Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Leitað að sökudólgum

prisonÞegar hægist um og þjóðin fer að horfa yfir brunarústir efnahagslífsins munu margir svipast um eftir sökudólgum - Hverjum er um að kenna?

Yfirstandandi atburðir koma Púkanum svosem ekkert á óvart - síðustu tvö árin hefur verið ljóst að ástandið væri óstöðugt og að skuldadögum myndi koma fyrr eða síðar.

Púkinn þarf hins vegar ekki að svipast um eftir sökudólgum.  Þeir eru auðfundnir.

Alþingismenn og ráðherrar

Efstir á blaði Púkans eru þeir ráðamenn sem hafa tekið arfavitlausar ákvarðanir undanfarin ár.   Þeir sem hafa lesið skrif Púkans ættu að hafa séð þessa gagnrýni, en meðal þess sem um ræðir er sú ákvörðun að leggja niður Þjóðhagsstofnun og setning rangra laga um markmið Seðlabankans.

Púkinn vill endurtaka það sem hann sagði áður (sjá þessa grein):

Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma.  Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.

Púkanum finnst ekki mikið mark takandi á ráðamönnum sem segja að núverandi ástand komi þeim á óvart.  Fólk með vit í kollinum sem fylgdist með því sem var á seyði, sá að hverju stefndi og margir gerðu sínar ráðstafanir í samræmi við það.  

Hvað varðar þau afdrifaríku mistök sem gerð voru varðandi Seðlabankann vill Púkinn vísa á þessa grein og sömuleiðis þessa.

Það má rökræða hvort það hafi líka verið mistök að einkavæða bankana - Púkinn er nú reyndar ekki þeirrar skoðunar, en það ferli hefði mátt vera öðruvísi og eftirlitið meira.

Seðlabankinn

Púkinn er þeirrar skoðunar að Seðlabankinn hafi brugðist þjóðinni, með því að beita ekki öllum þeim verkfærum sem hann hafði til að hafa stjórn á ástandinu áður en allt var komið í óefni.

Það sem er efsta á blaði er að Seðlabankinn hefði getað sett hömlur á útlánagleði bankanna með því að  hækka bindiskyldu þeirra.  Það hefði haldið aftur af styrkingu krónunnar, hefði dregið úr neyslufylliríinu og hefði dregið úr þörf bankanna að slá lán erlendis.

Vandamálið er bara það að hefði Seðlabankinn tekið þessar (réttu) ákvarðanir hefði verið ráðist að honum úr öllum áttum.  ASÍ (og fleiri) hefðu sakað hann um að koma í veg fyrir að Íslendingar gætu eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum, með því að draga úr möguleikum bankanna til að veita húsnæðislán og SA (og fleiri) hefðu sakað um að reyna að hefta útrás íslenskra fyrirtækja.

Nei, það er ekki auðvelt að taka réttar en óvinsælar ákvarðanir og Seðlabankinn var ekki fær um það.  

Bankarnir

Hluti af sökinni liggur að sjálfsögðu hjá bönkunum sjálfum - þeir sköpuðu sér gífurlega áhættu með misræmi í löngum og stuttum lánum.  Tóku skammtímalán og veittu langtímalán.  Þetta virkar meðan menn geta rúllað boltanum á undan sér, en það eru margir mánuðir síðan hættumerki tóku að sjást.  Sumir hluthafa bankanna gerðu sér fyllilega grein fyrir þessu og komu sér út í tíma, en aðrir sitja í súpunni.

Gráðugir, skammsýnir Íslendingar

Enn einn hluti af sökinni liggur hjá þeim stóra hluta þjóðarinnar sem tók þátt í vitleysunni.  Fólk sem fagnaði þegar gengi krónunnar var allt, allt of sterkt og eyddi langt um efni fram - keypti sér húsnæði, pallbíla og risaplasmaskjái eins og peningar væru eitthvað sem spryttu upp eins sveppir í september.  

Velkomin til raunveruleikans - partýið er búið og nú taka timburmennirnir við.
mbl.is Lokað fyrir viðskipti áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran inn um bakdyrnar...eða hvað?

euroPúkinn er að velta fyrir sér hvort ASÍ eða einhverjir aðrir muni reyna að koma evrunni inn með "bakdyraleiðinni" á næstunni.

Með því á ég við eftirfarandi leið:

  • Krónunni væri haldið áfram sem opinberum gjaldmiðli og gengi hennar látið fljóta gegn evru eins og verið hefur.  Evrur eru ekki notaðar sem almennur gjaldmiðill á Íslandi (Þetta er til að komast hjá þeim kröfum sem gerðar eru til þess að mega formlega taka upp evruna)
  • Öll laun væru gengistengd - ekki bara hjá einstaka starfsmönnum útflutningsfyrirtækja.  Launþegar myndu áfram fá útborgað í íslenskum krónum, en fjöldi króna myndi ráðast af gengi evrunnar á hverjum tíma.
  • Í stað vísitölutryggðra reikninga myndi fólk geyma eignir sínar í bönkunum í gengistryggðum reikningum.
  • Allar skuldir einstaklinga og fyrirtækja væru gengisbundnar.

Þeir sem mæla með þessari leið segja að með henni sé allri gengistengdri óvissu um afkomu heimilanna eytt. Skuldirnar sveiflast að vísu upp og niður, en eignirnar og tekjurnar gera það líka.

Málið er hins vegar ekki svona einfalt, en svo virðist sem þeir sem mæla með bakdyraleiðinni hugsi málið aldrei til enda.

Þetta myndi draga stórlega úr eftirspurn eftir krónum, með tilheyrandi gengishrapi krónunnar og óðaverðbólgu.  Áhrifin yrðu að vísu milduð af því að gengisfallið myndi þýða að fólk fengi sjálfkrafa fleiri krónur í vasann, en þeir sem væru nógu vitlausir til að eiga krónur myndu sjá þær brenna upp.

Útflutningsfyrirtæki (og aðrir sem hafa tekjur í raunverulegum "hörðum" gjaldeyri væru í góðum málum, en innflutningsfyrirtæki og hið opinbera væru í vandræðum.

Allar forsendur fyrir fjárlagagerð ríkisins myndu hrynja, nema ef fjárlögin væru í raun gerð í evrum -- en það myndi jafngilda algeru vantrausti ríkisins á krónunni - sem myndi gera hana að verðlausum gjaldmiðli.

Það eru allmargir gallar til viðbótar, en niðurstaðan er einföld - "bakdyraleiðin" gengur ekki.


Krónan - og þriðja leiðin.

500krÞví er stundum haldið fram að það séu aðeins tvær raunhæfar leiðir í gjaldeyrismálum íslendinga, en Púkinn vill hins vegar halda því fram að í boði sé þriðja leiðin, sem ekki aðeins sé raunhæf, heldur jafnvel besti valkosturinn.

Fyrrnefndar tvær leiðir eru annars vegar að halda í krónuna með öllum hennar kostum og göllum og hins vegar að ganga í ESB og stefna að því að taka upp evruna í framhaldi af því.  Aðrar leiðir eins og tvíhliða samstarf séu einfaldlega ekki raunhæfir kostir.

Þriðja leiðin er hins vegar í boði.

Sú leið er einfaldlega að stefna að því að uppfylla þær fimm kröfur sem eru gerðar til ríkja sem vilja taka upp evruna, en halda áfram í krónuna.  Sem hluta af þeirri lausn þarf hins vegar að breyta lögum um markmið Seðlabanka íslands, þannig að í stað þess að hafa aðeins verðbólgumarkmið, skuli hann hafa þau þrjú markmið fyrst eru talin hér á eftir.  Hin tvö markmiðin snúa að hinu opinbera, en á þeim bæ verða menn að viðurkenna að Seðlabankinn getur ekki sinnt sínu hlutverki ef hið opinbera vinnur beinlínis gegn honum.

Hver eru þá þessi fimm markmið?

  • Verðstöðugleiki (verðbólga minni en 1.5% hærri en í þeim 3 ESB löndum þar sem hún er lægst)
  • Vaxtamunur - vextir ekki nema 2 prósentustigum hærri en í ofangreindum 3 löndum.
  • Stöðugleiki í gengismálum - gjaldmiðillinn má ekki sveiflast nema 15% upp og niður.

Hin tvö markmiðin snúa að hinu opinbera og varða fjárlagahalla (innan við 3% af VLF) og skuldir hins opinbera (innan við 60% af VLF)

Seðlabankinn hafði áður einungis gengisstöðugleika sem markmið, en nú hefur hann einungis verðstöðugleika sem markmið - nokkuð sem vonandi flestir eru farnir að sjá að gengur ekki upp.  Markmið Seðlabankans verður að vera að viðhalda almennum stöðugleika og til þess dugar ekki að einblína á eitt markmið.

Ef við værum í ESB og uppfylltum ofanfarandi skilyrði, þá mættum við taka upp evruna, en Púkinn vill leyfa sér að fullyrða eftirfarandi:

Ef við uppfylltum skilyrði fyrir upptöku evru myndum við ekki þurfa á henni að halda.


mbl.is Vilja ekki krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Seðlabankinn verri en gagnslaus?

Eftir að hafa skoðað málið er Púkinn þeirrar skoðunar að hér á Íslandi sé í gangi "pissa-í-skóinn-sinn" efnahagsstjórn. 

Púkinn hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að aðgerðir Seðlabankans séu rangar, eða a.m.k. rangt tímasettar.  Það er reyndar ekki við bankann einan að sakast - margar af ákvörðunum stjórnvalda eru sama marki brenndar - þjóna skammtímahagsmunum en eru gagnslausar eða beinlínis skaðlegar, svona til lengri tíma litið.

Skoðum til dæmis einhverja heimskulegustu ákvörðun undanfarinna ára - þegar ákveðið var að hækka lánahlutfall Íbúðalánasjóðs.

Jó, sem skammtímalausn leit þetta vel út - með því að lána stærri hlutakaupverðsins gætu fleiri eignast sína eigin íbúð....eða hvað?

Raunverulegt verðmæti þeirra tekna sem fólk aflar sér eykst ekki við þessa aðgerð - það eina sem gerist er að meiri peningar eru settir í umferð - fleiri krónur að keppa umtakmörkuð gæði.  Að sjálfsögðu leiddi þetta til hækkunar á húsnæðisverði.  Húsnæðisverð mun að sjálfsögðu ná jafnvægi á endanum - það þarf bara hressilega raunlækkun til, sem mun á endanum leiða til þess að fjöldi fólks skuldar meira í íbúðunum sínum en sem nemur mögulegu söluverði þeirra.  Þangað til þessari stöðu er náð, helst íbúðaverð hins vegar enn hátt, þannig að erfiðara verður fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð - já, þegar upp er staðið verður þetta hinn endanlegi afrakstur hækkunar lánahlutfallsins.

Þeir sem keyptu íbúðir á þeim tíma sem bólan var í hámarki geta sjálfum sér um kennt - það voru margir sem vöruðu við ástandinu.

Þetta hækkaða húsnæðisverð var túlkað af Seðlabankanum sem verðbólga sem yrði að berjast gegn.  Púkinn lítur á það sem grundvallarmistök, enda hefur það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans (vaxtahækkanirnar) voru gjörsamlega áhrifalausar og gerðu í raun ástandið bara verra.

Háu vextirnir gerðu vaxtaskiptasamninga og útgáfu jöklabréfanna að áhugaverðum kosti, sem þýddi umtalsvert streymi gjaldeyris inn í landið.

Ef hér hefði verið alvöru Seðlabanki, myndi hann hafa notað tækifærið og styrkt gjaldeyrisvarasjóðinn á þessum tímapunkti, en nei...það var ekki gert, með þeim afleiðingum að gengið fór bara hækkandi og hækkandi.  Útflutningsfyrirtækin voru hrakin úr landi, eða neydd til að draga saman seglin, en þjóðin fór á eyðslufyllerí - flatskjáir, pallbílar og einkaþyrlur streymdu inn í landið.

Gerði Seðlabankinn eitthvað til að sporna gegn þessari þróun?  Hann hefði getað haldið gengi krónunnar eðlilegu með því að auka gjaldeyrisvarasjóðinn, eða sett hömlur á bankana með því að auka bindiskyldu þeirra, en nei ... bankinn gerði ekkert nema að hækka vextina meir og meir ... gagnslaus og jafnvel skaðleg aðgerð.

Það er þannig með alvarleg fyllirí að þeim fylgja timburmenn, og þeim hefur þjóðin fengið að kenna á núna þegar spilaborgin hrundi.

Gengi krónunnar er loks orðið eðlilegt og jöfnuður er að nást milli útflutnings og innflutnings, en það hefur hægst á hjólum atvinnulífsins - a.m.k í mörgum greinum.  Sú kólnun er óhjákvæmileg, jafnvel nauðsynleg, en það er líka ljóst að það getur tekið tíma að koma hlutum af stað aftur.  Sú ákvörðun Seðlabankans að gera ekki neitt í bili bendir ekki til þess að neinn viðsnúningur verði næsta árið.


mbl.is Stýrivaxtalækkun frestast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju í öryggisráðið?

Púkinn auglýsir hér með eftir svari við spurningunni um hvaða erindi Ísland eigi í öryggisráðið?  Hvers vegna að eyða tíma og peningum í þetta?

Er það vegna þess hve við höfum miklu að miðla vegna áratuga reynslu okkar af öryggismálum?

Er það vegna starfs Íslands við að koma á heimsfriði?

Er það vegna þess að við erum hin fullkomna þjóð - fyrirmynd allra annarra?

Eða er það vegna þess að einhverjir íslenskir pólitíkusar þjást af minnimáttarkennd og vilja gera allt til að þykjast vera mikilvægir?


mbl.is Rætt um framboð Íslands til öryggisráðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um húsnæði

Mörgum kemur á óvart að vísitala íbúðaverðs skuli hækka á höfuðborgarsvæðinu, miðað við þá snöggu kólnun sem hefur orðið á fasteignamarkaðinum, en í raun er þetta mjög eðlilegt.

Vísitalan mælir jú ekki annað en verðbreytingar á þeim eignum sem seljast - hún mælir ekki breytingar á seljanleika.  Hún sýnir ekki ástandið hjá þeim sem sitja uppi með eignir sem þeir geta ekki selt eins og staðan er í dag, enda á hún ekki að gera það.

Fasteignaverð var orðið óraunhæft hér á Íslandi - það var svipuð bóla hér og í mörgum öðrum löndum og þeir sem keyptu þegar verðið var sem hæst gerðu mistök, svo einfalt er það.  Þessi hópur er í þeirri stöðu að skulda jafnvel mun meira en sem nemur verðmæti eignanna, sem er erfitt fyrir marga að sætta sig við.

Það er veruleg tregða hjá mörgum gegn því að lækka verð á húsnæði - það sem sennilega mun gerast er að verðið haldist nokkurn veginn óbreytt næstu mánuðina, en lækki að raunvirði.  Fasteignamarkaðurinn verður ekki eðlilegur aftur fyrr en bólan er að fullu sprungin - spáin um 20% raunverðslækkun er hugsanlega ekki svo fjarri réttu lagi.

Á meðan seljast góðar eignir á góðum stöðum - kannski ekki jafn vel og áður, en þær seljast...og það heldur vísitölunni uppi.   


mbl.is Fjársterkir menn að kaupa húsnæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammarlegir refsidómar fyrir ölvunarakstur

drunk_drivingPúkanum finnst skammarlegt að lesa að einhver hafi  "...hlotið fimmtán refsidóma fyrir ölvun við akstur og með fjórtán þeirra jafnframt dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti. " 

Púkinn hefur áður tjáð sig um hættuna sem stafar af akstri undir áhrifum og þá dapurlegu staðreynd að kerfið er hreinlega ekki að virka.

Sá maður sem hér var dæmdur er síbrotamaður - það má vel vera að hann sé áfengissjúklingur, en hann er hættulegur sjálfum sér og öðrum.

Svona menn eiga ekki að fá að sitja undir stýri og ef þeir virða ekki ökuréttarsviptingar verður að grípa til harðari ráða.

Í dæmum eins og þessum er hægt að líta á bílinn sem tæki sem síbrotamaður notar til afbrota.  Púkanum finnst að það ætti að gera ökutækin upptæk, eða a.m.k. kyrrsetja þau (nema þeim hafi verið stolið, að sjálfsögðu).  Þetta er að sjálfsögðu slæmt fyrir aðra ef þeir hafa lánað viðkomandi manni bílinn sinn, en þeir verða bara að taka afleiðingunum.

Í öðru lagi vill Púkinn sjá svona menn lagða inn á viðeigandi stofnun til afvötnunar.  Þeir eiga greinilega við vandamál að stríða og eins og með fíkniefnaneytendur, þá er það hagkvæmast fyrir þjóðfélagið til lengri tíma litið ef hægt er að ráðast að því vandamáli.   Þessu ráði mætti t.d. beita ef viðkomandi er tekinn í þriðja sinn eða svo.

Ef brotamaðurinn heldur uppteknum hætti og meðferð hefur ekki áhrif, þá er Púkinn þeirrar skoðunar að viðkomandi hafi í raun fyrirgert rétti sínum til almennrar þátttöku í þjóðfélaginu.  Nú er Púkinn ekki að leggja til sambærilegt kerfi og hið bandaríska "three strikes and you're out", þar sem menn geta fengið lífstíðardóm fyrir smáafbrot ef þeir eru með tvö fyrri brot á sakaskránni, en dómakerfið hér á Íslandi mætti taka meira tillit til sakaferils - og þyngja dóma frekar hjá síbrotamönnum.  

Í þeim tilgangi þjónar fangelsisvistin ekki þeim tilgangi að hafa fælingarmátt, né heldur að bæta viðkomandi.  Hún er til þess að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi.


mbl.is 10 mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú ert rekin(n)! (en þú mátt sækja um vinnuna þína aftur á lægri launum)

Púkinn frétti af einu sæmilega stóru fyrirtæki sem starfar í grein þar sem allnokkur samdráttur er um þessar mundir.  Launakostnaður er nokkuð hár útgjaldaliður hjá fyrirtækinu, þannig að á þeim bæ var gripið til þess ráðs að segja öllum upp sem voru með 350.000 eða meira í mánaðarlaun.

Þeim er að sjálfsögðu velkomið að sækja um störfin sín aftur, en launin sem verða í boði lækka allnokkuð.  Flestir munu væntanlega gera slíkt - enda kannski ekki mörg önnur störf í viðkomandi grein í boði um þessar mundir.

Það að þurfa að taka á sig hreina launalækkun eða kjaraskerðingu er nokkuð sem Íslendingar eru ekki vanir - geri fólk yfirhöfuð einhverjar fjárhagsáætlanir, þá miðast það við hækkandi laun - eða í versta falli að launahækkanir haldi í við verðlagshækkanir.   Það gerir enginn ráð fyrir að lækka í launum á miðjum starfsaldri.

En, svona er Ísland í dag. 


Skrílræðisflokkurinn

Púkinn getur nú ekki að því gert, en miðað við hegðun Sturlu og hans félaga í mótmælum þeirra undanfarið finnst honum "Skrílræðisflokkurinn" nú vera meira viðeigandi en "Lýðræðisflokkurinn".

Ætlast hann virkilega til að vera tekinn alvarlega?


mbl.is Sturla stofnar nýjan stjórnmálaflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing fyrir lögreglunni?

Púkinn minnist þess tíma þegar almennt var borin virðing fyrir lögreglunni, en sú afstaða er á undanhaldi í dag, hvort sem því er um að kenna að þjóðfélagið er agalausara en áður, eða að lögreglan hefur glatað þeirri stöðu sem hún hafði í huga fólks, hvort sem er vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis.

Sú afstaða er líka að verða útbreiddari að lögreglustarfið sé ekki eins eftirsóknarvert og áður - það sé illa launað og vanþakklátt, þannig að minna af raunverulega hæfu fólki sæki í það.

Fjársvelti lögreglunnar bætir ekki úr og sést það á því að fjöldi lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki haldið í við íbúafjölgunina.

Lögreglan getur reyndar að hluta sjálfri sér um kennt um breytta afstöðu fólks - Púkinn gæti fjallað um það að lögreglumenn virðast ekki kunna að biðjast afsökunar þegar þeir eru að angra fólk að ástæðulausu, eða þegar lögreglan segir "það tekur því ekki að kæra þetta" þegar fólki finnst á sér brotið, en þannig atburðir hverfa í skuggann af tilvikum eins og því sem kom upp í 10/11.

Er það furða þótt margir spyrji sig hvort lögreglunni sé treystndi fyrir Taser byssum? 


mbl.is Lögregla fer yfir atvik í 10/11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband