Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bjarga hrefnuveiðar okkur frá Öryggisráðinu?

HrefnuveidarPúkinn heyrði þeirri spurningu velt upp hvort hrefnuveiðarnar myndu bjarga okkur frá því að þurfa að sitja í Öryggisráðinu.

Þetta er athygliverð spurning.  Púkinn er þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi ekkert í Öryggisráðið að gera - Ferilskrá Íslands í alþjóðamálum er frekar snautleg og að mati Púkans myndi seta þar bara hafa í för með sér útgjöld en takmarkaðan ávinning.

Hrefnuveiðar njóta ekki vinsælda erlendis og vera má að í einhverjum tilvikum muni þær ráða úrslitum um hvaða land fái atkvæði.

Fari svo að Íslendingar nái ekki kosningu og hrefnuveiðarnar verði nefndar sem ein orsök þess, þá er það skoðun Púkans að þar sé kominn mikill þjóðhagslegur ávinningur af þeim.

Púkinn er reyndar enginn sérstakur áhugamaður um hrefnuveiðar - þiggur hrefnukjöt sé það sett á hans disk og grillar það ef það býðst - en framboð á góðu kjöti til grillunar var nú ekkert sérstakt síðasta sumar.  Hins vegar er það skoðun Púkans að hrefnukjöt jafnist nú ekki á við margt annað - nautakjöt, eða íslenskt lambakjöt á góðum degi. 

Það er þó bragðbetra en kengúrukjöt - svo mikið er víst.


mbl.is Fyrsta hrefnan veidd á Faxafló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndasaga Sigmunds og meintur rasismi Íslendinga

Púkanum finnst athyglivert að skoða viðbrögðin við myndasögunni í ljósi skoðanakönnunarinnar á Íslandi um það hvern fólk myndi vilja sjá sem næsta forseta Bandaríkjanna - hvern myndu Íslendingar kjósa ef þeir hefðu kosningarétt þar.

Niðurstöðurnar voru þannig að Clinton og Obama voru nánast jöfn, með um 48% atkvæða hvort, en McCain fékk um 4%.

Það má líta á þetta á ýmsa vegu, eins og að Íslendingar séu það langt til vinstri á mælikvarða bandarískra stjórnmála að margir þeirra sem teljast hægrimenn hér myndu teljast teljast til vinstri við miðju í Bandaríkjunum - já og vinstrimennirnir okkar myndu teljast sjálfsagt hættulegir öfgamenn þar.

Það má líka líta þannig á að sá fókus sem er á húðlit eða kyn frambjóðendanna sé einfaldlega ekki mál málanna frá sjónarhóli Íslendinga - þegar allt kemur til alls höfum við jú raunverulega reynslu af því að hafa kvenkyns þjóðhöfðingja.   Frá þeim sjónarhóli má túlka skopmyndina sem ádeilu á yfirborðsmennsku Bandaríkjamanna - að horfa á kynið og húðlitinn, frekar en hvað einstaklingurinn stendur fyrir.

Þýðir þetta þá að Íslendingar séu upp til hópa fordómalausir?  Nei - málið er ekki svo einfalt - það er nefnilega óþægilega grunnt á fordómunum hjá mörgum hérna - en Púkinn sér þessa skopmynd ekki sem rasistíska fordóma - ekki fyrir hinn ætlaða markhóp - íslenska lesendur, en það er hins vegar vel skiljanlegt að hún veki viðbrögð annars staðar.


mbl.is Myndasaga Sigmunds gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú umslög - lítil saga

Í bananalýðveldinu Langtburtistan áttu sér stað stjórnarskipti.  Þegar gamli forsætisráðherrann afhenti þeim nýja lyklana að ráðuneytinu rétti hann honum líka þrjú númeruð umstög og sagði honum að opna þau í réttri röð ef hann stæði frammi fyrir erfiðri krísu í efnahagslífinu.

Nokkrum mánuðum síðar skall fyrsta krísan á og ráðherrann sá fram á að sér yrði ekki vært í embætti mikið lengur  að öllu óbreyttu.  Hann mundi þá eftir umslögunum þremur og opnaði það fyrsta.  Í því var lítill miði sem sagði "Kenndu mér um allt".  Ráðherrann fór að þessum ráðum, kenndi röngum ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar um allt sem aflaga hafði farið, og tókst að sannfæra þjóðina að hún yrði að herða sultarólina um stund meðan unnið væri úr þeim vandamálum sem forverar hans bæru ábyrgð á.

Nokkrum misserum síðar stefndi allt aftur á sama veg og ráðherrann opnaði annað umslagið.  Í því var miði sem sagði "Kenndu útlendingum og ytri aðstæðum um allt".  Ráðherrann fór að þessum ráðum og kenndi erlendum spekúlöntum og óhagstæðri þróun á hrávöruverði á erlendum mörkuðum um ástandið í efnahagslífinu.  Þjóðin trúði honum og ró færðist yfir.

Þó koma að því að ólga gaus upp aftur í þjóðfélaginu og ráðherrann opnaði þriðja umslagið skjálfandi höndum.  Í því var miði sem sagði "Útbúðu þrjú umslög". 

-----------------------

Púkinn getur ekki að því gert, en stundum veltir hann fyrir sér hvort íslenskir ráðamenn eigi eitthvað sameiginlegt með þessum ímynduðu kollegum sínum í Langtburtistan.


Að flytja inn vandamál?

Það var einu sinni þjóð sem opnaði landamæri sín fyrir hópi fólks frá öðru landi.  Sumt af því fólki var að flýja náttúruhamfarir, en allt var það að leita að betra lífi fyrir sig og sína.  Þegar þetta fólk kom fyrst til nýja landsins var oft litið niður á það - hreinlæti þess þótti ekki upp á marga fiska og tungumálaerfiðleikar gerðu þeim erfitt fyrir í upphafi.

Flestir úr þessum hópi héldu sig út af fyrir sig - bjuggu helst innan um samlanda sína sem töluðu sama mál og deildu sömu menningu.  Með tíð og tíma samlagaðist þó þessi hópur öðrum íbúum landsins - Trúarskoðanir voru ekki til vandræða, því þær voru svipaðar og ríkjandi skoðanir annarra landsmanna, en yngri kynslóðirnar misstu tökin á tungumáli forfeðranna, þar sem það var ekki lengur notað til daglegra samskipta, þannig að eftir því sem árin liðu samlagaðist þessi hópur meir og meir þeim sem bjuggu fyrir í landinu.

Þessi hópur aflagði ýmsar venjur sem hann hafði flutt með sér frá gamla landinu, eins og til dæmis sérkennilegar nafnavenjur, en hélt dauðahaldi í aðrar venjur, jafnvel venjur sem höfðu verið aflagðar í gamla landinu - eins og til dæmis að borða vínartertur á tyllidögum.

Já, vínartertur -  ég er nefnilega að tala um Íslendingana sem fluttu til Vesturheims á árunum eftir 1874.

Nú á síðustu áratugum hefur staðan hins vegar breyst þannig að fólk sækist eftir að flytja til Íslands, ekki frá því, en öll umræða um innflytjendamál hér á landi er þess eðlis að þeir sem gagnrýna eitthvað eru stimplaðir sem rasistar og umræðan þar með drepin.

Púkinn er þeirrar skoðunar að það verði að gera ákveðnar kröfur til þess fólks sem vill flytja hingað og gerast íslenskir borgarar.

Efst á blaði er krafan um tungumálakunnáttu.   Það verður að veita innflytjendum nauðsynlega kennslu í íslensku, þannig að tungumálið myndi ekki múr milli þeirra og annarra.  Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar börnin eiga í hlut - til að þau eigi möguleika á að spjara sig, í stað þess að verða að jaðarhópi, þá verða þau að ná fullu valdi á íslensku.  Ekkert annað kemur til greina.  Ef fjölskyldur vilja að auki viðhalda þekkingu á tungumáli upprunalandsins (svona eins og sumir Kanadamenn af íslenskum uppruna) þá er það þeirra mál - en Púkinn vill ekki sjá einhver tungumálagettó myndast hér.

Í öðru lagi er það krafan um menningarlega aðlögun.  Púkanum finnst mikilvægara að innflytjendurnir aðlagist samfélaginu en að samfélagið aðlagist þeim -  Það er ekki þar með sagt að  innflytjendur þurfi að taka upp þá siði sem gilda í samfélaginu, heldur að sætta sig við að þeir siðir sem fólk kemur með verða að víkja fyrir siðum landsins ef um árekstur er að ræða.  Púkanum finnst t.d. ekki ásættanlegt ef sú staða kemur upp að skólamötuneytum sé gert að bjóða ekki upp á ákveðinn mat, ef sá matur er á einhvern hátt óásættanlegur fyrir einhvern ákveðinn hóp, svo eitt dæmi frá Danmörku sé tekið.

Í þriðja lagi verður fólkið að hafa möguleika á að verða nýtir þjóðfélagsþegnar, en ekki bara baggi á samfélaginu.  Það gengur til dæmis ekki að hola fólki niður í bæjarfélögum þar sem fyrir er alvarlegt atvinnuleysi - það verður að gefa fólki möguleika á að bjarga sér.

Séu þessi þrjú skilyrði uppfyllt, þá er Púkinn tilbúinn að bjóða fólk frá öllum heimshornum hingað.


mbl.is Flóttafólk verði boðið velkomið til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf fleiri og stærri fangelsi?

prisonÞað er auðvelt að bregðast við fréttum um yfirfull fangelsi með því að heimta að fleiri og stærri fangelsi verði byggð.

Það er hins vegar allt annað mál hvort það er rétta lausnin, en í því sambandi er best að skoða hinn þrefalda tilgang fangavistar. 

Refsing 

Í fyrsta lagi þjónar fangavist þeim tilgangi að refsa fanganum - hugmyndin er að fangelsun hafi fælingarmátt - menn vilji fyrir alla muni forðast að lenda þar inni - og þeir sem lenda inni vilji forðast að koma þangað aftur. Til þess að fangavistin hafi fælingarmátt mega fangar hins vegar ekki líta á hana sem "hvíldardvöl", eins og sagt er að sé viðhorf sumra fanga - sér í lagi af austur-evrópskum uppruna.  Frá þessum sjónarhóli er hægt að mæla árangur fangavistarinnar út frá "endurkomutíðni" - því minni líkur sem eru á að menn lendi ítrekað á bak við rimlana, því betur er kerfið að standa sig.  Japanska fangelsiskerfið er sagt státa af mjög lágri endurkomutíðni, enda er fangelsisvist þar víst frekar niðurdrepandi - það mun vera regla fremur en undantekning að mönnum sé haldið í einangrun langtímum saman.  

Mannbæting

Í öðru lagi þjónar fangavist þeim tilgangi að "bæta"fangann - gera hann að betri manni sem ekki brjóti af sér aftur.  Hér er aðallega horft til menntunar og þess að losa fangann við eiturlyfjafíkn.  Til að fangelsið virki sem meðferðarstofnun verður hins vegar rétt meðferð að vera í boði, starfsfólk verður að hafa rétta þjálfun og meðferðinni verður að vera fylgt eftir þegar fanginn er kominn aftur út í samfélagið.  Þetta mætti bæta verulega á Íslandi.

Verndun samfélagsins

 Í þriðja lagi þjónar fangavist þeim tilgangi að vernda samfélagið gegn fanganum -hugmyndin er sú að viðkomandi brjóti ekki meira af sér meðan hann er bak við lás og slá.  Þetta á sérstaklega við þegar um geðsjúka afbrotamenn er að ræða, eða ofbeldishneigða síbrotamenn.

Það er staðreynd að fangelsismál hér á landi eru ekki í góðu lagi, en hvað er hægt að gera?  Púkinn myndi vilja sjá eftirfarandi:

  • Sérstakt öryggisfangelsi fyrir erlenda fanga sem stendur til að vísa úr landi eftir afplánun.  Það er engum greiði gerður með því að leyfa þeim að stofna til tengsla við íslenska fanga.  Þetta er sérstaklega mikilvægt ef erlendu fangarnir hafa tengsl við erlend glæpasamtök.
  • Stórlega bætt afvötnun/fíkniefnameðferð - það eru of margir fangar sem fremja afbrot til þess að fjármagna neyslu - það er engin von til að þeir láti af því nema það takist að stöðva neysluna.
  • Ef fíkniefnameðferð ber ekki árangur og viðkomandi einstaklingur heldur áfram afbrotum eftir að hafa verið sleppt út, jafnvel í annað, þriðja eða fjórða sinn, er ljóst að
    refsing og mannbæting virka ekki á viðkomandi - í þeim tilvikum er tvennt til ráða - það mætti gefa viðkomandi sitt dóp frítt og undir eftirliti, þannig að hann þurfi ekki að fjármagna neysluna með afbrotum.  Hin lausnin er að loka viðkomandi inni til lengri tíma - í þeim tilgangi að vernda samfélagið gegn viðkomandi.

mbl.is 140 dæmdir menn á biðlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjararýrnun: Æskileg og óhjákvæmileg

bankruptcy_250x251Púkinn hlustaði á forsætisráðherra og bankamenn tala um framtíðarhorfur á fundi í gær.  Það sem Púkanum þótti einna athygliverðast var það viðhorf að almenn kjaraskerðing væri ekki aðeins óhjákvæmileg, heldur líka nauðsynleg.

Með öðrum orðum - það væri nauðsynlegt að það verðbólguskot sem nú stendur yfir fengi að ganga í gegn án þess að til víxlhækkana launa og verðlags kæmi. Einfalda framsetningin á þessu er að sjálfsögðu sú að fólk verði að gjöra svo vel að sætta sig við að laun þess hækki ekki til jafns við verðlagshækkanir.

Þetta er að sjálfsögðu ekki nokkuð sem fólk vill heyra, en staðreyndin er einfaldlega sú að þjóðin hefur lifað um efni fram undanfarin ár - Púkinn gerir sér að vísu fulla grein fyrir því að margir hafa haft það skítt en þeir eru fleiri sem hafa haft það "of" gott, samanber tölur um fjölda seldra flatskjáa.

Íslendingar eru orðnir góðu vanir - og líta á það sem náttúrulögmál að kjör þeirra fari batnandi með hverju ári - kaupmáttaraukningin sé meiri í dag en í gær.

Því miður ... þetta er bara ekki svona.

Við stöndum frammi fyrir samdrætti og margir munu þurfa að sætta sig við það að kjör þeirra munu versna.  Afborganir fara hækkandi af gengistengdum lánum, fasteignir seljast ekki, fyrirtæki keppast ekki lengur um að bjóða nýútskrifuðum viðskiptafræðingum vinnu.  Einhverjir munu þurfa að losa sig við einkaþoturnar sínar og aðrir að láta gamla bílskrjóðinn duga eitt ár í viðbót.

Boðskapurinn er sá að ef þjóðin lifir um efni fram, þá kemur fyrr eða síðar að skuldadögunum.  Kjaraskerðingin mun koma misilla niður á fólki.  Sumir fá minni yfirvinnu eða lægri launahækkanir, aðrir missa vinnuna eða komast í þrot vegna þess að fjármagn er dýrt eða illfáanlegt.

Það þýðir ekkert að heimta að kjörin haldist áfram jafn góð og þau voru - það verður að ná fram "þjóðarsátt" um kjararýrnun. 

Sá ræðumaður sem lagði mesta áherslu á þetta minntist að vísu ekki á hvort hann myndi ganga á undan með góðu fordæmi og þiggja lægri laun, en reyndar þykir Púkanum nú sennilegt að laun margra bankamanna muni eitthvað lækka - yfirstandandi samdráttur ætti að hafa í för með sér lækkaða bónusa.

Púkinn bíður nú spenntur eftir því að sjá hvort stjórnmálamennirnir skerði sín eigin kjör, áður en þeir fara að tala um nauðsyn "þjóðarsáttar" til að halda launahækkunum niðri.


Íbúðalánasjóður réttlætir tilvist sína

Þessa dagana heyrist ekkert í þeim sem vildu leggja Íbúðalánasjóð niður.  Ástæðan er einföld - það sjá allir hvernig ástandið væri ef Íbúðalánasjóður væri ekki til staðar nú þegar bankarnir hafa nánast algerlega skrúfað fyrir lánveitingar til íbúðarkaupa.

Ef ekki væri fyrir Íbúðalánasjóð væri fasteignamarkaðurinn ekki bara hálflamaður - hann væri dauður - steindauður og sennilega nálykt af honum líka.

Bönkunum ber engin skylda til að halda áfram að lána húskaupendum þegar illa stendur á hjá þeim sjálfum.  Þeir ákváðu upp á sitt einsdæmi að bjóða upp á þessi lán og geta hætt því ef þeir vilja.  Íbúðalánasjóður heldur hins vegar áfram að lána, sama hvernig ástandið í efnahagsmálum er - en með því sannar hann tilvistarrétt sinn, eða sýnir öllu frekar fram á að hann er nauðsynlegur - bönkunum er ekki treystandi til að sitja einir að því að veita þessa þjónustu.


mbl.is Fasteignasalar óska eftir fundi með félagsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar skilja ekki verðbólgu

inflationpicPúkinn er þeirrar skoðunar að flestir Íslendingar skilji ekki eðli verðbólgu. 

Verðbólgan er persónugerð hérlendis - menn tala um hana eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru og hægt sé að berjast við hana eina og sér - tala um "nauðsyn þess að kveða niður verðbólgudrauginn" eða að "verðbólgubálið geisi".

Þetta er þvættingur.

Púkinn kýs að líkja verðbólgunni við sótthita hjá sjúklingi - myndi fólki ekki þykja eitthvað athugavert við lækni sem legði alla áherslu á að ná niður sótthita sjúklings, en hirti ekkert um alvarlega, undirliggjandi sýkingu?

Það sama á við um Seðlabankann - lögum samkvæmt er honum gert að hafa það að meginmarkmiði halda verðbólgunni niðri og hann notar þau tól og tæki sem hann hefur - vaxtabreytingar og bindiskyldu - svona svipað og að ef læknar gerðu ekkert annað en að gefa fólki hitalækkandi lyf.

Það er engin furða að aðgerðir Seðlabankans virki ekki, því ekki er hreyft við þeim þáttum sem valda varðbólgunni - verðbólga er einkenni undirliggjandi vandamála og ef ekki er tekið á þeim vandamálum þá helst hún áfram há - nú eða (svo vísað sé aftur í fyrri samlíkingu) sjúklingurinn nær sér upp á eigin spýtur eða deyr.

Skoðum nú aðeins nokkur mistök sem hafa verið gerð.

  • Þegar bankarnir fóru að bjóða upp á húsnæðislán á "góðum" vöxtum þýddi það aukið framboð á peningum (í höndum kaupenda) eð eltast við takmörkuð gæði (eignir til sölu). Það þurfti ekki mikla hagfræðiþekkingu til að sjá fyrir að þetta myndi hafa í för með sér verðhækkanir á húsnæði, uns sársaukamörkum yrði náð - þ.e.a.s. meðalafborganir yrðu jafnháar og þær voru áður með gömlu "óhagstæðu" lánunum.  Það sem Seðlabankinn hefði átt að gera á þessum tímapunkti hefði verið að hemja útlánagleði bankanna með því að auka bindiskylduna, en nei - Seðlabankinn hleypti þessum verðhækkunum í gegn og túlkaði þær síðan sem verðbólgu sem þyrfti að berjast gegn með hækkuðum vöxtum.
  • Seðlabankinn tók einnig þá ákvörðun að virkjana- og álversframkvæmdir fyrir austan væru verðbólguhvetjandi og það þyrfti að berjast gegn þeirri væntanlegu verðbólgu með hækkuðum vöxtum.  Þarna gleymdist að stór hluti  greiðslnanna fór til erlendra aðila, eða til erlendra verkamanna sem sendu þá peninga úr landi, en dældu þeim ekki inn í hagkerfið hér.  Verðbólguáhrifin voru því í raun mun minni en Seðlabankinn miðaði "fyrirbyggjandi" aðgerðir sínar við.
  • Þegar Seðlabankinn hækkaði vextina tók krónan að verða áhugaverð fyrir spákaupmenn, sem sáu sér leik á borði að hagnast á vaxtamunarviðskiptum - krónubréfunum svokölluðu. Bankarnir stórgræddu líka á þessu sem milliliðir - þeir þurftu bara að fá Íslendinga til að taka lán á móti og það var ekki vandamál - það var nóg af fólki sem var til í að fá pening lánaðan til að kaupa hluti sem það í rauninni hafði ekki efni á.   Gerði Seðlabankinn eitthvað til að vinna gegn þessu, þótt honum hefði átt að vera ljóst að þetta myndi raska stöðugleika í efnahagslífinu?  Nei.
  • Málið var nefnilega að útgáfa krónubréfanna styrkti íslensku krónuna, sem gerði allan innflutning ódýrari, sem stuðlaði að því að halda verðbólgunni niðri.  Það er jú lögum samkvæmt markmið Seðlabankans - ekki að viðhalda stöðugleika og draga úr viðskiptahalla.
  • Þetta var hins vegar skammgóður vermir - svona eins og að pissa í skóinn sinn.  Þessi ofursterka króna var á góðri leið með að sliga útflutningsfyrirtækin - sum þeirra lögðu upp laupana eða fluttu starfsemina úr landi, en önnur drógu úr starfsemi eða steyptu sér í skuldir (nú nema álverin, sem bjuggu við ódýrt rafmagn, lækkandi hráefnisverð og hækkandi afurðaverð, þannig að þau kvörtuðu ekki).
  • Svo byrjar að hrikta í spilaborginni og að lokum fellur hún - afleiðingarnar þekkja allir.

Núna um þessar mundir eru allir að kvarta og heimta aðgerðir.  Miðað við afrekaskrá ríkisstjórna og Seðlabanka á undanförnum árum er Púkinn næsta viss um að ýmist verði gripið til rangra aðgerða - nú eða þá réttra aðgerða á röngum tíma.  Vaxtahækkanir virka ekki til að drepa niður verðbólguna, ef gengi krónunnar er leyft að hækka á sama tíma - það er bara uppskrift að áframhaldandi óstöðugleika og annarri kollsteypu.  Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar sé "rétt" um þessar mundir, en ef Seðlabankinn lækkar ekki vextina fljótlega þá mun hún styrkjast aftur - nokkuð sem yrði sjálfsagt vinsælt hjá mörgum því erlendu lánin og innfluttar vörur myndu lækka - en það er bara ekki forsenda fyrir þeirri lækkun - ef við viljum sterkan gjaldmiðil þá verður að ná niður viðskiptahalla og og byggja styrk krónunnar á raunverulegum útflutningsverðmætum, en ekki gerviverðmætum, sem byggja á engu öðru en gjaldmiðlabraski vegna ofurvaxta hérlendis. 


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttur þinn til að sveifla hendinni endar þar sem nefið á mér byrjar

Loksins...loksins...loksins.  Púkinn hefur fengið sig fullsaddan af því að lögreglan geri ekkert gegn þessum ribbaldalýð annað en að bjóða þeim í nefið.

Aðgerðir atvinnubílstjóranna nutu stuðnings almennings í fyrstu, en eftir því sem fleiri blásaklausir borgarar hafa orðið fyrir barðinu á þeim og fólk hefur gert sér betur grein fyrir því að bílstjórarnir eru bara að berjast fyrir sínum þröngu sérhagsmunum eins og að fá að aka óhvíldir ósofnir, þá hefur stuðningurinn við aðgerðirnar minnkað.

Það að stöðva alla umferð á mikilvægum akstursleiðum er ekki bara ólöglegt, heldur getur stofnað lífi annarra í hættu - það hefur ítrekað verið bent á að sú staða gæti komið upp að sjúkrabílar kæmust ekki leiðar sinnar vegna aðgerðanna.

Jú, atvinnubílstjórar mega mótmæla eins og aðrir, en þeir verða að haga sínum mótmælum þannig að þeir stofni ekki lífi og heilsu annarra í hættu - eða eins og það hefur verið orðað:

  Réttur þinn til að sveifla hendinni endar þar sem nefið á mér byrjar.

Það var kominn tími til að lögreglan gripi til alvöru aðgerða.


mbl.is Lögregla beitir táragasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtæki flýja land

Af hverju ætti einhver heilvita maður að vera að rembast við að reka fyrirtæki hér á landi sem annað hvort flytur út vörur eða þjónustu?

Efnahagsóstjórn síðustu ára hefur gengið mjög nærri mörgum útflutningsfyrirtækjum með því að styrkja krónuna langt umfram það sem eðlilegt er.  Ástandið hefur að vísu aðeins skánað undanfarið, þótt rökstyðja megi að krónan sé enn of hátt skráð og þyrfti að falla enn frekar.

Útlendingastofnun lokar á hæft fólk frá löndum  utan EES og hrekur jafnvel úr landi fólk sem hingað er komið - jafnvel lykilstarfsmenn hjá fyrirtækjum.  Það er skortur á menntuðu og hæfileikaríku fólki hérlendis - fái fyrirtæki ekki að ráða það fólk hingað til lands, er þeim stundum nauðugur einn kostur að setja upp starfsstöðvar eða útibú erlendis - og ekki borga starfsmenn þeirra skatta hingað.

Himinháir vextir hafa hækkað fjármagnskostnað upp úr öllu valdi - og ekki geta fyrirtæki sótt sér nýtt fjármagn með því að fara á hlutabréfamarkaðinn - a.m.k. ekki ef um minni fyrirtæki er að ræða.

Loforð stjórnvalda, t.d. um stuðning við hátækni hafa reynst marklaus með öllu - er það nokkur furða að fólk í þeim greinum horfi til landa eins og Írlands eða Kanada þar sem skilningur ríkir á að til eru fleiri atvinnugreinar en álbræðsla.

Er það nokkur furða að fyrirtæki hugsi sér til hreyfings - stefni til annarra landa þar sem ekki er eitthvað Matadorhagkerfi - stefni til landa þar sem stöðugleiki ríkir og seðlabankar sem njóta trausts?


mbl.is Hætta á að fyrirtæki flytji út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband