Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjóðin og myntkörfulánin

euroPúkinn á bágt með að skilja þá sem tóku myntkörfulán á árinu 2007, þegar öllum hefði átt að vera augljóst að krónan var allt, allt of sterk og það væri ekki spurning um hvort hún myndi falla hressilega, heldur bara hvenær.  Að taka myntkörfulán á þessum tíma jafngilti í raun stöðutöku í krónunni án öryggisnets - fólk var að veðja á að krónan myndi haldast sterk.

Fólk á ekki að stunda þannig gengisbrask nema það viti 100% hvað það er að gera, hver áhættan er og ef það hefur efni á tapinu ef hlutirnir ganga ekki upp.

Það átti ekki við um stóran hluta þeirra sem tóku svona lán - en hvers vegna gerði fólk þetta?  Var ein skýringin að bankarnir voru að ota þessum lánum að fólki, þótt þeir gerðu sér mæta vel grein fyriráhættunni og því að aðeins væri spurning um tíma þangað til krónan félli og þessi lán myndu snarhækka?

Hver er hin siðferðislega og lagalega ábyrgð bankanna, miðað við að þeir gerðu sér grein fyrir yfirvofandi hruni og vernduðu sjálfa sig gegn því með stöðutöku gegn krónunni?

Báru þeir enga ábyrgð á því að vara fólk við áhættunni?   Eða, vildi fólk bara fá að hegða sér eins og fífl í friði?


mbl.is Árás á fullveldi þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað veðjuðu menn á veikingu krónunnar

Púkanum finnst ekki skrýtið að bankarnir skuli hafa veðjað á veikingu krónunnar á þeim tímapunkti þegar hún var allt, allt of sterk.  Ef Púkinn stæði í gjaldeyrisbraski myndi hann hafa gert það sama.

Ástandið var einfaldlega ekki eðlilegt 2006/2007, þegar ofurvextir seðlabankans og stöðug útgáfa jöklabréfa héldu krónunni uppi og útflutningsfyrirtækjunum blæddi út.  Nei, menn sáu að krónan hlut að falla fyrr eða síðar og stöðutaka gegn henni var það eðlilegasta sem hægt var að gera.

Það er ekkert óeðlilegt við það.

Það sem var hins vegar ekki eðlilegt var að á sama tíma voru bankarnir að hvetja fólk til að taka stöðu með krónunni, með því að taka myntkörfulán - með öðrum orðum - bankarnir voru að veðja á að krónan myndi falla, en voru á sama tíma að ota myntkörfulánum að fólki - lánum sem þeir vissu að myndu hækka gífurlega þegar krónan félli.


mbl.is Veðjuðu á veikingu krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það versnar áður en það batnar...

Traust til krónunnar er gersamlega hrunið erlendis.  Þetta eru góðar fréttir fyrir útlendinga sem fara í bankana sína og fá 300 krónur fyrir hverja evru og koma hingað með troðnar ferðatöskur, fullar af krónum.

Til lengri tíma litið verður að reyna að byggja upp eitthvað lágmarkstraust á krónunni, þannig að utanríkisviðskipti geti gengið eðlilega fyrir sig.  Hluti af því ferli er að stefna Seðlabankans sé trúverðug, en líti ekki út eins og hringlandaháttur ráðlausra manna.

Það að lækka fyrst stýrivextina hressilega og hækka þá síðan strax aftur er ekki til þess fallið að auka traust manna á Seðlabankanum og það gildir einu hvort þessi hækkun er tilkomin vegna krafna IMF eða ekki.  Málið er hins vegar að þessi hækkun er hugsanlega óhjákvæmileg - án hennar væru raunstýrivextir neikvæðir og það gæti jafnvel litið enn verr út - myndi meðal annars hafa í för með sér algeran fjármagnsflótta úr landi og enn frekara hrun krónunnar.

Það að hækka stýrivextina núna er hins vegar ákaflega sársaukafull aðgerð fyrir marga, en það má rökstyðja að óbreyttir (eða lækkaðir) vextir hefðu gert stöðuna enn verri til lengri tíma litið. 

Ástandið hér á landi á hins vegar eftir að versna til muna á næstunni.  Púkinn á von á því að gjaldþrotum fyrirtækja fjölgi til mikilla muna frá því sem nú þegar er útlit fyrir, atvinnuleysi snaraukist og sömuleiðis brottflutningur frá landinu.  Ástandið gæti orðið eins og í Færeyjum þegar allt hrundi þar, með 25% fyrirtækja gjaldþrota, og 10% þjóðarinnar flutt í burtu.

Ástandið ætti hins vegar að vera orðið gott eftir 8-10 ár.


mbl.is Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir munu ekki geta greitt laun um mánaðarmótin?

Það er ekki svo langt síðan að banki fyrirtækis Púkans þrýsti á að sá reikningur sem notaður er til að greiða laun um hver mánaðarmót yrði færður yfir í peningamarkaðssjóð.

Því "góða" boði var hafnað, en Púkinn getur ekki að því gert að hann veltir fyrir sér hve mörg fyrirtæki séu nú með lausafé sitt fast í slíkum sjóðum og lendi hugsanlega í vandræðum með launagreiðslur um mánaðarmótin því þau geti ekki hreyft peningana.

Þetta breytist auðvitað þegar aftur verður opnað fyrir sjóðina og í ljós kemur hve mikið er í raun eftir í þeim, en málið er að að lausafjárkreppan gæti skollið á fleirum en aðeins bönkunum.

 


mbl.is 151 sagt upp hjá ÍAV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íelendingar og verðbólga

Púkinn vill leyfa sér að benda á tvær greinar sem ættu að vera skyldulesning.

Annars vegar grein Vilhjálms Þorsteinssonar: Klúðurslisti Seðlabankans.

Hins vegar grein eftir Púkann frá í apríl: Íslendingar skilja ekki verðbólgu

Nú er Púkinn ekki að segja að Seðlabankinn beri einn ábyrgð á núverandi ástandi.  Hluti ábyrgðarinnar liggur hjá stjórnmálamönnum, fjármáleftirlitinu, bankamönnum og jafnvel forsetanum og fjölmiðlum. 

Það má líka kenna stórum hluta almennings um ástandið - fólki sem magnaði upp ástandið og hegðaði sér eins og fífl - tók sér myntkörfulán þegar ítrekað var bent á að krónan væri allt of sterk.

Það er hins vegar því miður staðreynd að afleiðingar hrunsins lenda ekki á aðilum í hlutfalli við þá ábyrgð sem þeir bera á að ástandið myndaðist.


mbl.is Verðbólgan nú 15,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna þagðirðu áður?

Björgólfur, þú segir að krónan hafi verið of hátt skráð áður.  Það er rétt hjá þér, en hvers vegna bentir þú ekki á það áður?

Hvers vegna stóðstu ekki upp þegar dollarinn kostaði aðeins 60 krónur og sagðir: "Þetta gengi er ekki raunhæft!  Það eru bara fífl sem taka gengisbundin lán á þessu gengi."

Á þeim tíma hefði verið tekið mark á þér.  Þá hefðir þú getað bjargað mörgum.

Það er svolítið seint í rassinn gripið að segja þetta núna.


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komast Íslendingar upp með að mismuna sparifjáreigendum?

Það er ekki enn ljóst hvort íslensk stjórnvöld munu komast upp með að mismuna sparifjáreigendum eftir þjóðerni.   Ráðamenn segjast annars vegar ætla að tryggja allar bankainnistæður Íslendinga en hins vegar ekki bera ábyrgð á IceSave innistæðum nema upp að 3 milljónum eða svo.

Þetta tvennt fer illa saman - því að það að ábyrgjast innistæður hluta sparifjáreigenda að fullu en innistæður annarra aðeins að takmörkuðu leyti er nokkuð augljós mismunun eftir þjóðerni - nokkuð sem ekki er liðið samkvæmt EES samningnum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnvöld hyggjast snúa sig út úr þessu og þótt Púkinn sjái nokkrar leiðir er engin þeirra snyrtileg og líklegast að niðurstaðan verði málaferli sem gætu staðið næsta áratuginn.


mbl.is Ágreiningur um lagatúlkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll (ál)eggin í sömu körfunni

Púkinn hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að heimskulegt sé að einblína aðeins á áliðnaðinn þegar menn vilja efla atvinnustarfsemi á tilteknum svæðum.  Lækkandi heimsmarkaðsverð á áli þýðir að auki lægri greiðslur til íslenskra orkufyrirtækja, þótt gengisfall krónunnar vegi þar á móti.

Ne, Púkinn vill sjá fjölbreyttara atvinnulíf - atvinnulíf sem byggist á útflutningi smærri fyrirtækja i eigu Íslendinga - atvinnulíf sem byggist á hugviti, en ekki eingöngu verksmiðjuvinnu.

Undanfarin ár hafa íslensk útflutningsfyrirtæki nánast verið lögð í einelti - hágengisstefnan lék þau grátt meðan þjóðin fór á neyslufyllerí en nú hefur pendúllinn sveiflast til baka og þessi fyrirtæki eru meðal fárra sem eru líkleg til að bæta við sig starfsfólki í núverandi árferði.


mbl.is Fer yfir áform um Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakönnun - hvað myndir þú kjósa?

Ef alþingiskosningar væru haldnar í dag, hvað myndir þú kjósa?  Taktu þátt í skoðanakönnuninni hér til hliðar og lýstu þinni afstöðu.


mbl.is Ísland á hagstæðu verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nema 2.000.000 á hvert mannsbarn

Þetta smálán sem þarna er sótt um jafngildir um 2 milljónum króna á hvert mannsbarn í landinu.  Þetta hljómar eins og hin sæmilegasta tala, en er í rauninni aðeins hluti þess sem þarf.

Heildarupphæðin sem íslenska ríkið gæti þurft að fá gæti verið fjórum sinnum hærri en þetta lán, en þetta er skref í áttina.

Púkinn vonast hins vegar til að IMF setji skilyrði um aukinn aga í ríkisfjármálum - en sum þeirra skilyrða gætu orðið sársaukafull.  Það verður t.d. að útrýma fjárlaga- og viðskiptahalla - og halda launahækkunum og útþenslu hins opinbera niðri.   Þetta mun þýða niðurskurð og seinkun framkvæmda - með meðfylgjandi samdrætti og atvinnuleysi - slæmt fyrir þá sem lenda í þessu en nauðsynlegt fyrir þjóðarbúið í heild.

Það er reyndar spurning hvort þetta lán dugar eitt og sér til að styðja við gengi krónunnar, þannig að eðlilegt gengi myndist á henni erlendis.  Þegar Seðlabanki Evrópu afskrifaði í raun krónuna var gengi evrunnar um 300 krónur, sem er tæplega raunhæft.  Hvort það tekst að ná fram stöðugu gengi í kringum 150 kr/evra eins og reynt er að halda uppi þessa dagana er hins vegar óljóst.  Púkinn er hins vegar á því að engin von sé til að gengi krónunnar styrkist frá því gildi.


mbl.is Óska eftir 6 milljörðum dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband