Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skrýtinn kosningakompás

Þegar Púkinn var búinn að athuga hvað kosningakompásinn segði miðað við skoðanir hans, var kominn tími til að leika sér....prófa að segjast hafa engar skoðanir.   Svara "Hvorki-né" alls staðar og segja að engin spurninganna skipti máli.

Niðurstaðan:

Lýðræðishreyfingin (P) 99%
Samfylkingin (S) 93%
Borgarahreyfingin (O) 92%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 91%
Sjálfstæðisflokkur (D) 89%
Framsóknarflokkur (B) 89%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) 89%

Það er nú aldeilis frábært að vita að ef maður hefur engar skoðanir og telur ekkert skipta máli, þá eru allir flokkarnir 89-99% sammála manni....

Púkinn og kosningakompásinn

Púkinn er í hálfgerðum vandræðum fyrir þessar kosningar - enginn flokkanna höfðar sérstaklega til hans og flokkurinn sem Púkinn kaus síðast er ekki til lengur.

Í von um að kosningakompásinn myndi gefa einhverjar vísbendingar svaraði Púkinn spurningunum, en niðurstöðurnar voru ekki afgerandi:

Lýðræðishreyfingin (P) 69%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) 65%
Borgarahreyfingin (O) 64%
Samfylkingin (S) 63%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 61%
Sjálfstæðisflokkur (D) 61%
Framsóknarflokkur (B) 60%

 Öll framboðin voru á bilinu 60-69%.  Nei, ekki er það gæfulegt....


mbl.is Kosningakompás mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atlögu að flokksveldinu hrundið

Já - það tókst.  Með málþófi tókst að koma í veg fyrir að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni að þessu sinni.

Nú er Púkinn ekki að segja að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni væru fullkomnar, en þær voru þó spor í rétta átt.  Púkinn er til að mynda hlynntur því að allar stjórnarskrárbreytingar séu bornar undir þjóðaratkvæði, en ekki ákvarðar af þingmönnum sem ef til vill eiga annarlegra hagsmuna að gæta - svosem að viðhalda misvægi atkvæða eftir landshlutum og annað í þeim dúr.

Stjórnarskráin er nefnilega of mikilvægt plagg og satt best að segja treystir Púkinn þingmönnum ekki til að breyta henni svo vel sé - og þótt Púkinn sé ósammála Framsóknarmönnum um flest studdi hann nú hugmyndir þeirra um sérstakt stjórnlagaþing.

En - það tókst að koma í veg fyrir að þær hugmyndir næðu fram að ganga, þannig að flokksræðið keypti sér 4 ár í viðbót.

Púkinn er hins vegar að velta því fyrir sér hvort hér hafi Sjálfstæðisflokkurinn ekki unnið orustuna, en tapað stríðinu?    

Þegar svona barátta gegn máli sem meirihluti þjóðarinnar styður (skv. skoðanakönnunum) kemur í kjölfarið á því sem lítur út eins og mútur og lyktar eins og mútur, þá er engin furða að fylgið sé á flótta.

Ætli næsti leikur verði ekki að reyna að fá óánægjufylgið til að skila auðu í kosningunum?  Frá sjónarhóli sjálfstæðismanna er það illskárra en ef fólk færi að kjósa VG eða Borgarahreyfinguna.


mbl.is Stjórnarskrárfrumvarpi frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiking krónunnar - það sem ekki er sagt

Púkanum finnst ýmislegt vanta inn í umræðuna um veikingu krónunnar og margir eru ýmist ekki að skilja hvers vegna henni er ekki leyft að falla almennilega, nú eða hvers vegna hún er ekki farin að styrkjast.

Skoðum fyrst þetta með styrkinguna.  Púkinn lýsti því hér hvernig fyrirtæki væru að fara framhjá gjaldeyrishöftunum, en síðan var stoppað upp í það gat með neyðarlögum.  Malið er hins vegar að þetta er aðeins eitt af þremur götum - það eru enn tvær góðar (og fullkomlega löglegar) aðferðir sem útflutningsfyrirtæki nota til að koma ekki með gjaldeyri í bankana.  

Það eru mun fleiri ástæður fyrir veikingu krónunnar.  Þótt útflutningur sé að aukast í krónum talið, stendur hann í stað eða er jafnvel að dragast saman í mörgum greinum sé hann mældur í erlendri mynt - álverð hefur hrapað og verð á fiski hefur lækkað erlendis.  Sem betur fer hefur innflutningur dregist enn meira saman og þannig tekst að halda jákvæðum viðskiptajöfnuði - það þarf bara að halda þeirri stöðu til frambúðar til að krónan styrkist.

Það er hins vegar gífurlegur þrýstingur á krónuna - eigendur jöklabréfa sitja uppi með krónur sem þeir telja verðlitlar og vilja ólmir skipta þeim í erlenda mynt áður en krónan fellur enn meira.  Það mætti því spyrja - hvers vegna ekki bara að leyfa krónunni að falla, þangað til hún er orðin það lág að jöklabréfaeigendurnir kjósi heldur að bíða með krónurnar uns hún styrkist aftur.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að þetta mun ekki gerast.  Ein er sú að þetta myndi þýða fjöldagjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja sem sýndu þá heimsku að taka lán í erlendri mynt á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk.  Já ég kalla þetta heimsku.  Það gátu allir séð að krónan myndi veikjast verulega - spurningin var bara hvenær og hversu mikið.  Það má hins vegar ekki leyfa þessi fjöldagjaldþrot svona rétt fyrir kosningar.

Önnur ástæða er staða aðila eins og Landsvirkjunar og OR, sem ekki myndu ráða við afborganir af erlendum lánum ef krónan félli verulega.  Gjaldþrot þeirra myndi í raun þýða að yfirráð orkulindanna féllu í hendur erlendra kröfuhafa - það skiptir nefnilega ekki máli hverjir eiga orkulindirnar - það skiptir máli hverjir eiga réttinn til að nýta þær.

Þriðja ástæðan varðar óuppgerða gjaldeyrissamninga.  Ef krónan félli og yrði t.d. 300/kr evran, myndi staða þeirra sem eiga óuppgerða samninga breytast verulega - það yrði erfitt að rökstyðja að samningana skuli gera upp á því gervigengi sem nú er haldið handvirkt uppi með gjaldeyrishöftum.

Nei, krónunni verður ekki leyft aðfalla svo mikið - a.m.k. ekki fyrr en eftir kosningar og þegar gjaldeyrissamningarnir hafa verið gerðir upp.


mbl.is Gengi krónunnar veiktist um 2,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlátir skattar og ranglátir

Púkinn borgar sennilega meira í skatta en hann fær til baka frá ríkinu, beint eða óbeint og því er ekki skrýtið að skattahækkanir séu ekki ofarlega á vinsældalista Púkans.

Staðan nú er hins vegar sú að erfitt er að komast hjá skattahækkunum, en þá skiptir máli að þeir skattar séu réttlátir.

Hátekjuskattur er svolítið gallaður að því leyti að hann leggst ekki á þá sem raunverulega hafa hæstu tekjurnar - þeirra tekjur eru gjarnan í gegnum arðgreiðslur eða á öðru formi sem almennur tekjuskattur og útsvar leggst ekki á.  Það er að vísu ekki verið að ræða um stórar upphæðir, en sú tekjutenging sem þegar er í skattkerfinu vegna persónufrádráttar er það mikil að Púkanum finnst óþarfi að auka hana.  Þurfi ríkið hins vegar nauðsynlega á þessum örfáu þúsundköllum að halda til viðbótar, þá er það svosem ásættanlegt.

Fjármagnstekjuskattur  er meingallaður að mati Púkans.  Ásstæða þess er sú að hann er of einfaldur og leggst á hluti sem ekki eru "tekjur".   Púkanum finnst ekkert athugavert við fjármagnstekjuskatt á arðgreiðslur eða söluhagnað af hlutabréfum.  Vandamálið er varðandi skatt af vöxtum af bankainnistæðum.  Ef verðbólga er há, þá er fjármagnstekjuskatturinn að éta upp mun stærri hluta raunvaxtanna en annars.  Það sem Púkinn myndi vilja er einfalt - mun hærri fjármagnstekjuskattur - t.d. 25% en hvað innistæður varðar þá myndi hann eingöngu leggjast á raunvextina - ekki á verðbætur á verðtryggðum reikningum til dæmis.   Verðbætur eru ekki "tekjur" í sama skilningi og vextir.   Þessi hærri skattur myndi hins vegar leggjast af fullum þunga á arðgreiðslur og söluhagnað af hlutabréfum.  Það mætti líka hugsa sér stighækkandi fjármagnstekjuskatt eins og er í nágrannalöndunum - í Danmörku er skatturinn t.d. 45% af arðgreiðslum yfir 100..000 dönskum krónum.

Eignaskattur  er algjört eitur í beinum Púkans.  Hvers á fólk að gjalda sem er kannski komið á efri ár og býr í skuldlausu, en verðmætu húsnæði?  Eignaskattur dregur úr hvata til sparnaðar og er á allan hátt óréttlátur skattur - 2%  eignaskattur á bankainnistæður jafngildir kannski 40% skatti á raunávöxtun og 2% skattur á skuldlaust íbúðarhúsnæði jafngildir hægfara eignaupptöku.  Púkinn sér enga siðferðislega réttlætingu fyrir eignaskatti.  Skattlagning á arð af eignum er í góðu lagi, en skattlagning á eignir sem ekki skila arði er vafasöm, svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Skattaákvarðanir um mitt árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein hógvær krafa

Púkinn vill hér með koma með eina litla, hógværa kröfu til þeirra sem útdeila skattpeningum hans til misilla staddra fyrirtækja.

Púkinn vill að ríkið krefjist þess að þau fyrirtæki sem njóta ríkisaðstoðar, hvort sem það eru (sparisjóðir eða önnur fyrirtæki) greiði hvorki arð til hluthafa né bónusgreiðslur til stjórnarmanna fyrr en ríkisaðstoðin hefur verið greidd til baka með vöxtum og verðbótum.

Er þetta til of mikils mælst ?


mbl.is Uppbygging í stað arðgreiðslna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn þingmaður gefur skít í kjósendur

Púkanum finnst það ákaflega óeðlilegt að þingmenn skuli geta skipt um flokk án þess að segja af sér þingmennsku.

Ástæða þess er einföld -  með því að skipta um flokk eru þeir að svíkja þá kjósendur sem kusu viðkomandi flokk.   Það er nefnilega ekki þannig að kjósendurnir hafi kosið þingmanninn sem slíkan - nei, þeir kusu lista flokksins.  Með því að yfirgefa flokkinn án þess að segja af sér og láta varaþingmann taka við er verið að svíkja þá kjósendur sem kusu viðkomandi lista.

Það eru tvær lausnir á þessu.  Önnur er einfaldlega að þingmenn segi af sér þingmennsku þegar þeir yfirgefa flokk sinn, enda hafa þeir í raun glatað því umboði sem þeir höfðu.  Þetta væri einföld, siðferðislega rétt leið, en þingmenn og siðferði eiga víst oft litla samleið.

Hin lausnin er mun rótækari og krefst algerrar endurskoðunar á kosningalögunum, en hún byggir á því að kjósendur kjósi eingöngu þingmenn - ekki flokka.  Þá væri óumdeilanlegt að þingmaðurinn sæti á þingi í umboði kjósenda sinna, óháð því hvaða flokki hann tilheyrði.  Svona fyrirkomulag myndi líka opna möguleikann á að kjósa þingmenn sem í raun tilheyrðu mismunandi flokkum.

Púkinn myndi gjarnan vilja geta kosið ákveðna frambjóðendur á listum flestra flokka - það eru menn á listum Sjálfstæðisflokksins, Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar sem Púkinn myndi gjarnan vilja kjósa - en svo eru aftur aðrir frambjóðendur á viðkomandi listum sem Púkinn telur að eigi ekkert erindi á þing.

Púkinn er hlynntur beinu lýðræði - ekki flokksræði, en líkurnar á að slíkt komist í gegn eru nánast engar - flokkarnir myndu missa áhrif sín ef fólk gæti kosið frambjóðendur milliliðalaust og það myndu þeir aldrei samþykkja.


mbl.is Karl V. til liðs við Frjálslynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarþing?

Á að kjósa nýtt þing til þess eins að nýkjörnir þingmenn geti farið beint í sumarleyfi, eða á að láta þingið sitja í sumar?

Púkinn er ósammála Steinunni Valdísi um margt, en styður þó góðar hugmyndir, sama hvaðan þær koma - eins og hugmyndina um sumarþing.  Þau verkefni sem nú liggja fyrir þinginu eru ærin og því ætti að gera tvennt - rjúfa þing eins seint og lög leyfa fyrir væntanlegar kosningar og halda sumarþing - stytta sumarleyfi þingmanna.

Eins og ástandið er í þjóðfélaginu finnst Púkanum að þingmenn hafi tæplega siðferðislegan rétt á löngu fríi.


mbl.is Þingrof óákveðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta bankarán í sögu Íslands?

bank_robbery_for_dummies.jpgÞegar einhver vesæll dópisti rænir íslenskan banka er hann eltur uppi og lokaður inni.  Þegar menn kaupa sér banka og ræna hann innanfrá eru þeir verðlaunaðir af forsetanum og hylltir sem hetjur árum saman.

Það er auðvitað mjög þægilegt að eiga banka sem getur lánað manni nokkur hundruð milljarða - fyrst og fremst vegna þess að það er lítil hætta á að bankinn segi NEI...og ef eftirlitsstofnanirnar eru nógu vanmáttugar, þá er heldur engin hætta á að þær séu eitthvað að flækjast fyrir.

Nú, svo er bara að koma peningunum úr landi - færa þá úr einu skúffufyrirtæki í annað og láta síðan einhver fyrirtækin fara á hausinn á pappírnum, meðan peningarnir sitja öruggir á reikningum á Caymaneyjum eða einhverjum öðrum góðum stað.

Svo þarf bara að bíða meðan verið er að eyða sönnunargögnum um vafasöm viðskipti - í versta falli bíða þangað til möguleg sakamál eru fyrnd og þá má nota peningana til að kaupa það sem menn vilja á brunaútsölu.

Já, það er munur að vera svona nýmóðins bankaræningi og þurfa ekki einu sinni að skella lambhúshettu á höfuðið.


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn um Luxemborg

Púkanum þykir nokkuð ljóst að nú sé unnið að því að tryggja að upplýsingar um braskið í Luxemburg komist aldrei í hendur íslenskra yfirvalda eða þeirra sem eiga að rannsaka hvað gerðist í bankahruninu.

Það hefur verið erfitt að fá upplýsingar um skúffufyrirtækin í Luxemborg sem fluttu milljarða úr einum vasa í annan.  Bankinn hefur borið fyrir sig bankaleynd, en nú stendur til að selja útibúið.

 Halló....er enginn vakandi!

Dettur einhverjum hugsandi manni í hug að auðveldara verði að fá upplýsingar um hvað átti sér stað eftir að sú sala er um garð gengin og útibúið komið í hendur Lýbíumanna?

Púkanum sýnist nokkuð ljóst að hér sé um að ræða hluta áætlunar sem miði að því að aldrei verði hægt að nálgast þessar upplýsingar.

Fjölmiðlar benda ekki á þennan þátt, heldur er frekar á þeim nótum að hér sé um jákvæðan atburð að ræða. Skrýtið....eða hvað?


mbl.is Einu skrefi nær Kaupþingssölu í Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband