Hókus, pókus - nýr gjaldmiðill!

euroÞeir eru margir sem virðast trúa því að einhliða upptaka annars gjaldmiðils geti á einhvern undraverðan hátt bjargað því sem amar að í efnahagslífi þjóðarinnar.

Púkinn trúir hins vegar ekki á töfralausnir.

Það virðist nefnilega að þeir sem halda því fram að við getum bara einhliða tekið upp evru, svissneskan franka, eða norska krónu geri sér einfaldlega ekki grein fyrir vandamálunum sem því myndu fylgja.

Það væri að vísu auðvelt að skipta út þeim seðlum sem eru í umferð í landinu - núverandi gjaldeyrisforði dugar ágætlega til þess, en hvað með innistæður í bönkum eða eignir lífeyrissjóðanna? 

Ríkið á einfaldlega ekki gjaldeyrir til að skipta þeim eignum í erlendan gjaldeyri - og bankarnir/lífeyrissjóðirnir geta ekki bara "búið til" gjaldeyri - sagt ömmu gömlu sem á tíu milljónir í lífeyrissparnaði að hún eigi núna 50.000 dollara.

Menn virðast gleyma því að svona útskipting gjaldmiðils er í raun enn róttækari aðgerð en að binda gjaldmiðilinn við annan gjaldmiðil á föstu gengi - en hvort tveggja felur í sér skuldbindingu um að skipta út krónum fyrir gjaldeyri á skiptigenginu sé þess krafist.

Til að geta gert þetta þyrfti ríkið að taka gríðarlega stórt lán í viðkomandi gjaldmiðli, og útdeila því, en fengi í raun ekkert í staðinn nema íslenskar krónur, sem væru orðnar með öllu verðlausar.  Til að geta borgað lánið til baka er eina leiðin að hafa umtalsverðan fjárlagaafgang á hverju ári - sem menn myndu væntanlega reyna að ná fram með niðurskurði eða skattahækkunum.

Annað vandamál er við hvaða gengi ætti að miða.  Það væri hagstæðast fyrir ríkið að gengi krónunnar væri sem veikast, því þá myndi minnsta gjaldeyrinn þurfa.  Lágt skiptigengi myndi hins vegar líka þýða lág laun, miðað við nágrannalöndin og gera Ísland að láglaunasvæði.  Fyrir þá sem eitthvað eiga, er hins vegar hagstæðast að skiptigengi krónunnar væri sem hæst, þannig að þeir fengju sem flestar evrur/franka/dollara fyrir krónurnar sínar, hvort sem þær eru á formi bankainnistæðna eða inneignar í lífeyrissjóðum.  Lágt skiptigengi myndi jafngilda eignaupptöku að þessu leyti.  

Hvað er fólk tilbúið að fórna stórum hluta af lífeyrissparnaði sinum til að geta skipt um gjaldmiðil?  10%? 20%? 50%?

Það eru hins vegar enn fleiri vandamál.

Seðlabankinn verður nánast áhrifalaus - hann getur ekki stjórnað peningamagni í umferð og hann getur ekki stjórnað stýrivöxtum - eina virka stjórntækið hans yrði bindiskyldan.  Miðað við "afrekaskrá" Seðlabankans á undanförnum árum er það ekki endilega slæmt - ef menn hafa ekki tólin þá geta þeir ekki misbeitt þeim.  Gallinn er hins vegar sá að þetta getur skapað margvísleg vandamál ef hagsveiflan hér á landi er ekki í takt við hagsveifluna í því landi sem stýrir viðkomandi gjaldmiðli.  Langtímaáhrif þessa gætu birst í atvinnuleysi og gjaldþrotum- það er í sjálfu sér ekki frábrugðið því sem við búum við núna, en munurinn er sá að þetta gæti orðið viðvarandi.

Þessu til viðbótar er sá ókostur að geta ekki "prentað peninga" eftir þörfum.  Ríki með eigin gjaldmiðil getur aukið peningamagn í umferð með því að "búa til" meiri peninga.   Þetta rýrir að vísu verðmæti gjaldmiðilsins og lýsir sér á endanum sem verðbólga (Zimbabwe er öfgakennt dæmi um þetta og sömuleiðis Þýskaland á millistríðsárunum) en getur verið nauðsynlegt á köflum, t.d. til að koma í veg fyrir samdrátt.

Noti ríki gjaldmiðil annars ríkis er þessi leið ekki fær - eina leiðin til að auka peningamagn í umferð væri að taka peninginn að láni - en slík lán þarf að borga til baka með vöxtum síðar.

Nei - þessi töfralausn mun ekki virka.


mbl.is Verðbólgan nú 17,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ríkið hefur tekið á sig þúsundir milljarða í skuldir og því verða allar lausnir að eignarupptöku. Verðbólguskotið sem um er rætt sem náttúrlegan hlut sem ekki verði hjá komist er einmitt eignarnám. Það er eignarnám hjá fólki með verðtrygð lán, fólki sem á óverðtrygðareignir í íslenskum krónum og hjá fólki með laun í íslenskum krónum. 20% verðbólguskot svarar til að leggja á 17% flatan tekjuskatt. Með því að koma í veg fyrir að ríkið geti "prenntað" sig frá vandanum með tilheyrandi verðbólgu verður eignartakan þó aðeins sýnilegri og auðveldara að ræða hana pólitískt. Ég er til dæmis á því að við ættum að taka meira af eigum auðmanna og minna af eigum barnafjölskyldnanna. Meðan að peningaprentunin er notuð sem "ósýnileg" leið til að gera eignarupptöku verður það ekki gert.

Hvað varðar upptöku á erlendum gjaldmiðli að þá lýst mér illa á það. Þá vil ég frekar nota lánin og eignarupptöku hjá auðmönnum til að kaupa gullforða (eða jafnvel álforða) og setja gullfót undir nýja krónu.

Héðinn Björnsson, 26.11.2008 kl. 14:41

2 identicon

Hræðsluáróður.

Það að seðlabankinn með krónu geti sveiflujafnað aðstæðum  er bara bull.  Setning sem Davíð Oddson og aðrir hanbendlar í flokknum hafa logið svo lengi ofaní okkur Íslendinga að menn eru farnir að taka þá lygi eins og sannleika.

Lærdómurinn af krónunni okkar er sá að hún hefur leitt til óþagots á alla vegu, þenslu ævintýris móti ofurkreppu.  Offjárfestinga á móti fjárfestingafrosta osfrv.

Fullyrðingar þínar um að það kosti gríðarlega fjármuni að skipta krónunni út og að fólk þurfi að fórna hluta af lífeyrissparnaði sínum vegna skipta eru að mestu rangar, ekki byggðar á traustari grunni en sandi.  Það hefur oft verið skipt um gjaldeyrir hjá þjóðum áður, án mikilla erfiðleika ef það er rétt gert.

Varðandi hagsveiflur, þá eru hagsveiflur á Íslandi í takt við hagsveiflur í Evrópu, til langstíma.  Við höfum haft eina "breytu" sem hefur leitt öðru hvoru til breytinga í hagsveiflu okkar miðað við þær þjóðir. En það auka delta gildi fellst í heimatilbúnum vandamálum vegna AFBURÐA HEIMSKRA STJÓRNVALDA.  Með upptöku evru mun hagsveifla okkar verða samskonar og annarra evrópuríkja.

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 18:30

3 Smámynd: Púkinn

Krónan sem slí hefur ekki leitt til óðagots, þensluævintýra o.s.frv., heldur er þar við lélega hagstjórn að sakast.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að ef hagkerfið hér hefði verið rekið þannig að við myndum uppfylla skilyrðin til að mega taka upp Evru, þá væri engin örf á að gera slíkt.

Ég sé hins vegar ekkert sem hrekur þá fullyrðingu mína að einhliða upptaka annars gjaldmiðils (þ.e.a.s. án stuðnings viðkomandi seðlabanka) sé okkur einfaldlega of dýr.

Púkinn, 26.11.2008 kl. 18:39

4 Smámynd: Árni Steingrímur Sigurðsson

@Jósep

Sjálfstæður gjaldmiðill er kostur.

Gallin er að það þarf að hafa góða hagstjórn til að nýta möguleikana.

Gjaldmiðill sem stjórnast af markaðssvæði sem þú selur vörur þínar á er kostur.

Gallin er að það þarf að hafa góða hagstjórn til að nýta möguleikana.

Árni Steingrímur Sigurðsson, 28.11.2008 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband