar voru reyndar ekki eini afrakstur fundarins - hver þátttakandi fékk t.d. 5 blöð í lokin, þar sem hann gat gert grein fyrir sínum hugmyndum.
Margar þeirra hugmynda voru líka innihaldslausir eða slagorðakenndir frasar, en það vakti hins vegar athygli Púkans hversu mikill stuðningur var við nokkur atriði sem varða beint tilteknar breytingar í stjórnarskrá, svo sem eftirfarandi:
- Persónukjör, t.d. með blandað fyrirkomulag að ástralskri fyrirmynd, sem einnig leyfir listakjör, en líka að menn kjósi einstaklinga "af mörgum listum"
- Landið gert að einu kjördæmi.
- Aðskilnaður ríkis og kirkju - niðurfelling 62. gr stjórnarskrárinnar.
- Aukin áhersla á þjóðaratkvæði.
Ef þetta nær fram að ganga þá er Púkinn nokkuð sáttur.
Sú hugmynd að fá valdameiri forseta kom hins vegar ekki fram á borði Púkans.
Grunngildin skýrð á þjóðfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 19. október 2010
Þjóðareign auðlinda: Merkingarlaust kjaftæði
Það hljómar sjálfsagt vel í eyrum sumra að segja að auðlindir skuli vera sameign þjóðarinnar, en þegar betur er að gáð, er þetta merkingarlaust kjaftæði - innihaldslaus frasi sem á ekkert erindi í stjórnarskrána.
Ástæðan er einföld - eignarréttur er einskis virði ef ráðstöfunarréttur fylgir ekki, eða arðurinn af auðlindinni.
Í Sovétríkjunum gömlu var sagt að verksmiðjurnar væru eign verkamannanna sem unnu í þeim - aftur innihaldslaus orð - verkamennirnir höfðu engan möguleika á að stjórna verksmiðjunni eða ráðstafa framleiðslu hennar og nutu ekki arðsins af framleiðslunni.
Það sama á við um náttúruauðlindirnar - til hvers í ósöpunum að segja að þjóðin eigi tilteknar auðlindir, þegar rétturinn til að ákvarða hvort, hvernig og af hverjum auðlindin er nýtt er ekki í hennar höndum? Já svo ekki sé minnst að að arðurinn af auðlindinni rennur ekki til meintra eigenda.
Nei, íslenska stjórnarskráin er ekki staður fyrir innihaldslaust kjaftæði - það er nógu slæmt að hafa það í sölum Alþingis.
Skuldir fyrnist á tveimur árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 18. október 2010
Tilgangslaus sýndarmennska
Púkinn hefur lítið álit á væntanlegu stjórnlagaþingi - en enn minna álit á "þjóðfundi" þeim sem verður haldinn áður með þátttöku 1000 handahófsvalinna einstaklinga.
Skoðun Púkans er nefnilega sú að hér sé aðeins um að ræða tilgangslausa sýndarmennsku - eingöngu í þeim tilgangi að láta þjóðina halda að það sé verið að hlusta á hana.
Skoðum aðeins þennan væntanlega þjóðfund...opinber tilgangur hans er að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins, stjórnarskrá og breytingar á henni.
Hafi Púkinn skilið ferilinn rétt, þá felst þjóðfundurinn í því að fólk situr í umræðuhópum, þar sem á að lýsa eigin skoðunum - enn þess er ekki krafist að fólk undirbúi sig, eða hafi neina sérstaka þekkingu á stjórnarskránni.
(Púkinn hefur reyndar sínar efasemdir um að óundirbúið fólk með enga þekkingu á stjórnarskránni geti lagt mikið gáfulegt til málanna, en hvað um það).
Stóra málið er hins vegar að allar þær skoðanir sem koma fram þurfa að fara í gegnum fjórar "síur".
Sía #1
Við hvert borð er síðan umræðustjóri sem stjórnar umræðunum og "síar" niðurstöðurnar - tekur það sem hann metur sem niðurstöður hópsins og skilar því áfram. Það hafa ekki verið birtar neinar upplýsingar um hvernig sú vinnsla fer fram, þannig að þátttakendur hafa enga tryggingu fyrir því að nokkuð af skoðunum þeirra skili sér áfram.
Sía #2
Niðurstöðum þjóðfundarins er skilað til stjórnlaganefndar, sem vinnur úr þeim og skilar þeim áfram. Flestir í þessari nefnd eru með lögfræðimenntun, og allt er þetta hið ágætasta fólk sem er sjálfsagt treystandi til að semja tillögur að nýrri stjórnarskrá - en þessi hópur er ekki skyldugur til að taka eingöngu tillit til þess sem mun koma fram á þjóðfundinum. Þau "sía" áfram þær niðurstöður þau fengu frá fundarstjórunum og þeim er síðan væntanlega frjálst að koma með hvaða viðbætur og tillögur til breytinga á stjórnarskránni sem þeim sýnist - algerlega óháð því sem þjóðfundurinn segir.
Sía #3
Niðurstöðum stjórnlaganefndar er síðan skilað til stjórnlagaþings, sem er ekki bundið af þeim tillögum á neinn hátt, en hefur það hlutverk að koma saman nýrri stjórnarskrá.
Sía #4
Stjórnlagaþing skilar síðan niðurstöðum til Alþingis, sem hefur fullt vald til að breyta því sem því sýnist - og það er sjálfsagt bara barnaskapur að búast við öðru en alþingismenn munu notfæra sér rétt sinn til að draga úr áhrifum allra þerra breytinga sem gætu komið þeim eða flokkum þeirra illa.
Svona í alvöru talað - til hvers að hafa öll þessi aukaskref og "síur"þegar á endanum geta alþingismenn bara gert það sem þeir vilja ?
Jú, eins og Púkinn sagði í upphafi - það á að láta þjóðina halda að hún hafi eitthvað að segja.
Skiptar skoðanir um stjórnlagaþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 31. ágúst 2010
Fetaostur bannaður á Íslandi
Það má vera að einhverjum þyki broslegt að framleiðendum ákveðinna vörutegunda skuli vera bannað að nefna vörurnar sínu venjulega nafni, þar sem þær eru ekki framleiddar á "réttum" stað.
Þeir sem styðja inngöngu Íslands í ESB verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að sambærilegar reglur myndu gilda á Íslandi. Við megum t.d. eiga von á því að í því "aðlögunarferli" sem núverandi stjórnvöld eru að þröngva upp á þjóðina, þá verði þessar reglur innleiddar á Íslandi og þá verði t.d. framleiðendum á íslenskum "feta" osti gert að breyta um nafn á sínum vörum - til að mega kallast "feta" verður osturinn jú að vera framleiddur í Grikklandi úr kinda/geitamjólk.
Það er kannski best að byrja bara strax að prenta umbúðamiða fyrir "Dala hvítost", eða hvað?
Kampavín" bannað í Ástralíu að kröfu ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Föstudagur, 25. júní 2010
Bjarni vill styrkja fjórflokkaveldið
Svo Bjarni vill fjölga kjördæmum og fækka þingmönnum í hverju - jæja, það kemur engum á óvart, enda myndi slík breyting fyrst og fremst þjóna hagsmunum gömlu stóru flokkanna.
Átæða þessa er einföld. Eftir því sem þingmönnunum fækkar þarf hærra atkvæðahlutfall til að ná kjördæmakjörnum mönnum inn á þing.
Ef öll kjördæmin væru t.d. með 4-5 þingmenn, væri næsta vonlaust fyrir framboð sem væri t.d. með 10% fylgi í öllum kjördæmum að koma manni á þing.
Slíkt framboð myndi hvergi ná inn kjördæmakjörnum manni og ætti því ekki rétt á neinum uppbótarþingmönnum heldur - jafnvel þótt mörgum myndi finnast framboðið eiga tilkall til 10% þingsæta - 6 þingmanna eða svo.
Ákvæðinu um að framboð fái ekki uppbótarþingmenn nema þau nái kjördæmakjörnum manni er einmitt beint gegnt smáframboðum með 2-10% fylgi á landsvísu - ætlað að fyrirbyggja að þau komi að mönnum og ógni fjórflokkaveldinu.
Nei - Bjarni er fulltrúi fjórflokkaveldisins - raunverulegt réttlæti fælist í því að fara í hina áttina - gera landið að einu kjördæmi.
Segir koma til greina að skipta kjördæmum upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 24. júní 2010
Það ætti að rannsaka íslensku þjóðina.
Það er gott mál að rannsaka hvernig þessi uppákoma með gengisbundnu lánin gat eiginlega átt sér stað, en Púkanum finnst eiginlega meiri þörf á að rannsaka hvers vegna Íslendingar eru svo mikil fífl að kjósa yfir sig aftur og aftur gersamlega óhæfa ráðamenn.
Það má nefna Valgerði Sverrisdóttur sem dæmi - hún var ráðherra og ein þeirra rúmlega 30 þingmanna sem samþykktu á sínum tíma þau lög sem dómur Hæstaréttar byggði á.
Það hefði mátt halda að einhverja þessara þingmanna hefði mátt gruna að lánin stæðust ekki þau lög sem þeir samþykktu - en lét einhver þingmannanna þá skoðun í ljós?
Núna stígur Valgerður fram og segir að þetta hafi alltaf verið vitað - núna getur hún talað þegar afglöp hennar í starfi eru fyrnd og hún getur róleg tekið við þeim eftirlaunum sem henni eru greidd fyrir vel unnin störf....eða þannig.
Samt er sökin ekki að öllu leyti hennar - það voru jú íslenskir kjósendur sem kusu þá þingmenn sem settu þau lög sem á endanum rústuðu efnahagslífi þjóðarinnar. Það voru íslenskir kjósendur sem kusu þá þingmenn sem einkavinavæddu bankana, innleiddu athugasemdalaust evrópskar reglugerðir, lögðu Þjóðhagsstofnun niður, breyttu lögum um Seðlabankann, þannig að hann hálfneyddist til að hækka stöðugt vexti með alvarlegum afleiðingum, opnuðu á "hagkvæmari" íbúðalán og hömpuðu útrásarvíkingunum.
Það voru líka íslenskir kjósendur sem kusu þá stjórn sem nú situr - stjórnina sem átti að bjarga landinu úr þeim brunarústum sem fyrri stjórnir báru ábyrgð á, en hefur því miður valdið vonbrigðum, nánast frá fyrsta degi.
Eru íslenskir kjósendur upp til hópa fífl?
Vill rannsókn á gengislánum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)