Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 18. júní 2010
Hugleiðingar um forgangsröðun Samfylkingarinnar
Púkanum finnst það dapurlegt að sumir ráðamanna þjóðarinnar skuli telja ESB umsóknina mikilvægasta málið í íslensku þjóðlífi.
Púkanum finnst það jafnvel enn dapurlegra að stór hluti þjóðarinnar skuli hafa kosið svona ráðamenn yfir sig, en, eins og Lao Tzu sagði - "Sérhver þjóð fær þá ráðamenn sem hún á skilið".
Þetta ætti samt ekki að koma neinum á óvart - hér um árið þegar allt var að fara í kaldakol virtist Ingibjörg Sólrún jú telja mikilvægast að koma íslandi inn í Öryggisráðið - skítt með allt annað.
Já - það er eitthvað skrýtið við forgangsröðun Samfylkingarinnar.
Heilladagur fyrir Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 17. júní 2010
Hvað kemur í staðinn fyrir gengistrygginguna?
Margir virðast trúa því að gengistryggðu lánunum verði breytt þannig að gengistryggingin verði bara felld niður og eftir standi óverðtryggð lán með 2-3% vöxtum, sem verðbólgan muni éta upp.
Púkinn telur þetta tæplega raunhæfar væntingar.
Lögfræðingar lánafyrirtækjanna munu væntanlega vísa til þess að heimilt er að breyta samningum eftirá séu þeir augljóslega ósanngjarnir og einföld niðurfelling gengisbindingarinnar væri augljóslega ósanngjörn fyrir lánveitandann, þar sem lántakandinn myndi ekki einu sinni endurgreiða raunverðmæti lánsins.
Það er hins vegar ekki alveg svo einfalt að lánafyrirtækin geti einhliða breytt skilmálunum en Alþingi getur hins vegar sett lög um hvað skuli koma í stað gengisbindingarinnar.
Alþingi er hins vegar milli steins og sleggju. Verði lánunum t.d. breytt í óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, eða verðtryggð lán (miðað við íslenska vísitölu), með föstum vöxtum ofaná, munu margir lántakendur uppgötva að staða þeirra batnar í raun lítið (og háð því hvenær lánið var tekið og til hversu langs tíma, gætu jafnvel einhverjir tapað á breytingunni). Stjórnvöld myndu verða sökuð um að ganga erinda fjármálafyrirtækjanna og mörg málaferli gætu farið af stað.
Geri Alþingi ekkert mun mikil óvissa verða ríkjandi mánuðum saman og stjórnvöld sökuð um að sinna ekki skyldu sinni.
Láti Alþingi hins vegar lánin standa óverðtryggð með lágum vöxtum munu þýsku bankarnir og aðrir þeir sem lánuðu fjármögnunarfyrirtækjunum væntanlega höfða skaðabótamál. Það mun einnig koma upp óánægja hjá þeim sem gerðu sér grein fyrir áhættunni við að taka gengisbundin lán, en héldu sig við venjuleg verðtryggð lán í íslenskum krónum.
Fólkið sem sýndi varkárni og forðaðist þá fáránlegu áhættu sem fólst í því að taka gengisbundin lán yrði allt í einu í mun verri stöðu en þeir sem tóku áhættuna - þessi hópur myndi væntanlega krefjast leiðréttinga á sínum málum.
Púkinn spáir því langvinnum málarekstri og að þegar upp verður staðið verði það aðallega lögfræðingarnir sem muni græða á þessu öllu saman.
Sleppa ekki frá skuldunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 7. nóvember 2009
Dapurlegur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki
Púkinn var aðeins að velta fyrir sér þessu nýsköpunarstuðningsfrumvarpi og sýnist það meingallað.
Það er rætt um að að þessi fyrirtæki fái endurgreiddan skatt sem svarar til 15% af rannsóknar- og þróunarkostnaði á bilinu 20-50Mkr.
Það eru tveir stórir gallar á þessu. Í fyrsta lagi eru mörg þeirra nýsköpunarfyrirtæki sem helst þurfa á stuðningi að halda ekki farin að skila hagnaði og greiða því ekki tekjuskatt. Þá verður ekki um neina endurgreiðslu af greiddum skatti að ræða.
Hinn gallinn er sá hve upphæðirnar eru lágar. Sé fyrirtæki með a.m.k 50.000.000 í rannsóknar- og þróunarkostnað, þá fær fyrirtækið endurgreiddar heilar 7.500.000 krónur, sem eru rúmlega ein þokkaleg árslaun, með launatengdum kostnaði og tilheyrandi.
Á móti kemur sá kostnaður sem fyrirtækið þarf að leggja í vegna skriffinnsku og utanumhalds, en ekki er alveg ljóst hversu umfangsmikið það verður.
Niðurstaðan er semsagt sú að fyrirtæki sem eru búin að hasla sér völl og farin að skila sæmilegum hagnaði fá endurgreiddan hluta af launakostnaði eins starfsmanns, en aðrir fá ekki neitt.
Vá...
Eða er Púkinn að misskilja eitthvað?
Sprotafrumvarp væntanlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 30. september 2009
Tilgangslaust "persónukjör"
Púkinn er þeirrar skoðunar að frumvarpið um persónukjör standi í raun ekki undir nafni. Fólk er nefnilega eftir sem áður neytt til að kjósa lista, ekki persónur, þótt vissulega séu möguleikar til að hafa áhrif á hvaða einstaklingar séu kosnir innan listans.
Þeir möguleikar voru hins vegar líka til staðar áður - kjósendur gátu beitt útstrikunum og endurröðun, þannig að Púkinn fær ekki séð að þetta frumvarp hafi neina grundvallarbreytingu í för með sér.
Nei, það sem Púkinn vill er raunverulegt persónukjör þar sem kjósendur eru ekki bundnir af listum, heldur geta kosið þá sem þeir treysta best - óháð því hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra.
Það væri raunverulegt persónukjör - ekki þessi tilgangslausi málamyndaóskapnaður sem verið er að bjóða fólki upp á núna.
Persónukjör forgangsmál á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 5. september 2009
Tillaga til lausnar á vanda (sumra) heimila
Það eru engar töfralausnir til. Það er hins vegar hægt að koma með lausnir sem myndu leysa úr vanda margra, án þess að kosta of mikið, eða bitna á öðrum þegnum þjóðfélagsins.
Púkinn vill leyfa sér að koma með eftirfarandi tillögu:
- Sumir gerðu þau mistök að festa kaup á nýrri fasteign áður en þeir voru búnir að selja þá gömlu og sitja nú upp með tvær eignir eftir að fasteignamarkaðurinn fraus. Vanda þeirra má að hluta leysa með fasteignafélagi í eigu lífeyrissjóða eða hins opinbera sem myndi kaupa aðra eignina á raunhæfu verði með það í huga að leigja hana út eða selja hana eftir nokkur ár þegar fasteignamarkaðurinn tekur við sér. Til að hindra misnotkun yrða að takmarka þetta úrræði við íbúðarhúsnæði í eigu fjölskyldna - ekki skúffueignarhaldfélaga.
- Ef fjölskylda á aðeins eina fasteign og afborganir af áhvílandi lánum eru orðnar henni um megn má útfæra þetta þannig að fasteignin renni til fasteignafélags, en áhvílandi skuldir umfram verðmæti fasteignarinnar verði felldar niður. Fólk fengi síðan rétt til að búa áfram í húsnæðinu gegn greiðslu sanngjarnrar leigu.
Er lausnin fólgin í fasteignafélögum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 17. ágúst 2009
Sjálfstæðisflokkurinn stórskaðar Ísland
En hvað það væri nú gaman ef formaður Sjálfstæðisflokksins myndi viðurkenna ábyrgð flokksins á því hvernig staða Íslands er í dag...
...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa (ásamt Framsóknarflokkinum) klúðrað einkavæðingu bankanna gersamlega.
...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa ekki lögleitt regluverk sem hélt aftur af fjárglæframönnunum,á þeim tíma þegar flokkurinn var leiðandi í stjórn landsins.
...viðurkenna að flokkurinn brást gersamlega (ásamt Samfylkingunni) á þeim tímapunkti þegar allt hrundi.
Já, það væri gaman ef menn gætu viðurkennt hvar stór hluti ábyrgðarinnar liggur.
Stórskaðar hagsmuni Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 7. ágúst 2009
Skyldulesning um Icesave
Púkinn ætlaði að blogga um Icesave í dag, en ákvað þess í stað að benda á grein eftir Marinó G. Njálsson, sem segir allt það sem Púkinn vildi sagt hafa.
Hér er sem sagt skyldulesning um Icesave: Sterkustu rökin gegn Icesave
„Það er búið að semja!“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 24. júní 2009
Að skera niður framtíðina....
Púkinn gerir sér fyllilega grein fyrir því að nauðsynlegt er að skera niður á mörgum stöðum, vegna klúðurs undanfarinna ára.
Það sem Púkinn er hins vegar ekki sáttur við er að skorið skuli niður í skólakerfinu, á sama tíma og teknar eru ákvarðanir eins og að halda áfram byggingu tónlistarhúss, þrátt fyrir allt.
Málið er nefnilega einfalt - til þess að vinna sig út úr kreppunni og byggja upp gott þjóðfélag þurfa Íslendinga á vel menntuðu fólki að halda.
Niðurskurður á menntakerfi er mikið vandaverk og tjónið af slíkri aðgerð gæti orðið verulegt, til lengri tíma litið.
Skólunum gert að skera niður um þrjá milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 24. apríl 2009
Hvað á Púkinn að kjósa?
Að sitja heima eða skila auðu er ekki til umræðu - það jafngildir því að segja að allt sé í himnalagi og skoðun Púkans skipti ekki máli. Að skila auðu jafngildir veruleikafirringu að mati Púkans - en hvað á eiginlega að velja?
Þetta var ekki vandamál í síðustu kosningum. Púkinn skilgreinir sig sem "hægri-grænan" í stjórnmálum, kaus Íslandshreyfinguna síðast og skammast sín ekkert fyrir það.
Nú er sá valkostur ekki fyrir hendi og enginn valkostanna sem eru í boði höfðar til Púkans.
Skoðum aðeins þá valkosti sem eru í boði:
X-B? Framsóknarflokkurinn hefur aldrei höfðað til Púkans og gerir það enn síður nú. Þar kemur margt til. Púkinn hefur alltaf verið þeirrar skoðunar að allir verði að taka fulla ábyrgð á gerðum sínum en það vantar mikið upp á að Framsóknarmenn viðurkenni sína ábyrgð á núverandi ástandi. Gerðir þeirra í sambandi við einkavæðingu bankanna og ábyrgð þeirra á fasteignabólunni með því að styðja hækkað lánshlutfall Íbúðalánasjóðs eru þar ofarlega á blaði. Loforð þeirra fyrir þessar kosningar höfða ekki til Púkans og sum þeirra væru beinlínis skaðleg til lengri tíma litið - svona eins og 20% hugmynd þeirra. Það vill nefnilega einkenna þá að horfa of mikið á skammtímalausnir, en sjá aldrei lengra fram í tímann en til næstu kosninga.
X-D? Ólíkt Framsóknarflokkinum hefur Sjálfstæðisflokkurinn þó a.m.k sýnt viðleitni til að viðurkenna sína ábyrgð. Eftir situr þó að flokkurinn ber stærsta hluta ábyrgðarinnar á uppbyggingu rotins fjármálakerfis. Spillingarstimpillinn og mútuþægnigrunsemdirnar hjálpa heldur ekki til. Það eru reyndar fleiri ástæður fyrir því að Púkinn vill ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn - ofuráhersla á álver og stuðningur við eyðileggingu íslenskrar náttúru er þar ofarlega á blaði, en val flokksins á frambjóðendum hjálpar ekki til.
X-F? Púkinn býr í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Þar er Sturla Jónsson efstur á lista. Það eitt og sér nægir Púkanum sem ástæða til að kjósa ekki þann lista. Önnur ástæða er of mikil áhersla á sjávarútvegsmálefni sem snerta Púkann lítið sem ekkert og engin áhersla, eða illa hugsaðar lausnir á þeim málum sem snerta Púkann.
X-O? Borgarahreyfingin er erfið - þar eru ýmsir einstaklingar með fersk viðhorf, en því miður allt, allt of lítið af raunhæfum lausnum, eins og Púkinn lýsti hér. Þær hugmyndir sem hreyfingin hefur sett fram hafaekki sannfært Púkann um að þar sé fólk með þá þekkingu og reynslu sem þarf til að koma þjóðinni út úr núverandi stöðu.
X-P? Kosningakompásinn setti Lýðræðishreyfinguna efst hjá Púkanum, sjá hér og Púkinn er reyndar sammála sumu sem frá þeim kemur. Það er bara það að ef einhver annar en Ástþór væri í forsvari mætti athuga þá nánar - en eins og staðan er, þá eyðir Púkinn ekki tíma í að skoða þá frekar - það er ekki hægt að taka Ástþór alvarlega.
X-S? Þótt Samfylkingin beri ekki sömu ábyrgð og B og D á hruni fjármálakerfisins, þá getur hún ekki vikist undan því að hafa verið á vaktinni þegar allt hrundi - og brugðist gjörsamlega. Samfylkingunni hefur að vísu tekist mjög vel að draga athyglina frá sinni ábyrgð, en Púkinn er ekki sáttur við getuleysi þeirra til að framkvæma uppgjör innan eigin raða. Púkanum hugnast heldur ekki áhersla Samfylkingarinnar á ESB og það viðhorf margra stuðningsmanna að ESB og upptaka evru sé einhver töfralausn sem muni koma öllu í lag. Púkinn vísar t.d í þessa grein sína um upptöku evru, en hvað ESB varðar, þá sér Púkinn bara ekki að í þvífelist nein töfralausn. Púkinn byggir lífsviðurværi sitt á upplýsingatækni og myndi gjarnan vilja kjósa flokk sem styddi menntun og uppbyggingu í nýsköpun og greinum sem byggja á hugviti. Samfylkingin hefur látið mörg góð orð falla um þessi mál, en efndirnar eru minni en engar. Það hefur ekkert komið frá Samfylkingunni sem myndi gagnast aðilum eins og fyrirtæki Púkans og innganga í ESB myndi að sumu leyti gera stöðu fyrirtækisins verri.
X-V? Púkinn á í svolitlum vandræðum með Vinstri Græna. Græni parturinn er í góðu lagi, en það er þetta með Vinstri partinn - eða réttara sagt, ákveðnar áherslur þeirra í skattamálum. Púkinn er nefnilega afskaplega ósáttur við að fólki sé refsað fyrir ráðdeild og sparnað, en hugmyndir þeirra um eignaskatt eru ekkert annað en eignaupptaka að mati Púkans. Hvers á fólk að gjalda sem ekki tók þátt í peningasukki undanfarinna ár, heldur situr bara á þeim eignum sem það hefur safnað með áratuga striti? Púkinn lýsti annars skoðun sinni á réttlátum sköttum og ranglátum hér, þannig að þau orð verða ekki endurtekin í þessari grein.
Ekki er það gæfulegt....engir góðir kostir í stöðunni - bara misslæmir ... og hvað á Púkinn að gera?
Stjórnin heldur enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 21. apríl 2009
Að toppa á réttum tíma
Það skyldi þó aldrei vera að Borgarahreyfingunni takist það sem margir flokkar hafa árangurslaust reynt að gera í gegnum tíðina - að toppa í vinsældum á hárréttum tíma - á kjördeginum sjálfum?
Nú er Púkinn ekki að lýsa yfir stuðningi við Borgarahreyfinguna - ekki beint - Púkinn er hreinlega ekki viss hvað hann á að kjósa og sumt af því sem kemur frá Borgarahreyfingunni er aðeins of barnalegt til að höfða til Púkans.
Sú hugmynd að handfæra vísitölur til baka er engu betri en 20% skuldaniðurfellingarhugmynd Framsóknarflokksins og hefur sömu galla og sú hugmynd.
Sú hugmynd að velja einstaklinga af handahófi úr þjóðskrá til að endursemja stjórnarskrána er arfavitlaus að mati Púkans - svona svipuð því og að segja að Alþingi eigi að endurspegla þjóðina.
Þegar Púkinn hefur heyrt einhverja halda þessu fram spyr hann gjarnan: "Þú vilt semsagt að helmingur alþingismanna sé með greind undir meðaltali"? Púkinn er nefnilega að þessu leyti fylgjandi ákveðinni elítustefnu - hann við að leiðtogar þjóðarinnar séu ekki meðaljónar, heldur úr hópi þeirra sem hafa betri menntun og reynslu en meðaltalið.
Sama á við um þá sem endursemja stjórnarskrána - það er full þörf að gera það, en Púkinn treystir ekki hverjum sem er til þess. Púkinn myndi frekar vilja setja landsliðið í skák í það mál - þá fengi maður þó einhverja sem eru færir um að hugsa meira en einn leik fram í tímann - nokkuð sem dæmigerðir stjórnmálamenn virðast ófærir um.
Hins vegar er Púkinn ekki viss um að þetta skipti miklu máli - hann er nefnilega að komast á þá skoðun að Íslendingar séu upp til hópa fífl og eins og Lao Tzu sagði, "Sérhver þjóð fær þá leiðtoga sem hún á skilið".
Púkinn efast um að nokkuð muni breytast, jafnvel þótt veruleg uppstokkun verði á Alþingi, eins og útlit er fyrir.
O-listi fengi fjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)