Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 15. febrúar 2013
Væri best að breyta bara einni grein núna?
Púkinn er kominn á þá skoðun að úr því sem komið er, þá ætti bara að breyta einni grein í stjórnarskránni núna - það verður aldrei sátt um vinnu sem er gerð á hraðferð á síðustu dögunum fyrir kosningar og allt of líklegt að yrðu einhverjar breytingar barðar í gegn þá myndi nýtt þing ekki samþykkja þær, heldur bera því við að málið þurfi nánari skoðun.
Það er einfaldlega búið að klúðra þessu máli of illa.
Nei, það sem á að gera núna er að breyta þeirri grein stjórnarskrárinnar sem segir hvernig skuli breyta stjórnarskránni.
Í stað þess að þing sé rofið strax og breytingar hafa verið samþykktar, efnt til þingkosninga og síðan þarf nýtt þing að samþykkja breytingarnar, þá ætti að krefjast þess að breytingar njóti aukins meirihluta (t.d. 3/4) í þingi og séu síðan samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ekkert þingrof - enginn æsingur við að samþykkja breytingar á örfáum dögum.
Alþingi samþykki stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 20. júlí 2012
Fagnaðarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Flestir vita að kosningakerfið á íslandi var hannað fyrir 4-5 flokka og sett upp til að tryggja að smáflokkar með undir 5% fylgi nái helst ekki inn manni á þing.
Það er ekki að ástæðulausu sem 5% þröskuldurinn er innbyggður í lögin.
Sumum finnst þetta óréttlátt og benda á að miðað við 63 þingmenn, þá standi u.þ.b. 1.5873% á bak við hvern þingmann - þannig ætti flokkur með 1.6% fylgi í raun "rétt" á einum þingmanni, flokkur með 3.2% fylgi ætti "rétt" á tveimur og flokkur með 4.8% ætti rétt á þremur.
Þannig kerfi væri hins vegar andstætt hagsmunum þeirra stærri flokka sem eru fyrir á þingi - helst vilja þeir sjá atkvæði andstæðinganna dreifast á smáflokka með undir 5% fylgi, sem myndi tryggja að þeir næðu ekki inn mönnum.
Eins og staðan er núna mun Sjálfstæðsflokkurinn hagnast verulega á þessu smáflokkafargani - gæti jafnvel náð meirihluta á þingi með innan við 40% atkvæða.
Það á bæ hljóta menn að fagna tilkomu enn eins smáflokksins.
Lítum ekki á okkur sem einhvers konar ræningja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 3. desember 2011
Heimasíðan, Húsnæðið og Flokkurinn
Ef heimasíðan er á heimasidan.is, húsnæðið heitir "Húsnæðið", þá er að mati Púkans bara eitt nafn sem kemur til greina á flokkinn....."Flokkurinn".
Gríðarlegur áhugi á framboðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 24. október 2011
Of vægt tekið á ölvunarakstri
Púkinn auglýsir hér með eftir alþingismönnum (eða konum) sem þora að leggja fram frumvarp um verulega hertar refsingar við akstri undir áhrifum.
Það er ljóst að núverandi kerfi er ekki að virka, miðað við fjölda þeirra ökumanna sem eru teknir nánast daglega - já og sumir oftar en einu sinni á dag.
Sumir hafa verið sviptir ökuréttindum ævilangt en eru samt teknir aftur og aftur.
Hvað er til ráða?
Hér eru nokkrar tillögur:
1) Meðferð. Það mætti skikka þá sem eru teknir undir áhrifum í meðferð. Ef eina ráðið til að fólki skiljist að það á við vandamál að stríða er að vera sendir í meðferð á viðeigandi stofnun, þá verður bara svo að vera.
2) Kyrrsetning bifreiða. Púkinn er þeirrar skoðunar að sé einhver tekinn undir áhrifum, eigi skilyrðislaust að kyrrsetja bifreiðina um tíma - það myndi a.m.k. koma í veg fyrir að menn séu teknir oftar en einu sinni á dag á sömu bifreiðinni. Lögreglan hefur í dag heimild til að kyrrsetja eða leggja hald á bifreiðar, en það er ekki nóg - Púkinn vill sjá þeirri heimild breytt í skyldu.
3) Upptaka bifreiðar. Það má rökstyðja að bílar þeir sem um ræðir séu ekkert annað en tæki sem notuð eru til að fremja með afbrot. Púkans vegna mætti gera bílana upptæka og selja á uppboðum - fá þannig einhverjar krónur í kassann til að standa undir kostnaðinum við þær aðgerðir sem hér er lýst. Það þarf að vísu að hafa undantekningar þegar um bílþjófnað er að ræða og einnig þarf að huga að stöðu og ábyrgð bílasala sem lána bíla til aðila sem aka þeim síðan undir áhrifum. Það að fyrri eigendurnir verða áfram að borga af bílalánunum eftir að hafa misst bílana er að sjálfsögðu bagalegt fyrir viðkomandi, en það er nú einu sinni tilgangurinn.
4) Samfélagsþjónusta. Eitthvað af þessu liði mætti t.d. nota til skúringa á Grensásdeild og öðrum slíkum stöðum - hugsanlega átta einhverjir sig þá á mögulegurm afleiðingum svona hegðunar.
5) Fangelsisvist. Glæfraakstur undir áhrifum er að mati Púkans lítið annað en tilraun til manndráps. Refsingar ættu að vera í samræmi við það - ef það eina sem dugir til að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi er að henda þeim bak við lás og slá, þá verður svo að vera.
Púkinn vill benda á að hækkaðar sektir eru ekki á ofanfarandi lista, enda eru einhverjir stútanna væntanlega eignalausir aumingjar. Í þeim tilvikum sem þeir eiga eignir mætti þó beita hærri sektum, jafnvel í hlutfalli við tekjur viðkomandi - sekta menn um 5-10% árstekna til dæmis.
Ef ekkert verður gert munum við bara halda áfram að heyra sömu fréttirnar aftur og aftur, ásamt fréttum af dapurlegum dauðaslysum inn á milli.
Hvaða alþingismenn þora að gera eitthvað í þessu máli?
Margir ölvaðir og undir áhrifum vímuefna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 5. október 2011
Íslensk ómenntastefna
Þegar Finnar gengu í gegnum sína efnahagskreppu með tilheyrandi niðurskurði, þá reyndu þeir að hlífa menntakerfinu eftir bestu getu - reyndu jafnvel frekar að styrkja það. Þeir gerðu sér grein fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem fælust í vel menntuðu fólki - sér í lagi tæknimenntuðu.
Stjórnvöld á Íslandi deila ekki þessari sýn. Þau sætta sig við grunnskólakerfi sem er til háborinnar skammar (samanber nýlegar fréttir um að talsverður hluti nemenda í 10 bekk sé ekki fær um að lesa sér til gagns), framhaldsskóla sem útskrifa nemendur með "ómarktæk" stúdentspróf (samanber umræðu um fyrirhuguð innökupróf í Hagfræðideild H.Í) og háskóla sem eru meira og meira að þróast í þá átt að vera ekki fyrir alla, heldur bara fyrir þá sem hafa efni á dýru námi.
Nú á að skera enn frekar niður á framhalds- og háskólastigi, en Púkin fær ekki séð hvernig það getur leitt til annars en að ástandið versni enn frekar.
Púkinn er eiginlega kominn á þá skoðun að stefna stjórnvalda sé að halda niðri menntunar- og þekkingarstigi þjóðarinnar - það er sennilega auðveldara að stjórna heimskum sauðum en hinum.
Framhaldsskólar fá minna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 27. júlí 2011
Meingallaður mannréttindakafli
Púkinn hefur frá upphafi haft mikinn áhuga á yfirstandandi endurskoðun á stjórnarskránni og þykir því dapurt hve illa tókst til með einn ákveðinn kafla - mannréttindakaflann sem hefur margvíslega galla, sérstaklega í sumum af þeim nýju greinum sem hefur verið bætt við.
Þar sem þessi fullyrðing þarfnast nánari rökstuðnings fylgja hér á eftir umræddar greinar ásamt athugasemdum.
Sérhver manneskja hefur meðfæddan rétt til lífs.
Þessi grein gæti valdið vandamálum í framtíðinni, til dæmis varðandi einstaklinga sem haldið er á lífi með tækjabúnaði á sjúkrahúsum, þegar heilastarfsemi er hætt og engin von um bata. Er það þá stórnarskrárbrot að "slökkva á" viðkomandi? Hvaða réttindi veitir þessi grein - breytir hún einhverju fyrir einhverja, eða finnst mönnum hún bara hljóma fallega?
Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
Hvað þýðir þessi grein í raun? Jú jú, hún hljómar voðalega fallega, svona eins og "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir", en hvaða merkingu hefur þetta í raun? Þessi grein er ámóta innihaldslaus og stefnuyfirlýsing dæmigerðs stjórnmálaflokks.
Skoðum til dæmis einstakling sem flestir geta verið sammála um að lifi ekki með reisn - heimilislausan róna eða dópista sem betlar eða stelur sér til framfæris. Samkvæmt stjórnarskránni á hann "rétt á að lifa með reisn" - en í hverju felst sá réttur - hverju er hann bættari með þessa grein í stjórnarskránni? Skoðum annað dæmi - fanga sem dæmdur hefur verið fyrir alvarleg brot og er í einangrun í fangelsi. Er það að "lifa með reisn"? Ef ekki, er þá verið að brjóta á einhverjum stjórnarskrárvörðum réttindum viðkomandi?
Hvaða tilgangi þjónar þessi grein eiginlega? Púkinn fær einfaldlega ekki séð að nokkuð gagn sé að henni.
Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Það eru margir gallar við þessa grein. Sá fyrsti er málfarið - "Öll erum við.." er í ósamræmi við allar aðrar greinar stjórnarskrárinnar - til að gæta samræmis þyrfti orðalagið að vera "Allir eru...".
Síðan er þessi grein einfaldlega röng - við erum ekki öll jöfn fyrir lögum - það má t.d. vísa í 49. grein stjórnarskrárinnar um friðhelgi alþingismanna, eða 84. grein um friðhelgi forseta - með því að segja að allir séu jafnir fyrir lögum er stjórnarskráin því í vissri mótsögn við sjálfa sig.
Stærsti galli greinarinnar er hins vegar sá að ekki er ljóst hvaða "mannréttindi" um er að ræða. Svona grein býður heim endalausu þrasi í framtíðinni um hvort tiltekin mismunun feli í sér brot á mannréttindum eða ekki.
Að auki er það einfaldlega þannig að flestir telja ákveðna mismunun eðlilega, jafnvel þótt hún sé vegna einhverra þeirra þátta sem sérstaklega eru taldir upp að ofan - sem dæmi má nefna aldursbundin réttindi, eins og að mega taka bílpróf eða kaupa áfengi - það er ekki öll mismunun mannréttindabrot.
Síðan er enn ein spurning hvaða aðrir þættir teljast sambærilegir við þá sem taldir eru upp. Má til dæmis mismuna fólki vegna háralitar, blóðflokks, menntunar, starfsreynslu eða getu að öðru leyti?
Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.
Púkanum finnst þetta skrýtin grein að mörgu leyti. Tilvísunin í "netið" viðrist ef til vill eðlileg í dag, en myndi okkur ekki þykja frekar hlálegt ef í núverandi stjórnarskrá væri klausa um að ekki mætti skerða aðgang landsmanna að ritsímanum (sem var jú nýleg og merkileg tækni fyrir 100 árum síðan) - hver veit hvað verður komið í stað netsins eftir önnur 100 ár - viljum við hafa klausu í stjórnarskránni sem vísar í tiltekna tækni sem gæti orðið úrelt löngu á undan stjórnarskránni?
Sáðn er það spurning um "skerðingu" aðgangs. Í dag er aðgangur skertur á margan hátt. Fyrirtæki, stofnanir og skólar skerða aðgang að klámefni og ólöglegu eða vafasömu efni á margan hátt - sumir foreldrar skerða aðgang barna sinna með tímatakmörkunum eða á aðra vegu - er slík skerðing stjórnarskrárbrot? Ef svo er, þá er þessi grein verri en gagnslaus.
Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.
Þetta er frekar gagnslaus grein, því ljóst er að öll lög sem sett væru myndu fela í sér margvíslegar takmarkanir á "frelsi vísinda, fræða og lista" - það má ekki framkvæma hvað sem er í nafni vísinda - vísindin geta aldrei orðið (og eiga ekki að vera) fullkomlega frjáls og ábyrgðarlaus - og sama gildir um listina. Hvaða tilgangi þjónar þá þessi grein? Væri einhver akaði að því að fella hana burt?
Stjórnarskrárfrumvarp samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Fimmtudagur, 26. maí 2011
Eignaupptaka eða merkingarlaust bull?
Púkinn er ákaflega ósáttur við þá hugmynd að setja í stjórnarskrána klausu um að "náttúruauðlindir Íslands eigi að vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar".
Ástæðan er einfaldlega sú að þetta er ekkert annað en klisja sem hljómar fallega, en er í rauninni merkingarlaus.
Púkinn vill því ítreka það sem hann hefur sagt áður:
- Hvaða náttúruauðlindir er verið að tala um - allar, eða bara sumar? Fólk nefnir gjarnan jarðvarma, orku fallvatna og fiskinn í sjónum, en hvað með aðrar náttúruauðlindir? Hvað með vatnsból, malarnámur, æðarvarp, rekavið, laxveiði í ám, eggjatekju og önnur hlunnindi? Í sumarbústaðarlandinu mínu vex bláberjalyng - náttúruauðlind sem unnt er að nýta - á berjalyngið mitt að verða sameign þjóðarinnar? Hvað með menn sem hafa ræktað upp skóg, eða sleppt silungi í tjörn sem þeir eiga? Ef aðeins tilteknar auðlindir eiga að verða "sameign þjóðarinnar", væri þá ekki nær að tilgreina þær sérstaklega heldur en að tala um allar auðlindir almennt? Ef allar auðlindir eigna að verða sameign þjóðarinnar þá er hins vegar um að ræða stórfellda eignaupptöku.
- Hvað með auðlindir sem í dag eru sannanlega í einkaeign. Ef ég ætti t.d. land með jarðvarma sem ég nýtti til að hita upp gróðurhús - ætti þá að taka mína eign af mér og þjóðnýta hana? Hvaða bætur fengi ég? Er fólk að tala fyrir allsherjar Sovét-Íslands þjóðnýtingu allra auðlinda? Ekki gleyma því að 72. grein stjórnarskrárinnar segir "Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir."
- Hvað þýðir að eitthvað sé "sameign þjóðarinnar"? Getur þjóðin sem slík átt eitthvað? Eiga menn við að íslenska ríkið sé eigandi auðlindanna, eða eiga menn við eitthvað annað - og þá hvað? "Einkaeign" og "Ríkiseign" eru vel skilgreind hugtök, en "Sameign þjóðarinnar" er það ekki - hvað þýðir þessi frasi eiginlega?
Heldur einhver í alvöru að svona frasi myndi koma í veg fyrir að auðlindir séu nýttar af erlendum aðilum? Ef ríkið hefur tekið yfir auðlindina, þá getur það leigt hana hverjum sem er. Það skiptir nefnilega engu máli hver "á" auðlindina - heldur hver nýtir hana og hirðir arðinn af henni. Jafnvel þótt svona ákvæði væri inni í stjórnarskránni gætu stjórnvöld eftir sem áður ákveðið að veita fyrirtækjum í erlendri eigu rétt til að nýta auðlindina. Púkinn vill bera þetta saman við það sem gilti í gömlu Sovétríkjunum, þegar sagt var að verkamennirnir ættu verksmiðjurnar sem þeir unnu í. Þeir höfðu að vísu engan möguleika á að ráðstafa þeirri "eign" og nutu ekki arðsins af henni, en þeir "áttu" verksmiðjuna.
Heldur einhver í alvöru að svona frasi myndi breyta einhverju um kvótakerfið? Ég minni að fyrsta grein í núverandi fiskveiðistjórnarlögum hefst á orðunum "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar." Allir vita hvernig sú sameign þjóðarinnar virkar í raun. Er einhver ásæða til að ætla að svona klausa í stjórnarskrána myndi virka eitthvað öðruvísi?
Ævarandi eign þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 6. apríl 2011
Ekki annan innihaldslausan þjóðfund, takk!
Púkinn er þeirrar skoðunar að margt megi betur fara í stjórnarskránni og að Alþingi hafi brugðist hvað það varðar - flestar síðustu breytinga á stjórnarskránni varða eingöngu kosningakerfið og þær hafa verið gerðar með hagsmuni flokkakerfisins í huga, en ekki hagsmuni kjósenda.
Stjórnlagaráðið hefur sína galla - það var illa staðið að kosningum til stjórnlagaþings, ekki gert ráð fyrir þessum mikla fjölda frambjóðenda og framkvæmd kosninganna var ekki nægjanlega vönduð, eins og Hæstiréttur sagði.
Það eru hins vegar góðar líkur á því að stjórnlagaráðið skili frá sér einhverju sem verður til þess að endurbætur verði gerðar á stjórnarskránni - endurbætur sem ekki aðeins eru í þágu flokkanna - og það að koma hreyfingu á málið réttlætir tilvist stjórnlagaráðsins að mati Púkans.
Hins vegar verða tillögur stjórnlagaráðsins ekki bindandi á neinn hátt - Alþingi getur hunsað þær ef því svo sýnist - hvort sem þeir gera það með vísun til veiks umboðs eða ekki.
Það yrði hins vegar erfiðara fyrir Alþingi að hunsa tillögurnar, ef skýr stuðningur þjóðarinnar við þær lægi fyrir.
Púkinn er reyndar þeirrar skoðunar að ein breytinganna á stjórnarskránni ætti að vera sú að allar breytingar á stjórnarskrá yrði að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, en burtséð frá því, þá myndi það styrkja mjög tillögur stjórnlagaráðs ef tillögurnar væru bornar undir þjóðina áður en Alþingi fengi þær til samþykktar.
Ef fyrir lægi að yfirgnæfandi stuðningur væri við tilteknar tillögur, þá væri erfitt fyrir Alþingi að hunsa þær með vísun til "veiks umboðs" stjórnlagaráðsins.
Púkinn efast hins vegar um að Alþingi muni samþykkja að vísa tillögunum til þjóðarinnar, þar sem slíkt myndi vinna gegn hagsmunum Alþingis og flokkakerfisins.
Hugmyndin um að vísa tillögunum til þjóðfundar er hins vegar slæm - mjög slæm. Púkinn var einn fulltrúanna á síðasta þjóðfundi og verður að viðurkenna að það var sú innihaldslausasta tímasóun sem hann hefur tekið þátt í - hrein og klár sýndarmennska sem þjónaði þeim tilgangi einum að telja fólki trú um að það væri hlustað á það. Púkanum fannst hann eiginlega vera á fundi hjá dýrunum í Hálsaskógi, þegar rætt var um "grundvallargildi íslensks samfélags"..."öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".
Er einhver ástæða til að ætla að "þjóðfundur" um stjórnarskrárbreytingatillögur geti leitt til einhvers?Tillagan fari fyrir þjóðfund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 30. mars 2011
Þjóðnýtingaráform Ögmundar
Púkinn er að velta fyrir sér hvort áform Ögmundar um að þjóðnýta lénaúthlutun á Íslandi muni ekki leiða til málaferla á hendur ríkinu.
Isnic.is (Internet á íslandi) sér um þessa skráningu í dag og hafa eigendur þess fyrirtækis haft allnokkrar tekjur af þeirri starfsemi í gegnum tíðina. Nú virðist sem ráðhærra ætli sér að þjóðnýta þá starfsemi og þá vakna spurningar um skaðabótaskyldu ríkisins. Núverandi eigendur Isnic eru væntanlega ekki hrifnir af áformum um að þjóðnýta rekstur þeirra án þess að þeir fái skaða sinn bættan.
Þótt Púkinn hafi að vísu ekki séð frumvarpið í sinni endanlegu mynd, þá grunar hann að helsti tilgangur frumvarpsins sé að finna nýjan tekjustofn fyrir Póst- og Símamálastofnun, en verði ríkinu gert að greiða skaðabætur vegna þjóðnýtingarinnar virðist hér bara um enn eitt dæmið um tilgangslausa sóun á almannafé.
Það er engin þörf á þessu frumvarpi - núverandi kerfi virkar nefnilega bara ágætlega.
Frumvarp um landslénið .is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 9. desember 2010
Ástæður þess að við verðum að borga Icesave
Það virðast vera einhverjir sem eru á þeirri skoðun að það sé eitthvað vafamál hvort Íslendingar séu skyldugir til að borga Icesave eða ekki. Púkinn fær ekki séð að það sé nokkur spurning - við sitjum uppi með að þurfa að borga þetta - það er bara spurning um útfærsluna.
Þjóðin hafnaði á sínum tíma ákveðinni útfærslu á því hvernig Icesave væri borgað og nú í dag sjást jákvæðar afleiðingar þess - þau kjör sem nú standa til boða eru mun hagstæðari en þau fyrri. Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla snerist hins vegar ekki um hvort yfirhöfuð skyldi borga Icesave eða ekki.
Meginástæða þess að við verðum að borga þetta virðist einföld.
Eftir bankahrunið bar ríkisstjórninni sennilega ekki skylda til að ábyrgjast bankainnistæður umfram það sem tryggingarsjóðurinn hafði bolmagn til. Það var hins vegar tekin ákvörðun um að ábyrgjast innistæður í íslenskum útibúum bankanna að fullu.
Það er vandamálið.
Með því að ábyrgjast innistæður í útibúum á Íslandi en ekki erlendis, var ríkið að mismuna - nokkuð sem virðist stangast á við EES samninginn og við kæmumst sennilega ekki upp með fyrir dómstólum.
Ef ákvörðun hefði verið tekin um að ábyrgjast aðeins innistæður í íslenskum krónum, eða ábyrgjast aðeins innistæður að því marki sem tryggingasjóðurinn hafði bolmagn til, þá hefðum við sennilega losnað við Icesave vandamálið - en það var bara ekki gert og þess vegna sitjum við í súpunni.
Það er auðvelt að vera vitur eftir á...segja
- ...bara ef Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn hefðu ekki klúðrað einkavæðingu bankanna.
- ...bara ef fjármálaeftirlitið hefði ekki verið gersamlega óhæft.
- ...bara ef Icesave hefði verið rekið í dótturfyrirtæki (eins og Kaupþing Edge), en ekki útibúi.
- ...bara ef endurskoðendur bankanna hefðu sinnt skyldu sinn
Greiðslur hefjast í júlí 2016 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |