Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 18. apríl 2008
"Ink Crew", "Cool Boyz" og önnur sóðagengi
Veggjakrotarar hafa almennt þá ímynd að þetta séu illa gefnir og illa siðaðir 10-14 ára strákaræflar, sem bera ekki virðingu fyrir eigum annarra, því þeim sé það fullljóst að þeir muni aldrei eignast neitt sjálfir og aldrei verða borgunarmenn fyrir þeim skemmdum sem þeir valda.
Þessi ímynd er að vísu ekki að öllu rétt, því þetta eru ekki allt stráklingar - í hópi sóðanna má líka finna eldra fólk, sem sumt er sjálfsagt með einhver geðræn vandamál.
Hvað er hægt að gera í þessu?
Púkinn sér fram á aukningu á notkun öryggismyndavéla - ef hægt er að ná sóðunum á filmu, er möguleiki að hægt sé að hafa upp á þeim og krefja þá eða foreldra þeirra um skaðabætur. Reyndar er Púkinn þeirrar skoðunar að það væri nú áhrifaríkara að reka þessi grey til að hreinsa ósómann eftir sig, en það er víst ekki hægt, því oft þarf sérstök hreinsiefni sem börn mega ekki nota.
Hegðun þessara krotara minnir Púkann svolítið á hegðun sumra hunda - ef þeir rekast á stað sem einhver annar hundur hefur migið á, þá þurfa þeir að merkja sér blettinn líka - yfirmíga og helst að reyna að ná hærra upp á vegginn en fyrri hundurinn - svona til að láta líta út fyrir að þeir séu stærri og merkilegri en þeir eru í raun.
Það er að vísu hægt að venja hundana af þessum ávana með því að gelda þá - synd og skömm að það má ekki nota þá aðferð á krotarana.
Kannski er bara áhrifaríkast að leggja fé til höfuðs þeim - 100.000 króna verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til handtölku viðkomandi?
![]() |
Krotað á strætó í skjóli nætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 14. apríl 2008
Labrador mikilvægara en...
Það er nú gott að vita að forsætisráðherrann telur það mikilvægara að gera samning um samstarf við Labrador og Nýfundnaland, en að svara þeim röddum hér á landi sem spyrja hvort stjórnin hafi einhverja stefnu í efnahagsmálum.
Já, það er alltaf gott að vita hver forgangsröðun ráðamanna er.
![]() |
Samið um samstarf við Nýfundnaland og Labrador |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 11. apríl 2008
Kjaftur á atvinnubílstjórum
Nú eru bílstjórarnir að hóta því að lama þjóðfélagið og stofna mannslífum í hættu ef ekki verður gengið að kröfum þeirra - kröfum sem varða fyrst og fremst þeirra sérhagsmuni eins og að fá að keyra óhvíldir og að þurfa ekki að borga fyrir þær skemmdir sem þeir valda á vegakerfinu.
Lögreglan virðist vera besti vinur þeirra - gefur þeim bara í nefið - það er eins gott að þetta er ekki stórhættulegt fólk eins og Falun Gong mótmælendurnir, nú eða þá náttúruverndarsinnar.
Það eru einhverjir sem ættu virkilega að skammast sín.
![]() |
Sturla: Málið verður klárað" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 10. apríl 2008
Lækkandi íbúðaverð
Þessi lækkun á íbúðaverði er nú ekki mikil, enda eru hlutfallslega fáar sölur á bak við þessar nýjustu tölur. Púkinn spáir því að mun hraðari lækkun verði á komandi mánuðum, þegar fleiri sem þurfa að selja eignir neyðast til að slá af verðinu til að koma þeim út.
Ef verðbólgan fer vaxandi og íbúðarverð stendur í stað eða lækkar jafnvel að krónutölu, þá jafngildir það að sjálfsögðu verulegri raunlækkun þar sem verðið heldur ekki í við verðbólguna.
Nei, steinsteypa verður ekki örugg fjárfesting næsta árið. Ætli það sé ekki óhætt að reikna með 10% raunlækkun eða svo.
![]() |
Vísitala íbúðaverðs lækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 3. apríl 2008
Það er vont, það er vont...og það versnar
Fasteignaverð fer lækkandi og menn spá 5% lækkun. Púkinn telur það varlega áætlað og sennilegra að lækkunin verði 10% að meðaltali. Það er enn mikill fjöldi eigna í byggingu og það geta ekki allir eigendur þeirra leyft sér að sitja á þeim og bíða uns markaðurinn jafnar sig.
Einhverjir (bæði húsbyggjendur og verktakar) munu verða gjaldþrota og bankarnir eignast eignirnar - bankarnir geta ólíkt öðrum leyft sér að bíða í nokkur ár með að selja - en það gildir ekki um þá sem eru að reyna að selja í dag.
Púkinn spáir áframhaldandi verðlækkunum á fasteignum næstu mánuði.
![]() |
Mesta lækkun á verði einbýlishúsa í tæp 7 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 31. mars 2008
Tvenns konar vandi í efnahagsmálum - er það Seðlabankinn og ríkisstjórnin?
Geir heldur því fram að tvenns konar vandi sé í efnahagsmálum - lausafjárkreppa og óvæntur skortur á gjaldeyri.
Púkinn er hins vegar þeirrar skoðunar að grunnvandamálið sé miklu einfaldara - markmið Seðlabankans sé einfaldlega rangt. Málið er að Seðlabankanum er samkvæmt lögum skylt að halda verðbólgunni niðri umfram allt. Þar falla menn í þá gildru að hálf-persónugera verðbólguna, eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru, en sé ekki einkenni undirliggjandi vandamáls.
Þetta er svona svipað og ef læknir legði á það alla áherslu að halda sótthita sjúklings niðri með hitalækkandi lyfjum - en hirða ekki um það að sjúklingurinn sé með grasserandi sýkingu.
Markmið Seðlabankans ætti að vera að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu - jafnvel þótt það þýddi smávægilega verðbólgu stundum.
Seðlabankinn hækkaði til dæmis vexti til að halda verðbólgunni niðri, en þetta leiddi til fáránlegrar styrkingar krónunnar, sem nú er gengin til baka með hávaða og látum. Það sem Seðlabankinn hefði átt að gera hefði verið að stórauka gjaldeyrisforðann samtímis - selja krónur og kaupa gjaldeyri. Krónan hefði þá ekki styrkst eins mikið, og þegar kom að falli hennar hefði Seðlabankinn getað mildað það fall með sínum sterka gjaldeyrisvarasjóði.
Þetta hefði þýtt stöðugra gengi krónunnar, betri afkomu útflutningsfyrirtækja, minna kaupæði Íslendinga og færri sem hefðu gert þau mistök að taka lán í erlendum gjaldmiðli - ja, almennt meiri stöðugleika, en því miður - það er ekki markmið Seðlabankans, eins og það er skilgreint samkvæmt lögum.
![]() |
Geir: Tvennskonar vandi í efnahagsmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 31. mars 2008
Atvinnubílstjóradólgar

Ef aðgerðirnar hefðu verið markvissari - t.d. ef bílarnir þeirra hefðu fyrir tilviljun bilað beint fyrir utan innkeyrslurnar á bílastæðum Alþingis og Seðlabankans, myndi fólk sennilega ennþá hafa fulla samúð með þeim - hátt eldsneytisverð bitnar jú á flestum, þótt í minna mæli sé.
Dólgsháttur til lengri tíma er hins vegar ekki til þess fallinn að auka samúð fólks - ekki frekar en síendurtekin verkföll mjólkurfræðinga hér á árum áður.
Nú er Púkinn ekki að segja að hann hafi ekki skilning á þeim óþægindum sem þessi stétt hefur orðið fyrir vegna eldneytishækkana, en ólíkt almenningi á sínum fólksbílum, þá hafa atvinnubílstjórarnir þó þann möguleika til lengri tíma litið að velta kostnaðinum yfir á þá sem kaupa þeirra þjónustu. Það er hins vegar erfitt að fást við þetta meðan eldsneytishækkanirnar ganga yfir og viðbrögð stjórnvalda hafa ekki verið til fyrirmyndar.
Það er hins vegar ekkert nýtt að aðgerðir stjórnvalda fari illa með tilteknar atvinnustéttir. Hið falska, háa gengi krónunnar undanfarin misseri hefur t.d. gengið mjög nærri ýmsum útflutningsfyrirtækjum og hrakið sum í þrot en önnur úr landi. Þau fyrirtæki reyndu hins vegar ekki að vekja athygli á sínum málstað með dólgshætti.
Nú er Púkinn ekki að segja að menn verði bara að sætta sig við þetta. Það er eitt og annað sem stjórnvöld gætu gert, en þar mætti t.d. nefna að lækka álögur á díselolíu, þannig að söluverð hennar yrði lægra en söluverð bensíns, eins og hugmyndin var í upphafi.
Það mætti líka tímabundið lækka eldsneytisgjaldið um sambærilega krónutölu og nemur hækkun virðisaukaskatts vegna hækkandi innkaupsverðs. Þannig myndi ríkið fá jafn margar krónur í vasann og áður, en ekki græða á hækkandi innkaupsverði. Þannig fyrirkomulag væri sanngjarnt að mati Púkans.
![]() |
Ráðamenn vakni" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 28. mars 2008
Kristalkúla Púkans
Um miðjan janúar sagði kristalkúla Púkans: "Fram til páska gætu komið allmargir dagar þar sem gengið sveiflast upp eða niður um nokkur prósent, en einnig er möguleiki á einni stórri dýfu til viðbótar." (sjá greinina hér) Púkinn vill láta öðrum eftir að meta hversu vel sú spá gekk eftir, en þar sem hún náði ekki nema fram til páska er kominn tími á nýja spá.
Og hvað segir kristalkúlan nú?
Almennt
Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma. Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.
Stjórnvöld með vit í kollinum myndu afnema stimpilgjöldin nú strax, til að koma í veg fyrir frost og alvarlegt verðfall á fasteignamarkaði og lækka eldsneytisgjald, a.m.k. sem nemur hækkun á virðisaukaskatti vegna hækkandi innkaupsverðs, þannig að ríkissjóður fái sömu krónutölu í vasann og áður, en sé ekki að græða á hækkandi olíuverði. Púkinn efast hins vegar um að mikið vit sé í kollum íslenskra ráðamanna.
Ýmsir aðilar, svo sem byggingavöruverslanir og bílaumboð sem hafa hagnast vel á undanförnum misserum sjá nú fram á verulegan samdrátt í sölu og "hagræðing" verður væntanlega helsta umræðuefnið á neyðarfundum stjórnenda þeirra á næstunni.
Útflutningsfyrirtækin draga nú sum andann léttar. Þau hafa mörg barist við allt of hátt gengi krónunnar undanfarið, sem hefur gengið nærri sumum þeirra, en svo framarlega sem þau hafa ekki þurft að taka erlend lán til að fjármagna sig ætti næstu 12 mánuðir að vera bærilegir - nú nema launahækkanir hérlendis éti upp allan ágóðann af gengisfalli krónunnar.
Hlutabréfin
Kristalkúlan segir þokkalegar líkur á því að tímabundnum botni hafi verið náð núna um páskana, en í upphaflegu spánni sinni gerði Púkinn ráð fyrir að um þetta leyti yrði botninum náð fyrir árið. Það má vera að það gangi eftir, en því miður er enn möguleiki á umtalsverðu falli til viðbótar, vegna óróa á erlendum mörkuðum - sérstaklega tengdum bankakerfinu. Með öðrum orðum, það sem eftir lifir af þessu ári gerist annað af tvennu. Annað hvort mun hlutabréfamarkaðurinn mjakast upp á við, þótt hann muni ekki ná þeim hæðum sem hann náði síðasta sumar eða markaðurinn gæti fallið um 20-30% viðbótar og það fall yrði leitt af bönkunum.
Gengið
Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar um þessar mundir sé nálægt því að vera "rétt" - kaupæði og viðskiptahalli Íslendinga á undanförnum mánuðum er merki um að gengið hafi verið allt of hátt. Þjóðin hefur einfaldlega lifað um efni fram og máttlausar og rangar aðgerðir Seðlabankans hafa ekki gert það sem ætlast var til.
Já, mönnum svíður undan hækkandi verði og hækkandi höfuðstólum lána í erlendri mynt, en þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess sem á undan er gengið. Púkinn ætlar hins vegar ekki að spá fyrir um gengisþróunina næstu mánuðina - krónan gæti styrkst um 15%, fallið um 30 % eða hvað sem er þess á milli.
Húsnæðismarkaðurinn
Húsnæðismarkaðurinn er ekki frosinn, en margir eiga von á lækkunum á fasteignaverði á næstunni og slíkar væntingar leiða til þess að fólk heldur að sér höndum, sem aftur leiðir til þess að þeir sem "verða" að selja neyðast til að lækka verðið. Sennilega er raunhæft að gera ráð fyrir 10% verðlækkun á árinu að meðaltali - sem því miður mun þýða að margir (sér í lagi þeir sem tóku erlend lán) munu skulda meira í núsnæðinu sínu en sem nemur verðmæti þess.
---
Púkinn vill taka fram að hann er ekki fjármála- eða verðbréfaráðgjafi, hefur engin réttindi sem slíkur og ráðleggur engum að haga sínum fjárfestingum í samræmi við það sem hér segir. Þetta er einungis til gamans gert og enginn ætti að taka þessa spá alvarlega, enda er Púkinn bara lítið skrýtið blátt fyrirbæri með stór eyru sem hefur ekkert vit á neinu. Púkinn vill að lokum taka fram að hann á engin hlutabréf sem eru skráð í íslensku kauphöllinni og hefur enga sérstaka hagsmuni af því hvernig þróunin verður.
![]() |
Mikil velta á skuldabréfamarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 10. mars 2008
Sömu laun fyrir sömu vinnu? Nei, ekki með evrulaunum
Þótt opinberum starfsmönnum muni væntanlega aldrei standa til boða að fá laun sín greidd í evrum að hluta, eru margir - sér í lagi starfsmenn útflutningsfyrirtækja - sem nú þegar hafa þennan háttinn á.
Evrulaun vekja hins vegar upp nokkrar spurningar sem ekki hafa mikið verið ræddar.
Fyrsta spurningin snýr að rétti starfsmanna til að breyta milli þess að fá laun sín greidd í evrum og krónum. Stærri sveiflur á gengi krónunnar standa oft yfir mánuðum saman og það er augljóst að ef starfsmenn geta fengið laun sín í evrum á því tímabili sem krónan er að veikjast en skipt síðan yfir og fengið launin í krónum þegar hún er að styrkjast geta þeir hagnast verulega á kostnað launagreiðandans. Launagreiðendur hljóta því að gera þá kröfu að samningar um greiðslu launa í öðrum gjaldmiðlum séu gerðir til langs tíma - líta þannig á að ef starfsmenn vilja hagnast á þessu fyrirkomulagi þegar krónan veikist, verði þeir líka að taka skellinn þegar hún styrkist.
Önnur spurningin snýr að þeim starfsmönnum sem fá launahækkanir samkvæmt kjarasamningum. Nú er það svo að þegar samið er um launahækkanir er hluti þeirra hækkana ætlaður til að bæta þá kjararýrnun sem hefur orðið vegna verðbólgu. Tengist sú verðbólga hins vegar gengisfalli krónunnar (og þar af leiðandi hækkunum á innfluttum vörum), er ljóst að sá sem fær launin í evrum hefur ekki orðið fyrir þeirri kjararýrnun að jafn miklu leyti og sá sem fær krónulaun. Er þá réttlátt að báðir fái sömu launahækkun? Verður ekki að semja sérstaklega um hækkanir á evrulaun?
Þriðja spurningin snýr að jafnrétti - ef tveir starfsmenn vinna hlið við hlið við sömu vinnu og fá sömu laun í upphafi, en annar fær laun í krónum og hinn í evrum, er ljóst að með tímanum geta laun þeirra breyst mismikið - þeir fá því ekki lengur sömu laun fyrir sömu vinnu. Eru allir sáttir við það?
![]() |
SA samþykkja kjarasamninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 9. mars 2008
Eru Íslendingar mestu nöldrarar í heimi?
Stundum læðist sú hugsun að Púkanum að nöldur sé þjóðaríþrótt Íslendinga. Það virðist engu máli skipta hvaða mál er skoðað - það má alltaf finna einhverja sem geta nöldrað út af því.
Suma nöldurgjörnustu einstaklinga landsins má finna hér á blog.is, en hér er nöldrað um bækur, dægurmál, enska boltann, ferðalög, íþróttir, menningu, tónlist, trúmál og alla hina bloggflokkana.
Mesta íþróttin virðist þó vera að nöldra um stjórnmál og fjármál og helst ef þetta tvennt tengist.
Skoðum til dæmis eitt helsta nöldurefnið þessa dagana - ástandið á fasteignamarkaðinum. Fyrir nokkrum árum voru íslendingar nöldrandi yfir því hve erfitt væri að fá fé til íbúðarkaupa. Íbúðalánasjóður væri nískur og vextirnir háir. Þá komu bankarnir og hófu að ausa fé í landsmenn á "góðum" kjörum.
Er þjóðin ánægð með þetta í dag og hætt að nöldra? Ónei. Allir þessir peningar ýttu upp íbúðarverðinu og nú nöldrar þjóðin sem aldrei fyrr - nöldrar yfir afleiðingum þess að hún fékk það sem hún bað um.
Er til eitthvað það mál sem Íslendingar nöldra ekki yfir?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)