Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvernig kosningalögin *ættu* að vera

Sú hugmynd að innleiða persónukjör, þótt í takmörkuðum mæli sé, bætir að hluta úr einum af leiðinlegri göllum núverandi fyrirkomulags.

Að geta eingöngu kosið flokka skapar visst vandamál ef þingmaður yfirgefur flokk sinn á miðju kjörtímabili og gengur til liðs við annan flokk.  Siðferðislega er þingmaðurinn að svíkja kjósendur flokksins - þeir kusu ekki hann - þeir kusu flokkinn.

Þar sem þingmenn setja flestir eiginhagsmuni framar siðferði sjá þeir ekkert athugavert við þetta, en að sjálfsögðu væri eðlilegast að þingmaðurinn segði af sér og næsti varaþingmaður flokksins tæki sæti viðkomandi.

Þetta vandamál er hins vegar úr sögunni ef persónukjör verður almenn regla - þá er hægt að segja að kjósendur hafi raunverulega kosið viðkomandi þingmann og kjósi hann að skipta um flokk sé það hans einkamál - hann "á" sína kjósendur, ekki flokkurinn.

Púkanum finnst hins vegar ekki nógu langt gengið. 

Enn betra væri ef hægt væri að kjósa þingmenn beint, án tillit til flokka - þannig gæti kjósandi skipt atkvæði sínu, kosið nokkra menn af hverjum lista - allt eftir því sem honum hugnast.  Atkvæði kjósandans myndu síðan skiptast milli þeirra sem hann kaus - kjósi hann 10 þingmenn fær hver þeirra 1/10 úr atkvæði - kjósi hann 63 fær hver þeirra 1/63 úr atkvæði.

Brotaatkvæði hvers þingmanns væru síðan lögð saman og þeir sem hefðu flest atkvæði á bak við sig teldust rétt kjörnir.  Með þessu fyrirkomulagi væri núverandi kjördæmafyrirkomulag orðið úrelt, enda öll atkvæði jafn mikilvæg hvaðan sem þau kæmu af landinu, þannig að einfalda mætti málið og gera landið að einu kjördæmi.

Svona fyrirkomulag myndi líka eyða því óréttlæti að núverandi kosningalög eru fjandsamleg smáflokkum.  Lögin eru hönnuð til að á alþingi séu 4-5 flokkar.   Smáflokkur með 3.2% stuðning ætti siðferðislegan rétt á 2 þingmönnum, en fær sennilega engan, því hann nær tæplega kjördæmakjörnum manni og vegna 5% reglunnar fær hann ekki uppbótarþingmann.  Fyrrnefnd 5% regla var einmitt set inn í þeim tilgangi aðkoma í veg fyrir að Alþingi fylltist af fulltrúum smáflokka, sem gæti gert stjórnarmyndun erfiðari.  Það eru að hluta gild rök (samanber ástandið á ísraelska þinginu), en sviptir stuðningsmenn smáflokka rétti sínum til að láta í sér heyra.


mbl.is Leggja fram frumvarp um persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir Baugs = eignir bankanna

Greiðslustöðvun og mögulegt gjaldþrot Baugs eru alvarlegar fréttir fyrir Ísland.  Ástæða þess er sú að stór hluti eigna gömlu bankanna eru einmitt skuldir Baugs og tengdra fyrirtækja. 

Menn höfðu vonast til að eignir gömlu bankanna stæðu undir sæmilegum hluta skuldbindinga þeirra, en nú falla risarnir hver af öðrum - þeir geta ekki borgað af lánum sínum og hætt er við að eignirnar yrðu verðlitlar, væru þær seldar núna.

Landsbankinn er í sérlega slæmum málum - þrír af hans stærstu viðskiptavinum eru í slæmum málum og Púkinn er svona að velta fyrir sér hvort nokkrar eignir séu yfirhöfuð eftir sem gætu komið á móti IceSafe skuldbindingunum.

Eins og einhver sagði - ef þú skuldar bankanum 100 milljónir og ert í vanskilum, þá ertu í slæmum málum, en ef þú ert með 100 milljarða í vanskilum þá er það bankinn sem er í vandræðum.


mbl.is Baugur í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vel unnin störf" Seðlabankastjórnar

Að þakka stjórn Seðlabankans fyrir vel unnin störf undanfarna mánuði er blaut tuska í andlit þjóðarinnar.

Seðlabankastjórnin hefur undanfarin ár sýnt að hún ræður ekki við sitt hlutverk, hvort sem þar er um getu- eða viljaleysi að ræða.  

Hvers vegna notaði Seðlabankinn ekki tækifærið og styrkti gjaldeyrisvarasjóðina þegar krónan var sterk?  Það hefði haldið aftur af styrkingu krónunnar, sem var komin út fyrir öll velsæmismörk.

Hvers vegna hækkaði Seðlabankinn ekki bindiskyldu bankanna til að hafa hemil á útlánagleði þeirra?

Hvers vegna hélt Seðlabankinn áfram að hækka vexti, þegar löngu var orðið ljóst að það slægi ekki á verðbólguna, því menn tóku bara erlend lán, þannig að vextirnir bitu ekki.  Eina afleiðing vaxtahækkananna var að hvetja til aukinnar útgáfu jöklabréfa, sem jók líkurnar á stórum sveiflum í íslensku efnahagslífi?

Nei, að þakka þessum mönnum fyrir vel unnin störf á síðustu mánuðum er svona eins og að þakka brennuvargi fyrir að hringja í slökkviliðið eftir að hann hefur kveikt í.


mbl.is Geir þakkar stjórum Seðlabanka vel unnin störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanþingsstjórn, takk!

Ef hér á landi væru þingmenn sem væri raunverulega annt um hag þjóðarinnar, en hugsuðu ekki bara um eigin hagsmuni og gengi í væntanlegum prófkjörum, þá myndu þeir vilja hæfasta fólkið í stjórn landsins.

Púkinn er þeirrar skoðunar að það sem Ísland þurfi á að halda sé stjórn skipuð hæfustu sérfræðingum á sínum sviðum - ekki stjórn atvinnupólitíkusa sem gegna allt öðrum ráðherraembættum en þeir hafa menntun og hæfileika til að sinna.

Utanþingsstjórn sérfræðinga myndi ekki sitja nema fram til kosninga og verkefni hennar væri að stýra þjóðarskútunni á sem farsælastan hátt þann tíma og taka á fyrirliggjandi vandamálum.

Púkinn treystir nefnilega ekki atvinnustjórnmálamönnum í prófkjörsslag til að gera það sem gera þarf - það er vafasamt að þeir myndu þora að taka nauðsynlegar en sársaukafullar ákvarðanir sem gætu fælt atkvæðin í burtu.

En nei - Púkanum verður tæplega að ósk sinni - hagsmunir flokkanna eru of miklir.


mbl.is Þingflokksfundir hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin og FME - hver fer næst ?

Púkinn er ekki alveg viss hvort það sé pólitískt snilldarbragð hjá Björgvin að láta það verða sitt síðasta embættisverk að reka stjórn FME, en hitt er víst að þetta útspil bætir möguleika hans á endurkomu í íslensk stjórnmál.

Fjármálaeftirlitið mátti alveg fá þessa flengingu, enda brást það á marga vegu, en þó hafa þeir þá afsökun að stofnunin missti marga af sínum hæfustu starfsmönnum yfir til bankanna sem tvö- eða þrefölduðu laun þeirra.  Þeir sem sátu eftir réðu einfaldlega ekki við verkefnið.

Seðlabankinn hefur hins vegar ekki þessa afsökun.  Þar tóku menn heimskulegar ákvarðanir - og ekki bara einu sinni, heldur endurtekið.  Seðlabankinn þrjóskaðist við að hækka og hækka vexti til að reyna að slá á verðbólguna, þrátt fyrir að bent væri á að bæði væru aðrar aðferðir vænlegri (hækka bindiskyldu bankanna til að slá á útlánagleði þeirra) og að með sífelldum vaxtahækkunum væru þeir að skapa gífurlegan óstöðugleika, því allt það fjármagn sem flæddi inn í landið vegna jöklabréfanna gæti flætt jafn hratt út aftur með tilheyrandi hruni.  

Nei, afglöp Seðlabankans voru mun verri en afglöp Björgvins og FME - og þess vegna hefði Púkinn viljað sjá þá fjúka fyrst...

... en þá mega Seðlabankastjórarnir í staðinn bara vera þeir næstu sem fá að fjúka.


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögn forsetans

forseti.jpgForseti Íslands hefur ekki látið mikið fyrir sér fara síðustu mánuðina, þrátt fyrir að sjaldan í sögu lýðveldisins hafi verið jafn mikil þörf á sameiningartákni fyrir þjóðina eins og núna.

Hvers vegna - tja, það skyldi þó aldrei vera vegna þess að undanfarin ár hefur forsetinn sýnt krónískan undirlægjuhátt gagnvart þeim fjárglæframönnum sem bera stóran hluta ábyrgðarinnar á núverandi ástandi.

Forsetinn talaði ekki á sínum tíma gegn græðgivæðingu þjóðfélagsins - nei, hann studdi útrásina með ráðum og dáð - og það náði hámarki þegar Baugur fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2008.

Baugur - fyrirtæki sem ekkert hefur flutt út annað en peninga - fyrirtæki með hagsmuni sem voru andstæðir hagsmunum allra raunverulegra útflutningsfyrirtækja.

Já...stundum er kannski bara best að þegja og skammast sín ... en mikið saknar Púkinn nú þess að hafa ekki forseta eins og Vigdísi.  Þannig forseti myndi ekki þegja í dag.

 


mbl.is Stjórnarskipti breyta engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakönnun - hvað ætlar þú að kjósa í vor?

voteboxÍ október síðastliðnum var Púkinn með skoðanakönnun hér á blog.is um hvað fólk myndi kjósa ef þá hefði verið efnt til kosninga.

Í ljósi þess að nú standa raunverulega kosningar fyrir dyrum er við hæfi að endurtaka þá skoðanakönnun - sjá hér til hliðar.

Niðurstöður hinnar óvísindalegu könnunar Púkans í Október voru eftirfarandi:

B - Framsókn 7.0%
D - Sjálfstæðisfl. 17.0%
F - Frjálslyndir 4.1%
Í - Íslandshreyfingin 3.4%
S - Samfylkingin 22.2%
V - Vinstri grænir 23.2%
Ekkert af ofanfarandi 23.0%

Það kæmi Púkanum hins vegar ekki á óvart þótt niðurstöðurnar yrðu talsvert öðruvísi núna.

Svona til gamans þá bætti Púkinn við valmöguleikum sem vísa til tveggja hreyfinga sem hafa verið áberandi að undanförnu, ef svo færi að formleg framboð kæmu á þeirra vegum.  Stuðningsmenn Harðar Torfa og Sturlu geta þá nýtt sér þá valkosti.  

Sé fólk hins vegar enn tvístígandi, þá er enn í boði próf á vefnum sem segir fólki hvaða flokki það á helst samleið með, þótt spurningarnar séu orðnar nokkuð úreltar núna.


mbl.is Geir: Kosið í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...mótmælendur sakaðir um eignatjón...

Nú vill Púkinn ekki verja skemmdarverk mótmælenda, en einhvern veginn læðist sú hugsun nú fram að það eignatjón sem þeir unnu sé smávægilegt miðað við það tjón sem Seðlabankinn olli með arfavitlausri stefnu, nú eða það tjón sem alþingismenn og ráðherrar hafa orsakað með sínum aðgerðum (eða aðgerðaleysi), nú eða það tjón sem Fjármálaeftirlitið olli með því að grípa ekki í taumana.

Það ætti ef til vill að kæra einhverja aðra líka fyrir að valda eignatjóni?


mbl.is Tveir mótmælendur handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi ... en á sama tíma finna sum fyrirtæki ekki starfsmenn

Á sama tíma og verulegt atvinnuleysi er í sumum starfsgreinum eru aðrar greinar þar sem skortur er á menntuðu fólki og íslensk fyrirtæki þurfa að leita erlendis eftir hæfum starfsmönnum.

Einhverjir horfa til framkvæmda í Helguvík og vona að mörg störf muni skapast þar, en Púkinn getur nú ekki að því gert, miðað við reynsluna frá Reyðarfirði, að hann veltir fyrir sér hversu mörg þeirra starfa munu bjóðast þeim sem nú eru á atvinnulausir á Íslandi .. . ætli erlendir láglaunaþrælar muni ekki vinna dágóðan hluta starfanna.

Ástandið er slæmt í byggingageiranum, enda voru umsvifin þar komin langt út fyrir öll velsæmismörk og alveg óhætt að slaka verulega á þar í nokkur ár, en uppsagnir og samdráttur snerta margar starfsgreinar og þeir eru margir, nýútskrifuðu viðskiptafræðingarnir og aðrir sem leita að störfum í samræmi við sína menntun, en koma alls staðar að lokuðum dyrum.

Inn á milli eru síðan fyrirtæki og greinar þar sem alger skortur er á menntuðu hæfu fólki hér á landi.


mbl.is Yfir 10 þúsund án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um fangelsismál

prisonUndanfarið hefur verið minnst á það í fréttum að fangelsi landsins séu yfirfull, en einnig að fangelsismálastofnun sé gert að skera niður og spara í rekstri.

Sparnaður er svosem góðra gjalda verður þegar hann á við, en sparnaður í fangelsismálum er ekki það sem Púkinn vill sjá.

Þvert á móti myndi Púkinn vilja sjá kraft settan í nýja fangelsisbyggingu á höfuðborgarsvæðinu - aðgerð sem líka myndi skapa vinnu í byggingargeiranum.

 Áður en lengra er haldið er nú samt best að skoða hinn þrefalda tilgang fangavistar. 

Refsing 

Í fyrsta lagi þjónar fangavist þeim tilgangi að refsa fanganum - hugmyndin er að fangelsun hafi fælingarmátt - menn vilji fyrir alla muni forðast að lenda þar inni - og þeir sem lenda inni vilji forðast að koma þangað aftur. Til þess að fangavistin hafi fælingarmátt mega fangar hins vegar ekki líta á hana sem "hvíldardvöl", eins og sagt er að sé viðhorf sumra fanga - sér í lagi sumra af austur-evrópskum uppruna.  Frá þessum sjónarhóli er hægt að mæla árangur fangavistarinnar út frá "endurkomutíðni" - því minni líkur sem eru á að menn lendi ítrekað á bak við rimlana, því betur er kerfið að standa sig.  Japanska fangelsiskerfið er sagt státa af mjög lágri endurkomutíðni, enda er fangelsisvist þar víst frekar niðurdrepandi - það mun vera regla fremur en undantekning að mönnum sé haldið í einangrun langtímum saman.  

Mannbæting

Í öðru lagi þjónar fangavist þeim tilgangi að "bæta" fangann - gera hann að betri manni sem ekki brjóti af sér aftur.  Hér er aðallega horft til menntunar og þess að losa fangann við eiturlyfjafíkn.  Til að fangelsið virki sem meðferðarstofnun verður hins vegar rétt meðferð að vera í boði, starfsfólk verður að hafa rétta þjálfun og meðferðinni verður að vera fylgt eftir þegar fanginn er kominn aftur út í samfélagið.  Þetta mætti bæta verulega á Íslandi - þetta kostar pening, en spurning er hvort sá peningur myndi ekki skila sér margfalt aftur til samfélagsins í fækkun glæpa.

Verndun samfélagsins

Í þriðja lagi þjónar fangavist þeim tilgangi að vernda samfélagið gegn fanganum - hugmyndin er sú að viðkomandi brjóti jú ekki af sér meðan hann er bak við lás og slá.  Þetta á sérstaklega við þegar um geðsjúka afbrotamenn er að ræða, eða ofbeldishneigða síbrotamenn.

Púkinn er á þeirri skoðun að þetta eigi sérstaklega við þegar litlar líkur eru á að "mannbætandi" aðgerðir gagnist viðkomandi.  Það er ef til vill hart að þurfa að afskrifa einhverja sídæmda afbrota menn með þeim orðum að þeir eigi hvergi heima nema bak við rimlana, en ef ekkert annað ber árangur, þá eiga aðrir þegnar þjóðfélagsins heimtingu á að vera verndaðir gegn viðkomandi.

Púkinn myndi vilja sjá eftirfarandi:

  • Sérstakt öryggisfangelsi fyrir erlenda fanga sem stendur til að vísa úr landi eftir afplánun.  Það er engum greiði gerður með því að leyfa þeim að stofna til tengsla við íslenska fanga.  Þetta er sérstaklega mikilvægt ef erlendu fangarnir hafa tengsl við erlend glæpasamtök.
  • Stórlega bætt afvötnun/fíkniefnameðferð - það eru of margir fangar sem fremja afbrot til þess að fjármagna neyslu - það er engin von til að þeir láti af því nema það takist að stöðva neysluna.
  • Ef fíkniefnameðferð ber ekki árangur og viðkomandi einstaklingur heldur áfram afbrotum eftir að hafa verið sleppt út, jafnvel í annað, þriðja eða fjórða sinn, er ljóst að
    refsing og mannbæting virka ekki á viðkomandi - í þeim tilvikum er tvennt til ráða - það mætti gefa viðkomandi sitt dóp frítt og undir eftirliti, þannig að hann þurfi ekki að fjármagna neysluna með afbrotum.  Hin lausnin er að loka viðkomandi inni til lengri tíma - í þeim tilgangi að vernda samfélagið gegn viðkomandi.
Hvað sem er gert, er boðaður niðurskurður ekki góð leið til að bæta núverandi ástand.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband