Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Húrra! Við náðum ekki kjöri!

Fyrst Ísland náði ekki kjöri er einni vitleysunni færra til að eyða peningum í.   Það má vera að einhverjir líti á þetta sem álitshnekki fyrir Ísland, en fyrir þjóðina eru þetta góðar fréttir.

Það eru aðrir og betri hlutir sem ber að eyða peningum í núna.


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krísa útflutningsfyrirtækjanna.

Innflutningur til landsins er í hættu vegna gjaldeyrisskorts og af þeim sökum hefði mátt búast við að stjórnvöld myndu gera allt sem þau gætu til að liðka fyrir aðstreymi gjaldeyris til landsins.

Sú er þau ekki raunin og ástandið er að komast á það stig að útflutningsfyrirtæki munu brátt hætta að flytja gjaldeyri til landsins, heldur bara leyfa honum að safnast fyrir á reikningum erlendis.

Ástæða þess er einfaldlega sú að útflutningsfyrirtækin fá ekki fyrirgreiðslu til að senda hluta þess gjaldeyris sem þau afla aftur úr landi - fá ekki að greiða erlendum starfsmönnum laun eða greiða birgjum sínum erlendis.

Það gildir einu þótt um sé að ræða gjaldeyri sem fyrirtækin eiga þegar liggjandi á reikningum á Íslandi eða aðeins sé um að ræða örlítið brot þess gjaldeyris sem fyrirtækin afla.  Nei, sökum þess að fyrirtækin stunda ekki innflutning á nauðsynjavöru eins og mat, lyfjum eða eldsneyti fá þau ekki fyrirgreiðslu.

Viðbrögð fyrirtækjanna eru auðvitað fyrirsjáanleg - til hvers ættu fyrirtæki sem afla gjaldeyris að flytja hann hingað, ef þau fá ekki að nota hluta hans til að geta viðhaldið eðlilegum rekstri?  Af hverju ekki bara leyfa honum að sitja á reikningum erlendis eða hjá erlendum dótturfyrirtækjum?

Afleiðingin mun á endanum verða sú að minni gjaldeyrir berst hingað, en það er síst af öllu það sem þjóðarbúið þarf á að halda þessa dagana.


mbl.is Lán IMF fullnægir ekki þörf ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ha..ég, Íslendingur? Neeeiii....

Það er af sem áður var, þegar það var stíll yfir því að vera Íslendingur erlendis - meðlimur þjóðar sem spreðaði peningum út um allt - já, þá vildu allir vera vinir Íslendinga.

En, nú er staðan breytt - og íslendingar stefna í það að verða álíka velkomnir og...tja, samkynhneigðir, múslímskir kommúnistar í Alabama.

Eigum við ekki bara að segjast vera frá Garðarshólma?


mbl.is Vilja ekki íslensku sinfóníuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er grundvöllur fyrir hlutabréfamarkaði á Íslandi?

Fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði fer stöðugt fækkandi.  Þessi þróun kemur Púkanum að vísu ekki á óvart, en Púkinn vill í því sambandi benda á grein sem hann skrifaði í maí (sjá hér)

Afskráningar nokkurra fyrirtækja eru á döfinni og ekki er útlit fyrir að sú þróun snúist við á næstunni.  Það skyldi þó aldrei enda þannig að fyrr eða síðar verði færeysk fyrirtæki þau einu sem verða skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn?


mbl.is Engin viðskipti með fjármálafyrirtækin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálakreppan og bandarísku kosningarnar

elecion08animatedbackground.jpgPúkinn er nokkuð sannfærður um að þegar sagnfræðingar framtíðarinnar skoða yfirstandandi atburði munu þeir komast að þeirri niðurstöðu að efnahagskreppan hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Málið er bara að þau áhrif gætu orðið á hvorn veginn sem er.  Ef núverandi stjórnvöldum tekst að sleppa fyrir horn, bjarga bönkunum og ná bandaríska hlutabréfamarkaðinum upp úr þeirri lægð sem hann er í, þá gæti það orðið til þess að repúblikanar myndu sigra eftir allt saman - og  heimurinn sæti upp með "trúarnöttara" í embætti varaforseta - hársbreidd frá valdamesta embætti heims.

Það er hins vegar nokkuð ljóst að húsnæðiskreppan í Bandaríkjunum mun ekki leysast fyrir kosningar og milljónir Bandaríkjamanna munu (með réttu eða röngu) láta reiði sína bitna á núverandi valdhöfum og kjósa demókrata, en það gæti fleytt Obama í forsetastólinn.

Púkinn er að vísu á þeirri skoðun að það sem Bandaríkin þyrftu á að halda væri að kjósa Ralph Nader til forseta, en af þeim tveim kostum sem eru raunhæfir er Obama nú sennilega illskárri.


mbl.is 250 milljarðar dala til bandarískra banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar blóðið flæðir um göturnar...

Einn af þekktari fjárfestum heims sagði eitt sinn að rétti tíminn til að fjárfesta væri þegar blóðið flæddi um göturnar - þegar allir væru uppfullir af vonleysi og svartsýni og eignir væru á útsölu.

Philip Green virðist fylgja þessari stefnu og lífeyrissjóðirnir eru nú að horfa til þess sama.   Það er þó full ástæða til að fara varlega - þótt hlutir hafi fallið í verði er engan veginn víst að þeir geti ekki fallið enn frekar.  Íslendingar mega ekki við því að lífeyrissparnaður þeirra sé settur í neitt nema fullkomlega traustar fárfestingar.


mbl.is Lífeyrissjóðir skoða Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli forsetinn skammist sín núna?

Í apríl síðastliðnum gagnrýndi Púkinn að Baugur skyldi hafa fengið útflutningsverðlaun forseta Íslands, enda væri þetta ekki útflutningsfyrirtæki og hagsmunir þeirra stönguðust á við hagsmuni raunverulegra útflutningsfyrirtækja. (sjá þessa grein)

Eins og Spaugstofan benti á um helgina var útflutningur Baugs aðallega í formi peningaútflutnings til Bahamaeyja.

Þótt forsetinn beri í raun ekki neina ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þjóðinni er Púkinn samt á þeirri skoðun að hann ætti að skammast sín - og biðja þjóðina opinberlega afsökunar á undirlægjuhætti sínum gagnvert útrásarmógúlunum undanfarin ár.

Púkinn á hins vegar ekki von á því hann geri neitt slíkt.


mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt er svo með öllu illt....

Svona til að fá smátilbreytingu frá neikvæðum og niðurdrepandi blogggreinum um ástand efnahagsmála vill Púkinn benda á að einstaka jákvæðar hliðar fylgja yfirstandandi ósköpum.

Þar er Púkinn ekki að tala um að þjóðin læri vonandi einhverjar lexíur á þessu og að græðgivæðingin verði ekki eins áberandi á komandi árum - nei, Púkinn er að horfa til jákvæðu smáatriðanna.

Íbúar við Skerjafjörðinn hafa á undanförnum misserum orðið fyrir ónæði af auknu flugi einkaflugvéla og þyrlna, en nú er útlit fyrir að verulega dragi úr því, þegar sumir neyðast til að selja þessi faratæki sín úr landi.

Já, fátt er svo með öllu illt....


mbl.is Stjórn Nýja Glitnis skipuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útflutningsfyrirtækin: Ljós í myrkrinu

Þegar bankamanían stóð sem hæst voru útflutningsfyrirtækin algerar hornrekur.  Þessi fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðli en útgjöld að hluta (eða jafnvel mestu leyti) í íslenskum krónum, urðu að sæta því að fá færri og færri krónur fyrir dollarana sína og evrurnar.

Þetta gerðist á sama tíma og launakostnaður rauk upp í mörgum greinum, þegar bankarnir soguðu til sín tölvufræðinga, stærðfræðinga, verkfræðinga og viðskiptafræðinga.

Ef útflutningsfyrirtækin báru sig aumlega og reyndu að benda á að hin óeðlilega sterka króna ógnaði hag þeirra, var þeim efnislega sagt að halda sér saman - það væru bara eðlileg ruðningsáhrif ef þeim væri ýtt út af markaðnum.

Núna er staðan breytt.  Þau útflutningsfyrirtæki sem ekki tókst að útrýma horfa nú fram á betri tíma.  Sum þeirra fluttu að vísu starfsemi sína að hluta úr landi þegar ástandið var sem verst, önnur drógu saman seglin eða steyptu sér í skuldir, en einhver eru þó enn eftir.

Núna er allt í einu gott að eiga skuldlaust útflutningsfyrirtæki, sem flytur út vörur eða hugvit en fær í staðinn harðan gjaldeyri.

Það var kominn tími til.


mbl.is Hagnaður Össurar eykst um 480%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannlegir harmleikar

fire_02.jpgÍslenska þjóðin minnir Púkann á hóp fólks sem hefur flúið brennandi hús - stendur fyrir utan og horfir á  eldsvoðann.  Sumir eru með allar eigur sínar í höndunum, en aðrir eru bara vafðir inn í handklæði og horfa á aleigu sína fuðra upp.

Allir eru að fylgjast með slökkviliðinu fást við eldinn en ekki er enn búið að athuga hvort allir hafi virkilega sloppið út.

Nú þegar eru farnar að ganga sögur um að fleiri en einn hafi ekki höndlað álagið og stytt sér aldur - menn sem voru ríkir fyrir skömmu síðan, en standa nú uppi slyppir og snauðir og geta ekki horfst í augu við það.

Hvort sem þær sögur eru sannar eða ekki, er víst að margir mannlegir harmleikar eru í uppsiglingu.  Púkinn veit um ungt fólk sem hefur aldrei á ævinni þurft að horfast í augu við erfiðleika fyrr en núna.  Fólk sem vinnur í banka og keypti hlutabréf í bankanum sínum, fullt bjartsýni - já, fékk sér jafnvel myntkörfulán (til viðbótar við bílalánið og húsnæðislánið) til að kaupa fleiri hlutabréf.  Nú er allt farið - Fólkið stendur uppi eigna- og jafnvel atvinnulaust og er að reyna að átta sig á hvað gerðist.

Púkinn veit líka um námsmenn erlendis, sem horfa á allar sínar áætlanir í algeru uppnámi - fjárhagsáætlanir í rúst og framtíðin í óvissu.

Jafnvel þeir sem hafa allt sitt á hreinu, sofa með evrubunka undir koddanum og eiga engar innlendar fjárfestingar nema skuldlausar fasteignir og ríkisskuldabréf finna fyrir því sem er að gerast - flestir eiga sennilega vini eða ættingja sem eru í alvarlegum vandræðum.

Það er vonandi að sem flestir hugsi ekki bara um sjálfa sig, heldur líka þá sem verr eru staddir - það er vont að vera eignalaus, en það er verra að vera einmanna og vinalaus líka.


mbl.is Rússar og IMF sameinist um lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband