Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Komið í veg fyrir að gjaldeyrir komist heim
Jafnvel þó útflutningsfyrirtæki vilji koma með gjaldeyri heim til Íslands eru ýmsar hindranir í veginum. Til dæmis taka nýju bankarnir ekki við erlendum ávísunum. Í fyrirtæki Púkans safnast upp erlendar ávísanir sem ekki er hægt að leggja inn, því bankinn (Nýja Kaupþing) tekur ekki við þeim.
Þau svör fást að ef til vill muni einn banki (Byr) byrja að taka við ávísunum eftir 2-3 vikur, en óvíst sé með hina bankana.
Glæsilegt ástand, ekki satt?
Rafrænar gjaldeyrismillifærslur skila sér hingað seint og illa og þar sem útflutningsfyrirtækin fá ekki að nota hluta þess gjaldeyris sem þau afla til að borga sína eigin reikninga erlendis er eina ráð þeirra að láta peningana safnast fyrir erlendis.
Það er ekki hægt að kvarta yfir því að útflutningsfyrirtækin komi ekki með gjaldeyrinn heim meðan kerfið virkar svona...eða virkar ekki, réttara sagt.
![]() |
Smátt og smátt gengur á gjaldeyrisforðann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Skyndiupptaka nýrrar myntar - veruleikafirring
Púkinn telur þá ekki í tengslum við raunveruleikann sem halda að Íslendingar geti tekið upp nýja mynt á nokkrum vikum og geti þannig á einhvern hátt komist hjá IMF láni.
Menn benda á að gjaldeyrisforði Seðlabankans dugi til að dekka peningamagn sem er í almennri umferð hér og virðast halda að það sé allt sem þarf.
Hvers konar þvættingur er þetta?
Setjum sem svo að Seðlabankinn skipti úr krónum í umferð fyrir evrur og lýsti með því krónuna úrelta. Hvað með innistæður í bönkum, eignir lífeyrissjóðanna í skuldabréfum og öll jöklabréfin. Eigendur þessara verðmæta ættu líka kröfu á að þeim væri skipt yfir í evrur.
Á Seðlabankinn evrur til þess?
NEI
Það atriði eitt og sér dæmir þessa hugmynd algerlega úr leik.
![]() |
Segir Breta hafa yfirtekið ábyrgðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Yfirvofandi skattahækkanir
Burtséð frá öllum hugleiðingum um IMF-lán, Evrópusambandsumræðu og annað slíkt, þá er ljóst að næstu árin verður að reyna að viðhalda jákvæðum jöfnuði á fjárlögum. Ríkið má ekki eyða meiru en það aflar.
Það eru engar sársaukalausar leiðir færar til að ná því marki. Annað hvort verður að skera niður útgjöld eða hækka skatta. Það er að sjálfsögðu ljóst að einhver útgjöld verða skorin niður - Púkinn býst t.d. við stærri vega- og gangnaframkvæmdum sem ekki eru þegar hafnar verði frestað um nokkur ár.
Það er einnig ljóst að öllum fyrirhuguðum skattalækkunum verður slegið á frest um óákveðinn tíma.
Stóra spurningin er hins vegar hvort skattar verði hækkaðir. Almennar skattahækkanir fengju væntanlega frekar dræmar undirtektir, þannig að Púkinn býst helst við að sjá endurupptöku sérstaks hátekjuskatts og "lúxusvörugjalda" á tilteknar tegundir af innfluttum vörum.
Einhverjir munu leggja til hækkun fjármagnstekjuskatts, en það væri ákaflega heimskuleg aðgerð að mati Púkans.
Eru einhverjir aðrir valkostir í stöðunni?
![]() |
Skattpíning mest í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Framsókn í sjálfseyðingarham?
Púkinn hefur kosið eitt og annað gegnum tíðina, en aldrei Framsókn - hann er í raun andvígur flestu því sem sá flokkur stendur fyrir. Því er ekki laust við að ofurlítið púkalegt bros læðist fram þegar framsóknamönnum tekst á svona snilldarlegan hátt að opinbera þá bullandi óeiningu og sundrungu sem kraumar innan flokksins.
Púkinn ætlar að sjálfsögðu ekki að taka afstöðu til þess hvort Bjarni eigi að segja af sér eða ekki - reyndar býst hann frekar við því að þetta sé nú ekki í fyrsta sinn sem þingmenn skjóta hvern annan í bakið í skjóli nafnleyndar, þannig að Bjarni er sjálfsagt ekkert verri en margir aðrir.
Það sem er kannski dapurlegast við þetta er að það skiptir nánast engu máli hvaða þingmaður hefði gert svona - það hefði ekki komið neinum á óvart - væntingar fólks til siðferðis þingmanna eru það lágar.
Púkinn vill að sjálfsögðu minna á það í lokin að hann kennir Framsókn um stóran hluta þeirra vandamála sem nú herja á íslenskt þjóðfélag - Framsókn ber stóran hluta ábyrgðarinnar á einkavæðingu bankanna og einnig á einnig á lánahlutfallshækkun Íbúðalánasjóðs, sem orsakaði meiri vandamál en flestir gera sér grein fyrir.
![]() |
Bjarni íhugi stöðu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Hugleiðingar um afstöðu Breta
Nú ætlar Púkinn að horfa aðeins á stöðu mála frá sjónarhorni Breta og velta fyrir sér hvað Íslendingar myndu hafa sagt ef málin hefðu snúist við - ef breskur banki með rekstur á Íslandi hefði lent í vandræðum.
Hugsum okkur að fyrir nokkrum árum hefði komið hingað stór breskur banki eins og NatWest eða HSBC. Hugsum okkur líka að hann hefði boðið ótrúlega góð kjör og náð til sín sparnaði allmargra Íslendinga.
Hugsum okkur svo að bankinn hefði lent í vandræðum - alvarlegum lausafjárskorti og ekki getað greitt innistæðueigendum. Hugsum okkur að breska ríkið hefði hlaupið til og tilkynnt að innistæður Breta hjá bankanum yrðu tryggðar að fullu, en innistæður í útibúum annars staðar (eins og á Íslandi) yrðu látnar mæta afgangi - þær væru tryggðar upp að 3 milljónum...eða kannski ekki. því innistæðusjóðurinn væri næstum tómur.
Yrðu Íslendingar ánægðir ef svona væri komið fram við okkur? Hver myndu viðbrögðin hafa orðið?
Nú er Púkinn ekki að réttlæta viðbrögð Breta - bestu viðbrögð þeirra myndu hafa verið að aðstoða Íslendinga að styðja við bankann áður en hann lenti í vandræðum...en það sem ég lýsti hér að ofan hjálpar ef til vill einhverjum að skilja viðhorf hins almenna Breta.
![]() |
Bretar segjast styðja lán IMF til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 8. nóvember 2008
Yfirvofandi skrílslæti?
Margir eru reiðir þessa dagana og margir vilja láta reiðina bitna á einhverju eða einhverjum. Þeir eru líka til sem finnst hið besta mál að magna upp óánægjuna og myndu sumir fagna því ef mótmælin snerust upp í hrein skrílslæti.
Á fólk að hlusta á aðila sem hvetja það til að mæta á staðinn með egg í vasanum - væntanlega til að grýta í Alþingishúsið eða lögregluna? Á fólk að hlusta á mótmælendur eins og Sturlu vörubílstjóra sem fór í stríð við almenning í mars?
Það er sjálfsagður réttur fólks í lýðræðisríkjum að mótmæla, en þeir sem vilja mótmæla verða að gæta þess að þeir séu ekki dregnir áfram á asnaeyrunum af aðilum sem eru engu ábyrgari en bankarnir voru. Skrílslæti og eggjakast munu ekki bæta ástandið.
Púkinn er ekki andvígur því að fólk mótmæli - síður en svo - en vill bara benda á hættuna af því að ef í hópi mótmælenda eru aðilar sem mæta með egg (eða eitthvað þaðan af verra) í vösum og grýta þeim í hvað sem fyrir verður, þá munu þeir skemma fyrir málstað mótmælenda. Hegðun þeirra mun verða umfjöllunarefni fjölmiðlanna og mótmælendurnir munu lenda í varnarstöðu, í stað þess að setja einhvern þrýsting á ráðamenn.
Ef mótmælin enda í eggjakasti munu stjórnvöld afskrifa þau sem skrílslæti og eini aðilinn sem græðir á þeim er hæstvirtur dómsmálaráðherra sem mun nota þau til að rökstyðja að þörf sé á vopnaðri óeirðalögreglu.
![]() |
Mótmæli á Austurvelli í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Munurinn á alþingismönnum og afgreiðslufólki á kassa
Fyrst þeir vilja bera sig saman við afgreiðslufólk á kassa, sjáum þá til:
- Afgreiðslufólk veit hvert starf þess er, og ef það klikkar þá er það rekið.
- Afgreiðslufólk fær ekki launaða aðstoðarmenn, löng frí og fáránleg lífeyrisréttindi.
- Fólk með dóma á bakinu fyrir fjárdrátt eða mútuþægni fengi ekki starf á kassa.
Þingmenn hins vegar....þarf ég að segja meira?
![]() |
Þingmenn eins og afgreiðslufólk á kassa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Nýir tímar í Bandaríkjunum
Fátt er svo með öllu illt... Efnahagsástandið í Bandaríkjunum leiddi til þess að mikill meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum taldi efnahagsmálin mikilvægust þegar að kosningum kom og einhverjir hafa sjálfsagt kosið Obama - ekki vegna stuðnings við hann og hans boðskap, heldur vegna óánægju með ástandið sem Bush er með réttu eða röngu kennt um.
Öryggismálin voru ekki lengur í brennidepli, sem aftur kom McCain illa.
Hvað um það - það er sama hvaðan gott kemur - Obama náði kosningu og heimurinn lítur einhvern veginn betur út í dag en í gær. Heimurinn endaði ekki með vanhæfan trúarnöttara sem varaforseta Bandaríkjanna - hársbreidd frá valdamesta embætti heims.
Á meðan koma bara nýjar fréttir af spillingu og misferli á Íslandi - nú síðast þessir hundrað milljarðar sem valdir aðilar náðu út úr Kaupþingi rétt fyrir hrun.
![]() |
Obama: Þetta er ykkar sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 4. nóvember 2008
Vill þjóðin nýja flokka?
Púkinn er nokkuð viss um að Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast gegn þingrofi og kosningum, enda biði hans ekkert annað en afhroð væri kosið á næstu mánuðum...en fari nú svo að kosningar yrðu innan árs, eru einhverjir trúverðugir valkostir í boði?
Púkinn lætur sig dreyma um að fram á sjónarsviðið komi Endurreisnarflokkurinn, skipaður fólki með vit í kollinum og báðar fætur á jörðinni - flokkur sem er fær um að takast á við fyrirliggjandi vandamál. Líkurnar á því eru hins vegar því miður mjög litlar. Púkinn vill leyfa sér að spá eftirfarandi:
Í næstu kosningum (hvenær svo sem þær verða) munu núverandi flokkar bjóða fram, og þótt einhverjar endurnýjanir verði í einhverjum þeirra mun heildarsvipurinn verða lítið breyttur. Allnokkrar líkur eru á klofningi í nokkrum flokkum og mögulegum sérframboðum óánægðra hópa innan þeirra. Einhver ný framboð munu koma fram, ýmist jaðarframboð sérhópa, eða óánægjuframboð lýðskrumara, sem aftur munu lognast út af eða klofna eftir eitt kjörtímabil
Er Púkinn svartsýnn? Kannski, en stóra vandamálið er að það fólk sem Púkinn myndi vilja sjá á þingi hefur engan áhuga á að taka þátt í þeim leðjuslag sem íslensk stjórnmál eru.
Ef hér væri sterkur, óumdeildur forseti, væri skipun þjóðstjórnar sterkur kostur, en sá kostur er tæplega fyrir hendi heldur.
Nei, ekki búast við of miklu, þó efnt yrði til kosninga.
![]() |
Menntamálaráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 4. nóvember 2008
Munu repúblikanar stela kosningunum (aftur)?
Sumir segja þá veruleikafirrta sem trúa því að Bandaríkin séu lýðræðisríki þar sem haldnar eru réttlátar kosningar. Púkinn vill ekki taka alveg svo djúpt í árinni, en eftir því sem meira hefur komið í ljós um framkvæmd kosninganna 2004, því erfiðara er að kalla þær réttlátar.
Fyrst vill Púkinn minna á eftirfarandi: Framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum er að mestu leyti í höndum yfirvalda á hverjum stað. Þau taka ákvörðun um hluti eins og fjölda og staðsetningu kjörstaða. Til að mega kjósa þurfa menn að skrá sig á kjörskrá og ef eitthvað er að mati yfirvalda athugavert við þá skráningu geta menn lent í því á kjörstað að uppgötva að þeir eru ekki skráðir og mega ekki kjósa.
Það má segja að í Bandaríkjunum séu ekki haldnar einar kosningar, heldur 13.000, stjórnað af 13.000 mishæfum (og misheiðarlegum) aðilum. Það er ekki skrýtið að ýmislegt skuli hafa farið úrskeiðis - en af einhverjum ástæðum virðast misfellurnar flestar hafa verið repúblikönum í hag.
Á meðfylgjandi mynd er minnst á nokkur af þeim atriðum sem komu upp, en þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þetta nánar er bent á Google og lykilorð eins og "2004 election stolen".
![]() |
Obama sigraði í Dixville |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |