Allt sem fer upp....

Það má vera að einhverjum sem keyptu húsnæði fyrir nokkrum misserum síðan sárni þegar þeir eru sakaður um þá heimsku að hafa keypt fasteignir á fáránlegu yfirverði,  en raunin er sú að það mátti öllum vera augljóst að að fasteignaverð var orðið allt, allt of hátt á þeim tíma.

Augljósasta vísbendingin um það var hinn gífurlegi fjöldi íbúða sem var í byggingu og sömuleiðis sá fjöldi byggingaraðila sem stefndi að því að græða á íbúðabyggingum.  Þegar staðan er sú að hægt er að stórgræða á íbúðabyggingum er ljóst að munur á byggingarkostnaði og söluverði er orðinn óeðlilega hár.  Sú einfalda staðreynd hefði átt að vekja fólk til umhugsunar.

Jafnvel þótt ekki hefði komið til bankakreppu á Íslandi er næsta víst að íbúðarverð hefði lækkað að raunvirði - það stefndi í offramboð á íbúðum og slíkt leiðir alltaf til lækkunar.

Með öðrum orðum - þessi lækkun er eðlileg og óhjákvæmileg - þetta er ekki bara hluti af ráðagerð peningamanna um að ná til sín fasteignum þjóðarinnar á undirverði og neyða eignalausa þjóðina síðan til að leigja til baka húsnæðið.

Einhverjir gerðust síðan sekir um enn meiri heimsku með því að taka gengisbundin lán á þeim tíma þegar krónan var allt, allt of sterk.  Púkinn á mjög erfitt með að skilja hvernig nokkur gat rökstutt þá ákvörðun, því varnaðarorð heyrðust úr öllum áttum - útflutningsfyrirtækin börðust í bökkum og voru jafnvel að flytja starfsemi sína úr landi - Viðskiptahallinn var gengdarlaus og öllu haldið uppi með "ódýru" erlendu lánsfé.

Margir bentu á að þessi staða gæti ekki varað til frambúðar - það væri ekki spurning um hvort krónan myndi falla, heldur bara hvenær og hversu mikið.

Þeir sem hunsuðu þessi varnaðarorð og eru núna að sökkva í skuldafen geta í raun engum kennt um nema sjálfum sér.

Og þó...

Í einhverjum tilvikum var þessum erlendu lánum beinlínis otað að fólki af bankastarfsmönnum, án þess að fólk væri upplýst um þá gengisáhættu sem þeim fylgdi.   Hafi einhverjir fjármálaráðgjafar beinlínis mælt með þessum lánum á síðasta ári, jaðrar það við glæpsamlega vanrækslu að mati Púkans.

Á endanum ber fólk samt ábyrgð á eigin gerðum og getur ekki krafist þess að samfélagið bjargi því frá öllum afleiðingum eigin mistaka. Ef það ætti að gefa þeim eftir skuldir sem fóru of geyst í húsnæðiskaupum mætti spyrja hvort líka hefði átt að gefa þeim eftir skuldir sem töpuðu á Decode hlutabréfum, nú eða steyptu sér í skuldir í fjárhættuspilum.

Já - það getur verið erfitt að þurfa að taka afleiðingum eigin ákvarðana þegar þær eru rangar, en oft er lítið annað hægt.


mbl.is 25 til 30% lækkun þarf á fasteignamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Tja, fyrir fjórum árum var verðið nú ekki búið að ná þessum yfirgengilegu hæðum - þannig að það þarf ekki að vera neitt slæmt.  Hefðir þú hins vegar keypt fyrir einu og hálfu ári (eða svo), tja.....

Púkinn, 15.12.2008 kl. 13:32

2 Smámynd: Gunnar Björn Björnsson

Já skemmtilega framsett en glórulaus rök því ef þú tekur verðbætur og lækkun fasteigna þá eru 25-30 % ekki rétt tala, verið er að ræða um beina lækkun fasteigna fyrir utan þær verðbætur sem safnast saman og leggjast á höfuðstól lána " fylgir stýrivöxtun líka og ekki veit ég að almenningi verði kennt um það, En ef þú vilt horfa svona á þetta þá er það líka í fínu þú tekur jafnmikið á þig og hinir ef heimilin fara á hausinn og sleppur ekkert Þar hahahaha " þannig að segja "ykkur er nær" er full gróft finnst mér aðstæður og stjórnun síðastliðið misseri er fyrir neða allt sem gott getur heitið og kjánalegt að skjóta á þennan máta og lítilsvirða líka þá sem eru búnir að eiga hús í 20 ár. hversu lengi sem eignir hafa verið í eigu einstaklinga er fréttinn kjánaleg og svar þitt svipað að mínu mati.  Mér er hreint ekki sama um heimilin í landinu og fólkið, ég vegna starfs míns gæti glaðst eins og hrægammarnir yfir þessari frétt en svo er ekki staðreyndin, ég vil ekki hafa það gott á eymd annara.

Gunnar Björn Björnsson, 15.12.2008 kl. 13:49

3 Smámynd: Púkinn

Gunnar Björn: Mér sýnist þú misskilja fréttina, og/eða mig.

20-30% raunlækkun fasteigna getur vel þýtt að fasteignaverð fari undir byggingakostnað - það er ekki eðlileg staða til lengdar en getur vel skeð tímabundið, ef framboð fasteigna er mun meira en eftirspurnin.

Púkinn, 15.12.2008 kl. 14:34

4 Smámynd: Sigurbjörg

Allt sem fer upp ...  fer niður aftur ... ekki rétt, verðtryggðu lánin fara ekki niður aftur 

Sigurbjörg, 15.12.2008 kl. 20:57

5 Smámynd: Púkinn

Jú, ef fólk borgar af þeim.

Púkinn, 15.12.2008 kl. 21:24

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Tek undir með þér Púji, þótt ég hafi keypt mitt húsnæði fyrir 4 árum með myntkörfuláni! 

Það er samt ómögulegt fyrir mig (einstæða móður) að borga afborganir með verðlausri krónu, en ég sætti mig við að afborganir hlaðist upp í stuttan tíma.  Finnst ég samt vera "svikin" af peningastefnu strjórnvalda í upplýstum heimi...en ætlast ekki til að aðrir taki ábyrgð á mínum skuldum!

ps;

Vil einnig taka fram að ég lærði í DK og tala nokkur tungumál reiprennandi og hef því B-plan....skila lyklinum og flytja út! (...en ég vil búa hér heima, það er bara spurning um framtíð næstu kynslóðar?)

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.12.2008 kl. 21:42

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Verðlausa verðtryggða krónan er bara farin að verða okkur mjög dýrkeypt. Annars langar mig að spyrja Friðrik hvort hann sé sama sinnis um atvinnurekendur sem tóku erlend lán.

Við vitum að ríkið er að taka 6-700 milljarða lán til þess eins að halda krónunni á floti. Ætli hin gríðarlega skuldsetning heimila og fyrirtækja í erlendum myntum hafi nú ekki ráðið einhverju um þá ákvörðun stjórnvalda?

Þannig er lántaka heimila og fyrirtækja nú þegar búin að kosta ALLA skattgreiðendur stórfé. Við ættum því frekar að spyrja hvort sú hlutdeild hins opinbera eigi að vera hærri en hún er orðin.

Theódór Norðkvist, 16.12.2008 kl. 02:17

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Theodór ...þú ert á hraðri leið til sannkeikanns!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.12.2008 kl. 02:52

9 Smámynd: Héðinn Björnsson

Félagsleg aðstoð byggist á því hvort við teljum ekki að við sem samfélag eigum að koma þeim til aðstoðar sem lenda undir í samfélaginu. Oft er ástæða þess að fólk lendir undir algerlega á eigin ábyrgð og stundum er það á engan hátt neitt sem það gat komið í veg fyrir og yfirleitt einhver blanda af þessu tvennu eins og ég tel vera tilfellið hérna. Við veljum samt á Íslandi að hafa félagslega aðstoð vegna þess að það býr til betra samfélag fyrir okkur öll. Ef við getum komið í veg fyrir fjöldagjaldþrot og landsflótta þá er það ávinningur fyrir samfélagið allt, ekki bara þeim sem komið var undan gjaldþroti. Að greina að hversu miklu leiti fólk sem er í vondum málum efnahagslega vegna húsnæðiskaupa sem það reyndist ekki ráða við er ekki endilega sú greining sem er mikilvægust þessa dagana. Það er mun brýnna að greina hvernig við getum aðstoðað fólk sem á undir högg að sækja í þessu samfélagi á sem sanngjarnastan og skilvirkasta hátt svo við getum búið til samfélag saman sem við getum verið stollt af.

Héðinn Björnsson, 16.12.2008 kl. 09:31

10 Smámynd: Davíð Pálsson

Voru það mistök að áætla að ríkisstjórninni tækist að halda verðbólgu eitthvað nálægt verðbólgumarkmiði sínu/seðlabankans?

Síðustu vikur hefur það komið í ljós hversu gagnlaus ríkisstjórnin er og því er það orðið ljóst að hún hafði aldrei möguleika á að halda sig nálægt markmiðunum.

Davíð Pálsson, 16.12.2008 kl. 09:47

11 Smámynd: Púkinn

Vandamálið með verðbólgumarkmiðið er að Seðlabankinn gerði grundvallarmistök, með því að beita vaxtahækkunum gegn þeim - það dugar best þegar kerfið er lokað og verðbólgan er vegna innri þenslu.  Það dugði ekki hér á Íslandi vegna þess að há vextirnir "bitu" ekki - menn tóku bara erlend lán.  Seðlabankinn hækkaði vextina bara meir og meir, sem gerði krónubréfin allt of áhugaverð og afleiðingarnar sitjum við uppi með í dag.

Seðlabankinn hefði átt að hemja útlánagleði bankanna, með öðrum aðferðum, en þá hefði hann orðið fyrir gagnrýni úr öllum áttum fyrir að koma í veg fyrir að fólk fengi "hagstæð" lán til íbúðakaupa og fólk hefði krafist afsagnar seðlabankastjóra.

Púkinn, 16.12.2008 kl. 10:55

12 Smámynd: Billi bilaði

Ég er að mestu leiti sammála þessari grein, en Púki, átti líka að gera ráð fyrir að húsnæði (og bílar) yrðu óseljanlegar eignir, þannig að eina leiðin yrði gjaldþrot og ónýt kennitala í fjölda ára? Verður ekki að vera útgönguleið fyrir fólk?

Hvernig væri nú að fá úttekt á þessari leið sem kom fram hjá einstaklingi í Kastljósi fyrir nokkru, að hætta strax að borga af og taka skellinn frekar fyrr en seinna?

Ég segi fyrir mig að ekki ætla ég að kenna neinum öðrum um þau lán sem ég borga af, og myndi ekki syrgja lengi ef ég gæti sett eignir upp í skuldir og staðið uppi skuldlaus og á byrjunarreit. En það að sjá fram á að geta ekki einu sinni verið á byrjunarreit, heldur sjá fram á að byrja jafnvel í stórum mínus, það er virkilega óhugnanlegt. Var kannski heimska að hafa ekki allar sínar eignir í ehf fyrirtækjum og bera bara lágmarksábyrgð eins og hæstvirtur menntamálaráðherra og hennar maki?

Get ég kannski núna látið ehf félag kaupa húsið og bílinn og labbað svo í burtu?

Billi bilaði, 16.12.2008 kl. 14:02

13 Smámynd: Púkinn

Útgönguleið?   Tja - það er engin góð lausn á þessu vandamáli.  Persónulega lýst mér illskást á hugmyndina sem kom fram um að íbúðalánasjóður eignaðist hluta af íbúðinni og menn borguðu leigu fyrir þann hluta, en borguðu síðan af þeim lánum sem kvíla á þeim hluta sem kaupandinn á.

Þeitta ætti að lækka greiðslubyrðina og tryggja að fólk fær að búa í sínu húsi - gallinn er auðvitað sá að eignamyndunin er minni - þegar lánið er borgað upp á fólk bara hálft hús, ekki heilt, og ef fólk reynir að selja húsið verður staðan flókin.

Eins og ég sagði - það er engin góð lausn - það þarf að skilgreina hvaða markmið eru í forgangi og reyna að ná þeim fram.

Púkinn, 16.12.2008 kl. 18:02

14 Smámynd: Kebblari

Ég myndi ekki mæla með því að fólk láti sig fara á hausinn, það getur ellt fólkið í 10 ár eða lengur þangað til fólkið getur eignast einhverja hluti aftur, þ.e. á sínu nafni. Ýktir tímar hafa verið undanfarið, það gæti orðið verhjöðnun eftir hálft ár eða svo, það er öfgarnar í hina áttina, þá getur verið gott að skulda. Ég mæli með að fólk sem á einhverja von, reyni að komast í gegnum þetta tímabil.

Sumir hafa látið ehf eiga hús og bíla, getur verið ágætt ef mikið viðhald er framundan og ehf. hafi góðar aðrar tekjur, en hlunnindaskatturinn er ansi hár. Í fæstum tilfellum er hægt að flytja húsnæðislánin yfir í ehf. nema um almenn bankalán sé að ræða. Þannig að erfitt er að láta heimili í ehf nema þú eigir það skuldlítið, eða að ehf eigi það mikið eigið fé að það hafi efn á því.

Kebblari, 16.12.2008 kl. 18:09

15 Smámynd: Einar Indriðason

Ef fólk fer í þrot, og verður gjaldþrota, þá getur það lent í því, að vera skráð gjaldþrota alla sína æfi.  Afhverju?  Jú, sá sem á skuldina getur elt fólkið, og lýst yfir skuld á hendur því, rétt þegar það þóttist vera að losna.  Haldið semsagt við skuldinni, þrátt fyrir að viðkomandi sé gjaldþrota.

Mæli semsagt ekki með því að fólk fari viljugt í þrot. 

Einar Indriðason, 16.12.2008 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband