Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Allt sem fer upp....

Það má vera að einhverjum sem keyptu húsnæði fyrir nokkrum misserum síðan sárni þegar þeir eru sakaður um þá heimsku að hafa keypt fasteignir á fáránlegu yfirverði,  en raunin er sú að það mátti öllum vera augljóst að að fasteignaverð var orðið allt, allt of hátt á þeim tíma.

Augljósasta vísbendingin um það var hinn gífurlegi fjöldi íbúða sem var í byggingu og sömuleiðis sá fjöldi byggingaraðila sem stefndi að því að græða á íbúðabyggingum.  Þegar staðan er sú að hægt er að stórgræða á íbúðabyggingum er ljóst að munur á byggingarkostnaði og söluverði er orðinn óeðlilega hár.  Sú einfalda staðreynd hefði átt að vekja fólk til umhugsunar.

Jafnvel þótt ekki hefði komið til bankakreppu á Íslandi er næsta víst að íbúðarverð hefði lækkað að raunvirði - það stefndi í offramboð á íbúðum og slíkt leiðir alltaf til lækkunar.

Með öðrum orðum - þessi lækkun er eðlileg og óhjákvæmileg - þetta er ekki bara hluti af ráðagerð peningamanna um að ná til sín fasteignum þjóðarinnar á undirverði og neyða eignalausa þjóðina síðan til að leigja til baka húsnæðið.

Einhverjir gerðust síðan sekir um enn meiri heimsku með því að taka gengisbundin lán á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk.  Púkinn á mjög erfitt með að skilja hvernig nokkur gat rökstutt þá ákvörðun, því varnaðarorð heyrðust úr öllum áttum - útflutningsfyrirtækin börðust í bökkum og voru jafnvel að flytja starfsemi sína úr landi - Viðskiptahallinn var gengdarlaus og öllu haldið uppi með "ódýru" erlendu lánsfé.

Margir bentu á að þessi staða gæti ekki varað til frambúðar - það væri ekki spurning um hvort krónan myndi falla, heldur bara hvenær og hversu mikið.

Þeir sem hunsuðu þessi varnaðarorð og eru núna að sökkva í skuldafen geta í raun engum kennt um nema sjálfum sér.

Og þó...

Í einhverjum tilvikum var þessum erlendu lánum beinlínis otað að fólki af bankastarfsmönnum, án þess að fólk væri upplýst um þá gengisáhættu sem þeim fylgdi.   Hafi einhverjir fjármálaráðgjafar beinlínis mælt með þessum lánum á síðasta ári, jaðrar það við glæpsamlega vanrækslu að mati Púkans.

Á endanum ber fólk samt ábyrgð á eigin gerðum og getur ekki krafist þess að samfélagið bjargi því frá öllum afleiðingum eigin mistaka. Ef það ætti að gefa þeim eftir skuldir sem fóru of geyst í húsnæðiskaupum mætti spyrja hvort líka hefði átt að gefa þeim eftir skuldir sem töpuðu á Decode hlutabréfum, nú eða steyptu sér í skuldir í fjárhættuspilum.

Já - það getur verið erfitt að þurfa að taka afleiðingum eigin ákvarðana þegar þær eru rangar, en oft er lítið annað hægt.


mbl.is 25 til 30% lækkun þarf á fasteignamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhæfur ráðherra

Þegar viðskiptaráðherra segist ekki hafa vitað af KPMG og Glitni eru aðeins tveir möguleikar í stöðunni.

Annað hvort er maðurinn að ljúga eða hann veldur ekki starfi sínu.

Niðurstaðan er hins vegar ein og hin sama í báðum tilvikum - hann ætti að segja af sér.  Ef hér á Íslandi væri vottur að heiðarleika í stjórnkerfinu væri hann búinn að því, en miðað við hvernig kaupin gerast á eyrinni mun hann að sjálfsögðu sitja sem fastast.

(Fjármálaráðherra, stjórn Seðlabankans og yfirmenn Fjármálaeftirlitsins ættu að vísu að fjúka líka, en að hluta til af öðrum ástæðum)


mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pappírstætararnir á fullu

Skilanefndir bankanna neita skattrannsóknarstjóra um gögn, á meðan reynt er að selja útibú í Luxemburg.  Sú sala myndi að sjálfsögðu þýða að upplýsingar um þá starfsemi sem þar fór fram verður varanlega utan íslenskrar lögsögu.

Já, það er ekki skrýtið að menn haldi að planið sé að hvítþvo alla sem komu að þessum málum.

Á meðan keyra pappírstætararnir á fullu.


mbl.is Fær ekki gögn um dótturfélög bankanna í Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur rannsóknarnefnd Alþingis rannsakað Alþingi?

Púkinn hefði viljað sjá rannsóknarnefnd að öllu leyti skipaða erlendum sérfræðingum, til að draga úr líkum á ásökunum um hlutdrægni vegna mögulegra tengsla.

Það er hins vegar spurning hvort rannsóknarnefnd á vegum Alþingis geti með trúverðugum hætti rannsakað hlut Alþingis í hruninu.

Púkinn vill til að mynda nefna þrjú atriði.

1) Einkavæðing bankanna - ríkisstjórnin og Alþingi  bera í sameiningu ábyrgð á því að bankarnir voru einkavæddir og að því að virðist án þess að hugað væri að því að styrkja eftirlitskerfið. 

2) Breytingar á lögum um Seðlabanka - með því að breyta lögum um Seðlabanka þannig að forgangsmarkmið hans væri að halda niðri verðbólgu ber Alþingi að hluta ábyrgð á vaxtahækkunarstefnu seðlabankans, sem leiddi til þess að gengi krónunnar varð allt of hátt og skapaði grundvöll fyrir útgáfu jöklabréfanna.

3) Breytingar á Íbúðalánasjóði.   Með því að hækka lánshlutfall íbúðalánasjóðs kom Alþingi og ríkisstjórnin af stað þeirri skriðu húsnæðisverðshækkana sem þjóðin sýpur nú seyðið af.

Púkinn er hræddur um að Alþingi reyni að fela eigin ábyrgð með því að leggja rannsóknarnefndinni ákveðnar reglur um hvað henni beri að rannsaka - og aðgerðir (eða aðgerðaleysi) Alþingis sé ekki þar á meðal.

 


mbl.is Mælt fyrir frumvarpi um rannsóknarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hókus, pókus - nýr gjaldmiðill!

euroÞeir eru margir sem virðast trúa því að einhliða upptaka annars gjaldmiðils geti á einhvern undraverðan hátt bjargað því sem amar að í efnahagslífi þjóðarinnar.

Púkinn trúir hins vegar ekki á töfralausnir.

Það virðist nefnilega að þeir sem halda því fram að við getum bara einhliða tekið upp evru, svissneskan franka, eða norska krónu geri sér einfaldlega ekki grein fyrir vandamálunum sem því myndu fylgja.

Það væri að vísu auðvelt að skipta út þeim seðlum sem eru í umferð í landinu - núverandi gjaldeyrisforði dugar ágætlega til þess, en hvað með innistæður í bönkum eða eignir lífeyrissjóðanna? 

Ríkið á einfaldlega ekki gjaldeyrir til að skipta þeim eignum í erlendan gjaldeyri - og bankarnir/lífeyrissjóðirnir geta ekki bara "búið til" gjaldeyri - sagt ömmu gömlu sem á tíu milljónir í lífeyrissparnaði að hún eigi núna 50.000 dollara.

Menn virðast gleyma því að svona útskipting gjaldmiðils er í raun enn róttækari aðgerð en að binda gjaldmiðilinn við annan gjaldmiðil á föstu gengi - en hvort tveggja felur í sér skuldbindingu um að skipta út krónum fyrir gjaldeyri á skiptigenginu sé þess krafist.

Til að geta gert þetta þyrfti ríkið að taka gríðarlega stórt lán í viðkomandi gjaldmiðli, og útdeila því, en fengi í raun ekkert í staðinn nema íslenskar krónur, sem væru orðnar með öllu verðlausar.  Til að geta borgað lánið til baka er eina leiðin að hafa umtalsverðan fjárlagaafgang á hverju ári - sem menn myndu væntanlega reyna að ná fram með niðurskurði eða skattahækkunum.

Annað vandamál er við hvaða gengi ætti að miða.  Það væri hagstæðast fyrir ríkið að gengi krónunnar væri sem veikast, því þá myndi minnsta gjaldeyrinn þurfa.  Lágt skiptigengi myndi hins vegar líka þýða lág laun, miðað við nágrannalöndin og gera Ísland að láglaunasvæði.  Fyrir þá sem eitthvað eiga, er hins vegar hagstæðast að skiptigengi krónunnar væri sem hæst, þannig að þeir fengju sem flestar evrur/franka/dollara fyrir krónurnar sínar, hvort sem þær eru á formi bankainnistæðna eða inneignar í lífeyrissjóðum.  Lágt skiptigengi myndi jafngilda eignaupptöku að þessu leyti.  

Hvað er fólk tilbúið að fórna stórum hluta af lífeyrissparnaði sinum til að geta skipt um gjaldmiðil?  10%? 20%? 50%?

Það eru hins vegar enn fleiri vandamál.

Seðlabankinn verður nánast áhrifalaus - hann getur ekki stjórnað peningamagni í umferð og hann getur ekki stjórnað stýrivöxtum - eina virka stjórntækið hans yrði bindiskyldan.  Miðað við "afrekaskrá" Seðlabankans á undanförnum árum er það ekki endilega slæmt - ef menn hafa ekki tólin þá geta þeir ekki misbeitt þeim.  Gallinn er hins vegar sá að þetta getur skapað margvísleg vandamál ef hagsveiflan hér á landi er ekki í takt við hagsveifluna í því landi sem stýrir viðkomandi gjaldmiðli.  Langtímaáhrif þessa gætu birst í atvinnuleysi og gjaldþrotum- það er í sjálfu sér ekki frábrugðið því sem við búum við núna, en munurinn er sá að þetta gæti orðið viðvarandi.

Þessu til viðbótar er sá ókostur að geta ekki "prentað peninga" eftir þörfum.  Ríki með eigin gjaldmiðil getur aukið peningamagn í umferð með því að "búa til" meiri peninga.   Þetta rýrir að vísu verðmæti gjaldmiðilsins og lýsir sér á endanum sem verðbólga (Zimbabwe er öfgakennt dæmi um þetta og sömuleiðis Þýskaland á millistríðsárunum) en getur verið nauðsynlegt á köflum, t.d. til að koma í veg fyrir samdrátt.

Noti ríki gjaldmiðil annars ríkis er þessi leið ekki fær - eina leiðin til að auka peningamagn í umferð væri að taka peninginn að láni - en slík lán þarf að borga til baka með vöxtum síðar.

Nei - þessi töfralausn mun ekki virka.


mbl.is Verðbólgan nú 17,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabundnar launalækkanir

Ósköp finnst Púkanum nú skítt að forsætisráðherra sé bara að biðja um tímabundna launalækkun (til 12 mánaða) fyrir sig og sitt fólk.

Lifir hann virkilega í þeirri blekkingu að allt verði orðið gott aftur eftir 12 mánuði og þá megi hækka launin hans aftur og allt verði gleymt?

Púkinn spyr nú bara svona - en lætur öðrum eftir að svara.


mbl.is Engin niðurstaða hjá Kjararáði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki hægt að bjarga öllum

Það eru einhverjir sem ætlast til að stjórnvöld dragi upp töfrasprota, veifi honum og striki út skuldir fólks, felli niður verðtryggingu eða geri allt gott aftur með einhverri hókus-pókus aðgerð.

Þetta er bara ekki svo einfalt.

Skuldir einstaklinga vegna heimiliskaupa eru jú eðli málsins samkvæmt meðal eigna bankanna og Íbúðalánasjóðs.  Með því að gefa skuldurum á einhvern hátt eftir hluta skulda þeirra er gengið á þær eignir og svona aðgerð myndi á endanum þýða hærri vexti, aukna verðbólgu eða aukna skuldsetningu.

Staðreyndin er sú að fjöldi fólks hegðaði sér eins og fífl - tók gengisbundin lán 2007, þegar öllum hefði átt að vera ljóst að krónan var allt of sterk og húsnæðisverð var komið út yfir öll velsæmismörk.

Nú er Púkinn ekki að segja að það eigi að setja alla á hausinn sem fóru of geyst og fjárfestu í húsnæði umfram greiðslugetu, en það er einfaldlega ekki hægt að réttlæta aðgerðir sem eiga að bjarga öllum frá afleiðingum þeirra eigin heimskulegu ákvarðana, á kostnað þjóðarinnar.

Af tvennu illu líst Púkanum þó skár á aðgerðir sem myndu t.d. fela í sér að Íbúðalánasjóður yfirtæki húsnæðið upp í skuldir og fólk myndi borga leigu fyrir afnot af því, auk þess að borga af mismuni raunvirðis og upptökuvirðis húsnæðisins.  Greiðslubyrðin yrði mun minni og fólk hefði tryggt þak yfir höfuðið, en hins vegar yrði eignamyndunin engin - fólk yrði að gefa upp á bátinn drauminn um að eignast sitt eigið húsnæði.

Nei, þetta er ekki skemmtilegur valkostur, en sennilega illskárri en að missa allt.


mbl.is Hvetja til aðgerða vegna vanda heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skríll að skemma fyrir málstað mótmælenda

Púkinn er ekki sáttur við Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, stjórnvöld og ýmsa aðra aðila í þjóðfélaginu og telur fulla þörf á því að hreinsa út og fá hæft fólk til starfa.

Skrílslæti eru hins vegar ekki réttaleiðin til þess. 

Það fólk sem braust inn í lögreglustöðina varð sjálfu sér til háborinnar skammar, en það sem verra er - það stórskemmdi fyrir málstað mótmælenda.

Svona hegðun leiðir eingöngu til þess að stjórnvöld geta afskrifað aðgerðirnar sem "skrílslæti" og staðið fast á því að taka ekkert mark á þeim.

 


mbl.is Var ekki látinn vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrir inn í landið...eða hvað?

Einhverjir virða halda að bílaútflutningur þýði að gjaldeyrir muni streyma inn í landið, en málið er ekki svo einfalt.

Þeir erlendu aðilar sem eru að kaupa bílana eru ekki að þessu í neinu góðgerðarskyni við Íslendinga.  Það sem þeir munu að sjálfsögðu gera er að kaupa krónur erlendis á því gengi sem er í gildi þar (í dag 245 kr/evra - sjá þennan hlekk) og senda þær krónur hingað.

Þetta kemur að sjálfsögðu mun betur út fyrir þá en ef þeir væru að borga í evrum, miðað við það gervigengi sem er haldið uppi hér á landi þessa dagana.

Sama á við um annan útflutning - auðvitað vilja menn frekar fá 245 krónur fyrir hverja evru og koma með krónurnar heim, heldur en að koma með evrurnar heim og fá 175 krónur fyrir hana.  Núverandi ástand er óttalegur skrípaleikur, en því ætti nú að linna þegar krónan verður sett aftur á flot og "innlent" og "erlent" gengi á henni verður eitt og hið sama.


mbl.is 5000 bílar úr landi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgum eigin skinni - skítt með þjóðina!

Samkvæmt þessu ættu ráðamenn þjóðarinnar að hafa gert sér ljóst strax í febrúar að veruleg hætta var á hruni bankakerfisins - og að sjálfsögðu reyndu þeir að tryggja sig og sína.

Það væri forvitnilegt að sjá hversu margir af þeim sem höfðu vitneskju um þessa skýrslu gripu til þess ráðs að færa hlutabréf og skuldir vegna þeirra yfir í einkahlutafélög, nú eða að færa sinn sparnað yfir í gjaldeyri eða ríkistryggð bréf.

Í raun myndi Púkinn vilja sjá lla ráðamenn þjóðarinnar gera nákvæma grein fyrir sinni eignastöðu og eignabreytingum á þessu ári.   Ætli það hafi ekki einhverjir hugsað fyrst og fremst um sjálfa sig - skítt með þjóðina.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband